Kaup á björgunarþyrlu

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 16:25:10 (1797)

     Guðni Ágústsson (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti ræddi undir liðnum um þingsköp að ég hefði sagt of stór orð hér. Nú vill svo til að það eru sjö forsetar á þessu þingi en á hverjum fundi verðum við að álíta að það sé einn forseti. Hér verða tíð mannaskipti í þessum stól. Mælendaskrá flyst frá einum forseta til annars. Ég vil ætla að skilaboð frá hv. þm. flytjist frá einum forseta til annars. Ef svo er ekki eru alvarlegar brigður í stjórnun þingsins. Hér kom fram snemma við umræðuna, vegna þess sem fyrr hefur gerst í þyrlumálinu, þ.e. samþykktum Alþingis, bæði þál. og ekki síður vegna þess að við afgreiðslu lánsfjárlaga og fjárlaga höfðu verið gefin fyrirheit um þetta mál, að það væri mikilvægt að hæstv. ráðherrar væru við umræðuna. Þegar ég tala hér á einum og sama fundi tel ég að ég þurfi ekki að endurtaka beiðnir mínar heldur geti ég vitnað til þess þótt annar forseti hafi tekið við störfum. Hafi þau skilaboð ekki komist til hæstv. forseta sem nú situr hefur aðalforseti brugðist við að flytja þau skilaboð.
    Ég ítreka enn að það er svo margt sérstakt við þetta mál að umræðunni getur ekki lokið öðruvísi en fulltrúi ríkisstjórnarinnar, hver sem það er, komi hér til þessarar umræðu. Eftir umræðunni verður tekið en hún er óupplýst nema ríkisstjórnin geri grein fyrir því hvers vegna hún hefur farið svo hörmulega með allar ákvarðanir Alþingis í þessu máli. Þess vegna stend ég við það sem ég hef sagt hér og gagnrýni forseta fyrir að hafa brugðist þeirri beiðni að kalla ráðherra í salinn. Það gerðist undir minni ræðu að ráðherra gekk í gegnum salinn. Forseti áminnti mig fyrir gáleysislegt tal en ráðherra leið út úr salnum og hefur ekki sést síðan. Ég beitti þá að vísu glannalegum orðum en kannski var hann guðdómlegur og er ekki meðal okkar hér á þessari jörð. Það er alla vega svo að þeir hafa ekki sést í þessum sal undir umræðunni og því verður ekki unað.