Skipulags- og byggingarlög

113. fundur
Mánudaginn 22. febrúar 1993, kl. 15:02:05 (5342)

     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Vegna þeirra ummæla sem hv. síðasti ræðumaður hafði um stefnu Sjálfstfl. í skipulagsmálum tel ég nauðsynlegt að hér komi fram að túlkun hans á viðhorfi flokksins til þeirra mála og til umhvrn. sérstaklega er nokkuð hæpin. Ég vil þess vegna aðeins koma því að að eftir ítarlega umfjöllun um einmitt þessi mál og stofnun umhverfisráðuneytis komst Sjálfstfl. að því í málefnanefndum sínum, sem sá sem hér stendur stýrði um sinn, að æskilegra væri að umhverfismál samtvinnuðust flestöllum ráðuneytum og taldi því æskilegri leið fyrir umhverfismálin að eiga sér þannig leið inn í ráðuneytin með umfjöllun í þeim en var á móti því að hér yrði sett upp sterkt umhverfismálaráðuneyti. Það var því samhæfing á umhverfismálum í heild sem flokkurinn vildi berjast fyrir en barátta hans gegn sérstöku umhverfisráðuneyti hafði ekkert með ákveðna þingmenn, sem ég nefni ekki hér, að gera. Það var ekki minnst á þá í þeirri málefnaumfjöllun sem sá sem hér stendur tók þátt í á vegum Sjálfstfl.