Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

114. fundur
Þriðjudaginn 23. febrúar 1993, kl. 17:07:32 (5373)

     Gunnlaugur Stefánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég veit að hæstv. iðnrh. tekur undir með mér um það að bankar geta gengið langt í veitingum sínum á lánsfé hvort sem þeir eru ríkisreknir eða reknir í hlutafélagaformi eða í einhvers konar sparisjóðsformi. Við getum fundið dæmi um það á öllum tímum að formið er ekki bein trygging um hvort banki stendur sig vel eður ei. Aðalatriðið náttúrlega er spurningin um það, gagnvart hverjum bera stjórnendur bankanna ábyrgð? Bera þeir ábyrgð gagnvart einhverjum fámennum hóp eða bera þeir ábyrgð gagnvart þjóðinni? Þetta er spurning um efnahagslegt lýðræði í landinu. Ég treysti Alþingi mjög vel til þess að kjósa stjórn í banka og ég veit að sú stjórn stendur undir mikilli ábyrgð gagnvart þjóðinni allri og hverjum er hægt að treysta betur en Alþingi Íslendinga til þess að fara með þetta dýrmæta vald?