Utanríkismál

158. fundur
Föstudaginn 16. apríl 1993, kl. 15:13:25 (7120)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Ég vona að ég nái athygli manna þó að hér sé mikið að gerast fyrir utan gluggann og það sé kannski erfitt að keppa við forseta vorn sem ríður um í söðli hér utan dyra, en ég ætla nú samt að reyna.
    Ég skal játa það að a.m.k. framan af þessari umræðu hér í dag fannst mér dálítið erfitt að átta mig á henni, kannski ekki síst vegna þess að við höfum dálítið mikið og munum ræða mikið um utanríkismál hér á þinginu. Við munum a.m.k. þrisvar núna með stuttu millibili ræða um utanríkismál og þó að það sé sífellt gert undir nýjum formerkjum, þá finnst mér eins og við séum alltaf að ræða sama hlutinn. Það er kannski ekki rétt að segja þrisvar sinnum því að það er auðvitað miklu oftar. Fyrir skömmu ætluðum við að ræða aðild að Vestur-Evrópusambandinu og þá kom í ljós að menn höfðu gert með sér þegjandi samkomulag um það að ræða þá ekki skýrslu um öryggis- og varnarmál sem jafnframt lá fyrir, en auðvitað er ekki hægt að ræða aðild að Vestur-Evrópusambandinu án þess að tala jafnframt um öryggis- og varnarmál, það segir sig eiginlega sjálft. Við munum því væntanlega fá sérumræðu um öryggis- og varnarmálin eða þá skýrslu. Engu að síður finnst mér að þau mál hafi fengið afskaplega mikið rúm hér í umræðunni, öryggis- og varnarmálin, og við munum svo ræða þau aftur þriðja sinni þegar sjálf skýrslan verður tekin til umfjöllunar. Það má því segja að allt er þegar þrennt er. Við verðum þá búin að ræða öryggis- og varnarmál hér í þrígang og það hlýtur að vera orðið nokkuð gott --- skyldi maður ætla.
    Þar fyrir utan er auðvitað önnur hlið á þessum málum, utanríkismálum, en á henni virðast bara vera tvær hliðar, og sú hliðin snýr að Evrópubandalaginu og Evrópska efnahagssvæðinu því að það höfum við auðvitað rætt hér nánast í síbylju í langan tíma. En það er kannski eins farið með okkur þingmenn og Soffíu frænku sem sagðist bara kunna eitt lag, en ólíkt henni finnst okkur einhvern veginn eins og það eigi alls staðar við en það fannst ekki Soffíu frænku. Ef menn þekkja þær bókmenntir, þá muna þeir það.
    Ég ætla samt að reyna að taka þátt í þessari umræðu um utanríkismál. Ég ætla nú ekki nema lítillega að fjalla um þetta tvennt, ef þá eitthvað, heldur að snúa mér að öðrum hlutum sem mér finnst ekki síður skipta máli að við ræðum hér á Alþingi. Það varðar m.a. þróunaraðstoð, það varðar mannréttindamál, það varðar stöðu mála bæði við Persaflóa og í Júgóslavíu, það varðar GATT o.fl.
    Okkur hefur orðið tíðrætt hér á þingi að undanförnu um hina breyttu heimsmynd og reyndar höfum við verið að ræða um breytta heimsmynd allt frá því að segja má að hún hafi breyst eða frá 1989. Ég held að síðan þá hafi engin umræða átt sér stað um utanríkismál án þess að við höfum lagt áherslu á hina breyttu heimsmynd. Stundum finnst mér að við tölum eins og við séum fyrsta kynslóðin sem upplifi breytta heimsmynd. Það hafi aldrei nein kynslóð á undan okkur upplifað það að fara í gegnum slíkt breytingaferli, þetta sé eitthvað alveg nýtt í sögunni.
    Það eru miklar breytingar á öllum sviðum núna. Það eru breytingar í tækni, það eru breytingar í hugmyndum, það eru breytingar í stjórnmálum, það eru breytingar í umhverfi, í lífsháttum o.s.frv. Og þetta er ekkert nýtt. Þetta hafa allar kynslóðir gengið í gegnum með einum eða öðrum hætti, auðvitað mishastarlega en þær hafa allar þurft að takast á við þetta og þá dugir ekki bara að fara í gömlu hjólförin heldur þurfa menn að reyna einhvern veginn að koma sér upp úr þeim og skoða hlutina frá svolítið nýju sjónarhorni. Mér dettur stundum í hug ef við lítum til baka, ef maður hugsar til kynslóðarinnar sem var að taka út þroska sinn um og eftir síðustu aldamót, sem upplifði tvær heimsstyrjaldir, sem upplifði að heiminum væri skipt í tvö áhrifasvæði. Þetta voru auðvitað alveg gífurlegar breytingar sem þessi kynslóð upplifði og ég hugsa að hvergi sé því lýst eins vel og í bókinni ,,Veröld sem var`` eftir Stefan Zweig. Það er auðvitað mjög góð aldarfarslýsing og sýnir hvernig hægt er í rauninni að kippa fótunum undan heilli kynslóð og hvernig hún þarf að takast á við og horfast í augu við breytta heimsmynd sem var auðvitað alveg hræðileg fyrir þá kynslóð. Sú kynslóð var ekki heldur sú eina sem þurfti að horfa upp á þetta.
    Ef maður hugsar til baka aftur í tímann til þess tíma sem okkur finnst alltaf vera hvað stórfenglegastur sem er endurreisnartíminn --- við tölum um endurreisnartímann með glampa í augum því þá gerðist allt, þá voru þessir stóru snillingar uppi, þessir andans menn sem sköpuðu hér ódauðleg listaverk --- en ef við hugsum nú um endurreisnarkynslóðina og það sem hún upplifði frá miðju 15. aldar og fram á miðja 16. öld. Hún upplifir landafundina. Það finnst heil heimsálfa --- að vísu má víst ekki segja það hér að það hafi fundist heil heimsálfa því að auðvitað voru Íslendingar búnir að finna þessa heimsálfu áður svo að við skulum halda því til haga. ( Gripið fram í: Það var þar fólk. Það bjó þar líka fólk.) Já, en þessi kynslóð upplifir það samt að hún finni heila heimsálfu. Hún vissi ekki af þessari heimsálfu sem þarna var. Auðvitað var hún þar fyrir og auðvitað var þar líf fyrir en Vesturlandabúar og Evrópubúar fundu hana í þeim skilningi að þeir vissu ekki af henni fyrir. Og auðvitað breytir það gjörsamlega þeirra heimsmynd að uppgötva þetta. Þessi kynslóð upplifir líka gífurlegar tækninýjungar. Við getum tekið Galileo, við getum tekið Kópernikus og fleiri. Þetta eru alveg gífurlegar tækninýjungar, breytt heimsmynd. Við getum tekið

prentverkið, Gutenberg. Það er nýr fjölmiðill sem kemur til sögunnar. Við getum tekið trúarbrögðin. Það kemur til sögunnar að kirkjuskipanin breytist. Allt þetta þurfti þessi kynslóð að horfast í augu við og takast á við og gerði það auðvitað að mörgu leyti með glæsibrag.
    Þetta þurfum við að gera líka. Við getum horft til baka eins og ég geri núna og greint þetta allt í sundur og séð hvað menn gerðu og hvað þeir gerðu rétt og hvað var á ferli á þessum tíma, hvaða öfl voru að verki. Það er mjög auðvelt að horfa til baka og segja það. Það er miklu erfiðara að segja það þegar maður er í deiglunni miðri eins og við erum í dag og kannski upplifum við mjög mikla kaos í veröldinni. En kaos getur bæði verið tortímandi en hún getur líka verið mjög skapandi. Og það er kannski einmitt það sem menn náðu þá út úr kaos á endurreisnartímanum. Þeir náðu að nýta hinn skapandi kraft og það er einmitt þetta sem við erum að gera núna, og þá er ég ekki bara að tala um okkur Íslendinga heldur í miklu stærra samhengi. Við sem erum að fjalla um málin og skoða heiminn í dag þurfum að reyna að nýta þennan skapandi kraft sem er í kaos og hann verður ekki nýttur öðruvísi en menn hugsi upphátt. Og í því felst auðvitað tjáningarfrelsið að mönnum leyfist að hugsa upphátt og setja hugsanir sínar í orð þó þær séu ekki endilega fullmótaðar, þó þær standist ekki allar árásir sem á þær eru gerðar. Og það hefur mér stundum fundist brenna við í pólitískri umræðu á Íslandi að mönnum leyfist þetta ekki af því að þeir verði alltaf að koma fram með hugmyndir sínar algerlega fullskapaðar og fullmótaðar og skotheldar og menn megi hvergi reka í vörðurnar og þeir eigi sérstaklega í pólitík að vera eins konar leiðsögumenn, þeir eigi að koma fram sem leiðsögumenn og vísa lýðnum veginn með einhverjum hætti. Þetta er ekki mín pólitíska sýn og þess vegna hlýt ég að fagna því að formaður Alþb., Ólafur Ragnar Grímsson, skuli hafa hugsað upphátt hér í ræðustól um Sameinuðu þjóðirnar, um NATO, um þær breytingar sem fram undan eru, þó að ég sé ekki --- ég tek það fram --- sammála honum um þessa hluti, þá finnst mér það skipta máli að menn hugsi upphátt, að menn fari upp úr hjólförunum. En ég er ekki að segja það, ég er ekki endilega sammála honum vegna þess að ég hef ekki þá trú á NATO og slíkum bandalögum að þau breyti um eðli rétt si svona. Ég held þvert á móti að það þurfi að búa til ný kerfi með nýjum tímum. En auðvitað verð ég að segja það að ég er svo sem ekki laus við það sem á dönsku er kallað ,,skadefro`` fremur en aðrir, við ákveðna meinfýsni. Mér fannst formaður Alþb. þarna kominn að vissu leyti í svipaða stöðu gagnvart sínum flokki eins og ég komst í gagnvart hans flokki, ekki síst í EES-málinu þar sem ég var að reyna að komast upp úr einhverjum hjólförum og horfa á málið frá svolítið víðara sjónarhorni og fékk nú bágt fyrir frá sumum. ( Gripið fram í: Hvar er Hjörleifur?) ( GHelg: Þetta er eðlilegt.) Já, það kann að vera eðlilegt. Mér finnst eðlilegt að . . .  ( GHelg: Hjörleifur er ekki hérna. Mér fannst skylt til að segja eitthvað . . .  ) Já, við megum ekki persónugera þetta um of þó að mönnum hætti stundum til þess í pólitískri umræðu þá má nú ekki gera það um of. En þetta segi ég ekki vegna þess að ég líti svo á að þeir sem endilega tala hæst fyrir EES eða ráða núna för t.d. í utanrrn. og móta stefnu okkar í utanríkismálum séu komnir upp úr einhverjum hjólförum. Ég lít ekki svo á, alls ekki. Mér finnst t.d. þessi skýrsla sem hér liggur fyrir að mörgu leyti óskaplega mikið því marki brennd að þeir sem skrifa hana og þeir sem hugsa sig í gegnum þessi mál eru mjög brenndir eða markeraðir af kaldastríðshugmyndum. Þær lifa góðu lífi enn þá og í rauninni finnst mér merkilegt hvað þessi skýrsla hefur lítið breyst þrátt fyrir þessa breyttu heimsmynd sem við erum alltaf að tala um, hvað hugmyndirnar hafa lítið breyst og útsýnið hefur lítið breyst.
    Hér hefur sem sagt verið bent á það að hér er enn þá gömul hugtakanotkun á ferðinni. Það eru enn þá gömlu óvinaímyndirnar í skýrslunni og ótrúleg í rauninni vil ég segja skammsýni og fordómar oft og tíðum. Þannig er fjallað í skýrslunni um hinn svokallaða velmegunarmúr í stað járntjalds sem er verið að tala um umhverfis Austur-Evrópu, en þegar ég les þennan kafla, þá verð ég að segja að mig rekur svolítið í vörðurnar því að í byrjun þessa kafla, segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Þótt öll ríki Mið- og Austur-Evrópu hafi virst órofa heild á tímum kalda stríðsins, ofurseld sovéskri yfirdrottnun og miðstýrðu hagkerfi í rúmlega 4 áratugi, kemur stjórnmálalegur, efnahagslegur og menningarlegur munur þeirra í milli æ betur í ljós.`` Þessi munur hefur alltaf verið og hann hefur alltaf verið ljós. Það er bara spurning hvort menn hafa komið auga á hann. Og ég furða mig á því að menn skuli steypa öllum þessum ríkjum hér saman þó þau hafi verið ofurseld sovéskri yfirdrottnun, þó þau hafi haft sama hagkerfi, þá hefur hver þjóð sín einkenni, hver þjóð hefur sínar rætur, á sinn menningarlega bakgrunn, sína sögu. Og það hefur alltaf verið til staðar. Hefur mönnum einhvern tíma dottið í hug að bera saman Tékkóslóvakíu og Rúmeníu? Það er algerlega fráleitt. Þjóðir sem eiga svo gerólíka sögu, búa við svo gerólíkar aðstæður. Og þetta segir manni það að það er þessi kaldastríðsútsýn, það eru bara einhverjir kleppar einhvers staðar, það er Austur-Evrópa sem er einn kleppur í merkingunni hópur, ekki þessari nútímamerkingu þess hugtaks, og síðan er Vestur-Evrópa einn hópur og Norðurlöndin einn hópur o.s.frv. Þannig er auðvitað heimsmyndin ekki síst af öllu þegar við tölum um þessi ríki Austur-Evrópu því að þau eru auðvitað svo gerólík og eiga sér svo ólíka sögu. Þetta finnst mér eitt af dæmunum um það hvernig menn eru enn þá í hjólförunum í þessum málum. Ég gæti nefnt fleiri dæmi úr þessari skýrslu en hirði út af fyrir sig ekki um það.
    Átök í Júgóslavíu og hörmungarnar í Júgóslavíu hafa orðið mönnum hér að umtalsefni og ekki síst hv. 3. þm. Reykv., formanni utanrmn. og margt þar ágætlega gert í þeirri umfjöllun. Kannski erum við að horfa upp á núna, bæði í Bosníu-Hersegovínu eða í fyrrum ríkjum Júgóslavíu og eins fyrir Persaflóa nú nýverið, þau átök sem eru og munu væntanlega verða dæmigerð fyrir framtíðina. Þessi átök eru staðbundin. Menn eru annars vegar að tala um átök sem spretta m.a. út af hagsmunatogstreitu múslimaríkis við Vesturlönd og þar sem miklir auðlindahagsmunir Vesturlanda eru í húfi, aðgangur að auðlindum sem Vesturlönd leggja auðvitað mikið upp úr og hafa alltaf gert að hafa þann aðgang tryggðan. Þá er eins og það sé eiginlega einskis svifist til þess að tryggja þann aðgang. Þetta sáum við fyrir botni Persaflóa. Hins vegar erum við með staðbundin átök sem rísa af þjóðernisdeilum og það eru átök sem kannski miklu fremur kalla á það að Vesturlönd blandi sér í þau vegna þess að almenningur á Vesturlöndum þrýstir mjög á um það að stjórnvöld láti sig þetta varða, að stjórvöld skipti sér af því sem þarna er að gerast. Þetta eru sem sagt kannski dæmigerð átök fyrir framtíðina. Aðstæður eru engu að síður gerólíkar og viðbrögðin eru líka gerólík í þessum tveimur tilvikum. Þannig sjáum við að í rauninni var ekkert til sparað, ef við getum sagt sem svo, í stríðsrekstrinum fyrir botni Persaflóa, öll nútímatæki og tól notuð sem hönd á festi og ekki segi ég þetta vegna þess að ég telji að það hafi verið til fyrirmyndar, alls ekki. Ég er bara að benda á hvernig viðbrögðin eru ólík. Hins vegar virðast menn svolítið hafa dregið lappirnar þegar Júgóslavía er annars vegar.
    Þá er líka sá munur að hörmungarnar við Persaflóa hafa legið nánast í þagnargildi. Það hefur farið afskaplega lítið fyrir frásögnum af þeim hörmungum sem þar áttu sér stað í kjölfar stríðsrekstursins. Hins vegar höfum við hörmungarnar í fyrrum ríkjum Júgóslavíu og sérstaklega í Bosníu-Hersegovínu daglega fyrir augunum og vitum mjög gjörla hvað fólkið þar þarf að ganga í gegnum.
    Ég tók eftir því að formaður utanrmn. vitnaði í sinni ræðu í leiðara í blaði Lækna án landamæra ef ég skildi hann rétt, þar sem eru tekin tvö dæmi um það hvenær réttlætanlegt sé að beita hervaldi. Annars vegar sé það þegar ríkisstjórn eða ríkisvaldið beiti þegna sína verulegu kúgunarvaldi með einhverjum hætti. Í öðru lagi sé það þegar þjóðir séu nánast skildar eftir á köldum klaka. Hvorugt þessara tilvika átti í raun og veru við í Persaflóadeilunni, hvorugt átti við. Það sem var notað auðvitað sem átylla í því máli var innrás Írak í Kúvæt sem auðvitað var með öllu óréttlætanleg, en engu að síður er sú innrás í sjálfu sér ekkert ólík innrás Bandaríkjamanna í Panama á sínum tíma. En það er bara ekki sama hver í hlut á.
    Þá vitum við mjög gjörla um hina hræðilegu stríðsglæpi í Bosníu-Hersegovínu, sem eru auðvitað óvenjulega grimmilegir og sérstaklega vil ég í því sambandi nefna hvernig konur hafa verið beittar þar ofbeldi, hvernig konum hefur verið nauðgað þar til þær verða barnshafandi og haldið í fangabúðum þar til það gerist. Það er út af fyrir sig heldur ekkert nýtt þó það hafi komist í umræður núna, þetta mun m.a. hafa gerst í seinni heimsstyrjöldinni að Þjóðverjar hafi m.a. beitt þessu. Þetta auðvitað fylgir öllum stríðum, að hermenn fari um eins og logi yfir akur og nauðgi konum. Það fylgir öllum stríðsrekstri, held ég. En stríðsglæpir þeir sem voru framdir í Persaflóastríðinu hafa hins vegar legið í þagnargildi og kannski er það vegna þess að að vissu leyti var ákveðin þjóðasátt, og er ég að tala í fleirtölu, þjóðasátt í Persaflóadeilunni um það að leiða hana til lykta með hervaldi og Sameinuðu þjóðirnar gáfu í rauninni út óútfyllt leyfi til þess að aðildarríkin gætu farið með hervaldi þar. Tölur benda hins vegar til og því hefur ekki verið mjög haldið á lofti, það er reyndar stórt hlaup í því, að þar hafi verið drepin um 125--300 þús. manns, segja tölur og á sama tíma hafi fallið eftir því sem mér skilst 148 bandarískir hermenn. Þarna er auðvitað um alveg gífurlegt mannfall að ræða.
    Nú nýverið var sett á laggirnar í Bandaríkjunum rannsóknarnefnd um stríðsglæpi Bandaríkjanna við Pesaflóa undir forustu Ramsey Clarke, sem var dómsmálaráðherra Bandaríkjanna árin 1961--1968. Sú nefnd kemst að því að þar hafi verið framdir það sem nefndin kallar stríðsglæpir og þá er þar um að ræða brot á Genfarsamningunum frá 1948, að það hafi átt sér stað í Persaflóa.
    Það væri út af fyrir sig hægt að benda á ýmislegt sem sagt er í þeirri álitsgerð sem sú nefnd sendi frá sér, en ég nefni hér örfá sláandi dæmi. Það segir t.d. í þessari skýrslu að farnar hafi verið 110 þús. árásarferðir gegn Írak og 88 þúsund tonnum af sprengjum hafi verið varpað sem jafngildir um það bil 7 Hiroshima sprengjum. Og svo segir: ,,Af þeim 7% sprengjanna sem tilheyrðu rafeindakerfi missti rúmur fjórðungur marks.`` Þetta voru þessar rafeindastýrðu sprengjur sem áttu einungis að hitta hernaðarlega mikilvæg mannvirki, en um fjórðungur þeirra hafi misst marks, segir í þessari skýrslu og það hefur þá verið svolítið undir hælinn lagt hvar þær lentu.
    Þeir atburðir sem þarna gerðust og er svo sem alls ekki lokið vekja kannski ekki óskaplega bjartar vonir í brjósti manns um Sameinuðu þjóðirnar vegna þess að auðvitað voru Sameinuðu þjóðirnar ábyrgar fyrir því sem þarna gerðist að vissu leyti með því að gefa út svona opið leyfi. En engu að síður eru held ég Sameinuðu þjóðirnar það sem við hljótum að setja traust okkar á núna og höfum ekki önnur betri samtök til þess.
    Atburðirnir í Bosníu-Hersegovínu eru auðvitað mjög ofarlega í huga allra núna og ég held að ekkert okkar sem hér erum séum kannski í stakk búin til þess að segja nákvæmlega fyrir um það hvernig við því eigi að bregðast. Það er staða sem er mjög vandasöm og erfið og það vakti óneitanlega athygli þegar Margrét Thatcher kom fram í sjónvarpið og lýsti því sem sinni skoðun, að það ætti að vígvæða múslimana í Bosníu-Hersegovínu vegna þess að það væri ekki hægt að skilja þá eftir með þessum hætti vopnlausa andspænis Serbum sem hafa allt vopnabúr júgóslavneska hersins á sínum snærum. Þetta eru út af fyrir sig mjög eðlileg viðbrögð og skiljanleg og það verð ég að segja að maður freistaðist til þess að hrífast að vissu leyti að þessum málflutningi, enda þó að ég hafi yfirleitt aldrei verið sammála frú Thatcher, þá verður ekki annað um hana sagt en það að hún er ekki svona geðlurða eins og manni finnst hægt að

segja um ansi marga vestræna pólitíkusa nú um tíðir. Það er sem sagt kraftur í henni. En það er ekki víst að það sé betra illt að gera en ekki neitt í þessum málum og í því sambandi má kannski minnast þess að Bandaríkjamenn vopnuðu Kúrda á 8. áratugnum. Þeir létu Kúrda hafa vopn og skildu þá síðan eftir með þessi vopn og í rauninni kom afskaplega lítið út úr því fyrir þá annað en að þeir voru stráfelldir í þessum átökum.
    Ábyrgð Vesturlanda á þessum málum er vissulega mikil og ef maður spólar aðeins til baka, þá hafa Vesturlönd að vissu leyti borið ábyrgð á því í hvaða hnút þessi mál eru komin og kannski byrjunin hafi nú verið sú þegar Vesturlönd með Þjóðverjana reyndar og EB í broddi fylkingar viðurkenna sjálfstæði Bosníu-Hersegovínu þann 6. apríl 1992. Þann 6. apríl 1992 voru liðin 51 ár frá því að Hitler gerði árás á Belgrad og það segir sig eiginlega sjálft að Serbar hljóta að upplifa þetta sem ögrun. Fyrir Serbum var seinni heimsstyrjöldin háð í gær. Hún er það lifandi í minningu þeirra allra enn þá. Þar að auki lá það fyrir á þessum tíma að Bosníu-Serbar sem eru 33% íbúanna voru ósáttir við það að þetta sjálfstæði yrði veitt og það var ekki búið að útkljá nein þau mál sem venjulega fylgja sjálfstæðum ríkjum. Þannig að þarna hafa kannski Vesturlönd lagt mjög þungt lóð á þær vogarskálar sem síðan hafa hallast æ meir og leitt til þeirra átaka sem þarna eiga sér stað.
    Í þessu sambandi langar mig aðeins til þess að koma inn á mannréttindamálin sem fá reyndar afskaplega lítinn hlut, finnst mér, í þessari skýrslu en þar finnst mér almennt frammistaða íslenskra stjórnvalda hafa verið ákaflega slæleg og það snýr bæði að okkur hér innan lands og eins að ríkjum sem þau hafa haft samskipti við. Innan lands ætla ég bara að nefna það sem dæmi um frammistöðu stjórnvalda í mannréttindamálum að mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna frá 1948 hefur aldrei verið opinberlega birt á Íslandi. Hún var að vísu þýdd og birt í Andvara 1951 og síðan í sérprentun sem gefin var út á vegum ríkisstjórnarinnar, en hún hefur aldrei verið birt opinberlega. Þó er hún núna fáanleg í riti sem Ragnar Aðalsteinsson lögfræðingur hefur gefið út og það er dálítið sérkennilegt að það skuli þurfa lögfræðistofu úti í bæ til þess að gefa út slíkt grundvallarplagg sem maður skyldi ætla að mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna væri.
    Þá má líka nefna Genfarsáttmálana frá 1949 og bókanirnar við þá frá 1977. Þessir sáttmálar hafa aldrei verið þýddir né heldur birtir opinberlega og það er nú kannski enn þá verra ef þeir hafa ekki einu sinni verið þýddir eftir því sem mér skilst best. Rauði krossinn gaf þá út 1991, þ.e. meginreglur þessara samninga, en ekki samningana í heild sinni. Og þó að þetta rit sé að mörgu leyti ágætt, þá er það svolítið erfitt aflestrar. Það er mín skoðun að þetta eigi auðvitað að þýða og gefa út og kynna almenningi. Ég held að það sé mjög mikilvægt einmitt núna þegar öll þessi umfjöllun er um stríðsglæpi í Evrópu í rauninni rétt fyrir utan dyrnar hjá okkur að fólki séu kynntir þessir samningar sem eru ákveðnir grundvallarsamningar i samskiptum þjóða. Og brot þjóða á þessum grundvallarsamningum eru alveg jafnalvarleg og bara brot einstaklinga á landslögum. Þá má nefna það eins og hér hefur nú kannski komið fram einhvern tíma áður að það er enginn mannréttindakafli í stjórnarskránni okkar.
    Burt séð frá þessu sem þá snýr að Íslendingum og innanlandsmálum, þá finnst mér að stundum stjórnist íslensk stjórnvöld af því sem reyndar er kallað hér í skýrslunni menningarleg afstæðishyggja. Mér finnst sett svolítil gagnrýni fram í skýrslunni að þróunarlöndin vilji hafa menningarlega afstæðishyggju að leiðarljósi, en mér finnst íslensk stjórnvöld stjórnast af þessari afstæðishyggju í mannréttindamálum þegar kemur að þróunaraðstoðinni. Það finnst mér m.a. endurspeglast í Malaví-málinu nú nýverið, þegar hæstv. utanrrh. fór til Malaví og heiðraði þar Hastings Banda með nærveru sinni því að auðvitað er utanrrh. ekki þar bara í einhverri persónulegri heimsókn og þessi heiður tengist ekki hans persónu heldur íslenska ríkinu og íslenskri þjóð, hann er þarna sem fulltrúi hennar og ég hefði haldið að það væri nær að heiðra einhvern annan en Banda með nærveru sinni. Við getum kannski látið vera þá aðstoð sem þar var reidd fram, en ég held að sjálf heimsóknin hafi verið satt að segja mjög misráðin og skil eiginlega ekki hvað lá þar til grundvallar. Þetta kallar hins vegar á umræður að mínu mati, t.d. umræður um það hvort skilyrða eigi þróunarhjálp með einhverjum hætti, sérstaklega ef þróunarhjálpin er veitt tilteknum ríkjum og ríkisstofnunum eða ríkisapparötum, hún sé þá skilyrt hugsanlega með því að þau sýni fram á einhverjar framfarir eða að þau standi sig í mannréttindamálum og þau þurfi að gera það. Það gæti gilt öðru máli ef þróunaraðstoðin fer til samtaka. Eins ef um er að ræða neyðarhjálp því að í neyðarhjálp er einfaldlega um það að ræða að halda lífinu í fólkinu sem býr á þessum tilteknu svæðum og ekki hægt að vera að spyrja um það hvernig mannréttindamálum sé háttað á slíkum augnablikum. En ég vil aðeins skilja þarna á milli annars vegar þróunarhjálpar og hins vegar neyðarhjálpar.
    Enn eitt varðandi mannréttindamálin. Mér finnst eins og það sé engin afstaða tekin til þess og engin umræða í rauninni um það hver samskipti okkar eigi að vera við ríki sem brjóta gróflega mannréttindi. Þá er ég að tala um efnahagsleg samskipti eða pólitísk samskipti og í því sambandi vil ég t.d. nefna Ísrael. Ég held að það sé alveg ljóst, við þurfum ekki að nefna annað en þessar síðustu aðgerðir þegar þeir reka Palestínumenn úr landi. Það er klárlega brot á Genfarsáttmálanum, alvarlegt brot á Genfarsáttmálanum og þar af leiðandi skilgreinist sem stríðsglæpir. Engu að síður held ég að sé á dagskránni hér í dag fríverslunarsamningur Íslands og Ísraels og það er auðvitað liður í þessum samningum sem EFTA er að gera við ýmis ríki. Og til þess að það valdi nú engum misskilningi, þá vil ég að það komi fram, fyrst það tækifæri gafst, að ég hef komið á framfæri athugasemdum innan þingmannanefndar EFTA út af þessum fríverslunarsamningi og komið á framfæri þeirri skoðun minni a.m.k. að ég telji að hann renni ekkert svona alveg ljúflega ofan í okkur hérna, hvort sem hann gerir það eða ekki.
    Um GATT hef ég rætt lítillega áður, enda tengist það að ýmsu leyti alþjóðasamningum í viðskiptum og þá EES m.a. og þeirri umræðu allri saman, en GATT beinist gegn viðskiptahömlum og beinist að því að auka frelsi í viðskiptum rétt eins og EES-samningurinn. Munurinn er sá hins vegar að það er ekki sama stofnanauppbygging og heimsviðskiptin eru öll undir í GATT. Þetta hljómar kannski ekkert illa og GATT hefur stundum verið tekið eins og ég hef bent á sem nokkurs konar valkostur við EES, að menn eigi að beina sjónum sínum meira að GATT og hafa heiminn allan undir og berjast fyrir frjálsum viðskiptum um heim allan. Það hljómar ekki illa, en það skapar hins vegar óendanleg vandamál og það er auðvitað engin tilviljun hversu illa gengur að koma GATT-samningnum á koppinn. Það er auðvitað vegna þess að það eru mjög miklir hagsmunir á ferðinni og það eru mikil vandamál sem fylgja því að auka frjálsræði í viðskiptum, ekki bara svæðabundið heldur um heim allan eins og þarna er gert ráð fyrir. Og það er engin tilviljun og það er ekki nein meinbægni í frönskum bændum að vera að mótmæla GATT-samkomulaginu. Það er ekki einhver rótgróin íhaldssemi eða forpokun eða neitt slíkt. Það eru bara gallharðir hagsmunir sem þar eru á ferðinni því að Bandaríkjamenn gera kröfu um það að Frakkar dragi úr framleiðslu sinni á olíufræjum, og það er m.a. minnst á það í skýrslu utanrrh. að þeir eigi að draga úr þessari framleiðslu, um ég man ekki hvort það er þriðjung eða fjórðung. Það er úr 13 millj. tonnum af olíufræjum í 9 millj. tonna og Bandaríkjamenn ætla sér þennan hlut sem Frakkar eiga að minnka við sig. Franskir bændur segja: Verði þetta að veruleika og verði umbætur eða hugmyndir Evrópubandalagsins í landbúnaðarmálum að veruleika, þá mun það þýða að 1 / 3 hluti ræktaðs lands í Frakklandi verður sennilega tekin úr ræktun, það sé þá ekki lengur arðvænlegt að rækta á þessum landsvæðum. Þeir benda hins vegar á að það sé hægt að breyta framleiðslunni, þeir geti farið að framleiða pappír, þeir geti farið út í lífræna ræktun o.s.frv. en það taki allt tíma. Og þetta er auðvitað spurningin um lífsbjörgina hjá þessum bændum.
    Einn er sá þáttur líka um GATT sem hér hefur nánast aldrei verið gerður að umtalsefni og það er umhverfisþáttur GATT. Þannig er ekki minnst á það einu orði hér í skýrslu utanrrh. Ég var líka með samantekt sem var gerð á vegum ASÍ og BSRB um GATT-samkomulagið og þar er heldur ekki minnst á umhverfisþáttinn. Og svo virðist sem menn hafi alveg sleppt honum í allri umfjöllun hérna, en hins vegar er hann mikið til umræðu erlendis og það er eitt af því sem kannski strandar á núna í þessum GATT-málum, það er umhverfisþátturinn. Í Bandaríkjunum hafa 300 samtök og hópar mótmælt GATT-samningnum og þar á meðal eru umhverfisverndarhópar því að í GATT kemur alveg sama vandamálið upp og í EES, þ.e. hvernig á að vega og meta umhverfiskröfur andspænis viðskiptahindrunum. Hvenær eru umhverfiskröfur viðskiptahindranir, dulbúnar viðskiptahindranir og hvenær eru þær það ekki? Þetta er það vandamál sem við er að eiga. Þetta umhverfisverndarfólk óttast m.a. að aukið frelsi í viðskiptum dragi úr vilja stjórnvalda til þess að gera kröfur í umhverfismálum. Á móti má segja að mjög harðar kröfur í umhverfismálum, sérstaklega harðar kröfur um framleiðsluaðferðir, muni kannski dæma þróunarlöndin að vissu marki úr leik og muni gera það að verkum að þau eigi miklu erfiðara með að uppfylla þær kröfur en iðnaðarríkin. Þannig að á þessu eru auðvitað margar hliðar.
    Í því sambandi má kannski nefna að um það er rætt að Þjóðverjar hyggist, og hvort þeir hafa gert það, ég þekki það ekki svo vel, gera kröfur um það að bílaframleiðendur taki sína bíla aftur og endurnýti þá eða komi þeim í einhverjar stálbræðslur. Þetta er auðvitað eitthvað sem er miklu þægilegra fyrir þýska bílaframleiðendur að gera heldur en við skulum segja japanska. Þeir eiga erfiðra með að taka á móti þessum japönsku bílum og flytja þá aftur til Japan og endurvinna þá þar og þetta sé dulbúin viðskiptahindrun sem í þessu felist. En jafnframt er það auðvitað mjög mikilvægt umhverfismál að þetta sé gert með einhverjum hætti og ég held að þetta sé m.a. eitt af því sem Kassagerð Reykjavíkur stendur andspænis núna og fleiri umbúðafyrirtæki hér með allt sem flutt er til Þýskalands. Þau verða að taka á móti því aftur og það verða þeir einfaldlega að gera og þetta er mikilvægt umhverfismál, eins og ég segi, en þetta kannski ívilnar fyrirtækjum sem eru að framleiða fyrir heimamarkað, þennan litla, þjóðlega markað.
    En ég held að GATT sé ekkert í höfn og það sé enn nokkuð í land að GATT-samningurinn verði að veruleika og það verði gerðar á honum talsverðar breytingar áður en það gerist. En ég sakna þess að vissu leyti hversu lítil umræða fer fram hér um GATT-samninginn og hvað í honum felst og mér þykir miður ef við stöndum aftur í sömu sporum, verði nú GATT-samningur gerður, og við stóðum þegar Dunkel setti fram sínar hugmyndir, þá kom það yfir okkur eins og hvítur stormsveipur og einhvern veginn öllum að óvörum og það sama muni gerast núna ef við ekki höldum þessari umræðu vakandi.
    Um þróunarmálin vil ég segja nokkur orð. Það sem er dapurlegast í þeim efnum er að maður sér það að bilið milli ríkra þjóða og fátækra hefur stækkað á sl. 30 árum þrátt fyrir ýmsar aðgerðir. Og af því að ég var að tala um GATT-samninginn, þá er það auðvitað umhugsunarefni, að svo virðist sem alþjóðlegar viðskiptahindranir af ýmsu tagi --- þá eru það hindranir sem Vesturlönd setja á þróunarlöndin --- kosti þróunarlöndin tíu sinnum meira, eftir því sem skýrslur telja, en hjálpin sem þau fá, þróunaraðstoðin. Þetta er úr skýrslu sem nefnist Human Development Report frá 1992 en þar kemur fram að fórnarkostnaður þróunarlandanna sé tíu sinnum meiri vegna viðskiptahindrananna heldur en þróunarhjálpin sem þessi lönd fá. Og ástæðan er einfaldlega sú eins og ég kom hér aðeins inn á áðan að alþjóðlegir markaðir eru hvorki frjálsir né hagkvæmir. Þeir eru bara frjálsir fyrir suma en ekki aðra. Og hindranirnar hitta verst fyrir þróunarlöndin vegna þess að þær hitta fyrir vinnuaflsfrekar greinar eins og textílframleiðslu, fataframleiðslu, skóframleiðslu, landbúnað o.s.frv. og þetta eru yfirleitt allt greinar þar sem eru miklar viðskiptahindranir í gangi. Þess vegna er auðvitað mjög mikilvægt að reyna að opna glufur á þessum alþjóðlegu mörkuðum fyrir þróunarlöndin, en þá legg ég fyrst og fremst áherslu á að það verður auðvitað að vera fyrst og fremst fyrir þróunarlöndin en Vesturlönd sigli ekki inn í þær glufur undir fölsku flaggi.
    Þá er eitt sem skiptir verulegu máli þegar við erum að tala um þróunarlöndin og það eru þeir vextir sem þau eru látin greiða af erlendum skuldum, en þeir munu á síðasta áratug hafa verið 17% raunvextir sem þessi ríki þurftu að greiða af sínum erlendu skuldum þegar önnur ríki þurftu að greiða 4% vexti. Þarna er auðvitað gífurlegur aðstöðumunur og þau þurfa að greiða peningana miklu hærra verði en aðrir.
    Í þessari skýrslu utanrrh. finnst mér vanta alla stefnumörkun varðandi þróunaraðstoð. Mér finnst t.d. vanta skýra stefnumörkun um það hvort eigi að vega þyngra, atvinnuhagsmunir okkar eða hagsmunir hinna fátæku. Og stundum finnst mér að þróunaraðstoðin hjá okkur taki miklu frekar mið af íslenskum atvinnuhagsmunum heldur en hagsmunum hinna fátæku þjóða. Við þurfum ekki annað en rifja upp allan þann mat sem við erum að reyna að setja ofan í þessar þjóðir hvort sem þær eru vanar því að borða þennan mat eða ekki af því að við þurfum að koma þessu í lóg hjá okkur sjálfum. Nú forsmái ég ekki þennan mat ef hann kemur að notum, en oftar en ekki hefur hann ekki gert það.
    Í skýrslunni er lögð áhersla á að það þurfi að breyta skipulagi Þróunarsamvinnustofnunar og þar er m.a. lagt til að sett verði á stofn sérstök skrifstofa þróunarmála innan utanrrn. og Þróunarsamvinnustofnun Íslands verði lögð niður og skrifstofa þróunarmála í utanrrn. yfirtaki verkefni hennar og síðan að framkvæmd verkefna verði ýmist boðin út eða falin hæfum aðilum. Þá er gert ráð fyrir því að þessu stjórni eitthvert ráð, þróunarmálaráð, skipað fulltrúum utanrrh., fjmrh., iðnrh. og viðskrh. og umhvrh. og fulltrúum sem tilnefndir verða af frjálsum félagasamtökum. Ég vil segja það að mér finnst það mjög varhugaverð leið sem hér á að fara í þessum þróunarmálum. Þetta þýðir það að þetta fer allt saman inn í utanrrn. og sjálfstæði Þróunarsamvinnustofnunar er þar með úr sögunni en það sem er kannski mikilvægt við slíkar sjálfstæðar stofnanir er einmitt að það kemur fleira fólk að málunum en þegar þetta er inni í ráðuneyinu. Og við sjáum það alveg fyrir okkur þegar þetta er komið inn í utanrrn. og þar eru ráðherrar utanríkismála, fjármála, iðnaðar og umhverfis sem eiga að skipa í þetta, þá er þetta alls staðar sama fólkið. Mér þætti gaman að vita hvað margir einstaklingar úr þessum ráðuneytum, hvað þeir hver og einn sitja í mörgum svona ráðum, nefndum og stjórnum. ( Gripið fram í: Það er alltaf Þröstur.) Ja, hann er náttúrlega fyrir þarna núna þannig að það breytir í sjálfu sér ekki miklu, hann er á fleti fyrir svo að það verður væntanlega óbreytt. En það er verið að færa allt með þessum hætti undir framkvæmdarvaldið og það koma æ færri hendur að málum. Mér skilst að það hafi einmitt verið markmið með því að búa til svona sjálfstæðar stofnanir að fá utanaðkomandi aðila til þess að leggja í púkkið og koma með hugmyndir og ég er alveg sannfærð um að það hefur reynst mjög vel. Ég er t.d. alveg sannfærð um það að ástæða þess að það skuli minnst hér í þessari skýrslu á stofnunina um málefni kvenna, þ.e. UNIFEM, er ekki vegna þess að sú hugmynd kom fram uppi í utanrrn. Hún kemur m.a. í gegnum Þróunarsamvinnustofnun, í gegnum það fólk sem m.a. hefur setið þar í stjórninni og þar vil ég nefna Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur t.d. Þetta er auðvitað það mikilvæga í þessum málum, það er að fá fleiri til liðs og nýta fleiri krafta. En þetta er bara liður í því sem mér sýnist vera að gerast á fjölmörgum sviðum núna, að það er verið að færa stofnanirnar meira og minna undir ráðuneytin og valdið á æ færri hendur. Og ég mun ræða það síðar hér og það mun án efa gefast tækifæri til þess vegna þess að ég held að það hafi verið að gerast svona án þess að við höfum kannski skoðað það neitt meðvitað eða verið tekin um það einhver meðvituð ákvörðun, heldur gerist þetta bara svona hægt og sígandi í hverju ráðuneyti. Ég vil sem sagt vara við þessu.
    Að lokum, virðulegi forseti, ég ætla ekki að hafa þetta lengra. En það er ekki hægt að fara héðan úr pontu án þess aðeins að drepa almennt á umhverfismálin vegna þess að þau eru í rauninni orðin alfa og ómega allra hluta og ég held að við þurfum að beygja pólitíska stefnumörkun á nær öllum sviðum undir umhverfismálin. Við stöndum einfaldlega í þeim sporum og að því leytinu til get ég tekið undir mjög margt sem kom fram í máli hv. 7. þm. Reykn., Steingríms Hermannssonar í þessum málum, við erum komin upp á ákveðna hásléttu. Og kannski er þetta einmitt stærsta ögrun okkar kynslóðar og þarna er kannski ákveðinn vaxtarbroddur fólginn í hugmyndalegri nýsköpun. Og ég held að við þurfum bæði að hugsa okkur í gegnum og tala upphátt og hugsa upphátt um það sem ég vil kalla vistvæna efnahagsstefnu og vistvæna varnarstefnu. Ég kem því enn einu sinni á framfæri hér að við skoðum þau mál þegar við ræðum um öryggis- og varnarmál og finnst mér ég stundum verða eins og Kato gamli þegar ég nefni það og sakna þess nú að menn skuli ekki aðeins velta vöngum yfir þessu, hugsa upphátt um það hér í þessari pontu.
    Eins og ég segi, mér finnst þetta vera mikilvægasti þátturinn. Ég vil segja það hér að það er ekki mín skoðun að við þurfum að afneita hagvexti. Hagvöxtur og hagvöxtur er sitt hvað en við þurfum að beygja hagvöxtinn undir sjálfbæra þróun og ef það er gert er hann ekki skaðlegur, en ef hann er ekki beygður undir sjálfbæra þróun, þá getur hann unnið óbætanlegt tjón.