Framkvæmdaáætlun til að ná fram jafnrétti kynjanna

173. fundur
Fimmtudaginn 06. maí 1993, kl. 23:24:33 (8114)


     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Þetta voru orð að sönnu. Nóg hafa konur af sektarkennd þó að það standi ekki hérna þingkona og reyni að ala á henni áfram og benda á það eins og þingmaðurinn gerir að konur hafi verið of sjálfhverfar í þessari baráttu sinni. Hverjir hafa verið að minna á börnin? Hverjir hafa verið að tala um börnin og umönnun barna? Hverjir hafa verið að tala um umönnun sjúkra og aldraðra ef það hafa ekki verið konur? Hverjir hafa ekki verið að reyna að koma því t.d. inn í stefnuskrá flokkanna og reyna að hafa áhrif á flokkana með þau mál ef það eru ekki konur? Ég þekki þá ekki þetta samfélag og hef bara verið hér með lokuð augun þá síðan ég komst til vits og ára ef það hafa ekki verið konur sem hafa verið þar að verki.
    Það kann vel að vera að kvennabaráttan hafi stundum verið of sjálfhverf en konur mega nú líka hugsa um sig sjálfar og það sem þær telja að komi sér til góða. Ég sé ekki að það sé neitt rangt við það. Það er vissulega rétt hjá þingmanninnum að það má alveg gagnrýna konur og við konur gerum það oft mjög ótæpilega að gagnrýna hver aðra og gagnrýna okkur sjálfar. Ég held að við konur séum yfirleitt mjög sjálfsgagnrýnar og það sýnist mér nú bara yfirleitt á vinnubrögðunum hér á þingi að konur eru miklu gagnrýnni á sjálfar sig heldur en karlmenn yfirleitt. Við megum líka gagnrýna jafnréttisbaráttuna, en það er rangt að draga upp þá mynd sem þingmaðurin gerði, að jafnréttisbaráttan sé einhver orsakarvaldur í þessu. Við getum átt miklar deilur um innihald jafnréttisbaráttunnar. Við getum líka deilt hver á aðra en það er bara annar hlutur, virðulegur þingmaður. Og eins og hún sagði, nóg er nú alið á sektarkennd kvenna þó að það sé ekki gert með þessum hætti hér í þingsalnum.