Mat á umhverfisáhrifum

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 11:58:26 (8332)

     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Hér er til umfjöllunar mjög viðamikið mál. Ég vil þakka hv. þm. í umhvn. fyrir mjög gott starf sem kom mjög greinilega fram í ræðu frsm. fyrir nál. Ég vil undirstrika að hér er á ferðinni mjög mikilvægt mál fyrir okkar litlu þjóð. Það skiptir okkur öll afskaplega miklu að farið sé varlega þegar staðið er að framkvæmdum. Það er mín skoðun að sú löggjöf, sem vonandi verður raunveruleg samkvæmt frv., muni hafa mjög mikil áhrif á þá sem undirbúa framkvæmdir. Ekki að menn munu beita þessu til að verjast þeim ákvæðum frv. heldur til þess að huga mjög vel að því hvernig skuli staðið að mannvirkjagerð í okkar landi. Það er mikilvægasti þátturinn, ekki að svona löggjöf þurfi að verða til þess að verjast ágangi eða ákvörðunum sem hætta er á að skaði landið og umhverfið allt á okkar fagra Íslandi.
    Þetta vildi ég segja við þessa umræðu en að öðru leyti lýsa yfir fullum stuðningi við frv. Ég vænti þess að þeir sem koma til með að vinna á grundvelli þess beri gæfu til þess að ná sem bestum árangri og ekki síður þeir sem þurfa að standa að mannvirkjagerð í landinu.