Einkaleyfi og vörumerki

46. fundur
Miðvikudaginn 04. nóvember 1992, kl. 13:45:17 (1856)

     Frsm. iðnn. (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir áliti iðnn. um frv. til laga um breytingar á lögum nr. 17/1991, um einkaleyfi, og lögum nr. 47/1968, um vörumerki, sbr. og lög nr. 31/1984.
    Nefndin hefur rætt frv. í þaula og fengið á sinn fund ýmsa aðila til að fjalla um það, þau Rán Tryggvadóttur, deildarstjóra í iðnrn., Gunnar Guttormsson, forstjóra Einkaleyfastofunnar og Ómar Grétar Ingvarsson, verkfræðing frá Einkaleyfastofunni.
    Það er í sjálfu sér ekki ágreiningur um frv. í nefndinni. Hún er sammála um að leggja til að það verði samþykkt með þeirri breytingu að bæta þremur greinum aftan við 1. gr. frv. Þessum þremur greinum er ætlað að taka af öll tvímæli um atriði sem varða framkvæmd gildistökuákvæða laganna um einkaleyfi.
    Breytingarnar eru þær að í fyrsta lagi er lagt til að á eftir 2. mgr. 75. gr. laganna frá 1991 komi ný málsgrein sem feli í sér heimild til að veita einkaleyfi fyrir nautna- og næringarefnum á grundvelli umsókna sem lagðar eru inn eftir 1. jan. 1992.
    Í öðru lagi er orðalag 78. og 79. gr. gert nákvæmara svo skýrara sé hvernig beri að meðhöndla umsóknir sem voru lagðar inn fyrir 1. jan. 1992.
    Tómas Ingi Olrich, Guðjón Guðmundsson og Kristín Einarsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu

þessa máls en undir álitið rita Össur Skarphéðinsson, Pálmi Jónsson og Sigríður Anna Þórðardóttir og jafnframt Páll Pétursson, með fyrirvara, Finnur Ingólfsson, með fyrirvara, og Svavar Gestsson, með fyrirvara.