Skattamál

73. fundur
Þriðjudaginn 08. desember 1992, kl. 19:57:01 (3165)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Það sem ég vil segja, virðulegi forseti, varðandi skattahækkunina er að endurtaka það sem ég sagði áðan. Ég tel að tekjur ríkissjóðs séu ekki að vaxa með þessum efnahagsaðgerðum þegar miðað er við þær tekjur sem komu fram í fjárlagafrv. í upphafi. Ég held að það sé mikilvægt að menn átti sig á því. Hins vegar hefur skattbyrðin færst til. Þegar ég segi þetta, þá er ég að segja það vegna þess að hugmyndin er að taka aðstöðugjaldið út með staðgreiðslunni og lækka tekjuskattinn á móti. Þannig er þetta hugsað. Það er nettóhugsun í þessu dæmi og vona ég að það komist til skila nú.