Rannsóknarnefnd til að rannsaka ráðningu framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

160. fundur
Þriðjudaginn 20. apríl 1993, kl. 14:16:49 (7260)

     Össur Skarphéðinsson :
    Virðulegi forseti. Ég hef harðlega átalið vinnubrögð hæstv. menntmrh. varðandi ráðningu nýs framkvæmdastjóra sjónvarpsins. Það mun hins vegar ljóst að lagalega hafði hann rétt til þess og þess vegna er þarflaust að setja sérstaka rannsóknarnefnd á laggirnar til þess að rannsaka þann þátt málsins. Hans er valdið og hans er líka ábyrgðin. Það er hins vegar jafnskýrt að það hafa komið fram ávirðingar um fjárhagsleg samskipti hins nýja framkvæmdastjóra við stofnanir undir menntmrn. Sérhver maður er saklaus uns annað sannast og það er nauðsynlegt að gera allt sem hægt er til að gera viðkomandi kleift að hnekkja þeim áburði. Því hefur viðkomandi einstaklingur óskað eftir og í þeim tilgangi hefur m.a. verið óskað eftir því líka af hæstv. menntmrh. að Ríkisendurskoðun kanni samskiptin við sjónvarpið. Það er hins vegar líka ljóst að samkvæmt þingskapalögum hafa þingnefndir umboð til að kalla til sín mál sem þær telja brýnt að fjalla um. Það er því klárt að athugun á hinum fjárhagslegu þáttum málsins getur farið fram í fjárln. þingsins. Af þeim ástæðum tel ég að þessi tillaga um sérstaka rannsóknarnefnd sé óþörf og segi því já við frávísun.