Framhaldsskólar

170. fundur
Miðvikudaginn 05. maí 1993, kl. 17:47:05 (7927)

     Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. meiri hluta menntmn. um frv. til laga um breyting á lögum nr. 57/1988, um framhaldsskóla, sbr. lög nr. 107/1988 og nr. 72/1989, og brtt. á þskj. 1059.
    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið sem veitir menntamálaráðherra heimild til að efna til tilraunastarfs í starfsnámi í framhaldsskólum og mun fela í sér aukna ábyrgð atvinnulífs, bæði faglega og fjárhagslega, og beina þátttöku aðila vinnumarkaðarins í framkvæmd skólastarfs og eftirliti með því.
    Nefndin fékk á sinn fund til viðræðna um frumvarpið Kristrúnu Ísaksdóttur, formann iðnfræðsluráðs, Ingvar Ásmundsson, skólastjóra Iðnskólans í Reykjavík, Guðbrand Magnússon, framkvæmdastjóra Iðntæknistofnunar, Örlyg Geirsson, skrifstofustjóra í menntamálaráðuneytinu, og Guðrúnu Hrefnu Guðmundsdóttur, ráðunaut menntamálaráðherra í skólamálum. Nefndinni bárust margar umsagnir og voru þær flestar jákvæðar.
    Meiri hluti nefndarinnar mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingu sem flutt er tillaga um á sérstöku þingskjali. Meginbreytingin er sú að menntamálaráðherra skuli hafa samráð við viðkomandi skóla við ákvörðun um tilraunastarf í starfsnámi.
    Ljóst er á þeim umsögnum sem menntmn. bárust að mikill áhugi er á því að hafið verði tilraunastarf í starfsnámi. Í sameiginlegri umsögn Alþýðusambands Íslands, Bíliðnafélagsins, Félags ísl. iðnrekenda, Félags bókagerðarmanna, Félags ísl. prentiðnaðarins, Landssambands iðaðarmanna, Vinnuveitendasambands Íslands og Iðnnemasambands Íslands segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Frumvarpið er í samræmi við ályktanir og stefnumótun neðangreindra umsagnaraðila um beina þátttöku atvinnulífs í stjórnun verkmenntaskóla og deilda þeirra og um áhrif atvinnulífsins á mótun og stjórnun námsins. Lögð er áhersla á samstarf og samráð ráðherra og fulltrúa atvinnurekenda, launþega og iðnnema þegar tilraunastarfi er komið á í verkmenntun. Um langt skeið hefur verið þörf á auknum tengslum atvinnulífs og skóla þannig að nýjungar og breyttar áherslur og kröfur skiluðu sér inn í námið. Ýmsar hugmyndir hafa komið fram varðandi heppilegt fyrirkomulag og leggja ber áherslu á að greinarnar sjálfar hafi veg og vanda af mótun markmiða og skipulags.``
    Seinna segir: ,,Tilraunastarf í þá veru sem um getur í frv. mundi stuðla að framþróun á sviði verkmenntunar og því eindregið hvatt til þess að Alþingi veiti frv. brautargengi á þessu þingi.``
    Það hefur verið mikið rætt að undanförnu um nauðsyn þess að auka samstarf skóla og atvinnulífs og ýmsar tilraunir hafa verið gerðar í þá átt á liðnum árum sem hafa skilað misjöfnum árangri. Fulltrúar einstakra iðngreina t.d. prentiðnaðar, málmiðnaðar, bílgreina og rafiðnaðar hafa að undanförnu gagnrýnt iðnmenntakerfið. Sú gagnrýni er m.a. fólgin í því að nýútskrifaðir iðnnemar uppfylli ekki þær hæfniskröfur sem fagmenn og atvinnurekendur geri til þeirra, að stjórnun iðnmenntunar sé þunglamaleg, að skólarnir séu í ónógum tengslum við atvinnulífið og uppbygging námsins ófullnægjandi. Forsvarsmenn ýmissa iðngreina benda einnig á mikilvægi þess að samnýta tæki og kennslukrafta í grunnmenntuninni til endurmenntunar en það tíðkast ekki í núverandi fyrirkomulagi. Þeir telja að ásættanlegu kerfi iðnmenntunar verði ekki komið á nema með virkri þátttöku samtaka atvinnurekenda og launafólks.
    Tæknibreytingar eru hraðar og eiga upptök sín úti í atvinnulífinu. Þess vegna þarf að búa þannig um hnútana í skipulagi iðnnámsins að áhrif atvinnulífsins séu tryggð og menn hafi þar aðstöðu til að fylgja eftir breytingum í tækni og viðskiptum með skilvirkum hætti í menntakerfinu og beri ábyrgð í samræmi við áhrif.
    Í frv. er gert ráð fyrir að efna til tilraunastarfs í starfsnámi í framhaldsskólum í samvinnu við atvinnurekendur og launþega í viðkomandi starfsgrein. Atvinnulífið tæki aukna ábyrgð, bæði faglega og fjárhagslega á starfsnámi og ætti beinan þátt í framkvæmd og eftirliti með því.
    Nauðsynlegt er að slík heimild fáist í lögum til að koma á tilraunastarfi á afmörkuðum sviðum og gæti niðurstaða þeirra tilrauna síðan nýst við endurskoðun laga og reglugerða um framhaldsskóla. Ástæða er til þess í þessu sambandi að leggja áherslu á mikilvægi rannsókna og þróunarstarfs á sviði skólamála og að jafnan verði lagt mat á nýjungar sem teknar eru upp í skólakerfinu.
    Það er umhugsunarefni að í íslenskum framhaldsskólum velja nemendur fremur bóknám til stúdentsprófs en starfsnám. Þetta er ólíkt því sem gerist í ýmsum öðrum löndum þar sem allt að 70% nemenda ljúka starfsmenntun, t.d. í Þýskalandi. Þannig virðist starfsmenntun ekki skipa þann sess hér sem hún gerir annars staðar. Þetta er áhyggjuefni og er full ástæða til að velta því alvarlega fyrir sér hvernig unnt sé að glæða áhuga ungs fólks á verkmenntun.
    Í skýrslu Félagsvísindastofnunar, Námsferill í framhaldsskóla, sem birt var 1992 kemur fram að einungis 9,4% nemenda sem skrá sig í framhaldsskóla hefja strax starfsnám að grunnskólanum loknum. Nemendur virðast því ekki líta á það sem ákjósanlegan kost að loknum grunnskóla að fara beint í starfsnám þótt ýmsir geri það síðar. Í skýrslunni má einnig sjá að aðeins 37,7% þeirra nemenda sem einhvern tímann skrá sig í iðnnám hafa lokið því sex árum eftir grunnskólapróf. Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að ég tel að slíkt tilraunastarf sem frv. gerir ráð fyrir gæti ef vel tekst til stuðlað að því að auka áhuga ungs fólks á starfsmenntun.