Vatnsveitur sveitarfélaga

58. fundur
Laugardaginn 21. desember 1991, kl. 13:54:00 (2397)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
     Frú forseti. Vegna þeirra ummæla formanns félmn. að þetta mál hafi verið tekið þar til umræðu og mönnum hefði sýnst þar að þetta gæti verið í lagi vil ég segja það að frá mínum bæjardyrum séð var þetta ekki tekið til umræðu. Ég vakti athygli á þessu reyndar inni í nefndinni, hafði rekið augun í þetta, enginn kom á fund nefndarinnar til þess að útskýra hvað þarna væri á ferðinni. Í rauninni var áhuginn einn á því að afgreiða þetta mál út úr nefndinni og inn á Alþingi. Það er auðvitað þannig afgreiðslu sem mál fá þessa dagana, því miður. Það liggur svo mikið á og svo mikill er þrýstingurinn að koma því út úr nefndinni að þótt maður sé með vangaveltur og hafi ákveðnar efasemdir eru takmörk fyrir því hvað maður treystir sér til að standa gegn því. Þar af leiðandi stóð ég að því að taka þetta út úr nefndinni en vildi ekki láta hjá líða að vekja athygli á þessu þannig að mönnum mætti vera ljóst hvað hér væri á ferðinni. En þetta vildi ég láta koma fram.