Skattamál

73. fundur
Þriðjudaginn 08. desember 1992, kl. 19:41:48 (3151)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er rétt hjá hv. þm. að ég orðaði það þannig í minni framsöguræðu að að þessu væri stefnt. Ég vil láta það koma fram hér og það er ekki í fyrsta skipti sem það kemur fram hjá mér í þessum ræðustól né heldur hef ég látið undir höfuð leggjast að skýra frá því í ríkisstjórn og í þingflokki sjálfstæðismanna að ég tel að hvorki þeir fjármunir, sem eru nefndir í fjárlagafrv. og eiga að renna til viðbótarvegagerðar né þeir, sem koma nú fram í efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar og eiga að renna til viðhalds, né nokkur önnur tala sem er í fjárlagafrv. sé heilög. Það sem skiptir mig máli er niðurstaðan. Ef niðurstaðan er ekki í samræmi við þær hugmyndir sem ég tel að þurfi að vera kemur að sjálfsögðu til greina að snerta þessar upphæðir eins og aðrar upphæðir fjárlaganna á milli 2. og 3. umr. til þess að ná viðunandi niðurstöðu á milli tekna og gjalda. Þetta þýðir ekki að nein ákvörðun hafi verið tekin um þetta atriði heldur vil ég aðeins segja að frá mínum bæjardyrum séð hefur verið horft svona á málið.