Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

145. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 15:40:02 (6483)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Andsvör hæstv. utanrrh. eru nú farin að bera mikinn þrætubókarsvip. Ég vil benda hæstv. ráðherra á að það er hárrétt að Alþingi Íslendinga samþykkti nú í janúarmánuði og lýsti yfir vilja sínum um að taka þátt í samstarfinu innan EES. Ég bendi hæstv. ráðherra á að það hafa einnig önnur þjóðþing EFTA-ríkja gert. Þar lá fyrr sá vilji þjóðþinganna, en hæstv. ráðherra er mjög umhugað um það að við stöndum nú ekki öðrum þjóðþingum Evrópu að baki varðandi þinglega meðferð á þessu máli og rak mjög á eftir því nú á þessum vetri. Þá vil ég benda hæstv. ráðherra á að hjá öðrum Norðurlandaþjóðum innan EFTA liggur fyrir samþykkt þjóðþinga um hvernig þær vilja þróa þessi mál áfram. Ég tel að það séu full rök fyrir því að það sé jafnmikilvægt fyrir okkur Íslendinga að vilji Alþingis Íslendinga liggi alveg skýr fyrir hvert við viljum þróa þessi mál í framhaldinu. Og það sé í raun nauðsynlegt vegna þess að í þróunarferlinu á næstunni þá eigum við ekki samleið með þeim þjóðum nema að takmörkuðu leyti sem hafa ákveðið að ganga inn í EB. Það sé þess vegna algerlega nauðsynlegt að vilji Alþingis Íslendinga um það hvernig við viljum þróa þetta áfram liggi ljós fyrir. Ég er sannfærður um að það mætti finna stefnu sem mikill meiri hluti alþingismanna væri tilbúinn til að standa að.