Fyrirhugaður niðurskurður í herstöðinni í Keflavík

172. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 17:50:10 (8049)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Sú frétt sem birtist með stríðsletri á forsíðu Morgunblaðsins í morgun er kannski í sjálfu sér engin frétt því að það hefur náttúrlega legið í loftinu lengi að þetta væri fyrirhugað, mikill niðurskurður í Keflavík. Þessi umræða kom upp 1989 og hún hefur staðið eiginlega látlaust síðan, náði hámarki sínu 1991 og öllum viti bornum mönnum mátti vera ljóst hvert stefndi. Það sem þarna er hins vegar að gerast er að þetta er að verða staðreynd, þetta er að verða miklu áþreifanlegra heldur en það hefur verið og hefði auðvitað átt að ræðast í utanrmn.
    Það vekur athygli við þessa frétt að sagt er frá því að heimildir Morgunblaðsins hermi að óskað hafi verið eftir því að senda hingað til lands sérstaka sendinefnd til þess að ræða þessi mál og því hafi verið hafnað af íslenskum stjórnvöldum. Ég vil spyrja hvort það sé rétt og þá á hvaða forsendum það hafi verið gert að íslensk stjórnvöld hafi frekar óskað eftir því að fá að senda nefnd utan. Um þetta vil ég spyrja og vita hvað er rétt í þessu.
    Ég get ekki annað sagt en það að við hljótum að fagna því, þó að auðvitað sé þetta sársaukafullur atburður ef fjöldi manns missir vinnuna, þá hljótum við samt að fagna því ef aðstæður í heiminum eru þannig, þeir friðartímar að herinn geti horfið héðan á brott. Ég vil segja að mér finnst mjög hryggilegt að utanrrh. skuli segja það hér að hann sé ekki tilbúinn til að segja upp varnarsamningnum við Bandaríkin og eiga um það samstarf við aðra hér á þingi vegna þess að því var jú lýst yfir á sínum tíma að hér skyldi aldrei vera her á friðartímum. Nú eru friðartímar þannig að ef menn vilja ekki með nokkru einasta móti losa sig við þennan her úr landi, þá eru það hreinlega svik við þjóðina, svik við loforð sem gefin voru þegar þessi samningur var gerður og þegar ákveðið var að hér skyldi vera herstöð í Keflavík. Menn hefur borið nokkuð af leið í þessum málum ef þeir halda við herinn svo fast og ég vil minna á leiðara sem var skrifaður í Morgunblaðinu 8. ágúst 1991, þar sem segir að menn megi ekki missa sjónar á þeim meginforsendum sem voru fyrir komu varnarliðsins. Þeir sem það geri hafi tapað áttum.