Sveigjanlegur vinnutími

28. fundur
Fimmtudaginn 08. október 1992, kl. 14:55:04 (1205)

     Flm. (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um sveigjanlegan vinnutíma sem er að finna á þskj. 74. Flm. ásamt mér eru hv. þingkonur Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, Kristín Ástgeirsdóttir og Kristín Einarsdóttir. Þessi tillaga er nú flutt hér í annað sinn, nú í breyttri útgáfu. Tekið er tillit til nokkurra ábendinga sem fram komu í umsögnum um tillöguna á vorþingi 1992. Mikilvægasta breytingin er sú að í tillögunni er nú valin sú leið að koma á sveigjanlegum vinnutíma hjá ríkisstofnunum eftir því sem kostur er. En þeirri aðgerð er jafnframt ætlað að hafa þau áhrif að unnt sé að meta kosti og galla sveigjanlegs vinnutíma. Jafnframt er í till. leitað leiða til að taka málið upp á hinum almenna vinnumarkaði eftir því sem kostur er.
    Tillögutextinn með þessum breytingum hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir því í samráði við félög opinberra starfsmanna að tekinn verði upp sveigjanlegur vinnutími hjá ríkisstofnunum eftir því sem við verður komið. Jafnframt beiti félagsmálaráðherra sér fyrir því að teknar verði upp viðræður milli ráðuneytisins og aðila vinnumarkaðarins um möguleika á því að boðið verði upp á sveigjanlegan vinnutíma í sem flestum atvinnugreinum.``
    Í framsögu minni í þessu máli sl. vetur drap ég á nokkur atriði er ég tel rétt að ítreka nú og fylgja eftir. Að öðru leyti vil ég vísa í greinargerð með tillögunni. Fyrst vil ég ítreka það sjónarmið tillöguflytjenda að með sveigjanlegum vinnutíma er átt við að vinnutími byggist á samkomulagi starfsmanns og vinnuveitanda. Atvinnurekandi og starfsmaður geri samning um vinnutíma eftir þörfum starfsmannsins innan þess ramma sem fyrirtæki vinnuveitanda eða stofnanir hafa svigrúm til. Mikilvægt er að starfsmaður verði ekki þvingaður til að vinna á óeðlilegum vinnutíma í skjóli ákvæða um sveigjanlegan vinnutíma. Þetta tel ég afskaplega mikilvægt að árétta hér. Sveigjanlegur vinnutími á að mínu mati einungis rétt á sér að slíkt samkomulag sé fyrir hendi og þess vegna sýnist mér ekki rétt að njörva niður skilgreiningu á sveigjanlegum vinnutíma í greinargerð með tillögunni. Það hlýtur að vera háð aðstæðum á hverjum vinnustað fyrir sig.
    Ég tek undir með þeim sem bent hafa á að sveigjanlegur vinnutími mun ekki einn sér bæta aðstöðu launþega, fleira þarf að koma til. Með vaxandi atvinnuleysi ætti nú að vera lag til að ræða í alvöru styttingu vinnutíma. Slíkt má að sjálfsögðu ekki verða tilefni til kjaraskerðingar. Nógu erfitt er að framfleyta fjölskyldum á þeim dagvinnulaunum sem í boði eru. Í tengslum við þessa þáltill. mun verða flutt önnur tillaga um aðgerðir til styttingar vinnutíma nú mjög bráðlega.
    Langur vinnudagur hefur allt of lengi verið hlutskipti flestra Íslendinga. Sumpart vegna þess að aðeins með gífurlegri yfirvinnu hefur verið unnt að ná endum saman fyrir venjulegt taxtavinnufólk. En sumpart vegna þess að samfélagið hefur þurft á öllum vinnandi höndum að halda. Jafnframt hefur ýmis félagsleg þjónusta, svo og barnagæsla og umönnun aldraðra í heimahúsum, verið af skornum skammti. Skóladagur grunnskólabarna er stuttur og sundurslitinn og það virðist ekki hilla undir neina varanlega góða lausn á því þrátt fyrir viðleitni á nokkrum stöðum. Samverustundir fjölskyldunnar eru fáar í þeirri vinnuánauð sem barnafjölskyldur búa oftast við. Það er hlutskipti flestra fjölskyldna að þurfa að festa kaup á húsnæði á fyrstu búskaparárunum þar sem leigumarkaður er takmarkaður og mjög ótryggur. Nokkuð algengt er að fólk reyni að laga vinnutíma sinn að fjölskyldunni en svigrúm til þess er oft mjög lítið miðað við núverandi aðstæður. Oftast eru það konur sem taka að sér að vinna sundurslitinn vinnudag vegna fjölskylduaðstæðna. Nokkuð algengt er að konur þurfi að taka á sig aukavinnu á kvöldin og um helgar til að geta jafnframt sinnt ungum og öldnum fjölskyldumeðlimum. Það er hins vegar fátíðara að karlmenn reyni að laga vinnutíma sinn að þörfum fjölskyldunnar. Oft er skilningur vinnuveitenda lítill á því að karlmenn þurfi að taka tillit til þarfa fjölskyldunnar er þeir skipuleggja vinnutíma sinn. Þannig verður ekki einungis sakast við karlmenn að þessu leyti. En þeir virðast heldur ekki hafa þrýst á að úr verði bætt. A.m.k. þekki ég ekki nein sérstök dæmi þess. Hins vegar er mér kunnugt um að það eru ýmsir sem telja að það sé að mörgu leyti óviðunandi að hafa ekki þetta svigrúm.
    Verði sveigjanlegur vinnutími að veruleika eru meiri líkur á því að unnt verði að kalla alla, feður jafnt sem mæður til ábyrgðar um nauðsynlega samveru fjölskyldunnar einkum á þeim árum þegar börnin eru ung.
    Mig langar að grípa niður í lok greinargerðar með þessari þáltill., með leyfi hæstv. forseta, og koma nokkrum upplýsingum á framfæri:
        ,,Ýmsar kannanir hafa verið gerðar á vinnutíma Íslendinga. Í þessum könnunum hefur fyrst og fremst verið spurt um afstöðu fólks til lengdar vinnutíma en sjaldan um sveigjanlegan vinnutíma. Á þessu eru þó til undantekningar. Í jafnréttiskönnun Bandalags háskólamanna frá því í desember 1989 eru könnuð viðhorf til sveigjanlegs vinnutíma. Flestir (62,4% karla og 63,6% kvenna) telja vinnutíma sinn of langan fyrir fólk með börn og fjölskyldu. En það er þó athyglisvert að sjá hve margir, einkum konur, telja að sveigjanlegur vinnutími vegi einnig þungt með tilliti til fjölskyldumála. 34,6% kvenna og 25,5% karla segjast sammála eða frekar sammála fullyrðingunni: ,,Það er frekar ósveigjanlegur vinnutími heldur en langur vinnudagur í sjálfu sér sem skapar óþægindi við að samræma fjölskyldu og heimilislíf.`` Rétt er að geta þess að fólki gafst ekki kostur á að svara því hvort langur vinnudagur og ósveigjanlegur vinnudagur bitnuðu jafnt á fjölskyldulífi.`` --- Hér er vitnað í jafnréttiskönnun Bandalags háskólamanna, desember 1989.
    ,,Væri sveigjanlegur vinnutími tekinn upp á Íslandi mundi það geta stuðlað að því að jafna foreldraábyrgð. Almennt er skilningur sýndur á því að mæður þurfi að laga vinnutíma sinn að þörfum barna sinna en mjög skortir á að hið sama gildi um karla`` eins og ég gat um hér áðan.    
    ,,Sveigjanlegur vinnutími gæti jafnframt aukið vellíðan í starfi sem hlýtur að vera sameiginlegt hagsmunamál launþega og atvinnurekenda.``
    Með þessum orðum lýkur greinargerðinni en mig langar til að bæta nokkru við og þá einkum að stikla á stóru í þeim umsögnum sem borist hafa um málið og ítreka að við flm. höfum tekið tillit til þeirra

ábendinga er lúta að tilhögun þess að taka upp sveigjanlegan vinnutíma og beint því verkefni að hluta til til aðila vinnumarkaðarins og tekið vel ábendingum um hvernig best væri staðið að þessu máli.
    Ef ég lít fyrst á umsögn Jafnréttisráðs frá því 2. júlí sl. þá langar mig, með leyfi forseta, að lesa niðurlagsorð og niðurstöðu Jafnréttisráðs, en þar stendur:
    ,,Niðurstaða Jafnréttisráðs er að sveigjanlegur vinnutími sé mikið hagsmunamál fyrir vissa hópa launþega en ekki sé ráðlegt að lögbinda slík atriði. Þeim sé mun betur skipað með ákvæðum í kjarasamningum, ráðningarsamningum eða vinnustaðasamningum milli launþega og vinnuveitenda.``
    Til þessara athugasemda höfum við nú tekið tillit og skapað það svigrúm í tillögugreininni sem eðlilegt má teljast miðað við þetta. Við getum að vissu leyti tekið undir þetta og teljum það mjög mikilvægt að verði þessi tillaga samþykkt, sem ég að sjálfsögðu vona, þá verði það gert í friði og með skoðanir umsagnaraðila í huga. Ég vík þá næst að umsögn Bandalags háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna, BHMR, en hún barst Alþingi þann 26. júní sl. Með leyfi forseta, langar mig að taka þar nokkur atriði, bæði kosti og galla sem fram komu á þeim tillögutexta sem þá lá fyrir og gekk lengra. En í þessari umsögn segir:
    ,,Vinnutímaákvæði hafa ekki í reynd dugað til að verja launamenn gegn óhóflegu vinnuálagi. Veldur þar mestu að dagvinnulaun eru orðin svo lág að þau duga hvergi til framfærslu venjulegrar fjölskyldu. Flest aðildarfélög BHMR sömdu árið 1989 um verulega hækkun dagvinnulauna m.a. í þeim tilgangi að draga úr óhóflegri vinnueftirspurn vinnuveitandans. Þessir kjarasamningar voru brotnir af ríkisstjórn og Alþingi með lögum. Alkunna er að vinnuveitendur hagnýta sér lág laun til að ná fram mikilli vinnu fyrir lítið verð. Eina raunhæfa leiðin til að tryggja launamönnum eðlilegan vinnutíma er að dagvinnulaun dugi til framfærslu.``
    Ég lýk tilvitnun í bili en mun síðar taka örlítið meira úr þessari umsögn. Ég get nefnilega heils hugar tekið undir þessa athugasemd og tel ekki að hún stangist á nokkurn hátt á við það markmið þessarar tillögu að taka upp sveigjanlegan vinnutíma því ég held að það sé óhjákvæmilegt að jafnframt verði hugað að lengd vinnutímanns jafnvel þótt nú sé að skella á ákveðið atvinnuleysi sem gæti orðið til þess að stytta vinnutíma en þá með fullri kjaraskerðingu. En ég ætla að fá að grípa aftur niður í umsögn BHMR, með leyfi forseta:
    ,,Dagvinnulaun og heildarlaun kvenna eru allt of lág og takmarkað framboð á dagvistun barna hefur dregið úr möguleikum þeirra til fullrar þátttöku á vinnumarkaðnum. Úr þessum atriðum verður ekki bætt með því að gera vinnutíma kvenna sveigjanlegri. Þvert á móti er líklegt að kjör þeirra mundu verða enn þá lakari. Reynslan sýnir a.m.k. að kjör þeirra sem hafa sveigjanlegri vinnutíma eru lakari en hinna og þeir verða oftar en ekki að laga vinnutíma sinn að óskum vinnuveitandans en ekki öfugt. Þess vegna getur BHMR ekki mælt með því að sveigjanlegur vinnutími verði gerður að almennri reglu.``
    Varðandi þetta vil ég ítreka að með þessari tillögu er einmitt verið að gera ráð fyrir því að hér sé ekki aðeins lausn fyrir konur, sem mynda stærsta láglaunahópinn í landinu, heldur að gera þetta að eðlilegum þætti á þeim vinnumarkaði sem hér er eftir því sem kostur er. Og ég held að öðruvísi verði ekki ráðin bót á þessum staðreyndum og öðruvísi verði ekki höggvið á þann hnút sem vissulega er fyrir hendi. Og ég get alveg tekið undir að svona er staðan núna. Þessari tillögu er ekki ætlað að staðfesta ríkjandi ástand heldur breyta því og það markmið vona ég að sjálfsögðu að BHMR eins og aðrir virði.
    Að lokum vil ég geta þess að í niðurlagsorðum þessarar umsagnar stendur:
    ,,BHMR vill að lokum vekja athygli hæstv. þingnefndar á því að kjör þeirra kvenna, sem hér um ræðir, verða helst bætt með hækkun dagvinnulauna og styttri vinnutíma.`` Undir þetta hlýt ég að sjálfsögðu að taka og hef þegar gert. En ég get ekki tekið undir þá hugsun að hér sé aðeins verið að ræða um aðstæður kvenna. Hér er þvert á móti verið að reyna að rjúfa kerfi sem er óviðunandi.
    Ég vil geta þess til að halda öllu til haga að Alþýðusamband Íslands kemur með þá ábendingu að þetta sé mál sem samningsaðilar á vinnumarkaði hljóti að fjalla um og ekki sé rétt að skipa því með lögum og til þessa höfum við tilllöguflytjendur tekið tillit. Jafnframt vil ég geta þess að Vinnumálasamband samvinnufélaganna segir í niðurlagi sinnar umsagnar, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Aðstaða fyrirtækja til að hafa sveigjanlegan vinnutíma er mjög mismunandi og fer það eftir starfssviði launþegans og starfssemi vinnustaðar. Á þeim vinnustöðum sem í dag hafa komið sér saman um sveigjanlegan vinnutíma hefur það verið án afskipta aðila vinnumarkaðarins og gert með samkomulagi launþega og vinnuveitenda. Hugsanlegt er að það sé besta leiðin.``
    Varðandi þetta vil ég taka það fram að ein aðferð útilokar ekki aðra.
    Að lokum vil ég grípa niður í mjög stutta umsögn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, BSRB, þar sem kemur fram að stjórn BSRB telur eðlilegast að samið sé um í það í kjarasamningum milli aðila vinnumarkaðarins hvernig vinnutíma sé háttað hér eftir sem hingað til. Til þessa hefur verið tekið tillit með breyttum tillögutexta eins og ég hef þegar getið.
    Virðulegi forseti. Undir lok þessarar umræðu vil ég leggja til að málinu verði vísað til síðari umræðu og hv. félmn. og vonast til þess að málið verði á nýjan leik sent til umsagnar þar sem það er töluvert breytt frá því sem áður var og fái að því loknu það brautargengi sem ég tel það verðskulda.