Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

143. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 12:47:32 (6452)

     Flm. (Steingrímur Hermannsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Lái mér hver sem vill að ég næ ekki alveg samhenginu í því sem hæstv. utanrrh. er að segja. Annars vegar segir hann að þessar viðræður séu löngu hafnar. Hann er búinn að tala við fjölda manns og undirbúa tvíhliða samning og hins vegar segir hann að það sé stórhættulegt að hefja slíkar viðræður. ( Utanrrh.: Með samningum . . .  ) Já, ég geri ráð fyrir að samningi yrði ekki lokið fyrr en menn sjá fyrir endann á því sem verður um EES. En ég lít svo á að þegar sjálfur hæstv. utanrrh. Íslands tekur slíkt formlega upp eins og hann lýsir, þá er það sannarlega undirbúningur að samningi. Ég hlakka til að fá að sjá þessar fundargerðir hæstv. utanrrh. í utanrmn. Ég veit að þær geta ekki verið trúnaðarmál gagnvart nefndinni og þá getum við metið þetta.
    En staðreyndin liggur hins vegar fyrir að þessari óvissu hérna heima hefur ekki verið eytt og hún er mjög skaðleg. Ég held t.d. að ungir kratar hefðu gott af að fá að sjá það sem utanrrh. er að undirbúa með tvíhliða samning. Ég vil jafnframt taka það fram að ef hæstv. utanrrh. líður eitthvað betur ef tillögugreininni er breytt eða jafnvel ef hann vildi flytja slíka tillögu sjálfur fyrir Alþingi, þá skal ég draga þessa til baka. Það sem ég er að leita eftir er að fá óvissunni eytt og ég tel það að öllu leyti hagstæðara fyrir okkur Íslendinga að vita hvert við stefnum. Það eru ekki nema tvö, þrjú ár til stefnu.