Ný staða í EES-málinu

72. fundur
Mánudaginn 07. desember 1992, kl. 14:40:26 (3113)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Eins og hv. þm. er kunnugt þá tókst samkomulag milli stjórnar og stjórnarandstöðu um afgreiðslu mála fram að lokum þings fyrir jól. Að því er varðar EES-málið og umfjöllun um það þá urðu stjórnarliðar við þeim tilmælum, einkum og sér í lagi framsóknarmanna, að fresta 2. umr. vegna þess að formaður Framsfl. er erlendis, á Sri Lanka, og varaformaður Framsfl. er jafnframt erlendis. Það er svona til marks um sanngirni stjórnarliða að við urðum við því og sýnir vilja okkar til góðs samkomulags um meðferð málsins. Það var einn þingflokkur, þingflokkur Alþb., sem gerði fyrirvara um að þetta kynni að breytast af þeirra hálfu eftir niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu í Sviss. Af hálfu framsóknarmanna var hins vegar sagt að þeir út af fyrir sig gerðu ekki ráð fyrir að lengja umræðu þegar kæmi til 3. umr. þann 16. des.
    Ég nefni þetta hér þegar menn ræða undir liðnum þingsköp um þinglega meðferð málsins í framhaldi af því sem þegar hefur verið sagt. Það er staðreynd að Alþingi Íslendinga er út af fyrir sig ekkert að vanbúnaði að lúka málinu vegna þess að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu í Sviss hefur engu breytt um forsendur okkar í þessu máli. Þannig að það er óþarfi að hafa uppi stór orð eða heitingar eða tala um firrur og annað slíkt í því sambandi og ég læt í ljósi þá ósk að það hafi ekkert það gerst sem breyti því samkomulagi sem gert var um viti borna og skynsamlega meðferð mála.