Aðgerðir gegn peningaþvætti

174. fundur
Föstudaginn 07. maí 1993, kl. 10:21:27 (8141)

     Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir brtt. og nál. frá efh.- og viðskn. vegna frv. til laga um aðgerðir gegn peningaþvætti. Þetta eru ný lög sem fyrirhugað er að setja með þessu frv.
    Nefndin leitaði umsagnar um frv. hjá ýmsum aðilum sem getið er í nál. Nefndin leggur til þrjár breytingar á frv. Í fyrsta lagi, þar sem fjallað er um refsiverðan verknað í frv. sé texta breytt þannig að í stað þess að rekja megi uppruna eignar til refsiverðs verknaðar verði tiltekið hvers konar refsiverðan verknað er um að ræða og það sé vísað til brots á almennum hegningarlögum eða lögum um ávana- og fíkniefni.
    Í öðru lagi er lögð til breyting á 3. gr. að fastur viðskiptamaður sem er vel þekktur í viðkomandi bankastofnun þurfi ekki að sýna persónuskilríki þótt hann sé að leggja inn háar upphæðir.
    Í þriðja og síðasta lagi er lagt til að gildistökuákvæði frv. verði breytt þannig að það miðist við 1. júlí en ekki við gildistöku EES.
    Nefndin stendur öll að þessu nál.