Framhald þingfundar

154. fundur
Þriðjudaginn 06. apríl 1993, kl. 22:43:16 (6978)

     Guðmundur Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Ég vil nú aðeins taka undir með þeim tveimur hv. þm. sem hér hafa talað á undan og spyrja hver sé meiningin. Hæstv. forseti sagði að það væri meiningin að taka fyrir 9., 10., 11. og 12. mál í kvöld. Það lifir nú reyndar ekki mikið eftir kvöldsins, ég held að það hefði verið nær að segja þá í nótt og vil því ítreka spurninguna hvort það sé meiningin að halda áfram fram á nóttina með þessi mál, en a.m.k. sum þeirra hjóta að vera nokkuð viðamikil.
    Ég vil líka láta það koma fram að svo er háttað hvað varðar hv. þm. Framsfl. sem sæti eiga í efh.- og viðskn. sem væntanlega fær a.m.k. 9. málið til meðferðar að þeir eru því miður forfallaðir. Annar þeirra er með fjarvistarleyfi í dag og hinn vikinn af þingfundi vegna þess að hann hefur lagt af stað heim í páskaleyfi sem út af fyrir sig má segja að sé kannski athugunarvert, að fara áður en þingfundi lýkur. En það er nú einu sinni svo þegar menn eiga langt að fara að menn reikna kannski ekki með því að þó að fundur hafi átt að vera í dag, að hann standi langt fram á nótt og vil því ítreka spurninguna hvað hæstv. forseti hugsar sér að þessi fundur standi langt fram á nóttina því að það lifir nú ekki mikið eftir kvöldsins til að taka hér fyrir fjögur stór mál.