Eiginfjárstaða innlánsstofnana

135. fundur
Föstudaginn 19. mars 1993, kl. 15:04:51 (6292)

     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég get út af fyrir sig verið sammála hæstv. viðskrh. um að því minna af þessum hlutum sem hefði þurft að ræða á Alþingi þeim mun betra. En nú er það ósköp einfaldlega þannig að þetta mál er hér til umfjöllunar og afgreiðslu á Alþingi og þá verður ekki hjá því komist nema menn vilji taka upp á því að loka fundum þingsins. Málið sé af þeirri stærð og viðkvæmni þess sé slík að það sé eðlilegt að halda fundi Alþingis fyrir luktum dyrum. Það væri út af fyrir sig hugmynd. En ríkisstjórnin hefur ekki sjálf beinlínis valið að fara með þessi mál í kyrrþey eða hvað? Hún hefur nú ekki aldeilis valið þá aðferð, blessuð ríkisstjórnin, og verður þess vegna sjálf að axla ábyrgðina á því að opnast hefur umræða um annars viðkvæma hluti sem sannanlega eru.
    Það skiptir máli, hæstv. viðskrh., hvaða aðferð er notuð og það skiptir líka miklu máli hvort við erum að tala um að þessar aðgerðir færist inn í efnahagsreikning bankans á árinu 1992 eða ekki. Ég held að það hljóti allir menn að skilja. Ég verð að segja alveg eins og er, hæstv. forseti, að ef jafnvel þetta atriði er í lausu lofti hjá hæstv. ríkisstjórn við lokaafgreiðslu málsins á þingi þá er þetta enn skrautlegra en ég hafði gert mér grein fyrir. Er það virkilega svo að skilja beri svör hæstv. viðskrh. þannig áðan að ríkisstjórnin hafi ekki mótað afstöðu til þess hvort hún ætlar með þessa aðgerð í gegnum efnahagsreikning ársins 1992 eða 1993? Er það virkilega í lausu lofti? Hefur ekki verið rætt við bankastjórn Landsbankans og bankaráð um það? Það munar nú um minna, hæstv. viðskrh., hvort nokkrir milljarðar króna eru teknir í gegnum bókhaldið á þessu árinu eða hinu.
    Ástæðan fyrir því að ég spyr er náttúrlega sérstaklega það nýbyrjaða ár sem Landsbanki Íslands stendur frammi fyrir. Ef hann á til viðbótar þessari auknu afskriftaþörf á árinu, sem endurskoðendur hans tala um, að taka þennan pakka líka í gegnum efnahagsreikning ársins 1993 þá erum við að tala um niðurstöðu á rekstrarreikningi bankans sem er hroðalegri en menn hafa áður látið sér detta í hug.