Sveitarstjórnarlög

176. fundur
Laugardaginn 08. maí 1993, kl. 14:02:16 (8364)


     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Í þessu þingmáli sem nú er komið til 2. umr. er ýmislegt sem vert er að ræða. Svo háttaði til að ég átti þess ekki kost að vera viðstaddur 1. umr. málsins þannig að ég hef ekki enn haft tækifæri til þess að ræða um efni þess og innihald og baksvið málsins sem er kannski meginatriðið að gera sæmileg skil, það er baksvið þessa frv.
    Ég vil fyrst gera grein fyrir þeim brtt. sem ég flyt við þetta frv. og er að finna á þskj. 1211. Það eru brtt. í tveimur tölusettum liðum, breytingar á ákvæðum til bráðabirgða og viðbætur. Það er í fyrsta lagi tillaga um að á undan 1. gr. frv. komi ný grein er hljóði svo, með leyfi forseta:
    ,,1. mgr. 109. gr. laganna orðast svo:
    Sveitarfélag verður eigi sameinað öðrum sveitarfélögum nema fleiri kjósendur í atkvæðagreiðslu samkvæmt 108. gr. séu fylgjandi sameiningu en andvígir.``
    Í öðru lagi er brtt. við 1. gr. frv. sem er í tveimur liðum. Fyrri liðurinn er þannig, með leyfi forseta:
    ,,Eftirfarandi breytingar verða á 2. tölul.:
    1. Í stað orðanna ,,meiri hluti greiddra atkvæða`` í 2. mgr. komi: samþykki.``
    Þá verði setningin þannig: . . .  hljóti tillaga umdæmanefndar samþykki í öllum þeim sveitarfélögum o.s.frv. í stað þess að hljóða: . . .  hljóti tillaga umdæmanefndar meiri hluta atkvæða.

    ,,2. Orðin ,,meiri hluta greiddra atkvæða`` í 3. mgr. falli brott`` og í 3. mgr. 2. tölul. hljóðar setningin þá þannig að þessu breyttu: . . .  hljóti tillaga umdæmanefndar ekki samþykki í öllum hlutaðeigandi sveitarfélögum en þó í a.m.k. 2 / 3 þeirra, o.s.frv.
    Þessar breytingar eru afleiðing af fyrstu brtt. þar sem breyta þarf þskj. til samræmis við þær tillögur sem þar er lagt til.
    Í þriðja lagi er lagt til að við fyrsta málsl. 3. tölul. 1. gr. bætist eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,, . . .  enda liggi fyrir samþykki viðkomandi sveitarstjórna eða a.m.k. 25% kjósenda í hverju sveitarfélagi.``
    Þessi tillaga er á þann veg að setja frekara skilyrði við því hvenær umdæmanefnd samkvæmt þessu frv. getur látið fara fram aðra atkvæðagreiðslu, aðra umferð kosninga um sameiningu sveitarfélaga.
    Ástæðan til þess að ég tel rétt að bæta þar um frá því sem er í frv. er sú að það kom mjög sterklega fram í mínum þingflokki að menn vöruðu við því m.a. í ljósi forsögu málsins að lögfest yrði að hægt væri að hafa tvær kosningahrinur, með því væri hægt að nota seinni umferðina eins og hnútasvipu og á menn og segja sem svo: Ef þið samþykkið ekki tillöguna í fyrri umferð þá leggjum við bara til aðra tillögu og látum ykkur kjósa aftur.
    Í nefndinni varð ekki niðurstaðan að breyta þessu og falla frá síðari möguleikanum í síðari umferð en hins vegar varð umræðan í nefndinni um notkun á þessari síðari umferð þannig að skilningur manna var sá að það væri ekki heimilt eða ekki til þess ætlast að umdæmanefnd knúði fram aðra umferð um sameiningu sveitarfélaga nema að fyrir lægi vel rökstudd vissa fyrir því að vilji stæði til sameiningar í þá veru sem síðari tillagan mundi hljóða upp á.
    Þetta þarf að koma skýrt fram að hugmyndin á bak við þetta ákvæði frv. um möguleikana á annarri kosningahrinu er þessi og að því verði aðeins beitt í undantekningartilvikum og þá því aðeins að fyrir því sé almennur stuðningur meðal þeirra hlut eiga að máli.
    Hins vegar segir hinn formlegi texti þetta ekki. Það er skaði að ekki skyldi koma skýrar fram í textanum það sem menn voru sammála um og þá túlkun sem menn vildu að kæmi fram á þessu ákvæði.
    Ég verð að segja það alveg eins og er að eftir reynsluna af hæstv. félmrh. í þessum málum og reyndar öðrum þá treysti ég ekki ráðherranum til þess að framkvæma hlutina eins og þeir eru lagðir upp. Ég hef því miður séð of mörg dæmi þess að ráðherrann beitir valdi sínu öðruvísi en til er ætlast og því taldi ég ráðlegast að leggja þessa viðbót fram um skilyrði fyrir síðari umferð kosninga í þeirri von að hún yrði samþykkt eða a.m.k. það kæmi fram hjá öðrum þeim sem í nefndinni störfuðu eða hæstv. félmrh. þessi skilningur manna á því hvenær efna bæri til annarrar kosningahrinu að hinni fyrri lokinni.
    Nú átti ég ekki þess kost, eins og ég gat um áðan, að vera við 1. umr. málsins og hef ekki kynnt mér umræðu þar, þannig að það má vera að þetta hafi komið fram þá þó ég hafi ekki frétt af því. En ég vænti þess að a.m.k. þeir sem sátu í nefndinni og eru hér á þingi staðfesti þennan skilning minn á notkun heimildarákvæðisins fyrir síðari umferð kosninganna. Ef það er ekki staðfest og ef hæstv. ráðherra gerir það ekki þá getur ekkert annað vakað fyrir mönnum en að beita ákvæðinu með öðrum hætti en í raun var samstaða um í sveitarfélaganefndinni að ætti að túlka. Þannig að það stendur upp á hæstv. ráðherra að gefa skýra yfirlýsingu um það hvort hún fallist á þennan skilning á þessu ákvæði sem varð sameiginleg niðurstaða í sveitarfélaganefndinni. Það er afar mikilvægt að hæstv. ráðherra staðfesti þetta. Það er afar mikilvægt. Ef ekki, þá vakna miklar grunsemdir um annað.
    Það er dálítið merkilegt að upplifa það undir lok 20. aldar á Íslandi að það skuli ekki nást fram í þingnefnd breyting á fyrirliggjandi stjfrv. í þá veru að breyta ákvæði sem felur í sér tímabundið lýðræði í varanlegt lýðræði. Það er mjög merkileg lífsreynsla að verða fyrir því að stjórnarflokkarnir tveir hafa í nefndarstarfi komið í veg fyrir þá sjálfsögðu breytingu á þskj. að fella brott ákvæði sem felur í sér lýðræði tímabundið og taka þess í stað upp lýðræði varanlega. Það voru fyrst og fremst fulltrúar Alþfl., flokks félmrh., sem lögðust alfarið gegn því að breyta þessu frv. og kosningaákvæðum þess í þá veru að lýðræði ætti að gilda í kosningum um sameiningu sveitarfélaga en ekki bara við þessar tilteknar kosningar sem er verið að lögbinda með frv. að eigi að fara fram.
    Það er dálítið merkileg reynsla að Alþfl. hefur lagst á móti lýðræðinu. Hann hefur lagst gegn því að lýðræðislegt fyrirkomulag væri fest í sessi. Flokkur hæstv. félmrh. hefur markað sér þá stefnu sem verður að segjast eins og er að er skyldust þeirri stefnu sem menn kannast við frá Austur-Evrópu. Þvergirðingshátturinn er þvílíkur að jafnvel þótt það væri meiri hluti fyrir því að mínu mati í félmn. að festa í sessi lýðræðislegt fyrirkomulag í kosningum um sameiningu sveitarfélaga þá neitaði fulltrúi Alþfl., formaður nefndarinnar, að bera málið upp til atkvæða í nefndinni og lýsti því yfir að mál væru ekki tekin út úr nefndinni nema með samþykki formanns. Alþfl. hefur innleitt í nefndarstörfum, a.m.k. í þessari nefnd, einhverja nýja útgáfu af stjórnarháttum sem ég hélt að fyrirfyndust ekki hér á Alþingi. Einræðisvald fulltrúa Alþfl. um að standa gegn breytingum sem meiri hluti er fyrir og gegn breytingum sem allir þeir sem fengu málið til umsagnar hafa lýst stuðningi við.
    Það frv. sem ég er að vitna til er frv. sem ég flutti, 301. mál, um breytingu á kosningafyrirkomulagi við sameiningu sveitarfélaga. Ég bauðst til þess að fella mitt frv. að því frv. sem hér er til umræðu og benti á að það þyrfti ekki miklar breytingar á því til þess að menn næðu saman. Það var að mínu mati meirihlutavilji fyrir því að verða við þessu. Þetta frv., sem ég flutti og fékkst ekki afgreitt út úr félmn. né

heldur fellt að þessu frv. sem hér er til umræðu, var sent út til umsagnar til nokkuð margra aðila og einróma álit allra þeirra var að mæla með samþykkt þess. Þeir aðilar sem fengu málið til umsagnar voru ýmis sveitarfélög á landsbyggðinni, auk héraðsnefnda og Sambands ísl. sveitarfélaga. Sveitarfélög á landsbyggðinni voru valin af handahófi þannig að ekki væri verið að senda umsagnir til allra sveitarfélaga landsins sem hefði verið of tímafrekt en valið af handahófi nokkur og þeim sent frv. til umsagnar.
    Hér er fyrst umsögn frá Öxnadalshreppi sem mælir með því að þessi regla verði upp tekin.
    Frá Stöðvarhreppi sem mælir líka með því að frv. verði samþykkt.
    Frá hreppsnefnd Borgarhrepps sem mælir með því að frv. verði samþykkt.
    Frá Tjörneshreppi sem mælir með því að frv. verði samþykkt.
    Frá Miklaholtshreppi sem mælir með því að frv. verði samþykkt.
    Frá Hraungerðishreppi sem mælir með því að frv. verði samþykkt.
    Frá Fellahreppi sem mælir einnig með því að frv. verði samþykkt.
    Frá Hofshreppi sem mælir líka með því að frv. verði samþykkt.
    Frá héraðsnefnd Mýrasýslu sem mælir með því að frv. verði samþykkt.
    Og frá Sambandi ísl. sveitarfélaga sem mælir með því eða er sammála því að þessi regla verði upp tekin. Samt segir hæstv. félmrh.: Nei, þetta skal ekki vera svona. Þetta skal ekki verða samþykkt, segir hæstv. félmrh. Ráðherrann varðar ekkert um það hvað þeir vilja sem málið snýr að. Það passar ekki inn í miðstýringarstefnu Alþfl. í þessum málaflokki. Það fellur ekki að þeim hugmyndum sem ráðherrann hefur um lýðræðið.
    Ástæðan fyrir því að málið lítur þó þannig út eins og það gerir að til bráðabirgða verði lýðræðislegt fyrirkomulag í þessum kosningum er ekki sú að hæstv. félmrh. barðist fyrir því. Nei, ráðherrann barðist gegn því. Ráðherrann vildi hafa annað fyrirkomulag. Hann vildi svipta einstök sveitarfélög rétti til að kjósa sjálfstætt um þetta mál. Ráðherrann var einfaldlega knúinn til samkomulags um að a.m.k. í þessum kosningum yrði lýðræðislegt fyrirkomulag. Ráðherrann var knúinn til þess nauðugur viljugur að taka upp þennan hátt af þeirri einföldu ástæðu að landsbyggðin reis upp og neitaði þessu fyrirkomulagi sem ráðherrann vildi koma á. Ég hefði talið það skynsamlegast fyrir hæstv. félmrh. sem hefur tekið þá trú að sameining sveitarfélaga sé einhver bjargvættur landsbyggðarinnar, að ganga til þess samkomulags er ég bauð upp á, að breyta ákvæðum frv. þannig að lýðræðislegt fyrirkomulag væri varanleg breyting en ekki bara tímabundin þannig að við stæðum ekki upp með það að samþykktu óbreyttu þessu frv. þá fari sumar kosningar um sameiningu sveitarfélaga fram eftir núgildandi reglum og aðrar kosningar eftir öðrum reglum. Það er ekki búandi við það fyrirkomulag að hafa tvenns konar reglur í gangi. Annars vegar ólýðræðislegar reglur sem menn hafa slysast til að samþykkja hér fyrir margt löngu, upphaflega árið 1970 og hins vegar eitthvert ákvæði til bráðabirgða sem gildir bara um tilteknar kosningar. Það sér hver maður að slík löggjöf er ekki þjóðinni samboðin. Það er ekki hægt að bjóða fólki upp á að hafa tvær útgáfur af sama málinu. Þingið verður að taka ráðin af hæstv. félmrh. í máli sem þessu og láta kröfu fólksins ráða fyrst það er ekki hægt með nokkru móti að ná samkomulagi við ráðherrann um lýðræðislegt fyrirkomulag. Það reynir á hv. þm. hvort þeir eru tilbúnir til að fylgja eftir þeim vilja allra þeirra sem um málið hafa fjallað eða hvort að þeir láta félmrh. beygja sig í þessu máli sem öðrum. Menn verða að gera það upp við sig á endanum, hversu lengi þeir ætla að beygja sig fyrir ofbeldinu, hvenær þeir ætla að rísa upp og fylgja sinni sannfæringu.
    Það er dapurlegasta stund sem ég hef átt í þingstarfi að horfa upp á menn í félmn. þar sem meiri hluti nefndarmanna var búinn að lýsa yfir stuðningi við málið, beygja sig fyrir ofbeldi formannsins. Slíkt er ekki nokkrum manni bjóðandi. Menn sem beita ofbeldi geta ekki vænst þess að þeir séu bornir á höndum í þingsölum. Þeir verða að gera sér grein fyrir því að slíkt kallar á viðbrögð, a.m.k. þau viðbrögð að segja sannleikann í málinu. Ég er ekki þannig gerður að ég þegi yfir því misrétti sem menn beita hér þegar mér ofbýður. Mér þykir sem þingmenn Sjálfstfl. í nefndinni sýni mikið langlundargeð í samstarfi við þingmenn Alþfl. í þessu máli.
    Ég vil þá víkja að þeirri skýrslu sem er forsenda þessa frv. Það er skýrsla svonefndrar sveitarfélaganefndar, lokaskýrsla nefndarinnar sem góðu heilli breyttist í flestum veigamiklum atriðum frá áfangaskýrslunni. Ég vil draga það hér fram, inn í þessa umræðu, að þau tvö þingmál sem hér eru fyrirliggjandi eru ekki það eina sem menn sömdu um. Þegar skrifað var undir efni lokaskýrslu sveitarfélaganefndar voru menn ekki bara að skrifa upp á þessi mál. Menn voru að skrifa upp á margar tillögur samtímis og ég vil rifja það upp fyrir hv. þm. hvaða atriði það eru helst sem áttu að fylgja þessu máli. Það var bara einn liður í samkomulaginu að fallast á það að það yrði lögbundið, að það yrði sett í lög að fram skyldu fara sérstakar kosningar í haust um sameiningu sveitarfélaga. Það var bara einn þáttur málsins. Hinir þættirnir voru þessir eins og fram kemur á bls. 6 í skýrslu sveitarfélaganefndar:
    Í fyrsta lagi. Að jafnhliða taki ríkið til gagngerðrar endurskoðunar umdæmamörk og verkefni umboðsvalds ríkis í héraði. Og í skýrslunni segir, með leyfi forseta: ,,Breytingar á umboðsvaldi ríkis í héraði eru ein áhrifaríkasta leiðin til þess að fjölga störfum á vegum stjórnarstofnana ríkisins á landsbyggðinni, auk þess sem slíkar breytingar eiga að leiða til betri þjónustu við fólk sem þar býr. Endurskoðun á skipan sveitarstjórnarmála í nágrannalöndunum hefur yfirleitt haldist í hendur við endurskoðun á umboðsstjórn ríkis í héraði. Hefur þetta gjarnan tengst viðleitni ríkisvaldsins til vald- og verkefnadreifingar, þ.e.

annars vegar frá ríki til sveitarfélaga og hins vegar frá stjórnarstofnunum ríkisins til umboðsvalds ríkis í héraði.``
    Um þetta átti að skila tillögum jafnhliða. Ég spyr um þetta atriði og dugir víst lítið að spyrja hæstv. ríkisstjórn því það eru tómir allir ráðherrabekkir. Hvað hefur ríkisstjórnin gert til að efna þetta atriði? Hvar eru tillögur ríkisstjórnarinnar um þetta atriði sem er veigamesta atriðið til þess að breyta þeirri öfugþróun sem verið hefur síðustu áratugi í þróun byggðar hér á landi? Hvar eru tillögur ríkisstjórnarinnar um þetta atriði sem var einn höfuðþátturinn í samkomulaginu sem menn gerðu? Það er ekki minnst á það í einu orði.
    Annað atriðið var bættar samgöngur og í skýrslu nefndarinnar segir, með leyfi forseta:
    ,,Sveitarfélaganefnd bendir á að ein af forsendum þess að stækkun sveitarfélaga leiði til bættrar þjónustu við íbúana eru greiðar samgöngur innan hinna stóru sveitarfélaga. Með greiðum samgöngum skapast betri grundvöllur fyrir rekstri margvíslegrar þjónustu sveitarfélagsins við íbúana og hún verður þeim aðgengilegri. Þá leiða greiðar samgöngur til þess að íbúarnir geta sótt atvinnu um lengri veg.``
    Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til þess að efna þetta atriði? Hvernig ætlar ríkisstjórnin að bæta samgöngur milli einstakra byggða? Hvar eru loforð hennar og fé til þeirra verkefna sem hún þarf að efna áður en menn taka ákvörðun um sameiningu?
    Það þýðir ekkert að biðja sveitarfélög á Vestfjörðum og Austfjörðum að sameinast yfir firði og fjöll nema fyrir liggi ,,konkretar`` yfirlýsingar sem staðið verður við um samgöngubætur. Eiga hreppar eins og Breiðdalsvík og Stöðvarfjörður að sameinast með þessar skriður sín í milli án þess að fyrir liggi nokkur hlutur um það hvenær samgöngurnar verða bættar? Það vita það allir að samgöngubætur eru forsenda sameiningar og eiga menn þá að greiða atkvæði í haust um sameiningu þessara sveitarfélaga og annarra án þess að ríkisstjórnin hafi nokkuð lagt fram um það hvernig hún ætlar að efna þessi fyrirheit um samgöngubætur? Það hefur ekki komið eitt orð frá hæstv. ríkisstjórn til þess að efna þetta atriði. Eiga þingmenn að fara að samþykkja einn þátt í samkomulaginu þegar hinir þættirnir eru ekki efndir eða bólar ekkert á efndum á þeim?
    Þriðji þátturinn sem var líka í þessu samkomulagi var að breyta reglum um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga þannig að það verði sett sérstakt fjármagn í sjóðinn til að standa undir kostnaði við sameiningu sveitarfélaga. Hvar eru efndirnar á þessu? Ég sé þær hvergi. Það hefur hvergi komið fram mér vitanlega af hálfu ríkisstjórnarinnar hvernig hún ætlar að efna þessi þrjú atriði önnur í samkomulaginu. Menn verða að gæta að því þegar menn gera samkomulag sem er margþætt að þá dugar ekki að taka einn lið út úr samkomulaginu og segja: Nú skalt þú standa við það, við sjáum svo til með hitt.
    Hvað ætlar hæstv. ríkisstjórn að gera til að stuðla að því að sameining sveitarfélaga geti gengið eftir með samgöngubótum? Hvað ætlar hún að gera með endurskoðun á ríkisvaldinu og hvað ætlar hún að gera með Jöfnunarsjóð sveitarfélaga? Það heyrist ekkert frá hæstv. ríkisstjórn, það kemur ekkert frá hæstv. félmrh. um efndir á þessu atriði.
    Það eina sem liggur fyrir að hæstv. félmrh. vill efna er að lögbinda einn þátt samkomulagsins, þann þátt sem á að skylda menn til að ganga til kosninga um sameiningu. Og þó það atriði geti verið ásættanlegt í samhengi við önnur þá er erfitt að líta á það sem ásættanlegt þegar hinum atriðum samkomulagsins hefur verið ýtt til hliðar.
    Ég kalla eftir svörum frá hæstv. félmrh. um efndir á þessum atriðum. Því er ekki að leyna að í mér býr mikill uggur um stefnu þessarar ríkisstjórnar í byggðamálum. Við höfum heyrt umræður um sjávarútvegsmál þar sem grundvallaratriðið í málflutningi stjórnarliða hefur verið krafan um hagræðingu. Fækka skipum, fækka vinnslustöðvum og við höfum séð drög að nýrri byggðastefnu reist á stefnu ríkisstjórnarinnar sem bætir hinu þriðja við: fækka byggðarlögunum. Það hefur enginn maður orðað þessa stefnu betur en hv. 5. þm. Norðurl. v., Vilhjálmur Egilsson, annar af tveimur formönnum tvíhöfða nefndarinnar, sem í Ríkisútvarpinu, Þjóðarsálinni, 29. apríl sl., kallaði sjávarþorp og sjávarútvegsbyggðir ,,lifandi byggðasöfn``. Það var nafnið sem þorpin úti á landi fengu frá hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni, framkvæmdastjóra Verslunarráðs Íslands, sem berst fyrir því með oddi og egg að réttur fólksins til vinnu og auðlindar verði verslunarvarningur, verði þannig úr garði gerður að það sé hægt að gefa út á hann hlutabréf, verðbréf, sem gangi kaupum og sölum í kauphöllum. Ég spyr: Til hvers í dauðanum eigum við að vera að strekkja í því að vera að sameina sveitarfélög þegar tilverugrundvöllur þeirra á að verða verslunarvarningur í kauphöll í Reykjavík?
    Menn verða að átta sig á því í heild sinni hvert menn eru að stefna og menn verða að átta sig á því hvert hæstv. félmrh. er að stefna með þessum málatilbúnaði. Og fyrir þá sem efast er nægilegt að benda þeim á að fletta upp á bls. 61 í skýrslu frá Byggðastofnun sem heitir ,,Breytt tillaga að breyttri byggðastefnu``. Þar er hið nýja Ísland teiknað upp. Þar eru afmörkuð þau svæði sem á að verja en hin eru lifandi byggðasöfn. Hin svæðin eru þau sem eru að mati hv. 5. þm. Norðurl. v. lifandi byggðasöfn.
    Og síðan ætla menn, til þess að þurfa ekki að sitja allt of lengi uppi með fólk í þessum lifandi byggðasöfnum að gera verslunarprang úr rétti þess til auðlindarinnar svo það hafi ekki lengur vinnu og flytji á eftir vinnunni hingað suður á höfuðborgarsvæðið þar sem kaupahéðnarnir munu kaupa framleiðslutækin sem öðru nafni nefnast skip.
    Hafnfirðingar meta það svo að þegar þeir gera tilboð í það að kaupa togara frá einu af þessum plássum, sem Vilhjálmur Egilsson kallar ,,lifandi byggðasafn`` og flytja þann togara suður, að þá séu þeir

að skapa 70 ný störf. Það segir líka mikið um þann hugsunarhátt sem menn eru komnir inn í í öllu þessu hagræðingarkjaftæði og sameiningarvitleysu. Að einhver skuli láta sér detta það í hug að menn séu að skapa einhver ný störf með því að taka þau frá einum og flytja þau til annars. Það er ekki mikið sköpunarverk, segi ég.
    Þetta baksvið verða menn að hafa í huga þegar þeir meta þá stefnu sem frv. þetta byggir á að menn eru að reiða til höggs á grundvelli hagfræðikenningar um hagkvæmni stærðarinnar þar sem menn hafa tekið upp trúarbrögð á þessa kenningu og trúa því að það sé allra meina bót að sameina og reka stór fyrirtæki, stór sveitarfélög, stórar einingar, það er betra heldur en smátt. Samt þrátt fyrir að þær upplýsingar liggi fyrir erlendis frá að vaxtarbroddur í nýsköpun í atvinnulífi eru þar smáfyrirtæki, smáar einingar, það er það sem menn eru að leggja áherslu á erlendis í dag, þá eru menn enn hér á Íslandi haldnir þeirri kreddu að hagkvæmni stærðarinnar sé það sem koma skuli. Og það hvarflar ekki að mér eitt augnablik, að þetta frv. um ákvæði til bráðabirgða til að knýja fram kosningu um sameiningu sveitarfélaga eigi að framkvæmast hér á höfuðborgarsvæðinu, það hvarflar ekki að mér eitt andartak. Það eru öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu á móti sameiningu. Og samband þeirra hefur lýst yfir sérstakri andstöðu við sameiningu, enda verður ekki lögð fram nein tillaga um sameiningu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Það er alveg ljóst og vita allir sem vilja. Menn eru einfaldlega að búa til frv. um landsbyggðina. Það er það sem menn vilja gera, það er að fækka sveitarfélögum á landsbyggðinni.
    Það gæti út af fyrir sig verið álitaefni ef eitthvað fylgdi með sem maður hefði trú á að styrkti tilveru þessara byggða. En það fylgir ekkert með. Þvert á móti kemur hið gagnstæða fram í formi skýrslu frá Byggðastofnun sem unnin er á grundvelli stefnu núv. ríkisstjórnar. Það á að grisja. Það er of dýrt landið, að mati núv. ríkisstjórnar. Að mati Sjálfstfl. eru allt of mörg byggðarlög á Íslandi. Þetta er flokkurinn sem sagði fyrir síðustu alþingiskosningar að kjörorð sitt væri byggð með byggð. Og ég spyr: Hvaða byggð, með hvaða byggð? Mér sýnist að framkvæmdin sé þannig að slagorðið hefði átt að vera eyðibyggð með eyðibyggð. Það er það sem Sjálfstfl. er í raun að gera, ekki vegna þess að menn séu svo rótarlegir í hugsun eða illa innrættir, heldur vegna hins að menn eru fastir í trúarkenningum hagkvæmnisstærðarinnar. Er þessum mönnum ekki ljóst að fyrir skömmu síðan var offramboð á verslunar- og skrifstofuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu sem nemur 200 þús. fermetrum, 20 hekturum lands, bara í verslun. Er það hagkvæmni stærðarinnar? Er það þess vegna sem við þurfum að fækka sjávarplássunum til að fá meiri arð út úr sjávarútveginum til að borga þessa offjárfestingu? Það skyldi þó ekki vera, að hinir hagfræðimenntuðu menn, sem ríða nú röftum hér um þjóðfélagið, séu að kreista safann úr sjávarútveginum til að standa undir offjárfestingunni hér í ýmsum atvinnugreinum. ( StG: Hvað með þróunarsjóðinn?) Og svo ekki sé nú minnst á það sem hv. þm. Stefán Guðmundsson minnir á að fara að setja upp sérstakan þróunarsjóð um landsbyggðina, svo að hún þróist rétt, svo að það sé hægt með svipuðum hætti að úrelda. Það væri fróðlegt, ef hæstv. forsrh., yfirmaður byggðamála, vildi upplýsa okkur um það hver er prísinn á einu plássi. Hvað ætlar þróunarsjóður að borga mikið fyrir eitt stykki sjávarútvegspláss? Auðvitað fást engin svör því núv. ríkisstjórn er ekkert að tala allt of skýrt um sína stefnu. Hún byggir það á að reyna að blekkja fólk eins og kostur er.
    Hins vegar er ljóst á niðurstöðum skoðanakannana að svo virðist sem þjóðinni sé farið að verða ljóst hvert stefnir. Þær kannanir benda til þess að ríkisstjórnarflokkurinn eigi í miklum erfiðleikum á landsbyggðinni. Og hægri armurinn í þeim ríkisstjórnarflokki, sem í daglegu tali gengur undir nafninu Alþýðuflokkur er við það að hverfa. Hann er í útrýmingarhættu á landsbyggðinni. Það er ljóst að fólk hefur gert sér grein fyrir því undir niðri hvert menn eru að stefna.
    Ég hlýt að lýsa eftir efndum á þeim atriðum sem eru hluti af því samkomulagi sem menn gerðu í sveitarfélaganefnd. Það er ekki hægt að skiljast svo við þessa umræðu að hæstv. félmrh. upplýsi ekki þing og þjóð um það hvað hæstv. ríkisstjórn ætlar að gera til að standa við samkomulagið. Og það er full ástæða til þess að knýja ráðherrann til að koma hingað því það fyrsta sem ráðherrann sagði eftir að búið var að skrifa undir samkomulagið og var þó ekki liðinn dagurinn að kvöldi þegar ráðherrann kom í útvarpið og sagði: Ef þessir menn á landsbyggðinni verða ekki nógu góðir og samþykkja ekki sameiningu sveitarfélaga, þá er ekkert um annað að ræða en setja lög og hækka lágmarksfjölda íbúa í sveitarfélögum og leggja hana niður með lögum. Og ég spyr: Er búandi við slíkar hótanir að loksins þegar menn ná samkomlagi í þessu mikla máli, þá er ekki liðinn dagurinn á enda þegar ráðherrann fer að boða ofbeldi ef menn hlýða ekki og ganga ekki í réttina eins og fyrirskipað er?
    Virðulegi forseti. Ég er að hugsa um að láta þetta duga að sinni um þetta mál sem eins og heyra má að ég met þannig að fjalli ekki bara um þetta afmarkaða efni sem þingmálið fjallar um, heldur um miklu víðtækara efni eins og fram kemur í skýrslu sveitarfélaganefndar og er hluti af stærri heild sem menn verða að greina og átta sig á hvert raunverulegt markmið ríkisstjórnarinnar er. Ég er ekki tilbúinn til að taka af mönnum á landsbyggðinni þau vopn sem menn þó enn hafa og geta borið fyrir sig í því stríði sem enn stendur yfir um tilverurétt einstakra staða.
    Til þess að geta stutt leið af þessu tagi sem hér er lagt til, þá verða menn að efna allt samkomulagið. Menn verða að sýna á spilið. Það dugir ekki að taka eitt spilið út úr en henda svo stokknum. Og ég vænti þess, virðulegi forseti, að hæstv. félmrh. sem ekki hefur séð ástæðu til þess að vera hér í þingsal fremur venju og fremur en aðrir ráðherrar, svari þeim fyrirspurnum sem fram hafa verið bornar bæði

af mér og hv. 2. þm. Vestf. Þó að lýðræðið sé skilið á mismunandi veg af mér og hæstv. félmrh., þá hlýtur þó ráðherrann að sjá sóma sinn í að svara þeim fyrirspurnum sem til hennar er beint.