Vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum

61. fundur
Miðvikudaginn 25. nóvember 1992, kl. 14:22:00 (2652)

     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Eins og fram kom í máli frsm. nefndarinnar, hv. 17. þm. Reykv., þá skrifaði ég undir nál. með fyrirvara. Fyrirvari minn er til kominn vegna athugasemda með frv. á bls. 4. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Á þessari stundu er engin framleiðsla smárása á Íslandi. Erfitt er að gera sér grein fyrir hvort svo muni verða í næstu framtíð. Þó er ólíklegt að allt ferlið frá hönnun til framleiðslu verði til staðar hér á landi á næstunni. Til þess þarf sérfræðinga á þessu sviði en þá er ekki að finna hér á landi nú.``
    Ég get þess vegna tekið undir það sem kom fram hjá hæstv. 1. þm. Norðurl. v. að við erum raunverulega að setja í lög á Íslandi ákvæði sem við þurfum alls ekkert að gera. Það er engin ástæða til að gera það núna þó maður viti auðvitað ekki hvað framtíðin beri í skauti sér. E.t.v. er þetta það sem koma skal að við eigum að fara að setja í lög allt mögulegt um alla mögulega og ómögulega hluti sem ekkert kemur raunverulega lífi á Íslandi við. Þar sem formaður nefndarinnar lagði gífurlega áherslu á að þarna væri um mjög merkilegt mál að ræða og það gæti í náinni framtíð orðið einhver framleiðsla hér á landi á smárásum, þó ég hafi enga trú á því, þá gerði ég það að skrifa undir nál., með fyrirvara þó.
    Ég gat heldur ekki hugsað mér að samþykkja þetta frv. að óbreyttri 11. gr., þ.e. að þetta yrði tengt samningi um Evrópskt efnahagssvæði en lét sannfærast um það vegna orða formanns nefndarinnar og nefndarmanna annarra að hér væri um mjög merkilegt mál að ræða og nauðsynlegt að hafa þetta í íslenskum lögum.
    Ég hef tekið eftir því að það eru ekki allir sem átta sig á hvað hér er á ferðinni. Það kom m.a. fram á Stöð 2 að það var einhver ruglingur hjá einhverjum af þeim þingmönnum sem voru spurðir af fréttamanni um hvað hér væri á ferðinni. Mér þykir eiginlega að formaður nefndarinnar skuldi þinginu nokkrar skýringar þar á. Ég verð að taka það fram að ég átti þess ekki kost að vera á þeim fundi þegar mest var fjallað um þetta mál í iðnn. En ég aflaði mér upplýsinga sjálf og reyndi að setja mig inn í málið og tel mig vita nokkuð hvað hér er á ferðinni.
    Ég held að það væri eðlilegt að formaður iðnn. skýrði t.d. út fyrir þingheimi af hverju notað er orðið svæðislýsing en ekki rásarteikning í þessu sambandi þar sem þarna er verið að lýsa ákveðnu plani eða ákveðnum rásum. Þessu hefur verið líkt við teikningar af húsi eða eitthvað þess háttar. Mér fannst eiginlega nokkuð gott að líkja þessu við, eins og ég heyrði konu niðri í kaffistofu gera, silkiþrykk. Það hjálpaði mér að vísu mjög lítið því ég kann ekkert í silkiþrykki. Eins og kemur fram í lýsingum á því hvað hér er á ferðinni eru rásirnar eftir að búið er að teikna þær upp minnkaðar niður og settar á örlitlar flögur.
    Ég tel eðlilegra að formaður nefndarinnar skýri þetta örlítið nánar þar sem hann stýrði þessari vinnu og var sá sem lagði mesta áherslu á að við samþykktum frv.
    Þó ég væri eins og ég segi ekki nægilega sannfærð um að þetta væri mjög mikið forgangsmál fyrir Alþingi að setja í lög þá ákvað ég að fylgja félögum mínum í iðnn. en skrifa undir með fyrirvara þó.