Eiginfjárstaða innlánsstofnana

135. fundur
Föstudaginn 19. mars 1993, kl. 14:31:51 (6278)

     Ólafur Ragnar Grímsson :

    Virðulegi forseti. Töluvert hugmyndaflug þarf til að halda því fram í þrígang í þingsalnum að það sé annað mál en það sem hér er verið að ræða hvort þessum sama banka, Landsbanka Íslands, sem á að fá milljarða frá skattgreiðendum í landinu, verði breytt í hlutafélag og hann seldur á árinu. Er það annað mál hvað hæstv. viðskrh. hyggst gera við bankann? Hæstv. ráðherra getur varla verið alvara að halda því fram í þrígang að það sé annað mál.
    Það er ekki meira annað mál en að hæstv. forsrh. hefur séð sérstaka ástæðu til þess í tengslum við þetta mál, sem við erum hér að ræða, aðspurður um það í Morgunblaðinu 17. mars að lýsa því skýrt yfir að nú sé ekki tími til að einkavæða bankana. Það er athyglisvert að hæstv. forsrh. hefur ekki dregið þá yfirlýsingu til baka í umræðunum. Hann lætur hana standa eins og hún birtist í viðtali við Morgunblaðið. Það er líka alveg ljóst að Jóhannes Nordal, aðalbankastjóri Seðlabankans, lítur ekki heldur á þetta sem annað mál. Hann hefur talið sjálfsagt og eðlilegt að lýsa því yfir í tengslum við afgreiðslu málsins að nú sé óráðlegt að breyta ríkisbönkunum í einkabanka. Ætlar hæstv. viðskrh. virkilega að halda því fram að Jóhannes Nordal viti ekki hvað hann er að tala um? Er seðlabankastjórinn Jóhannes Nordal kannski líka farinn að tala um annað mál? Auðvitað ekki. Auðvitað er þetta sama málið. Það veit þingið, það veit forsrh., það veit seðlabankastjórinn. Allir vita það nema hæstv. viðskrh. En auðvitað veit hann það líka að þetta er sama málið þó að hann vilji ekki viðurkenna það.
    Í öðru lagi reynir hann með útúrsnúningum að segja að ég sé að spyrja hann um stefnu ríkisstjórnarinnar. Ég var ekki að spyrja hæstv. ráðherra um stefnu ríkisstjórnarinnar. Það er mikill misskilningur. Ég gekk satt að segja ekki svo langt að biðja hann að afneita stefnu ríkisstjórnarinnar. Ég var bara að spyrja um árið 1993 og framkvæmd þessarar stefnu á árinu 1993. Um það bil tveir mánuðir eru eftir af þessu þinghaldi, tæpir þó samkvæmt starfsáætlun þingsins og inni í því er páskaleyfið. Ég spurði að því hvort ráðherrann hyggist á þessum vikum sem fram undan eru flytja frv., eins og hann er búinn að boða aftur og aftur, um að breyta þessum sama Landsbanka í hlutafélag og Búnaðarbankanum einnig á þessu ári? Ég spurði ekki hvort ráðherrann hefði yfirgefið stefnu ríkisstjórnarinnar heldur hvort hann ætlaði að flytja frv. um það á næstu vikum sem þingið gæti síðan afgreitt fyrir vorið því það hefur ráðherrann sagt hvað eftir annað að hann ætli sér. Þangað til ráðherrann lýsir öðru yfir stendur sú yfirlýsing auðvitað.
    Síðan spurði ég að því: Er ráðherrann sammála því sem fjmrh. hefur sagt að á árinu 1993 sé ekki hægt að reikna með tekjum í ríkissjóð af sölu hlutabréfa í Landsbankanum og Búnaðarbankanum ef þeim verður breytt í hlutafélag? Ráðherrann treysti sér ekki heldur til að svara þessu. Með öðrum orðum, hann kýs við lok umræðunnar að magna óvissuna í stað þess að koma málunum á hreint. Hann ætlar að láta það standa í lok umræðunnar að enn á ný standi til að flytja frv. um að breyta Landsbankanum í hlutafélag á næstu vikum. Síðan standi til að selja hlutabréfin á árinu. Sér hæstv. viðskrh. ekki að hann ber ábyrgð gagnvart íslenska bankakerfinu, gagnvart stöðugleika þess og áreiðanleika, m.a. í ljósi erlendra viðskiptavina, til þess að svara þessu skýrt varðandi árið 1993? Ég fer enn á ný fram á það við hæstv. ráðherra að hann sjái nauðsyn þess að gera þetta alveg ljóst. Orðræður um að það sé annað mál er náttúrlega fullkomlega út í hött eins og hefur komið skýrt fram. Stjórnarmeirihlutinn á Alþingi ætlar með stuðningi ýmissa þingmanna úr stjórnarandstöðunni að samþykkja það að almenningur skuli leggja þennan umtalsverða styrk til Landsbankans. Það eru verulegar byrðar á almenning í landinu. Það er viðbótarskattlagning í einu eða öðru formi á almenning í landinu til þess að styrkja Landsbankann þannig að almenningur á auðvitað kröfu um að fá að vita það hvort síðan eigi að ráðskast með bankann áfram á næstu vikum eða mánuðum. Ég vona að hæstv. ráðherra verði við þeirri ósk að svara skýrt áður en málið verður afgreitt.