Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

121. fundur
Fimmtudaginn 04. mars 1993, kl. 14:37:23 (5628)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það eru allmörg ár síðan teknar voru um það ákvarðanir í þessari virðulegu stofnun að það yrðu lagðar fyrir tillögur um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum. Ég man eftir því þegar þær áætlanir voru fyrst lagðar fram af þáv. hæstv. félmrh. Alexander Stefánssyni. Þá töluðu í þeirri umræðu tveir stjórnarandstæðingar. Það var sá sem hér stendur og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir. Við gagnrýndum þessa áætlun fyrst og fremst fyrir það að hún væri almenn, segði lítið og breytti of litlu.
    Nú er ég alveg sannfærður um að hæstv. núv. félmrh. eins og forverar hennar hafa vafalaust haft fullan áhuga á því að setja hér fram áætlanir sem í raun og veru gerðu eitthvað, breyttu einhverju, tækju á einhverju. Nú er nokkur reynsla komin á þessar áætlanir um nokkurt árabil og ég held að það sé komið svo að það þurfi að gera úttekt á því í félmn. sem fær þetta mál væntanlega til meðferðar, hvaða áhrif þessar áætlanir hafa haft. Hafa þær í raun og veru skipt einhverju máli? Hafa þær gert eitthvert gagn? Ég fyrir mitt leyti er sannfærður um að þær hafa hrist upp í þeim þingmönnum sem hér hafa verið í salnum, yfirleitt fáir, þegar umræðurnar um áætlunina hafa farið fram. Þar fyrir utan óttast ég að þessi umræða hafi skilað átakanlega litlu og sérstaklega væri nauðsynlegt að ræða þetta mjög ítarlega núna vegna þess að í þessari jafnréttisumræðu er ekki sami kraftur, sami eldur, sami neisti og var hér fyrir allmörgum árum. Þess vegna hefði verið eðlilegt, virðulegi forseti, að hafa hér ótakmarkaðan tíma til að ræða þessa áætlun en ekki láta binda sig við hin þröngu tímamörk þingskapanna vegna þess að mér segir svo hugur um að það sé víðar en í Bandaríkjunum þar sem er talað um ,,backlash`` eða afturför í jafnréttismálum, þeirra viðhorfa sem þar eru rakin mjög ítarlega í fróðlegri bók, þeirra viðhorfa gætir einnig hér á landi sem hefur komið niður á jafnréttisumræðunni og niður á átaki í jafnréttismálum yfirleitt.
    Ég vil þess vegna nota þetta tækifæri í fyrsta lagi, virðulegi forseti, til að hvetja hv. félmn. til þess að gera úttekt á þessum áætlunum og þýðingum þeirra yfirleitt. Ég sé t.d. í þessari áætlun, sem hér er lögð fyrir að því er varðar menntmrn., að tíndir eru upp flestir þeir hlutir sem voru settir í áætlunina í minni tíð í menntmrn. Bersýnilegt er að ekkert hefur verið hugsað um þennan málaflokk í menntmrn. síðan, en í áætlunum ætti það auðvitað að vera þannig að þar væri í fyrsta lagi gerð grein fyrir áætlunum ráðuneytanna, í öðru lagi því sem hefði áunnist í ráðuneytunum á liðnum tíma í löggjöf eða tilteknum áföngum um jafnréttismál.
    Ég tel því miður, virðulegi forseti, að það sé líka óhjákvæmilegt í þessari umræðu að rifja það upp að hin almenna stefna í efnahags- og atvinnumálum hefur verið mjög mótdræg konum á undanförnum árum, mjög mótdræg konum. Ég bendi t.d. á það að atvinnuleysið kemur mjög harkalega niður einmitt á konum, það sést t.d. vel í þeim tölum sem við erum að sjá frá Suðurnesjum og fleiri landshlutum. Það er alveg öruggt mál að þessi veruleiki gerir strik í jafnréttisreikninginn með þeim hætti að það ætti að ræða það hér sérstaklega, hver er staða kvenna sérstaklega andspænis atvinnuleysi og hver er staða heimilanna sem svo aftur bitnar á konunum sérstaklega andspænis atvinnuleysinu.

    Í öðru lagi ættu menn líka að ræða um það hér hvaða áhrif hefur það haft að það hefur verið ákveðið að skerða þjónustu grunnskólakerfisins við börn, hvaða áhrif það hefur í jafnréttismálum og á heimilum. Ég sé hér að í þessari áætlun er þessi setning: ,,Stefnt verður að því að koma á samfelldum skóladegi í grunnskólum eins fljótt og unnt er samkvæmt lögum um grunnskóla, nr. 49/1991.`` Það er gífurleg kokhreysti, virðulegi forseti, að leggja þessa setningu svona fram af hálfu ríkisstjórnar sem hefur ákveðið að breyta þessum lögum og skerða tímaframboð í grunnskólum og þar með að hægja á framkvæmd þeirrar stefnu sem mótuð er í jafnréttislögum 1991 auk þess sem núv. ríkisstjórn hefur tekið um það ákvörðun eins og allir vita að endurskoða lögin um grunnskóla. Í þeirri skýrslu 18 manna nefndar um menntastefnu sem birtist núna fyrir nokkrum dögum kemur það fram að nefndin á eftir að fjalla um ýmislegt og það er rakið og talið upp. Eitt af því sem nefndin hefur ekki fjallað um eru jafnréttismál, er jafnrétti yfirleitt, bæði kynjanna og jafnrétti til náms yfir höfuð. Og það sýnir kannski betur en allt annað grundvallarmismun í nálgun vandamála þegar heil 18 manna nefnd getur fjallað um stefnu í menntamálum án þess að taka á jafnréttisþættinum, en slíkt hefði verið óhugsandi, algerlega óhugsandi fyrir 3--4 árum þar sem menn lögðu áherslu á það að jafnrétti og jöfnuður væri í raun og veru inntak, hugmyndafræðilegt inntak, grunnskólalaganna og framkvæmdar þeirra. Og auðvitað hefði átt, virðulegi forseti, að taka á þessum breytingum á grunnskólalögunum og þeim áhrifum á þróun jafnréttismála á Íslandi.
    Í þriðja lagi hefði auðvitað líka átt að fara sérstaklega yfir málefni leikskóla. Staðreyndin er sú að núverandi ríkisstjórn hefur stöðvað framkvæmd leikskólalaganna að svo miklu leyti sem það snýr að ríkisvaldinu. Hún hefur stöðvað framkvæmd leikskólalaganna með því að setja ekki reglugerð um leikskóla, með því að ráða ekki leikskólafulltrúa í eina einustu fræðsluskrifstofu, með því að grípa ekki til ráðstafana til þess að tengja saman starf leikskólans og grunnskólans. Með öðrum orðum, það sem ríkisstjórnin er að gera er í beinni lóðréttri mótsögn við það sem hér stendur t.d. um menntmrn.
    Ég ætla í sjálfu sér ekki að fara út í það að ræða einstök ráðuneyti vegna þess m.a., virðulegi forseti, að tíminn er búinn. Það er gert ráð fyrir því að menn hafi hér 8 mínútur til þess að ræða þetta mál sem er þó í raun og veru eitt af úrslitamálunum í þjóðfélaginu. Í þessu máli, jafnréttismálunum, er úrslitaspurningin um það hvort við búum í góðu eða vondu þjóðfélagi þegar upp er staðið. Hvort allir aðilar þessa þjóðfélags hafa jafna möguleika á því að hafa áhrif á stjórn þess, þróun og framvindu, það er ekki svo nú. Alþingi hefur þar miklar skyldur og það er augljóst að áætlanirnar um jafnréttismál hafa ekki dugað til að breyta í raun og veru neinu að þessu leytinu til. Þær gera það síst eins og sakir standa þegar stefna ríkisstjórnarinnar er í raun á móti öllu því sem heitir jafnrétti karla og kvenna.