Ferill 49. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 49 . mál.


50. Skýrsla



heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um könnun á mataræði Íslendinga.

(Lögð fyrir Alþingi á 115. löggjafarþingi 1991.)



     Á sl. ári fór fram viðamikil könnun á mataræði Íslendinga á vegum heilbrigðisráðuneytis og Manneldisráðs. Könnunin var gerð samkvæmt fyrirmælum Alþingis, sbr. þingsályktun um manneldis- og neyslustefnu sem samþykkt var á Alþingi 19. maí 1989. Fyrsta skýrsla um könnunina er nú lögð fyrir Alþingi samkvæmt ákvæði þingsályktunar. Í skýrslunni er greint frá helstu sérkennum í íslensku mataræði borið saman við aðrar þjóðir og birtar niðurstöður varðandi neyslu matvæla og næringarefna eftir aldri og kyni.

Niðurstöður könnunarinnar. — Hvað borða Íslendingar?


    Það vekur athygli þegar borin er saman neysla Íslendinga og annarra Evrópuþjóða að við sláum hvert metið á fætur öðru ýmist vegna mikillar eða óvenjulítillar neyslu á einstökum matvörum. Ekki eru þessi met öll jafneftirsóknarverð þótt öðrum vildum við síst glata því í þeim felast helstu og bestu kostir á íslenskri matarmenningu. Við getum stært okkur af því að borða meira af fiski en nokkur önnur Evrópuþjóð, en hljótum líka þann vafasama heiður að eiga Evrópumet í gosdrykkjaneyslu. Nýmjólkurneysla er hér meiri en víðast hvar í álfunni og kindakjöt borðar engin Evrópuþjóð í sama mæli og Íslendingar, en þegar röðin kemur að grænmetinu vermum við neðsta sætið og sömu sögu er að segja um fæðu úr jurtaríkinu almennt.
     Hvaða lærdóm getum við dregið af þessum staðreyndum? Borða Íslendingar nægilega hollan mat?
     Því er ekki að neita að ýmislegt gæti betur farið í mataræði Íslendinga. Lítil notkun grænmetis og annarrar jurtafæðu auk mikillar fituneyslu eru án efa þeir ókostir sem þyngst vega á metunum, að minnsta kosti ef góð heilsa og hollusta er höfð að leiðarljósi við fæðuval. Fyrir fáeinum árum birtu heilbrigðisyfirvöld sérstök markmið í manneldismálum, „Manneldismarkmið fyrir Íslendinga“ þar sem lögð var áhersla á hófsemi í notkun fitu og sykurs en því ríflegri neyslu grænmetis og ávaxta, kornvöru, fiskmetis og fituminni mjólkur- og kjötvara. Þegar niðurstöður könnunarinnar eru bornar saman við manneldismarkmiðin kemur skýrt í ljós að enn eigum við nokkuð langt í land með að ná settu marki. Samkvæmt könnuninni er fita í íslensku fæði að jafnaði 41 af hundraði orkunnar, en markmiðið hljóðar upp á 35 af hundraði eða minna. Þarna ber töluvert á milli, jafnvel svo að mörgum gæti þótt nánast ógjörningur að ná því marki án gjörbyltingar í íslenskum matarvenjum og matarmenningu. Sem betur fer kemur annað í ljós við nánari athugun.
     Fituríkur matur er auðvitað engin ný bóla í mataræði Íslendinga. Þeir sem eru komnir yfir miðjan aldur muna hversu gaumgæfilega hver einasta hvít fituarða var nýtt til matar og hvílík sóun hefði þótt fyrir fáeinum áratugum að skera burtu hverja ljósleita tægju af kjöti eins og nú er gjarnan gert. Fitan var verðmæti, hún var mikilvægur orkugjafi þjóðar sem bjó við kröpp kjör í harðbýlu landi.
     Í ljósi þessarar fortíðar kemur ef til vill nokkuð á óvart að fæði Íslendinga er greinilega feitara nú en á árunum fyrir stríð. Heimildir um fæði Íslendinga frá þessum tíma eru óvenjutraustar því árið 1939 var gerð ítarleg og vönduð könnun á mataræði Íslendinga þar sem öll fæða til heimilisins var tíunduð, þar með talin hver fituögn. Það var prófessor Júlíus Sigurjónsson sem stjórnaði þeirri könnun en Manneldisráð Íslands var einmitt stofnað í tengslum við þessar framkvæmdir.
     Þegar niðurstöður þessara tveggja kannana eru bornar saman kemur að sjálfsögðu í ljós að fæði Íslendinga hefur um margt gjörbreyst, nánast umturnast á hálfri öld. Neysla grænmetis og ávaxta hefur margfaldast og sömu sögu er að segja um ótal fæðutegundir, svo sem kökur, kex, sælgæti og sæta drykki. Hins vegar er mun minna borðað af kjötfitu en áður, meira að segja svo að fita úr kjöti vegur tiltölulega lítið í heildarneyslu Íslendinga. Samt sem áður er fituneyslan í heild meiri nú en árið 1939 og hefur aukningin orðið mest í sveitum og þéttbýli við sjávarsíðuna en minni á höfuðborgarsvæðinu og öðrum verslunarstöðum.
     Eru þetta ekki einfaldlega mistök í útreikningum kann einhver að spyrja. Hvaðan kemur eiginlega þessi fita sem á að hafa bæst við matinn? Niðurstöður nýju könnunarinnar veita einmitt svör við þessum spurningum. Þar kemur glöggt í ljós að nánast helmingur þeirrar fitu sem nútíma Íslendingar borða kemur úr smjöri, smjörlíki og olíum, þ.e. alls konar feiti sem notuð er við matargerð og sælgætisgerð, í bakstur, sósur, á brauð, kex og með mat. Fita úr ostum og mjólkurvörum er einnig töluverð og meiri en fyrir stríð, en kjötfitan ein hefur minnkað.
     Niðurstöður könnunarinnar sýna að fæði flestra Íslendinga er tiltölulega bætiefnaríkt. Á þessu eru þó mikilvægar undantekningar einkum hvað varðar gamalt fólk. Allur þorri fólks yfir sjötugt borðar það lítið og það fábreytt fæði að það nær ekki ráðlögðum dagskammti (RDS) af flestum nauðsynlegum næringarefnum og um helmingur gamals fólks fær innan við tvo þriðju af RDS fyrir járn, B6-, C-, D- og E-vítamín.
     Í öðrum aldurshópum er bætiefnarýrt fæði fátíðara. Fæði kvenna er þó alla jafna bætiefnasnauðara en karla, einfaldlega vegna þess að konur borða minni mat, en karlar en þurfa í sumum tilvikum jafnvel meira af næringarefnum en karlar. Járn í fæðu kvenna er t.d. undantekningarlítið langt undir RDS-gildi, jafnvel svo að helmingur kvenna fær aðeins um helming ráðlags dagskammts af járni. Kalk í fæði kvenna krefst einnig sérstakrar umfjöllunar. Meðalneysla kvenna á kalki er nokkuð há hér á landi borið saman við aðrar þjóðir. Samt sem áður fær um fjórðungur íslenskra kvenna minna en ráðlagðan skammt af kalki úr fæðunni.
     Vandi karla í sambandi við mataræði tengist fyrst og fremst fituneyslunni. Karlar borða feitari mat en konur, þeir smyrja brauðið meira og velja oftar nýmjólk í stað léttmjólkur eða undanrennu. Hjartasjúkdómar eru algengari meðal karla en kvenna, en mikil fituneysla eykur enn frekar líkur á þessum alvarlegu sjúkdómum. Því er jafnvel brýnna fyrir karla en konur að huga að þessum þætti mataræðis.
     Önnur skýrsla um könnunina er væntanleg á þessu ári. Þar verður m.a. greint frá máltíðaskipan og mataræði fólks eftir búsetu, tekjum, atvinnu, menntun og öðrum félagslegum þáttum.