Vegáætlun 1991--1994

153. fundur
Miðvikudaginn 20. maí 1992, kl. 01:09:16 (7167)


     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Ég hef hlýtt á alla þessa umræðu með athygli. Ég hafði reyndar ekki hugsað mér að blanda mér í hana en vil segja fáein orð þó úr því sem komið er enda sér ekki á svörtu svo lengi sem hún hefur staðið. Ég held að hv. 1. þm. Norðurl. e. hafi farið það vel yfir staðreyndir þessa máls að það er í sjálfu sér ekki þörf á að rekja það ítarlegar af minni hálfu. Ég vil þó láta það koma fram vegna þess að ég hef nokkuð saknað þess að hæstv. núv. fjmrh. rifjaði upp sína aðild að þessu máli. Hún var í grófum dráttum sú að alveg frá árinu 1989, ef ég man rétt, var hv. þáv. 1. þm. Reykv., Friðrik Sophusson, sérstakur verkstjóri þingmanna Reykv. í því að knýja á um uppgjör á þessum skuldum. Og m.a. voru vegna þrýstings af hans hálfu gefnar sérstakar yfirlýsingar um það á Alþingi, bæði í umræðum um vegáætlun og við afgreiðslu fjárlaga á þessum tíma, frá árinu 1989, að auðvitað yrði að ná samkomulagi milli ríkisvaldsins og borgarinnar um þessa skuld og gera hana upp. Ég man það vel að við eina slíka afgreiðslu fjárlaga, ég hygg að það hafi verið nær áramótum 1990 þá lýsti ég því yfir að ég mundi beita mér fyrir fundahöldum milli ríkisins og borgarinnar og koma af stað viðræðum um samninga um þessa skuld. Þetta leiddi til samkomulags um afgreiðslu fjárlaganna og samkomulags um þinglokin í það sinnið. Ég stóð við þetta loforð og kom á viðræðum milli borgarinnar og ríkisins sem voru síðan upphaf að þeim samningaviðræðum sem á eftir fylgdu og leiddu til samningsins að lokum.
    Þess vegna kemur það mér nokkuð á óvart að hv. fyrrv. 1. þm. Reykv. og núv. hæstv. fjmrh. --- að það skyldi standa á honum, ef svo má að orði komast, að fullnusta fyrir sitt leyti samninginn því auðvitað er alveg ljóst að sú embættisskylda hvíldi á hæstv. fjmrh. ef þörf er á að leita sérstaklega eftir samþykki fjárveitinganefndar, eins og rakið hefur verið, að koma því þá til framkvæmda.
    Ég vil í öðru lagi láta það koma fram að ég tel þennan samning hafa verið hagstæðan ríkinu. Ég er sammála hæstv. forsrh. um það. Það náðist samkomulag um að borgin félli frá því að framreiknaður væru að verulegu leyti eldri hluti skuldanna og sú niðurstaða sem náðist er að mínu mati bærilega hagstæð ríkinu.
    Væntanlega eru allir hv. alþm. sammála um að þessa skuld bar að greiða. Það er enginn efi á því að ríkinu bar samkvæmt verkaskiptingu þessara aðila að greiða þennan kostnað og það er furðulegt ef menn mæla því bót að slíkt sé látið veltast milli ára og ekki tekið á slíkum málum.
    Ég verð að segja það alveg eins og er að mig undrar það nokkuð að menn skuli fjalla um þetta mál eins og að bara með því einu að borga ekki þessa skuld hefðu menn um aldur og ævi getað notað þessa fjármuni til annarra verkefna í vegamálum. Því skuldin hefði þá staðið eftir og fyrr eða síðar komið að því að greiða hana og þær krónur sem til þess fara verða ekki notaðar í annað hvorki nú né hefðu þær verið það síðar. Svo einfalt er það. Þannig að ég held að menn gætu nú stytt þruglið um þetta, satt best að segja. Ég held að náðst hafi tiltölulega hagstæð niðurstaða fyrir ríkið.
    Að lokum vil ég svo segja að væri sú vegáætlun, sem afgreidd var hér vorið 1991, framkvæmd

að fullu og fé lagt til framkvæmda í vegamálum eins og hún gerði ráð fyrir ( EgJ: Samanber það sem þú gerðir.) þá væri það misræmi ekki alvarlegt til þess að taka á sem ber á milli samningsins og niðurstöðutölu þeirrar vegáætlunar. En misræmið vex að sjálfsögðu þegar menn skera niður vegáætlunina, hv. stjórnarliðar, sem hér hafið sérstaklega geyst fram í umræður um þetta mál. Það mættuð þið hugleiða þegar verið er að ræða um þetta.
    Ég segi nú bara úr því að ég er kominn í ræðustólinn á annað borð að það eru auðvitað mestu vonbrigðin við afgreiðslu þessarar áætlunar að hér er verið að skera verulega niður fé til framkvæmda í almennri vegagerð, um 3 / 4 af milljarði kr. og það leiðir til 20% samdráttar í almennum vegaframkvæmdum. Sá samdráttur kemur auðvitað mjög hart niður og ég skil vel óánægju margra landsbyggðarþingmanna með þetta. En þá ættu menn líka að minnast þess hverjir tóku þær pólitísku ákvarðanir og greiddu því atkvæði um síðustu áramót að skera vegafé svona niður. Það er of seint að iðrast eftir dauðann, ef svo má að orði komast í þessu tilviki. Þeir stjórnarliðar, sem studdu um áramótin niðurskurð á vegafé, eru búnir að bíta í það súra epli.
    Að lokum eitt orð enn, hæstv. forseti, og það er þetta: Það hefur að mínu mati lengi verið gæfa okkar að við höfum náð að standa sæmilega saman um þennan málaflokk, framkvæmdir í samgöngumálum. Í þinginu er löng hefð fyrir því að allir stjórnmálaflokkar hafa tekið þátt í undirbúningsvinnu, stefnumörkun og áætlanagerð á þessu sviði. Oftast nær, svo lengi sem ég man og það eru níu ár a.m.k., hafa menn í þessum efnum náð að standa saman um afgreiðslu vegáætlunar. Og það verður vonandi núna.
    Ég held að við ættum að slíta þessari umræðu með smáhugleiðingu um hvort ekki sé nokkuð á sig leggjandi til að varðveita slíka samstöðu áfram. Ég ber satt að segja nokkurn kvíðboga fyrir því að það takist en ég vona þó að menn vitkist og leggi nokkuð á sig til að ná að standa saman um þennan mikilvæga málaflokk í framtíðinni.