Flutningur á starfsemi Landhelgisgæslunnar

45. fundur
Þriðjudaginn 03. nóvember 1992, kl. 18:37:34 (1829)

     Björn Bjarnason :
    Herra forseti. Hér er til umræðu mál sem er í raun og veru tvíþætt eins komið hefur fram í umræðunum. Annars vegar spurningin um störf og starfsemi Landhelgisgæslunnar og hins vegar hvar hún eigi að hafa aðsetur.
    Ég vil í upphafi máls míns svara þeirri fyrirspurn sem hv. 4. þm. Norðurl. v. beindi að mér þegar hann spurði um eftirlit með því ef erlend veiðiskip fengju að veiða eins og ráðgert er í gagnkvæmum

veiðiheimildarsamningi sem er í bígerð við Evrópubandalagið. Ég vil svara því til að samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef og þingmenn hafa líka fengið er eftirlit með þeim veiðum tryggt með samningnum. Hann bæði takmarkar svæðin þar sem þessi skip fengju að athafna sig og einnig yrðu íslenskir eftirlitsmenn þar um borð. Eftirlitið með þeim veiðum er því mjög vel tryggt og með allt öðrum hætti en áður hefur tíðkast þegar erlend veiðiskip hafa verið hér við veiðar og lýtur kannski ekki beinlínis að störfum og starfsemi Landhelgisgæslunnar í hefðbundnum skilningi þess eins og við höfum kynnst því fram að þessu.
    Varðandi Landhelgisgæsluna vil ég láta þá skoðun mína koma í ljós sem ég hef oft sagt áður og er ekki neitt launungarmál að ég tel ákaflega óheppilegt að þrengja að starfsemi Landhelgisgsælunnar með næsta ómarkvissum aðgerðum við ákvörðun fjárlaga hverju sinni. Á vegum ríkisvaldsins hafa oft og tíðum verið starfandi nefndir um framtíðarstefnumörkun fyrir Landhelgisgæsluna en því miður finnst mér að þær hafi ekki skilað af sér með þeim hætti að þar hafi verið mótuð stefna um hvernig að starfseminni skuli staðið og hver eru markmið okkar með rekstri Landhelgisgæslunnar.
    Ég held að það sé brýnt að slík alhliða stefnumörkun liggi fyrir um störf og starfsemi Landhelgisgæslunnar og að þessi stefna verði mörkuð og rædd á þessum vettvangi og annars staðar og þar eigi m.a. að taka tillit til þeirra sjónarmiða, sem koma fram í ágætri greinargerð með tillögunni sem til umræðu er, og ýmissa annarra atriða. Ég sakna þess að hv. flm. skuli ekki nefna hlut Landhelgisgæslunnar í gæslu öryggis almennt og varna Íslands. Þar finnst mér að Landhelgisgæslan eigi að gegna auknu og vaxandi hlutverki og menn eiga að ræða það mál í tengslum við þetta eins og mörg fleiri.
    Með þessum orðum er ég ekki að hafna því sem fram kemur í fjárlagafrv. eða þeim ráðstöfunum sem þar eru boðaðar. Ég hef staðið að því máli en ég tel ekki forsvaranlegt að marka Landhelgisgæslunni framtíðarverkefni með ákvörðunum í fjárlögum og það eigi að gera með öðrum hætti.
    Í þessu efni á það við um Landhelgisgæsluna eins og ýmsa þá starfsemi sem stofnað hefur verið til í öðrum löndum til að verja öryggi þeirra þjóða að menn hafa löngum forðast að þrengja um of að þeirri starfsemi með ákvörðunum um fjárveitingar og vilja heldur að ákvarðanir séu teknar á öðrum forsendum. Þó auðvitað þurfi að halda starfseminni innan þeirra marka sem þjóðarbúskapurinn leyfir hverju sinni og sníða verði sér stakk eftir þeim vexti sem menn almennt verða að gera í þjóðfélaginu, miðað við afkomu þjóðarbúsins og bolmagn ríkissjóðs og skattgreiðenda til þess að standa undir þeirri starfsemi.
    Þessi almennu viðhorf mín vildi ég láta koma fram og tel að tímabært sé fyrir Alþingi að líta á Landhelgisgæsluna með öðrum augum en oft hefur verið gert í umræðum og hefur verið gert í umræðunum um þessa tillögu.
    Varðandi flutning stofnunarinnar út á land finnst mér sjálfsagt að kanna það. Það hefur komið fram að það mál er til meðferðar í sérstakri nefnd sem starfar á vegum forsrh. Hugmyndir þeirrar nefndar hljóta að koma hér til umræðu og mér fyndist eðlilegt að nefndin tæki mið af þessari ályktunartillögu sem hér er komin fram. Að öðru leyti vil ég taka undir það að sá kostur sé kannaður að flytja höfuðstöðvar og starfsemi Landhelgisgæslunnar til Keflavíkur, en ég tel það aðeins einn þátt í starfi Landhelgisgæslunnar sem full þörf sé á að kanna og skoða í ljósi breyttra aðstæðna á hafsvæðunum umhverfis Ísland og ýmissa aðstæðna sem snerta öryggi þjóðarinnar og varnir.