Kaup á björgunarþyrlu

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 16:29:02 (1798)

     Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Mér er ljóst að það getur verið erfitt hjá hæstv. forseta hverju sinni að halda aga á því liði sem hér á að vera við vinnu og tryggja að fjarvistir tefji ekki framgang mála. Í þingsköpum er mælt svo fyrir að hver sá sem af einhverjum ástæðum treystir sér ekki eða hefur ekki aðstöðu til að mæta á þingfundi skuli tilkynna það til forseta og forseti les í upphafi fundar upp nöfn þeirra sem af þeirri ástæðu óska eftir fjarvist eða leyfi til fjarvista. Hæstv. forseti las í upphafi fundar upp nöfn tveggja ráðherra sem ekki höfðu aðstöðu til að vera á þessum þingfundi, þ.e. hæstv. menntmrh. og hæstv. félmrh. Þessi upplestur kemur gjarnan fram í fréttum og þjóðin fylgist nokkuð grannt með því hverjir það eru sem af ýmsum ástæðum treysta sér ekki til að vera við hverju sinni. En hún gagnályktar og álítur þá að hinir séu mættir til vinnu. En þegar það svo gerist eins og núna að ráðherrar leita ekki eftir heimild til að vera fjarverandi þá eru þeir fjarverandi í heimildarleysi því þeir hafa fullar þingskyldur. Það hefur verið á því skilningur aftur á móti og er rétt að það komi fram, að stundum er það svo að ráðherrar eru í önnum og hverfa úr salnum og þá er kallað til þeirra sérstaklega. (Forseti hringir.) Herra forseti, ég er að ljúka máli mínu. Okkur var tjáð að tveir væru niðri í flokksherbergjum og þar væri aðstaða til að hlusta. Okkur er tjáð að þeir séu líka horfnir úr húsinu. Ég vona að það sé alveg skýrt að ég lít á þetta sem óheimilar fjarvistir ráðherra.