Sveitarstjórnarlög

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 13:01:01 (8354)

     Kristinn H. Gunnarsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég legg til að forsetar þingsins samræmi störf sín. Einn af varaforsetum þingsins, hv. 5. þm. Austurl., bar fram þá kröfu að forseti, sem þá sat í stól, tæki ekki fyrir það mál sem hafði verið tilkynnt heldur annað. Við því var orðið. Mér þykir það undarlegt ef ekki gætir samræmis í störfum forseta og menn þurfa að búa við breytilega úrskurði eftir því hver situr á stólnum hverju sinni.
    Hæstv. forseti hefur engar skýringar gefið á því hvers vegna frestað er umræðu um 19. dagskrármál sem lagt var ofurkapp á að yrði tekið fyrir af hv. 5. þm. Austurl., 3. varaforseta þingsins.
    Mér þykir skrýtið hvernig menn raða málum í forgang og mér finnst að hæstv. forseti sem nú situr þurfi að ræða við sína starfsfélaga í forsætisnefnd. Ég tel engin rök mæla fyrir því að rjúfa umræðu sem hafin er að kröfu eins af varaforsetum þingsins til þess að flækja framgang þingsins þannig að fleyga nýtt mál inn í þá umræðu. Ég vænti þess að hæstv. forseti hagi störfum þannig að ekki sé blandað saman mörgum málum og tvö dagskrármál höfð undir. Ég vænti þess að hæstv. forseti hagi störfum sínum í samræmi við það sem hv. 3. varaforseti þingsins lagði ofurkapp á fyrr í dag, að mál væru tekin fyrir að hans ósk og ég sé ekki annað en að rétt sé að halda áfram umræðum um þetta mál. Ef forseti telur rétt að fresta umræðum þá vænti ég þess að skýring verði gefin á því svo hægt sé að meta hana.