Ráðherraábyrgð

148. fundur
Miðvikudaginn 31. mars 1993, kl. 18:46:15 (6629)

     Björn Bjarnason :
    Frú forseti. Ég held að í þessu máli öllu sé mikill misskilningur. T.d. er það misskilningur hjá hv. flm. að forsætisráðherra Dana hafi sagt af sér vegna svipaðra ákvæða í dönskum lögum um ráðherraábyrgð og hann er að flytja hér. Ég hef hvergi séð það í umfjöllun um svokallað Tamílamál að það hafi verið vitnað í þessa grein og Poul Schlüter, fyrrv. forsætisráðherra Dana, hafi lýst því yfir að vegna hennar hafi hann sagt af sér sem forsætisráðherra. Hins vegar lýsti hann því yfir eftir að Tamílamálið svokallaða hafði verið í meðferð hjá sérskipuðum dómara og sérstakri rannsókn og gögn lágu fyrir um niðurstöðu dómarans, 6.000 bls. skýrsla, þá lýsti fyrrv. forsætisráðherra Danmerkur því yfir að hann teldi að ýmislegt í þessari skýrslu væri þess eðlis að hann gæti ekki vænst þess að trúnaður ríkti framvegis á milli sín og danska þingsins og þess vegna teldi hann rétt að segja af sér. Hann hefur aldrei viðurkennt að hann hafi gert það af öðrum ástæðum en

þeim að málið allt væri þannig vaxið og málatilbúnaðurinn með þeim hætti að hann gæti ekki vænst þess að trúnaður ríkti milli sín og þingsins eftir að þessi skýrsla lá fyrir.
    Það er einnig athyglisvert að ef danska þingið hefði talið að forsætisráðherrann fyrrv. hefði gerst brotlegur við lögin um ráðherraábyrgð þá efa ég ekki að vangaveltur væru uppi um það í þinginu að stefna honum fyrir dóm sem er sambærilegur við okkar landsdóm en það er einmitt margframtekið í umræðum um þetta mál í Danmörku að það sé ekki á döfinni. Hins vegar kunni, og verði væntanlega, Erik Ninn-Hansen, sem var dómsmálaráðherra á þessum tíma, að verða stefnt fyrir þennan dóm. Þó er við það mál að athuga, að því ég best veit, að þingmenn í danska þinginu hafa ekki enn komið sér saman um á hvern veg þessi stefna skuli orðuð. M.a. vegna þess að í dönsku lögunum er svipað ákvæði og í lögunum um landsdóm hér á landi. Eins og segir í 13. gr. laganna um landsdóm, með leyfi forseta:
    ,,Ákvörðun Alþingis um málshöfðun gegn ráðherra skal gerð með þingsályktun í sameinuðu þingi og skulu kæruatriðin nákvæmlega tiltekin í þingsályktuninni enda sé sókn málsins bundin við þau.``
    Það er þetta sem danska þingið er að glíma við. Hvernig á að orða þessa ályktun, þessa stefnu, sem þingið þarf að samþykkja og felur í sér ákæru á hendur ráðherranum sem í hlut á? Það hefur verið ákveðið að höfða ekki slíkt mál á hendur Poul Schlüter, fyrrv. forsætisráðherra, og ekki heldur á hendur forseta þingsins sem sagði af sér vegna þessa máls.
    Mér finnst því að málatilbúnaðurinn í kringum þetta með því að nota þessa atburði í Danmörku sem rök sé ekki byggður á þeim veruleika sem við blasir ef menn kynna sér stöðu málsins í Danmörku.
    Einnig dreg ég mjög í efa --- ég hef að vísu ekki kannað það og er sjálfsagt að kanna það og það hlýtur að vera hægt að leita af sér allan grun um það ef menn leggja sig fram um það --- að það hafi verið einhver vangá hjá þeim sem stóðu að lagasetningunni 1963 að hafa ekki svipað ákvæði í lögunum um ráðherraábyrgð hér á landi. Ég held að það sem fram kom í andsvari hæstv. forsrh. sé alveg hárrétt. Hér er um pólitískt málefni að ræða. Og eins og fram kom líka hjá hv. flm. í hans svari þegar hæstv. forsrh. hafði vitnað í það að hv. flm. hafði stutt dyggilega ráðherra sem hann hafði þó í þessum ræðustóli lýst sem ósannindamanni en hafi engu að síður stutt hann til setu í ráðherraembætti að hér er um mál að ræða sem á kannski alls ekki heima í lögum um ráðherraábyrgð eins og þau eru og miðað við þau ákvæði sem í þeim lögum eru og ef litið er á þau mál sem þar er um fjallað.
    Það hefur einmitt komið upp í sambandi við þetta mál í Danmörku, sem var tilefni þess að hv. flm. fór að velta þessum málum fyrir sér, að e.t.v. sé miklu erfiðara en menn ætluðu sér að taka á þessu svokallaða Tamílamáli á grundvelli laganna um ráðherraábyrgð af því að þar sé um málefni að ræða þar sem, þrátt fyrir skýrslu upp á 6.000 blaðsíður og vitnaleiðslur og greinargerðir, menn komist kannski að þeirri niðurstöðu að lokum að það sé um pólitískt málefni að ræða en ekki sakamál í þeim skilningi sem menn leggja almennt í það orð og ákvæðin í lögunum um ráðherraábyrgð eru flest um eins og menn sjá ef þeir kynna sér þá löggjöf.
    Hér er farið inn á svið sem við alþingismenn verðum að takast á um á þessum stað og ekki að vísa til neinna annarra og verðum að gera upp hug okkar hvort við treystum ráðherrum og leita sjálfir í umræðum á hinu háa Alþingi að niðurstöðu að því er það atriði varðar hvort hér sé haldið fram röngu máli og farið með villandi upplýsingar eða menn séu leyndir upplýsingum sem hafa verulega þýðingu. Ég held að það verði að fá það upplýst hér í þingsalnum og ekki eigi að skjóta því til annarra hvort þannig hafi verið að málum staðið. Ef svo er og menn komast að þeirri niðurstöðu í opnum og almennum umræðum þá sé sá kostur fyrir hendi sem við þingmenn höfum að lýsa vantrausti á viðkomandi ráðherra og losa okkur við hann frá því embætti sem hann gegnir.
    Þess vegna held ég að það sé ekki aðeins misskilningur hjá flm. að vísa til atburðanna í Danmörku heldur sé það einnig misskilningur hjá honum að ætla að vísa þessu máli

út fyrir sali Alþingis og gera það að sakamáli. Ef ráðherra stendur þannig að verki sem lýst er í tillgr. þá er það atriði sem við verðum að gera upp við okkur hér en vísa því ekki til annarra. Ég mun, frú forseti, leggjast gegn því að þetta frv. nái fram að ganga á þessum forsendum.