Útvarpslög

172. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 16:15:27 (8034)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það var eitt atriði sem ég satt að segja gleymdi í minni upphaflegu ræðu hér og ætla aðeins að víkja að núna og það er efni 5. gr. frv. sem lýtur að heimild til þess að rjúfa einstaka dagskrárliði með auglýsingatímum.
    Út af fyrir sig er það þannig að sá sem t.d. framleiðir mynd, segjum klukkutíma mynd, 120 mínútna mynd, getur samið um það að rjúfa megi útsendingu myndarinnar og það er í raun og veru mjög erfitt að setja skorður við því ef eigandi sjónvarpsstöðvarinnar og rétthafi kvikmyndarinnar semja um þetta. Þessi efni hér á landi hafa hins vegar verið í raun og veru algjör frumskógamarkaður. Það hafa engar reglur verið til almennilegar að mínu mati og þess vegna hefur það þróast þannig að menn hafa verið með auglýsingatíma t.d. á Stöð 2 með mjög stuttu millibili og mun styttra stundum en hér er verið að tala um. Þannig að ég hygg að það sé ekki alveg rétt hjá hv. þm. Tómasi Inga Olrich að þessar reglur breyti engu um þau vinnubrögð sem tíðkuð hafa verið, eða breyti ekki ýkja miklu, sagði hann, frá því sem nú er. Ég hygg að það breyti nokkru og alveg sérstaklega í desembermánuði þá muni þetta breyta talsverðu frá því sem verið hefur í þessum stöðvum.
    Ég tel að sú tilraun sem hér er gerð til að móta reglur sé jákvæð og hún sé þannig að það beri að þakka fyrir það að þessi tilraun er gerð. Gallinn hins vegar við tilraunina er sá að ég hef fyrir mitt leyti ekki tryggingu fyrir því að réttur rétthafa verði örugglega að fullu í heiðri hafður þó að svo sé að orði kveðið í 3. mgr. 5. gr. en þar segir, með leyfi forseta: ,,Heimilt er að rjúfa einstaka dagskrárliði með auglýsingatíma, enda leiði það ekki til afbökunar á dagskrárefni eða verulegrar röskunar á samfelldum flutningi eða skerðir rétt rétthafa svo sem hér segir.``
    Spurningin í mínum huga sem er ekki svarað að fullu enn þá: Er þetta nægilega strítt ákvæði til þess að tryggja rétt rétthafa gagnvart stöðvunum?
    Nú er það auðvitað svo, virðulegi forseti, að þeir aðilar sem eru t.d. að framleiða kvikmyndir á Norðurlöndum leggja mjög mikla áherslu á það að fá þessar myndir sýndar í sjónvarpi oft og tíðum eftir tiltekinn tíma. Það eru kannski liðin nokkur missiri áður. Þá er það svo að þessir aðilar þurfa nánast að sætta sig við þá kosti sem eigandi stöðvarinnar setur til þess að koma myndinni út og þá hrapa menn að því ráði að fallast á það, þó það sé óheppilegt frá listrænu sjónarmið séð að rjúfa myndina, að semja um heimild fyrir rof á myndinni fyrir auglýsingar.
    Þess vegna er það svo að þó að ég telji að hér sé um ágæta tilraun að ræða þá treysti ég mér ekki til þess að styðja hana eins og gerð er tillaga um hana hér, en ég mun ekki greiða atkvæði gegn þessari tilraun því ég tel að hún sé eftir atvikum góðra gjalda verð, svo ég víki nú að afstöðu til einstakra greina sem ég mun fyrir mitt leyti að öðru leyti styðja.
    Varðandi málið að öðru leyti þá vil ég aðeins segja það út af því --- er þetta EES-mál? Jú, það stendur í grg. Staðreyndin er hins vegar sú að okkar útvarpslöggjöf hefur verið vanburða af eðlilegum ástæðum. Við erum að stíga fyrstu skref í þá átt að það sé samkeppni á útvarpsmarkaði. Þess vegna var alveg ljóst og hefur lengi verið ljóst að það þurfti að endurskoða útvarpslögin með ýmsum hætti í ljósi fenginnar reynslu. Og ég er þeirrar skoðunar að ef við hefðum sest niður og ætlað að endurskoða útvarpslögin tæknilega en EES hefði ekki verið til, þá hefðum við verið nokkurn veginn með svipaðar tillögur hérna uppi, mjög svipaðar tillögur vegna þess að þessar tillögur eru í raun og veru orðnar til upp úr mér liggur við að segja tæknilegum og menningarlegum veruleika sem við búum við hvort sem þingið eða þjóðin hefði fellt eða samþykkt þetta EES-frv. Ég vil segja fyrir mitt leyti, hefði svo vel farið að EES-samningurinn hefði verið felldur hér, hefði ég engu að síður stutt þetta frv. og ég held að menn þurfi að gera sér grein fyrir því, ekki kannski síst við sem höfum talsvert fjallað um þetta EES-mál að svona mál geta auðvitað af margvíslegu tagi komið hér inn og þá þarf að meta þau í hverju tilviki. Ég tel sem sagt að það sé ekki rétt að setja þetta mál þannig upp að þetta sé eitthvert sérstakt mál sem snerti Evrópskt efnahagssvæði. Það vill svo til að menn hafa kennt þessar reglur sem heita þessu skelfilega nafni konungstímabilsins tilskipanir, sem er hroðalegt heiti á þessu, en að öðru leyti þurfa menn að skoða efni málsins og mér finnst það liggja þannig að við hefðum að mörgu leyti verið með svipaða hluti ef við hefðum sest niður og skoðað þetta af almennum tæknilegum ástæðum.
    Ég vil síðan þakka hæstv. menntmrh. og hv. 5. þm. Norðurl. e. fyrir svörin við þeim spurningum sem ég lagði fram hér í upphafi. Ég lagði fram fimm spurningar og ég hef fengið skýr svör við þeim öllum og ég ætla í sjálfu sér ekkert að svara svörunum eða gera athugasemdir við þau. Mér fannst mikilvægt að það kom fram hjá hæstv. menntmrh. að hann styður túlkun talsmanns nefndarinnar á 4. gr. og þá er ég kannski eins og að svara hv. 18. þm. Reykv. En í 4. gr. stendur, með leyfi forseta: ,,Við þær aðstæður skal sjónvarpsstöð eftir því sem kostur er láta fylgja endursögn`` o.s.frv. Spurningin í mínum huga þegar ég skrifaði niður mína brtt. var um það, þýðir þetta að stöð geti jafnvel við vissar aðstæður sleppt þessum texta? Svar þeirra tveggja sem ég spurði er nei. Endursögn verður alltaf að fylgja af einhverju tagi. Þessi orð ,,eftir því sem kostur er`` lúta ekki að því hvort þetta gerist heldur hvernig það gerist. Og það skiptir í mínum huga mjög miklu máli að það er afdráttarlaus túlkun talsmanns nefndarinnar og hæstv. menntmrh. að þessi skylda sé þannig að undan henni megi menn ekki víkja.
    Ég gerði þetta sérstaklega að umtalsefni út af umsögn Íslenska útvarpsfélagsins sem ég mótmælti hér áðan mjög rækilega vegna þess að hún er svo hrakleg af því að þar eru menn í raun og veru að segja að þeir séu staðráðnir í að hafa þann boðskap að engu sem í þessari grein stendur.
    Varðandi svör þeirra að öðru leyti þá ætla ég ekki í sjálfu sér að fara nánar yfir þau en aðeins að lokum bara ítreka það sem ég sagði hér að ég tel að það sé alveg nauðsynlegt í ljósi reynslu síðustu daga og vikna að það verði reynt að skapa betri frið um Ríkisútvarpið og ég tel að það sé úrslitaatriði og ég tel að það sé úrslitaatriði að menntmrh. hagi sínum vinnubrögðum ævinlega þannig að hann beiti ekki Ríkisútvarpið ofríki, hann má ekki hver sem hann er, ráðherrann, beita Ríkisútvarpið ofríki.
    Það er einnig mjög slæmt, ef Ríkisútvarpið situr undir stórkostlegum árásum frá ráðamönnum, pólitískum ráðamönnum. Ég tel að árásir hæstv. forsrh. á Ríkisútvarpið séu mjög alvarlegt mál. Hann hefur kosið að ráðast á Ríkisútvarpið og fréttamenn þess. Hann hefur kosið að ráðast á Rás 2 alveg sérstaklega. Hann hefur að vísu ekki þorað að nefna ekki-fréttir sem hann vildi sjálfsagt helst ráðast á af öllu en yrði svo skoplegur óðara að hann hefur séð það sem gamall húmoristi, hann var það a.m.k., að hann hefur gert það upp við sig að ráðast ekki sérstaklega á ekki-fréttir en hann hefur hins vegar veist mjög harkalega að Rás 2. Og ég held að þessar árásir séu með þeim hætti, út af fyrir sig hef ég mínar pólitísku skoðanir á þeim. Ég tel að þessar árásir séu fyrir neðan allar hellur, en þær vekja upp þá alvarlegu hugsun að við verðum að reyna sem hér úr þessum stól tölum og annars staðar höfum þannig áhrif á skoðanamyndun í þjóðfélaginu, þá þurfum við að reyna að skapa sem besta sátt um Ríkisútvarpið almennt og þess vegna var það sem ég a.m.k. tók þá afstöðu í hv. menntmn. að ganga jákvætt til þess verks að afgreiða þetta frv. og á þess vegna tiltölulega mjög auðvelt með að standa að því og hvet um leið til þess að framhaldsvinnan verði unnin með fulltrúum allra flokka. Það verði ekki reynt að loka þetta inni hjá stjórnarflokkunum.