Evrópskt efnahagssvæði

82. fundur
Þriðjudaginn 15. desember 1992, kl. 00:02:38 (3502)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Vegna þeirrar þingskapaumræðu sem er komin upp vil ég að það komi skýrt fram að mér finnst það auðvitað ekki fýsilegur kostur að tala fyrir nefndaráliti um og eftir miðnætti. Menn mega vita það að framsaga fyrir mínu nefndaráliti tekur auðvitað nokkurn tíma. Nefndarálitið er nokkuð mikið að vöxtum og þó ég hafi ekki hugsað mér að lesa það frá orði til orðs ætla ég samt að fara í gegnum það og spinna út frá því og þess vegna hlýtur það að taka nokkkurn tíma. Mér finnst satt að segja ekki boðleg vinnubrögð að eiga að fara að tala fyrir slíku áliti eftir miðnætti þegar þingmenn virðast vera bæði orðnir tiltölulega fáliðaðir og sumir nokkuð aðframkomnir, þá er auðvitað ekki skemmtilegt að standa í pontu og messa yfir mönnum, líka með mál eins og þetta sem margsinnis hefur verið sagt að sé einn stærsti alþjóðasamningur sem Íslendingar hafa gert og þetta sé eitt stærsta mál sem menn hafi fjallað um á þinginu. Ég hefði svo sem fyllilega kosið að það yrði rætt hvernig framhald þingstarfsins á að vera hér í nótt áður en ég held áfram.