Lánsfjárlög 1993 o.fl.

43. fundur
Fimmtudaginn 29. október 1992, kl. 19:02:51 (1731)


     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Það hefði verið afskaplega freistandi að halda langa ræðu til viðbótar um lánsfjárlögin og efnahagslífið. Það er eiginlega ekkert sem kemur í veg fyrir það af minni hálfu nema heilsuleysi hæstv. ráðherra. ( Gripið fram í: Eða hungur.) Nei, hungur er það ekki því hér er eftir lítill samvalinn hópur sem ég efast ekki um að gæti komist að farsælli niðurstöðu um stöðu þjóðarbúsins og þær aðgerðir sem þyrfti að grípa til í efnahagsmálum á næstunni. Það væri kannski þess virði þó það reyni eiítið á heilsufar ráðherrans að fara í þá vinnu í kvöld.
    En aðeins örfá orð um vegamálin og það klúður sem þar er komið upp núna þó við höfum rætt það við hæstv. ráðherra fyrir tveim dögum. Öll þessi saga minnir mig orðið mikið á byggingu á frægu hóteli hér á landi. Þar var þannig að verkum staðið að fyrst var byggt, síðan var leitað eftir samþykki byggingarnefndar og endað á því að teikna. Það er líkur gangur á þessum flumbrugangi sem hefur verið í vegamálunum hjá ríkisstjórninni á síðustu mánuðum. Ég trúi ekki öðru en fjmrh. líði eilítið illa út af þessu öllu saman.
    Ég ætla hins vegar ekki að gagnrýna verknaðinn sem slíkan að taka lán til að flýta vegaframkvæmdum. Ég flutti þáltill. í þá veru á síðasta vetri. Það er alveg rétt hjá ráðherranum að það er mjög skynsamlegt að nota þá lægð sem nú er til vegaframkvæmda til að geta dregið úr spennu ef svo færi að við legðum í stórframkvæmdir á öðru sviði á næstu árum. Þessum peningum er áreiðanlega vel varið. En það hefði verið miklu skemmtilegra ef hægt hefði verið að framkvæma málið samkvæmt lögum og fara í það með þingmönnum kjördæmanna hvernig verkum yrði háttað.
    Ég heyri það eilítið á þingmönnum Reykvíkinga að þeir standa í þeirri trú að það að þingmennirnir skipti þessu niður úti í kjördæmunum þýði að verið sé að skvetta smáaur hér og öðrum þar og peningarnir nýtist ekki eins vel fyrir vikið. Það held ég að sé alrangt. Í það minnsta í kjördæmi okkar hv. 4. þm. Norðurl. e. hafa þingmennirnir unnið mjög skipulega í málinu og tekið fyrir ákveðna verkþætti. Það var kláraður vegurinn Akureyri-Dalvík fyrst og síðan farið í Akureyri-Húsavík. Í þriðja áfanga er kláraður vegurinn vestur úr kjördæminu, vestur á Öxnadalsheiði. Við, þingmenn kjördæmisins, höfðum vænst þess, að geta tekið fullan þátt í því hvaða áfanga við vildum taka næst. En nú er svo komið að hæstv. samgrh., væntanlega vegna þess að hann treystir því ekki að hann sé sammála okkur hinum í öllum atriðum í kjördæminu, hefur ákveðið að taka sér tilskipunarvald í vegamálum með fulltingi hæstv. ríkisstjórnar. Síðan er núna verið að reyna að klóra yfir það eftir á.
    Varðandi spurningar til ráðherra sem ég bar fram fyrir tveimur dögum um bankamálin. Hann svaraði annarri en hinni ekki. Ég spurði hver hann teldi að yrði staða bankanna, fjármálakerfisins, í landinu ef fram gengi sú galdþrotahrina sem fram undan væri. Nú sé ég, virðulegur forseti, að það er borin von að við náum að leysa efnahagsmálin í kvöld því nú er farinn úr þingsalnum fulltrúi Alþb. sem hefur tekið að sér friðargæsluhlutverk í þessum málum þessar vikurnar þannig að ég mun mjög stytta mál mitt --- og enginn krati en það gerir kannski ekkert til.
    Ég spurði hvert yrði verðmæti bankanna. Hæstv. ráðherra hefur svarað því og ef til vill afhjúpað eitthvað af áformum stjórnarflokkanna þar sem talað er um samruna ríkisbankanna við aðrar bankastofnanir. Ég spurði líka hvort það væri skynsamlegt í þessu efnahagsástandi að demba út á veikan hlutabréfamarkað hlutabréfum í ríkisfyrirtækjum upp á á annan milljarð. Ég held að ef ríkisstjórnin vill skapa svigrúm fyrir atvinnulífið sé fátt sem hún geti gert betra en leyfa fyrirtækjunum, einkafyrirtækjunum og samvinnufyrirtækjunum sem nú eru að fara af stað með samvinnuhlutabréf, að eiga hlutabréfamarkaðinn á næstu einu til tveimur árum. Ég held að ríkisstjórnin og ríkissjóður gæti fátt gert betra fyrir veikburða atvinnulíf í dag í viðleitni til þess að koma því upp aftur.
    Ég get ekki farið héðan öðruvísi en minnast á þau orð hæstv. fjmrh. að hallinn á ríkissjóði hefði stefnt í, ef ekkert hefði verið að gert, 23--25 milljarðar, ef ég man rétt. Nú dettur engum heilvita manni í hug að sú ríkisstjórn sem hefði tekið við eftir síðustu kosningar, hver sem hún hefði verið, hefði ekki talið það eitt sitt brýnasta verkefni að taka á ríkisfjármálunum. Mér dettur ekki annað í hug. Það er þess vegna algjörlega út í hött að tala um einhvern hugsanlegan 25 milljarða halla á ríkisfjármálum ef björgunarsveit núv. ríkisstjórnar hefði ekki komið til.
    Það eru líka gömul sannindi og ný að á síðasta ári ríkisstjórnar vill slakna á ríkisfjármálum. Það er ósköp einfalt að benda á slík dæmi í sögu Sjálfstfl. í þau skipti sem hann hefur farið með ríkisfjármálin. Ég held því að það hafi verið alveg ljóst að það er sama hverjir komu til valda. Öllum var ljóst að eitt brýnasta verkefnið var að taka á ríkisfjármálunum.

    Ég ætla ekkert að fara í það hvernig núv. hæstv. ríkisstjórn hefur tekist til þar. Þar held ég að ekki hafi allt farið sem skyldi.
    Varðandi söguskýringu á þjóðarsáttinni 1990. Ég ætla ekki að ræða mikið um það. Ég minni hæstv. forsrh. á að í ræðu á ársfundi Vinnuveitendasambandsins þegar þetta var allt saman yfirstaðið sá þáverandi formaður Vinnuveitendasambandsins, Einar Oddur Kristjánsson, sérstaka ástæðu til að lýsa yfir mjög góðu samstarfi við ríkisstjórnina á meðan á þessu stóð og að allt sem farið hafði verið fram á við ríkisstjórnina og hún taldi innan síns verkahrings hefði gengið eftir og staðist.
    Ég hef verið að reyna að fylgjast með því seinustu daga, m.a. í viðtölum við forsvarsmenn Alþýðusambandsins hvað er að gerast núna. Því miður virðist óskaplega lítið samband milli aðila vinnumarkaðarins og forustuafls ríkisstjórnarinnar. Það lítur út fyrir það, kannski merkilegt nokk sérstaklega meðal vinnuveitenda og útgerðarmanna, að þessir aðilar beri ekkert traust til forustu hæstv. ríkisstjórnar í þessu máli.
    Virðulegur forseti. Af ástæðum sem ég tilgreindi áðan fer ég að stytta mál mitt. Ég ætla þó að varpa fram einni spurningu til hæstv. fjmrh. um þann lista sem kominn er á borð mitt en var ekki þegar ég flutti ræðu mína í fyrradag. Ég gat ekki getið þessara upplýsingar vegna þess að þær lágu ekki fyrir hjá okkur þingmönnum í aðgengilegu formi. Ég ætla að spyrja hæstv. fjmrh. um einn lið. Það er lækkun úr lögbundnu framlagi upp á 350,8 millj. niður í 0 kr. til Stofnlánadeildar landbúnaðarins. Ég ætti sjálfsagt að vita hvers vegna þessi lækkun er þarna inni. En þó vildi ég inna fjmrh. eftir því hvað um er að ræða í þessu tilfelli.