Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

145. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 14:27:43 (6468)

     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég vil nú biðja hv. 4. þm. Austurl. að vera ekki að hafa svona óskaplegar áhyggjur af því sem hann kallar ágreining í Framsfl. Ég held að það sé nú best fyrir hv. þm. að hafa þá meiri áhyggjur af sinni eigin afstöðu í málinu. Ég verð að segja það alveg eins og er að ég hef ekki alveg skilið það hvernig hann vill nálgast niðurstöðu í samningum við Efnahagsbandalagið. Ég geri mér alveg grein fyrir því að það er ekki nóg að segja: Við viljum tvíhliða samninga. Það er ekki þar með sagt að það sé komin niðurstaða með þeim hætti sem við teldum best vera og það mál var gert upp í tíð síðustu ríkisstjórnar. Það er rétt hjá hæstv. utanrrh. að það var mat allra ráðherra í þeirri ríkisstjórn að það væri skynsamlegra að reyna að ná niðurstöðu í gegnum samningana um Evrópskt efnahagssvæði. En síðan skilja að sjálfsögðu leiðir hvað menn vilja að taki svo við, hvort það er aðild að Efnahagsbandalaginu eða tvíhliða samningar við EB í framhaldi af því. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson spyr að því hvort þessum mönnum sé treystandi. Það má vel vera rétt hjá honum að þeim sé ekki fyllilega treystandi, en það er einmitt tilgangurinn með þessari tillögu að gera tilraun til þess að skapa breiða samstöðu á Alþingi um vilja í þessu máli. Ég heyri að það er erfitt að ná samstöðu um það mál við hv. þm. Hjörleif Guttormsson. En ég vænti þess hins vegar að það sé hægt að ná samstöðu um það við flesta aðra alþingismenn á Alþingi.