Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

145. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 13:56:46 (6462)

     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegi forseti. Sú tillaga sem hér er til umræðu og hv. þm. Steingrímur Hermannsson hefur þegar gert grein fyrir, fjallar m.a. um mat á því hver er staða okkar Íslendinga nú í Evrópu og hvaða skref við eigum að stíga til þess að ná viðunandi samningum um okkar mál til framtíðar, alla vega eitthvað inn í framtíðina eins og við sjáum þróunina.
    Það er staðreynd að allar hinar EFTA-þjóðirnar hafa sótt um aðild að Efnahagsbandalaginu. Aðildarumsókn Svíþjóðar og Finnlands hefur þegar hlotið samþykki framkvæmdastjórnarinnar og í gær kom jákvæð umsögn um umsókn Noregs og gert ráð fyrir því að samningaviðræður hefjist fljótlega og það sama mun eiga við um Austurríki.
    Að því er varðar Sviss, þá er það ljóst að það land er í mjög erfiðri stöðu um þessar mundir og er hætta á að þeir muni að einhverju leyti einangrast eða eru a.m.k. mjög hræddir um það og því er líklegt að þeirra útleið verði sú að sækja um aðild að Efnahagsbandalaginu á einhverju stigi máls því að það er vart hægt að reikna með því að héðan af verði þeir aðilar að Evrópsku efnahagssvæði nema þá menn geri ráð fyrir því að Evrópskt efnahagssvæði sé komið til að vera og eigi fyrir sér langa framtíð.
    Ég er þeirrar skoðunar að menn þurfi að meta það kalt og rólega hvort EFTA eigi í sjálfu sér einhverja framtíð fyrir sér. Ég held að það sé alveg ljóst ef ríkin Finnland, Svíþjóð, Noregur og Austurríki ganga í Efnahagsbandalagið og jafnvel Sviss líka, þá muni EFTA eiga litla sem enga framtíð fyrir sér. Það hafa komið upp um það raddir að fleiri þjóðir Austur-Evrópu gangi í EFTA, en ég tel það ekki samrýmast hagsmunum okkar Íslendinga að opna fyrir inngöngu fleiri þjóða vegna þess að við eigum miklu minni sameiginlega hagsmuni með þeim en hinum EFTA-þjóðunum sem nú munu e.t.v. ganga fljótlega í Efnahagsbandalagið. Ef Sviss verður áfram EFTA-land og gengur ekki í EB sem ég tel nú fremur ólíklegt að muni gerast, þá er það ljóst að við eigum ekki mjög mikla sameiginlega hagsmuni með því landi þótt við höfum átt við þá vinsamleg samskipti og nokkur viðskipti.
    Það er á þessu stigi afar erfitt að meta það hvort af því verður að hin Norðurlöndin gangi inn í Efnahagsbandalagið. Þó er það mat manna að Finnland ætli sér að ganga inn og það muni ekkert standa í vegi fyrir því að svo muni verða. Þetta er að sjálfsögðu ekkert einróma mat í því landi, en margir telja líklegt að þeir atburðir sem nú eiga sér stað í Evrópu, ekki síst í Rússlandi, verði til þess að herða þá í því að ná þessari niðurstöðu. Það er jafnframt líklegt að þeir miklu efnahagserfiðleikar sem þar eru munu ekki draga úr vilja þeirra til að ganga í Efnahagsbandalagið heldur þvert á móti auka hann. Í framhaldi af því er ekki ólíklegt að Svíþjóð muni ganga inn, en þótt óvissan sé mikil að því er varðar Noreg, þá er miklu líklegra að Noregur gangi inn í Efnahagsbandalagið að því gefnu að Finnland og Svíþjóð hafi komist að þeirri niðurstöðu.
    Það er áreiðanlegt að mikil óvissa ríkir í þessum málum um þessar mundir og því ekki alveg auðvelt að meta stöðuna. Þjóðaratkvæðagreiðslan sem er fram undan í Danmörku um Maastricht-samkomulagið 18. maí er afar mikilvæg. Hún er mikilvæg vegna þess að ef Danir munu þá fella samkomulagið einu sinni enn, þá mun koma mikill hægagangur í aðildarviðræður og það er jafnframt mat manna að við það mundi hægja mjög á umræðunum um Evrópskt efnahagssvæði og þeirri framvindu seinka. Og það er jafnframt talið að felli Danir samkomulagið, þá muni verða enn lengra í það að Bretar muni samþykkja það. Það er jafnframt ljóst að það eru miklar umræður sem eiga sér stað í Englandi um þetta mál en flestir telja þó að eftir að þær umræður eru yfirstaðnar og ef kosningarnar í Danmörku fara á þann veg að samkomulagið verði samþykkt, þá muni Bretar trúlega samþykkja það síðar á þessu ári. Um þetta er hins vegar ekkert hægt að fullyrða, en við Íslendingar hljótum að meta okkar stöðu í þessu ljósi og stíga þau skref sem við teljum nauðsynleg til að tryggja okkar stöðu sem best í þeim miklu hræringum sem nú eiga sér stað í Evrópu.
    Ég er þeirrar skoðunar að framtíð EFTA sé afar ótrygg og það beri að viðurkenna þá staðreynd og það beri að viðurkenna hana m.a. með því að fara þess nú þegar á leit við Evrópubandalagið að það verði teknar upp tvíhliða viðræður milli Íslands og Evrópubandalagsins um framtíð Íslands í samskiptum við bandalagið. Ég hef heyrt það haft eftir hæstv. utanrrh. að hann hafi sagt við þessar umræður að þessi tillaga væri hættuleg. Ég heyrði ekki nákvæmt orðalag hæstv. utanrrh. í þessu sambandi en þessi ummæli koma mér afar mikið á óvart ef þau eru rétt eftir höfð því að ég hélt að það væri mjög mikilvægt á þessu stigi að menn reyndu að ná sem bestri samstöðu um það hver væri stefna okkar Íslendinga í þessum samskiptum. Og þar eru að mínu mati aðeins tvær leiðir sem koma til greina. Það er í fyrsta lagi að biðja um viðræður um aðild Íslands að EB og ef það stendur til, þá held ég að sé best fyrir ríkisstjórnina að gera það sem fyrst ef hún ætlar sér það sem ég er andvígur og ég hef skilið það þannig hingað til að vilji ríkisstjórnarinnar standi alls ekki til þess. Það er mikilvægt að fá það staðfest í þessum umræðum að þar sé engin beyting á.
    Þá hljótum við að spyrja í framhaldi af því ef það er ekki vilji ríkisstjórnarinnar og hún staðfestir það að það er ekki ætlan hennar að biðja um viðræður um aðild Íslands að Evrópubandalaginu, þá er

það skylda hennar að koma fram með skýra stefnu í málinu og leita samstöðu um það hér á Alþingi. Því miður er það svo að það hefur afar lítið heyrst frá ríkisstjórninni um þetta mál. Hún hefur e.t.v. af eðlilegum ástæðum verið upptekin af því að koma hér í gegn á Alþingi aðildinni að Evrópska efnahagssvæðinu sem er vissulega skiljanlegt, en það er jafnframt mikilvægt að í því máli öllu ríki ákveðin framtíðarsýn og það er ljóst að m.a. vegna þess að sú framtíðarsýn hefur ekki verið nægilega skýr, þá hefur samstaða um málið verið minni en annars hefði getað orðið. Það hefur vakað í máli sumra sem styðja hæstv. ríkisstjórn að þeir séu þeirrar skoðunar að það beri að stefna að aðildarviðræðum. Ég tel því afar mikilvægt að þetta mál sé tekið fyrir af fullri alvöru og því sinnt að samræma skoðanir á Alþingi og koma þeim vilja á framfæri við forustumenn Efnahagsbandalagsins. Ég hef trú á því að slíkri beiðni yrði vel tekið og hef fulla ástæðu til að ætla það. Ég er ekki með því að segja að það yrði samþykkt af hálfu EB að slíkar viðræður yrðu teknar upp nú þegar vegna þess að það er ekki ólíklegt að þeir telji sig of upptekna af viðræðum við þær þjóðir sem nú eru að biðja um aðild. Það er hins vegar mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að fylgjast vel með þeim viðræðum og þeim samningsatriðum sem þar verða tekin upp og væri að sjálfsögðu þýðingarmikið ef við gætum hafið viðræður við EB sem allra fyrst í þeim tilgangi að ljúka a.m.k. könnunarviðræðum og stöðumati sem allra fyrst.
    Ég tel það vera mjög mikilvægt bæði fyrir Efnahagsbandalagið og hinar EFTA-þjóðirnar að reyna að átta sig sem fyrst á því hvað menn ætla sér með Evrópska efnahagssvæðið ef flestar þjóðirnar ganga inn. Ég held að það hljóti að liggja alveg fyrir að það verður of kostnaðarsamt að halda uppi því stofnanaverki sem þar hefur verið komið á fót og það hlýtur að vera hagsmunamál beggja aðila að draga úr því ef svo fer. Og það er jafnframt mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að ná fram betri samningum á ýmsum sviðum og þess vegna hlýtur það að vera mikilvægt fyrir okkur að fygjast sem best með því sem fer fram á næstunni.
    Það liggur alveg ljóst fyrir að það eru ýmis vandamál uppi í samningunum við Noreg, Svíþjóð og Finnland og þá ekki síst við Noreg. Það eru mál sem snerta landbúnað, byggðamál, sjávarútveg, olíu svo að eitthvað sé nefnt. Sum þessara mála eru okkur þýðingarmikil, ekki síst fiskveiðimálin, betri aðgangur að mörkuðum en við höfum nú þegar fengið og e.t.v. samvinna á sviði byggðamála við Efnahagsbandalagið. Ég hlýt því að gera mér þær vonir að þessari tillögu verði vel tekið og henni verði tekið með þeim hætti að þar felist vilji til að reyna að ná sem bestri samstöðu um framtíðarstefnu Íslands í þessum málum. Sá vilji hefur komið fram í máli margra þingmanna í þessari umræðu og ég vænti þess að hæstv. ríkisstjórn leggi sitt fram til þess að svo megi verða. Það hlýtur að vera mikill styrkur fyrir Íslendinga ef hægt er að ná sem breiðastri samstöðu um takmark okkar í þeirri þróun sem nú á sér stað og gæti orðið til þess að við komum mun sterkari til þeirra viðræðna en annars hefði orðið. Ég get ekki skilið það að tillöguflutningur þessi geti á nokkurn hátt skaðað málstað Íslands. Það má vel vera að menn þurfi að meta tímasetningar í þessu sambandi, en ég get ekki séð að það sé ástæða til að draga það. Það eru ákveðnar staðreyndir sem liggja á borðinu og allir vita um og það þjónar hugsanlegri samningsniðurstöðu best að sem fyrst sé gengið til þess verks og menn komi þar fram af fullri einurð og fullri hreinskilni um það sem menn vilja ná fram.
    Það er alveg ljóst að þær þjóðir sem nú eru að sækja um aðild að EB hafa komið fram með ákveðnar óskir og ákveðnar kröfur í sambandi við þeirra ætlan og vilja í þeim samningaviðræðum og það er á sama hátt mikilvægt að við Íslendingar setjum fram með skýrum hætti það sem við viljum ná fram ef svo fer sem horfir. Ég tel að okkar staða í því sambandi sé góð, m.a. af þeirri ástæðu að það hlýtur að þjóna tilgangi og hagsmunum mótaðilans að draga úr því stofnanaverki sem nú stendur til að koma á fót þegar Evrópskt efnahagssvæði tekur til starfa. Ég lít á það sem staðreynd sem hægt sé að ganga út frá að það muni verða úr því ef niðurstaða kosninganna í Danmörku verður á þá leið að samkomulagið um Maastricht verður þar samþykkt. Ef svo verður ekki, þá á ég von á að því muni seinka en eftir þeim upplýsingum sem ég hef fengið bestar, þá sé líklegt að enda þótt samningurinn gangi ekki í gildi 1. júlí, þá séu mjög miklar líkur til þess að það geti gerst 1. okt. þótt þar sé vissulega heldur engin vissa.
    Í ljósi allra þessara hræringa tel ég mikilvægt að við komumst að sameiginlegri niðurstöðu um það hvert beri að stefna og ég hélt satt best að segja að hæstv. ríkisstjórn mundi reyna að leggja sig fram í þeim efnum.