Viðskiptabankar og sparisjóðir

55. fundur
Þriðjudaginn 17. nóvember 1992, kl. 15:39:12 (2316)


     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir svörin. Það eru aðeins fáein atriði sem ég vil nefna í framhaldinu. Í fyrsta lagi talaði hæstv. ráðherra um og olli okkur vonbrigðum með því að segja að því miður hefði engin stefnubreyting orðið hjá hæstv. ríkisstjórn varðandi áform um að einkavæða bankana og taldi að þrátt fyrir hremmingar í bankamálum víða í grannlöndunum hefði ekkert þar gerst sem fældi menn frá því að halda út á þessa braut og kom með þá merkilegu röksemdafærslu að menn sæju það af því að þeim skyldi ekki hafa dottið það í hug í Finnlandi, Svíþjóð, Noregi eða hvar það nú er að breyta um aftur í ríkisbanka eða yfirtaka þá í þessum vandræðum. Ég held að þetta sé nú ekki sterkur málflutningur og ég er einfaldlega ósammála hæstv. viðskrh. og leyfi mér að vera það. Ég tel að það sé fullkomin ástæða til að staldra við þá hluti sem gerst hafa í bankaheiminum í Noregi, Finnlandi, Svíþjóð og jafnvel í Bandaríkjunum, samanber sparisjóði eða ,,loans and savings``-kerfið hjá þeim.
    Meginlærdómurinn, sem mér sýnist nú að menn dragi af þessu, samanber umfjöllun um þetta í t.d. erlendum fagtímaritum, er sá að í raun og veru sé það þannig að eftir að bankar eru komnir yfir vissa stærð, visst hlutfall í efnahagslífi þjóða, þá þoli menn ekki að þeir séu látnir fara á hausinn og það gerist einfaldlega ekki þannig að hlutafélagaformið og að einhverju leyti einkaeign eða hlutafjáreign dreifð úti í þjóðfélaginu í slíkum bönkum breyti engu um það að þegar á hólminn er komið grípi ríkisstjórnir viðkomandi landa til ráðstafana og afstýri því að viðkomandi bankar fari á höfuðið og ábyrgðin takmarkist við hlutaféð eitt. Eru þetta þá í raun og veru meðmæli með hlutafjárforminu? Er ekki í raun og veru verið að segja með þessari reynslu að hlutafélagaformið sé hálfgerð blekking því að þegar á hólminn er komið treysta menn sér ekki til að láta hlutaféð eitt standa á bak við umsvif bankanna og hlutaféð eitt eða eigið fé bankanna eitt vera tryggingu þeirra sem eiga viðskipti við stofnunina. Ég held það. Ég get þess vegna ekki undir neinum kringumstæðum tekið undir það með hæstv. viðskrh. að það hafi ekkert það gerst í bankamálum í nálægum löndum sem geri það að verkum að hæstv. ríkisstjórn ætti að endurskoða þessar hugmyndir sínar um að einkavæða bankana eða breyta þeim í hlutafélög og svo hefja sölu á einhverjum hlutum í þeim. Við verðum auðvitað að horfast í augu við það að ríkissjóðir nágrannaríkjanna hafa þurft að dæla alveg ótrúlegum fjárhæðum inn í bankakerfið, t.d. í Noregi og í Finnlandi. Og ef það er nú tilfellið að ríkisbankar geti notið góðs af beinni eign ríkisins og beinni eigendaábyrgð ríkisins með því að þeir eru ekki hlutafélagabankar heldur hreinir ríkisbankar er þá ekki sjálfsagt að njóta þess hagræðis og hafa þetta ríkisbanka áfram? Og við sjáum auðvitað í hendi okkar að íslensku ríkisbankarnir eru slík stærð í fjármálaheiminum hér að úr því að t.d. ríkisstjórn Noregs treystir sér ekki til að láta stærri bankana þar fara á hausinn og dælir inn í þá peningum, sama í Finnlandi, sama í Svíþjóð, þá mundu menn varla gera slíkt hér. Ég held að það liggi í hlutarins eðli. Og ég sé þá ekki í raun og veru hver niðurstaðan getur orðið önnur en sú að það væri hálfgerður skollaleikur að vera að búa til hlutafélag t.d. úr Landsbankanum, selja eitthvað af bréfum þar ef svo bæri undir, en vitandi svo það að Landsbankinn er auðvitað slík stærð í fjármálaheiminum íslenska að við gætum ekki látið hann fara á hausinn. Að sjálfsögðu yrðu menn að dæla inn í hann peningum, auka í honum eigið fé eða hlutafé ef þessi breyting væri gerð þannig að ég held að hvað sem hæstv. viðskrh. segir hér og heldur uppi tiltölulega heiðarlegri vörn fyrir þessa stefnu sem var sett niður í stjórnarbæklingana þá sé nú þróunin umhverfis okkur sú að menn séu farnir að setja spurningarmerki við þetta.
    Í öðru lagi spurði ég hæstv. viðskrh. um það hvað við tæki eftir aðlögunartíma EES-samningsins varðandi mögulega eignarhlutdeild erlendra aðila í íslenskum bönkum. Úr því að hæstv. viðskrh. hefur ekki heyrt þessa spurningu eða náð að skilja hana þá ætla ég að endurtaka hana. Mér er alveg ljóst hvað gerist núna með því að í þessu frv. er ekki hróflað við þeim ákvæðum sem eru í lögunum frá 1990 um fjárfestingar erlendra aðila í atvinnurekstrinum. Þá heldur sú 25% takmörkun sér sem þar er svo lengi sem þau lög verða í gildi. Og má ég þá skjóta að í framhjáhlaupi þeirri spurningu: Verður flutt frv. til laga um breytingu á þeim lögum á þessu þingi eða ekki? Ef ég man rétt heyrði ég hæstv. viðskrh. segja einhvers

staðar úti í bæ að hann teldi ekki þörf á því að breyta þeim lögum strax vegna aðlögunartíma sem væri á þeim sviðum sem tengdust EES-samningnum. Ég hafði skilið það svo að það hlyti að koma inn frv. til laga um breytingu á þeim lögum. Mér er ekki kunnugt um að það hafi enn litið dagsins ljós, alla vega ekki hér á þingi en vissulega skal játað að mörg skipin eru að verða ærið sein í höfn, þau sem áttu að fylgja þessum pakka. Komið er fram yfir miðjan nóvember, eins og frægt er orðið að skilningi allra annarra en hæstv. forsrh. sem hefur eitthvað mjög reikult mat á því hvenær sé miður mánuður, og þarna er eitt stórt mál eftir enn. Ætlar hæstv. ríkisstjórn sér að koma hér með frv. til laga um breytingu á fjárfestingum erlendra aðila í atvinnurekstrinum eða ekki?
    Segjum sem svo að hvað sem því líður þá haldi þessi 25% takmörkun sér til 1996. Spurning mín var: Hvað þá? Eru ákvæði EES-samningsins þannig að óheimilt væri að takmarka eignarhlut útlendinga í þeim bönkum sem á annað borð eru hlutafélagabankar og eru á markaði? Hv. 6. þm. Norðurl. e. spurði hér um ríkisbankana og fékk það svar að Íslendingar gætu áfram átt ríkisbanka. Ja, þakka skyldi það nú þó að EES-samningurinn taki það ekki af okkur. En hvað um þá banka sem væru hlutafélagabankar og hlutabréf í hverjum gengi kaupum og sölum? Þetta var mín spurning, hæstv. viðskrh. Hvernig verður landslagið þegar aðlögunartímabilinu er lokið 1996? Vonandi er þetta alveg skýrt.
    Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið varðandi Lánastofnun sparisjóðanna. Ég tek það gott og gilt. Sé svo að það sé vilji aðstandenda þeirrar stofnunar að hún taki þessum breytingum og fyrir því færð ýmis hagræðingarrök þá er að sjálfsögðu rétt og skylt að verða við því til þess að hún geti þjónað sínu mikilvæga hlutverki. Það er alveg ljóst að innan sparisjóðakeðjunnar eru svo smáar stofnanir að þeim er það beinlínis lífsnauðsynlegt að vera í slíku sambandi og fá slíka þjónustu til þess að geta sinnt nútímalegum bankaviðskiptum og verið fullgildir þátttakendur í öllum þeim færslum og tæknilega rekstri öllum saman sem tengist orðið nútímaumsýslu á þessu sviði.
    Þá er aðeins eitt eftir og það er að hæstv. viðskrh. nefndi óskabarnið sitt, Íslandsbanka hf., sem hann átti sannarlega aðild að að til varð á sínum tíma og réttilega gerðist í ríkisstjórn sem við þekkjum báðir til. Það má margt um það mál segja og eitt er það að í gegnum þessar breytingar varð ákveðin hagræðing í íslenska bankakerfinu. Það er rétt. Það lá fyrir og hafði lengi legið fyrir að eitt af því allra skynsamlegasta var að fækka eitthvað þessum bönkum sem höfðu verið allt of margir. Það var engin deila um það, hæstv. viðskrh. Hins vegar bentu menn á að í það væri hægt að fara með ýmsum leiðum og það voru uppi hugmyndir um ýmiss konar öðruvísi uppstokkun í íslenska bankakerfinu sem mörg rök mæltu með heldur en einmitt þá sem þarna varð þannig að ég held að hæstv. viðskrh. eigi ekki að stilla þessu upp þannig að það hafi annaðhvort verið tilurð Íslandsbanka með nákvæmlega þeim hætti sem gerðist eða ekkert. Auðvitað var það ekki þannig. Það var t.d. bent á þann möguleika að Útvegsbankinn sameinaðist einfaldlega öðrum hvorum hinna ríkisbankanna og það var bent á margar fleiri mögulegar aðferðir, t.d. þar sem Samvinnubankinn, sparisjóðirnir og e.t.v. einhverjir af þeim bönkum sem mynduðu Íslandsbanka tengdust saman og mynduðu eitt net o.s.frv. Þetta veit hæstv. viðskrh. vel og kemur sér auðvitað ekki hjá því að ræða t.d. um þætti í þessu sambandi eins og verðlagningu Útvegsbankans o.s.frv. á þeim stað sem þær umræður eiga heima. Ef ég man rétt hafa hv. þm. Framsfl. lagt fram skýrslubeiðni eina mikla um það mál og er þá ástæðulaust af minni hálfu að lengja um það umræður. Þá fáum við þær upplýsingar sem þar er beðið um og getum eftir atvikum rætt þær ef mönnum sýnist svo.
    Ég gef ekki mikið fyrir þá gulrót sem hæstv. ríkisstjórn ku hafa dottið ofan á til að hengja á krókinn í sambandi við sölu ríkisfyrirtækja, þ.e. að 1 / 5 hluti andvirðis þeirra ætti að fara í einhverjar rannsóknir og þróunarstarf, a.m.k. ekki án frekari útskýringa. Ég vil þá fá að vita hvort þetta á að vera svipað og með Vegagerðina, fyrst eigi að skera niður og svo að bæta við. Það segir mér ekki mikið þó að 1 / 5 hluti af nokkur hundruð milljónum, sem í mesta lagi koma upp úr krafsinu á næsta ári, eins og þessu ári, 1.200 millj. kr. sem gildandi fjárlög byggja á, verði að einhverjum par hundruðum kannski á þessu ári. Það verður öll uppskeran úr þessu brölti. Þó að fimmtungur af slíkum fjárhæðum eigi að fara til rannsókna í tengslum við þessa sölu geri ég ekki mikið með það fyrr en ég sé pakkann í heild sinni. Hvað verður þá mikið lagt úr ríkissjóði? Verður það óskert eða leggur ríkið kannski krónu á móti hverri krónu til viðbótar því sem það fær úr sölu ríkisfyrirtækja? Ef þarna væri um eitthvert myndarlegt átak af því tagi að ræða gegndi öðru máli og væri hægt að hafa það sem fagnaðarefni og jafnvel líta á það sem raunverulega gulrót í sambandi við þessa eignasölu ríkisins. Ef það verða svona kúnstir eins og í sambandi við lántökuna til Vegagerðarinnar eða sölu á veiðiheimildum Hagræðingarsjóðs til að efla hafrannsóknir með þeim endemum sem það mál er nú orðið vil ég bíða með allar yfirlýsingar um að þetta sé sérstakt innlegg í málið og að skynsamlegt sé að rjúka til og selja Búnaðarbankann af því að 1 / 5 af söluandvirðinu eigi að fara í rannsóknir sökum gæsku hæstv. ríkisstjórnar. Það er ekki svo.
    Hæstv. ráðherra svaraði að öðru leyti því sem ég spurði um og mörgu ágætlega. Þó var kannski eitt eftir nema menn hafi átt að skilja orð hans svo að allt yrði þetta að afgreiðast fyrir jól. Ég spurði sérstaklega um það hvort hæstv. ráðherra teldi mögulegt að vinsa út úr frv. þær breytingar sem nauðsynlegar þurfa að tengjast EES-málinu og hægt væri að kippa í gegn í formi einfaldra breytinga á gildandi lögum um viðskiptabanka og sparisjóði og afgangurinn mætti þá bíða vormissirisins til rækilegrar vinnu í efh.- og viðskn. Alþingis. Ég er eingöngu að spyrja um álit hæstv. viðskrh. því að sjálfsögðu veit hæstv. ráðherra að hann ræður þessu ekki heldur nefndin sjálf og tekur sér þann tíma í að vinna þetta mál sem hún

þarf. Það væri til hagræðis að vita það strax frá byrjun að hæstv. viðskrh. hefði á því skilning og væri því velviljaður að svona yrði með málin farið ef efh.- og viðskn. teldi sér nauðsynlegt að vinna í þessu fram yfir áramót.