Tollalög

20. fundur
Mánudaginn 14. september 1992, kl. 14:57:35 (687)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Fyrst út af ytri tollunum. Það sem ég sagði hér hefur ekkert með Evrópska efnahagssvæðið að gera. Það er almennt álit og hefur lengi verið álit margra þeirra sem fást við samninga við önnur ríki að það eigi ekki að keyra niður tolla gagnvart ríkjum nema við höfum þegar gert við þá viðskiptasamninga. Það sjónarmið er því ekki nýtt og hefur í sjálfu sér ekkert með Evrópska efnahagssvæðið að gera. Það er sjónarmið margra þeirra sem standa í samningaviðræðum við önnur ríki af hálfu Íslendinga. Sumir þeirra eru eðli máls samkvæmt hjá utanrrn.
    Í öðru lagi vegna verðjöfnunargjaldanna vil ég einungis segja að ég vísa til utanrrn. og þeirra sem gerðu samninginn um lögfræðilega útlistun á samningnum. Nefndin sem vinnur að málinu er að gera tillögur um hvernig staðið skuli að innheimtu þessara gjalda. Vinnan er hins vegar ekki komin á það stig að enn þá sé hægt að meta hve há gjöld verða lögð á einstakar vörutegundir. Það þarf t.d. að reikna gjald byggt á hráefnainnihaldi fyrir hvern tollflokk auk þess sem innflytjendum verður gefinn kostur á að láta reikna út gjald fyrir hverja vörutegund. Það er það sem tefur starfið nú um hríð. Ég vonast til að frekari upplýsingar geti komið til nefndarinnar um leið og því starfi er lokið. Að öðru leyti stendur það sem er mín skoðun og kemur fram í 2. gr. frv. og í athugasemdunum við 2. gr.