Atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

24. fundur
Föstudaginn 18. september 1992, kl. 11:12:35 (1025)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (frh.) :
    Virðulegi forseti. Þegar ég frestaði ræðu minni í fyrradag hafði ég grein fyrir mati mínu á áhrifum EES-samningsins á vinnumarkaðinn og flæði útlendinga til landsins. Einnig gerði ég ítarlega grein fyrir öryggisákvæðinu og hugsanlegri beitingu þess, ráðningarkjörum útlendinga og eftirliti með þeim og hvernig mætti koma í veg fyrir undirboð í launum þannig að útlendingar búi ekki við lakari kjör en Íslendingar í sams konar störfum. Ítarleg grein var gerð fyrir skipan nefndar með aðild aðila vinnumarkaðarins sem fær víðtækt umboð til að fjalla um öll þau svið er tengjast framkvæmd ákvæða í frjálsum atvinnu- og búseturétti launafólks. Í máli mínu voru einnig gerð skil aðgangi útlendinga að stéttarfélögum og réttindi sem þeir njóta, farið yfir hvernig upplýsingum um atvinnuþátttöku og laus störf verði komið á framfæri milli landanna ásamt því að fjalla ítarlega um ákvæði sem tengjast störfum í opinberri þjónustu. Var ég komin þar í máli mínu að gera ítarlega grein fyrir ákvæðum reglugerðar 1612 um atvinnu og fjölskyldu launþega, atvinnuframboð og atvinnuumsóknir og ákvæðum um evrópsku samráðsskrifstofuna sem á að samræma ráðstafanir vegna atvinnutækifæra og atvinnumsókna, en henni er m.a. ætlað að taka saman þær upplýsingar sem um getur í 14. og 15. gr. ásamt niðurstöðum kannana og rannsókna skv. 13. gr. í því skyni að varpa ljósi á gagnlegar staðreyndir um fyrirsjáanlega þróun á vinnumarkaði EES. Þessi verkefni og fleiri eru nánar tilgreind í 22. og 23. gr.
    Í III. hluta reglugerðarinnar eru ákvæði um nefndir sem eiga að tryggja nána samvinnu milli aðildarríkjanna í málefnum er varða frjálsa flutninga launþega og atvinnumál þeirra. Um ráðgjafarnefndina er fjallað í 24.--31. gr. Samkvæmt 24. gr. ber ráðgjafarnefndin ábyrgð á að aðstoða framkvæmdastjórnina við að athuga hvers konar vafamál sem kunna að koma upp við framkvæmd sáttmálans og varða ferlsi launafólks til flutninga og störf þeirra. Í 25. gr. er tilgreint nánar hvað það er sem nefndin ber einkum ábyrgð á. Í 26. gr. er kveðið á um skipan nefndarinnar en hvert aðildarríki á sex fulltrúa.
    Um umsjónarnefndina er fjallað í 32.--37. gr. Samkvæmt 32. gr. ber umsjónarnefndin ábyrgð á að aðstoða framkvæmdastjórnina við að undirbúa og fylgja eftir öllum formsatriðum og ráðstöfunum sem miða að því að koma þessari reglugerð og viðbótarráðstöfunum í framkvæmd. Í 33. gr. er kveðið nánar á um hvað nefndin eigi einkum að bera ábyrgð á og í 34. gr. er kveðið á um skipan nefndarinnar. Aðrar greinar þessa máls kveða nánar á um skipan og meðferð mála hjá nefndinni.

    Í IV. og síðasta hluta reglugerðarinnar eru ýmis bráðabirgða- og lokaákvæði. Bæði 40. og 41. gr. gilda ekki fyrir EES samkvæmt viðauka V í EES-samningnum og 38. og 39. gr. fjalla um áframhaldandi málsmeðferð annars vegar af hálfu samráðsskrifstofunnar og hins vegar af hálfu ráðgjafar- og umsjónarnefndarinnar gildi áfram, m.a. þar til framkvæmdastjórnin hefur komið á samræmdu heildarkerfi sem greint er frá í 2. mgr. 15. gr.
    48. gr. reglugerðarinnar gildir ekki um EES samkvæmt viðauka V í EES-samningnum. Að öðru leyti er hér um sundurleit ákvæði að ræða sem flest hafa takmarkað gildi fyrir Ísland. Þó er lokaákvæði 42. gr. e.t.v. mikilvægt þar sem kveðið er á um að reglugerðin gildi ekki um launþega frá löndum utan Evrópu sem starfa í aðildarríkjunum samkvæmt sérstökum samningum í einstökum ríkjum.
    Ég hef í ræðu minni fyrst og fremst fjallað um frjálsan atvinnu- og búseturétt, ýmis félagsmál sem beinlínis tengjast þessum réttindum gegnum lögfestingu á reglugerð 1612/68. Ég tel rétt að víkja nokkrum orðum að þeim hluta samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sem tekur til annarra félagsmála jafnvel þótt mörg þeirra verði og hafi verið rædd ítarlega undir öðrum dagskrárliðum áður, enda tengjast þessi málefni atvinnu- og búseturéttindum með einum eða öðrum hætti. Hér er um að ræða skuldbindingar samkvæmt tilskipun EB á sviði almannatrygginga, öryggis- og hollustuháttum á vinnustöðum, einnig um tilskipanir um ýmis réttindi launafólks eins og hópuppsagnar, réttarstöðu launafólks við eigendaskipti á fyrirtækjum, vernd launa við gjaldþrot, jafnréttismál, samþykktir um málefni fatlaðra og samstarf á grundvelli yfirlýsingar Evrópubandalagsins um grundvallarréttindi launafólks. En veigamesta forsendan fyrir því að fólk geti farið á milli landa í atvinnuleit til að bæta stöðu sína er að það njóti sömu félagslegra réttinda og innlendir. Evrópubandalagið hefur lagt mikla vinnu í almannatryggingar. Markmiðið hefur ekki verið að samræma reglur, enda hafa þau Evrópulönd sem hér um ræðir þróað með sér mjög ólík kerfi. Takmarkið hefur verið að fólk glati ekki réttindum til almannatrygginga. Aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu skuldbinda sig til að tryggja að flutningur íbúa þessara ríkja hafi ekki áhrif á rétt þeirra til almannatrygginga. Þetta er aðallega tryggt með fernum hætti þannig að öryggisnet það sem almannatryggingar veita bresti hvergi þó fólk fari á milli landa í atvinnuleit.
    Atvinnuleysisbætur skipta einnig miklu máli. Þær geta ríkisborgarar í samningsríkjum EES fengið á meðan þeir eru í atvinnuleit í öðrum ríkjum. Á þann hátt geta þeir framfleytt sér meðan á atvinnuleit stendur. Svo virðist sem reglur um skráningu atvinnulausra séu mun strangari hér á landi en víðast hvar annars staðar. Með því að krefjast vikulegrar skráningar getur Íslendingur sem er atvinnulaus naumast farið úr landi í atvinnuleit öðruvísi en taka þá áhættu að falla út af atvinnuleysisskrá. Víða um lönd nægir að skrá sig mánaðarlega eða jafnvel á þriggja mánaða fresti. Það helgast sjálfsagt af langvarandi atvinnuleysi.
    Í viðræðunum við Evrópubandalagið var vakin athygli á þessari sérstöðu Íslands og hvort nauðsynlegt væri að breyta þessu þannig að það væri meira í samræmi við það sem tíðkast í Evrópu. Engar óskir komu fram um það frá Evrópubandalaginu, enda almennt gert ráð fyrir því að réttur til atvinnuleysisbóta sé mál hvers lands þó með því skilyrði að ekki sé um mismunun innlendra og útlendra að ræða. Þegar athygli EB var vakin á því að stéttarfélagsaðild væri skilyrði fyrir því að fá greiddar atvinnuleysisbætur var greinilegt að því skilyrði áttu menn ekki að venjast. Hins vegar var það sama uppi á teningnum og með atvinnuleysisskráninguna, engar athugasemdir komu fram frá Evrópubandalaginu um að þetta brjóti í bága við reglur EB. Þess má hins vegar geta að Evrópuráðið hefur ítrekað bent á að það sem þeir kalla skylduaðild að verkalýðsfélögum á Íslandi brjóti í bága við ákvæði félagssáttmála Evrópuráðsins um félagafrelsi.
    Í greinargerð af hálfu íslenskra stjórnvalda hefur aldrei verið fallist á að um skylduaðild að verkalýðsfélögum væri að ræða á Íslandi. Vissulega fylgdu því mikil réttindi að vera í verkalýðsfélögum m.a. vegna forgangsréttarákvæða í kjarasamningum en hvergi væri að finna í lögum skyldu til að vera í verkalýðsfélögum. Þó má segja að lögin um atvinnuleysistryggingar, sem útiloka ófélagsbundið fólk frá atvinnuleysibótum, komi mjög nálægt því. Ég vil koma þessu að þar sem ákvæði EB eru ekki sambærileg um þetta atriði og félagssáttmáli Evrópuráðsins. Aðaláherslan af hálfu samningamanna Íslands í þessu sambandi hefur verið á það atriði að útlendingar eigi sama aðgang að stéttarfélögum hér á landi og Íslendingar. Meðan engar slíkar hindranir væru fyrir hendi gæti það ekki flokkast sem mismunun byggð á þjóðerni að aðild að stéttarfélögum á Íslandi væri forsenda fyrir ákveðnum réttindum. Í væntanlegum samningi um Evrópska efnahagssvæðið er að finna í yfirlýsingum frá ríkisstjórnum EFTA-ríkjanna um að þau vilji eiga samstarf við EB-ríkin við að hrinda í framkvæmd þeim markmiðum sem sett eru fram í yfirlýsingum EB um félagsleg grundvallarréttindi launafólks frá 9. des. 1989. Því er rétt að hyggja að þeim atriðum sem fjallað er um í yfirlýsingunni en þeim er öllum ætlað að bæta stöðu launafólks.
    Ég vil þá fyrst vekja athygli á nokkrum atriðum í yfirlýsingu EFTA-ríkjanna um yfirlýsingu EB um félagsleg grundvallarréttindi launafólks, en þar kemur m.a. fram að stuðla þarf að framförum á félagssviðinu með fullu samráði við aðila vinnumarkaðarins. Þar er enn fremur lýst yfir af ríkisstjórninni að styðja megingreglur og grundvallarréttindi sem ákveðin eru í stofnskrá um félagsleg grundvallarréttindi launafólks frá 9. des. 1989. En ég vil vekja sérstaklega athygli á lokamálsgrein yfirlýsingarinnar en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Þeim er ljóst að taka verður viðeigandi tillit til ólíkra innlendra reglna, einkum varðandi hlutverk vinnumarkaðarins og kjarasamninga þegar slíkum réttindum er framfylgt.``
    Þetta felur í sér að virða ber þær hefðir og reglur sem gilda í samskiptum aðila vinnumarkaðarins í hverju landi og þar með að virða ákvæði kjarasamninga svo framarlega sem þau fela ekki í sér kynbundinn eða þjóðernislegan mismun. Forgangsréttarákvæðin í kjarasamningum mismuna ekki einstaklingum vegna kynferðis eða þjóðernis. Mismununin byggist eingöngu á því frjálsa vali einstaklinga að standa utan þeirra stéttarfélaga sem hafa slík forgangsréttarákvæði. Að því er best verður séð er það því fyrst og fremst á valdi aðila vinnumarkaðarins hér á landi að breyta þessum forgangsréttarákvæðum.
    Nokkuð hefur verið fjallað um yfirlýsingu Evrópubandalagsins um grundvallarréttindi launafólks á sviði félagsmála og framkvæmdaáætlun um að hrinda markmiðum hennar í framkvæmd. Enda þótt yfirlýsing EB um félagsleg grundvallarréttindi launafólks sé ekki hluti af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið gefur hún til kynna stefnu Evrópubandalagsins á sviði félagsmála. Í aðfararorðum kemur fram að til að hrinda markmiðum hennar í framkvæmd þurfi að setja ný EB-lög sem tryggi rétt farandverkamanna til almannatrygginga um frelsi til að flytjast á milli landa, um vinnuskilyrði, um öryggi og hollustu á vinnustöðum og um starfsmenntun. Af yfirlýsingunni má ráða að bandalagið hyggst leggja aukna áherslu á velferðarmál og réttindamál launafólks. Af hálfu talsmanna EB hefur verið lögð sérstök áhersla á nokkur atriði í yfirlýsingunni, t.d. samræmingu vinnutíma. Mismunandi reglur aðildarríkjanna á þessu sviði gætu leitt til misjafnrar samkeppnisstöðu. Einnig hefur verið bent á rétt starfsmanna til upplýsinga og samráðs varðandi starfsemi evrópskra fyrirtækja. Einnig er dregið fram mikilvægi starfsmenntunar í atvinnulífinu fyrir vöxt og viðgang fyrirtækja og gagnkvæma viðurkenningu prófskírteina.
    Eitt af því sem e.t.v. er rétt að vekja athygli á í yfirlýsingu EB er ákvæðið um félagafrelsi. Í félagssáttmála Evrópu og samþykktum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um félagafrelsi er kveðið á um að aðildarríki skuldbindi sig til að tryggja rétt manna til að stofna félög til að berjast fyrir sameiginlegum hagsmunamálum. Í þessum alþjóðasamþykktum er ekki kveðið á um rétt manna til að standa utan félaga. Þetta er hins vegar gert í yfirlýsingu Evrópubandalagsins um grundvallarréttindi launafólks. Þetta er hið svokallaða neikvæða félagafrelsi. Enda þótt fólki sé ekki meinað lögum samkvæmt að standa utan stéttarfélaga hér á landi þá gera bæði forgangsréttarákvæðin og margvíslegir hagsmunir launafólks það að ýmsu leyti ómögulegt.
    Hver yrðu réttindi launafólks í slíkum tilvikum? Það yrðu einungis þau lágmarksréttindi sem tryggð eru lögum samkvæmt og með persónubundnum ráðningarsamningum. Hins vegar erum við ekki einir um að hafa slík ákvæði í kjarasamningum. Samkvæmt dönskum lögum eru slík ákvæði ekki ólögleg en danska vinnuveitendasambandið hefur staðið gegn því að slík ákvæði séu í kjarasamningum þannig að þau eru á undanhaldi þar.
    Varðandi túlkunina á stéttarfélagsaðildinni vil ég að lokum leggja áherslu á að forgangsréttarákvæði hafa komið til í frjálsum samningum aðila vinnumarkaðarins og eiga áfram að lúta slíkum samningum aðila vinnumarkaðarins. Þau má hvorki afnema né staðfesta með lögum. Ef alþjóðasamþykktir eða dómar sem Ísland gengst undir ganga gegn slíkum ákvæðum er eðlilegast að aðilar vinnumarkarins taki það til eftirbreytni. Hins vegar fela forgangsréttarákvæði ekki í sér mismunun byggða á þjóðerni og stéttarfélag í hlutaðeigandi sveitarfélagi er opið ölum þeim er þangað flytja. Hinn erlendi ríkisborgari er því algerlega jafnsettur Íslendingum sem flytja þarf lögheimili sitt inn í tiltekið sveitarfélag til að vera gjaldgengur til vinnu á starfssvæði hlutaðeigandi verkalýðsfélags.
    Í þessu sambandi vil ég hins vegar vekja athygli á því að sveitarfélög hér á landi eru of mörg og flest verkalýðsfélög ná aðeins yfir eitt sveitarfélag. Ef sameining sveitarfélaga hér á landi fær aukinn hljómgrunn mun starfssvæði verkalýðsfélaga einnig stækka með sameiningu þeirra og að því leyti draga úr helstu ókostum staðbundinna forréttindaákvæða sem takmarka hreyfanleika vinnuafls.
    Um vinnuumhverfi er fjallað í V. hluta samningsins um Evrópskt efnahagssvæði. Í 66. gr. lýsa samningsaðilar því yfir að þeir séu sammála um að stuðla að bættum starfs- og lífskjörum launafólks. Í 67. gr. er tekið fram að aðilar skuli leggja sérstaka áherslu á að bæta vinnuumhverfi með tilliti til öryggis og heilsu starfsmanna. Þetta ber að gera með því að setja lög eða reglur sem hafa að geyma ákvæði um lágmarkskröfur. Sérstaklega er tekið fram að slíkar lágmarkskröfur skuli ekki vera því til fyrirstöðu að samningsaðilar láti strangari reglur um vinnuumhverfi halda gildi sínu. Við samanburð á íslenskum reglum og reglum EB hefur komið í ljós að Íslendingar standa allvel að vígi í sambandi við þann þátt samningsins er lýtur að öryggi og hollustuháttum á vinnustöðum. Lög okkar um öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum stangast ekki á við ákvæði EB. Vandinn liggur fyrst og fremst í því að EB er á ýmsum sviðum komið lengra en við í setningu reglugerða sem taka til ákveðinna þátta vinnuumhverfismála. Sem dæmi um þetta má benda á reglur um notkun öryggisskilta á vinnustöðum eða reglur um notkun starfsmanna á persónuhlífum á vinnustað. Enn sem komið er hafa reglur um þetta efni ekki verið settar á Íslandi. Nefna mætti fjölmörg fleiri dæmi því gert er ráð fyrir að á Evrópska efnahagssvæðinu gildi um 16 EB-tilskipanir sem taki til vinnuumhverfismála. Hér er því verk að vinna sem að mínu mati leiðir til bætts umhverfis á íslenskum vinnustöðum.
    Jafnréttismál er málaflokkur sem rík áhersla er lögð á af hálfu talsmanna Evrópubandalagsins. Á fundum sem fulltrúar félmrn. sátu í tengslum við samningaviðræður um Evrópska efnahagssvæðið kom skýrt fram að bandalagið lítur á jafnréttismálin sem mannréttindamál. EB hefur sett nokkrar relgur á sviði jafnréttis kvenna og karla sem byggist á 119. gr. Rómarsáttmálans. Mikilvægasta reglan á þessu sviði er tilskipan um samræmingu laga aðildarríkja EB varðandi grundvallarreglu um jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf. Í 4. og 5. gr. er að finna tvö mikilvæg ákvæði. Í 4. gr. er því beint til aðildarríkjanna að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að hægt sé að lýsa dauð og ómerk ákvæði í kjarasamningum sem brjóta í bága við grundvallarregluna um jöfn laun. Í 5. gr. er því beint til aðildarríkjanna að þau verndi þann sem höfðar mál á grundvelli reglunnar um jöfn laun fyrir því að honum verði sagt upp starfi. Markmið þessara ákvæða er að tryggja sömu samningsstöðu aðila. Talsmenn EB hafa vakið athygli á tengslum 119. gr. Rómarsáttmálans sem m.a. hefur að geyma regluna um jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf og tilskipun um sama efni. Ákvæðin taka til fleiri sviða en einungis kjarasamninga.
    Í tilskipun 76/207 eru t.d. ákvæði um jafnrétti til vinnu, starfsmenntunar og stöðuhækkana og vinnuskilyrða. Enda þótt Alþingi hafi sl. vor samþykkt ný lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla eru reglur EB að ýmsu leyti afdráttarlausari. T.d. er ekki að finna afdráttarlausa heimild í jafnréttislögunum sem lýsa dauð og ómerk ákvæð í kjarasamningum sem brjóta í bága við grundvallarregluna um jöfn laun. Hins vegar er talið að ákvæði laganna og laga nr. 85/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingar lífeyrisréttinda leiði til þeirrar niðurstöðu. Hert er á þessari reglu með 5. gr. frv. til laga um breytingar á lögum um vinnumarkaðsmál vegna aðildar að samningnum um Evrópskt efnahagssvæði sem er 22. málið á þessu þingi. Í einni tilskipun er fjallað um jafnrétti til starfsmenntunar sem er eitt af þeim atriðum sem Evrópubandalagið telur að muni gegna miklu hlutverki í stefnu þess í vinnumarkaðsmálum. Fyrstu lögin um starfsmenntun í atvinnulífinu voru samþykkt á Alþingi sl. vor.
    Ég vil geta þess að framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins hefur lagt fram tillögu eða tilskipun um öfuga sönnunarbyrði í ágreiningsmálum sem snerta launamismun með tilliti til kynferðis. Í þessari tilskipun felst að atvinnurekandi verður að sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði liggi til grundvallar mun á launagreiðslu fyrir hliðstæð störf. Búast má við að tilskipunin gildi á Evrópska efnahagssvæðinu nái hún fram að ganga.
    Samkvæmt íslensku jafnréttislögunum gildir öfug sönnunarbyrði fyrir kærunefnd jafnréttismála. Atvinnurekandi þarf því að sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi ráðið vali á umsækjanda.
    Gert er ráð fyrir að á sviði vinnumarkaðsmála gildi þrjár tilskipanir. Ein af þeim er tilskipun ráðsins frá 17. febr. 1975 um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um hópuppsagnir. Í henni eru settar ákveðnar reglur sem atvinnurekendur þurfa að fylgja þegar hópi fólks er sagt upp störfum, m.a. er um að ræða samráð við starfsmenn og tilkynningar til opinberra aðila. Þessi tilskipun EB kallar á lagasetningu hér vegna þess að slíkar reglur hafa ekki gilt hér á landi nema að litlu leyti.
    Sama gildir um vernd réttinda starfsmanna við sölu, leigu og samruna fyrirtækja þó réttindi margra íslenskra starfsmanna hafi að nokkru verið tryggð með bókun við kjarasamninga VSÍ og ASÍ frá 1. febr. 1990. Í tilskipuninni er m.a. kveðið á um að ráðningakjör starfsmanna eigi ekki að breytast við aðilaskiptin sem slík. Slíkar breytingar eru háðar öðrum forsendum, þ.e. kjarasamningum o.fl. Uppsagnir starfsmanna eru ekki heimilar nema fyrir liggi sérstakar tilgreindar ástæður. Sama gildir um breytingar á stöðu trúnaðarmanna.

    Frv. til lögfestingar á efni tilskipunarinnar verður lagt fyrir Alþingi fljótlega.
    Þriðja tilskipunin er um vernd launa við gjaldþrot atvinnurekenda. Ekki er gert ráð fyrir að breyta þurfi íslenskum lögum til samræmis við þessa tilskipun.
    EB hefur gert ýmsar samþykktir sem snerta málefni fatlaðra. Þegar á heildina er litið er ekki gert ráð fyrir að breyta þurfi íslenskum lögum eða reglugerðum komi til aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Gert er ráð fyrir að EFTA-ríkin taki þátt í samstarfsverkefnum EB á þessu sviði, t.d. verkefni sem byggir á yfirlýsingu EB frá 24. júlí 1986 um vinnumál fatlaðra.
    Virðulegi forseti. Ég vil ekki gera lítið úr því að Ísland geti verið eftirsóknarvert út frá atvinnulegu tilliti. Enda þótt horfurnar séu ekki mjög bjartar sem stendur þá verður hins vegar að hafa í huga að frelsi sem felst í samningum um Evrópskt efnahagssvæði tryggir mönnum aðeins réttinn til að leita að atvinnu, ef störfin eru ekki fyrir hendi verða útlendingarnir að fara aftur úr landi og hafa þá í reynd verið eins og ferðamenn hér og skapað okkur tekjur sem slíkir.
    Virðulegi forseti. Ég vil leggja til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. félmn.