Lífeyrisréttindi hjóna

30. fundur
Miðvikudaginn 20. nóvember 1991, kl. 15:27:00 (1106)

     Finnur Ingólfsson :
     Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. flm. fyrir að hreyfa þessu máli hér í þinginu. Efnislega get ég tekið undir þetta frv. Það lætur í sjálfu sér lítið yfir sér, það er ekki nema tvær frumvarpsgreinar og maður spyr sig því kannski hvort ekki væri möguleiki á að koma efni frv. inn í önnur lög. Ég hef velt því fyrir mér hvort ekki væri skynsamlegra að koma efni þessa frv. inn í lögin um stofnun og slit hjúskapar nr. 60/1972 og gæti hugsað mér að sjá þetta efnisatriði þar inni, í 56. gr. þeirra laga. Það eru mjög mismunandi reglur sem gilda hjá lífeyrissjóðunum almennt um makalífeyri og um lífeyrisgreiðslur og ég tek undir það sem kom fram í máli hv. 10. þm. Reykv. að það er orðið mjög nauðsynlegt að endurskoðun fari fram á lífeyrissjóðakerfinu. T.d. er gríðarlega misjafnt eftir því hvaða sjóð er um að ræða hvernig ellilífeyrir og makalífeyrir eru greiddir. Í mörgum lögum um lífeyrissjóði, og um þá gilda mismunandi lög, eru skýrar reglur um hvernig makalífeyrir skuli greiddur. Óvígða sambúð vantar algerlega inn í þetta frv. Sú regla gildir hjá mörgum lífeyrissjóðum að þeir greiða út makalífeyri þó að um óvígða sambúð sé að ræða.
    Ég tek undir með flm. að hér er um mjög mikilvægt mál að ræða og ég mun skoða það með opnum huga þar sem ég fæ tækifæri til í heilbr.- og trn.