Flugmálaáætlun og fjáröflun í flugmálum

36. fundur
Miðvikudaginn 21. október 1992, kl. 13:34:46 (1449)

     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Á árinu 1967 fóru fram viðræður milli Íslendinga og Bandaríkjamanna um gagnkvæma niðurfellingu tolla og skatta af eldsneyti og smurningsolíum fyrir flugvélar sem skráðar eru í landi annars samningsaðilans en hafa viðdvöl í landi hins. Viðræðum þessum lauk með gerð milliríkjasamnings í formi skipta á orðsendingum. Tilkynnt var um samninginn með auglýsingu nr. 16/1967, sem hljóðar svo:
    ,,Með orðsendingaskiptum hinn 7. júlí og 16. okt. 1967 var gengið frá samkomulagi stjórnvalda Íslands og Bandaríkja Ameríku um gagnkvæma niðurfellingu gjalda af flugvélaeldsneyti og smurningsolíum.
    Gildistaka samkomulagsins miðast við hinn 1. júní 1967.
    Þetta er hér með gert almenningi kunnugt.``
    Framangreindar orðsendingar eru birtar sem fylgiskjöl með frv. þessu, ásamt íslenskri þýðingu. Einnig fylgir orðsending frá 18. maí 1967 sem vitnað er til í fyrri orðsendingunni.
    Við setningu laga nr. 31/1987 var talið að 5. gr. laganna bryti ekki í bága við gildandi milliríkjasamninga. ( Forseti: Forseta finnst vanta dálítið hljóð í salnum á meðan hæstv. ráðherra talar.) Ræðumaður reynir þá að brýna raustina. Greinin hljóðar svo:
    ,,Þeir sem selja flugvélabensín og þotueldsneyti á íslenskum flugvöllum til innanlandsflugs og millilandaflugs skulu greiða af því sérstakt gjald. Gjald þetta skal nema 1,30 kr. af hverjum lítra flugvélabensíns og 0,65 kr. af hverjum lítra þotueldsneytis.
    Heimilt er að veita undanþágu frá greiðslu þessa gjalds vegna flugs á skemmri flugleiðum innan sama landsfjóðungs
    Eldsneyti til áætlunarflugs á milli Íslands og Norður-Ameríku er undanþegið greiðslu gjalds skv. 1. mgr.``
    Þetta var 5. gr. laganna. Skv. 3. mgr. 5. gr. er undanþága frá greiðslu flugvélaeldsneytisgjalds bundin við áætlunarflug. Þetta hefur leitt til þess að innheimt hefur verið gjald af flugvélaeldsneyti sem afgreitt hefur verið til bandarískra flugfélaga þar sem ekkert þeirra er með áætlunarflug milli Íslands og Norður-Ameríku. Bandaríkjamenn hafa með bréfi sendiráðs síns hér á landi, dags. 31. ágúst 1992, mótmælt þessari gjaldtöku og talið hana stríða gegn tilgangi samningsins frá 1967. Bréf sendiráðsins er birt sem fylgiskjal með frv. þessu. Enn fremur hafa átta bandarísk flugfélög krafist endurgreiðslu á gjaldinu og nema þær endurgreiðslur á milli 20 og 30 millj. kr.
    Undanþágan í 3. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1987 bendir til þess að Alþingi hafi viljað taka tillit til samningsins frá 1967 en í þeim samningi er hins vegar hvergi sú takmörkun gerð að hann skyldi aðeins ná til áætlunarflugs. Þar segir eingöngu að flugvélar sem skráðar eru í Bandaríkjunum skuli njóta undanþágu frá gjöldum á eldsneyti í tengslum við millilandastarfsemi þeirra.
    Því má halda fram að gagnkvæmni sé ekki gætt ef íslensk flugfélög njóta í reynd undanþágu frá gjaldinu á flugvélaeldsneyti en bandarísk ekki. Hætt er við að erfitt reynist að halda fram réttmæti gjaldtökunnar gagnvart bandarískum stjórnvöldum sem hafa fellt niður alríkisskatta á flugvélaeldsneyti til Flugleiða og beitt sér fyrir niðurfellingu fylkisskatta.
    Frv. er flutt til að tryggja gagnkvæmni í gjaldtöku gagnvart bandarískum flugfélögum og að gjaldtaka skv. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1987 sé ætíð í samræmi við gildandi milliríkjasamninga. Frv. felur enn fremur í sér heimild til að endurgreiða þeim bandarísku flugfélögum sem gert hefur verið að greiða eldsneytisgjald á undanförnum árum. T.d. gæti þurft að ganga úr skugga um að íslenskar flugvélar njóti undanþágu frá gjaldtöku í Bandaríkjunum.
    Ég sé ekki ástæðu til, hæstv. forseti, að fara fleiri orðum um þetta frv. en vil beina því til hæstv. samgn. að hraða afgreiðslu málsins. Ég legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og samgn.