Skattamál

86. fundur
Föstudaginn 18. desember 1992, kl. 23:05:01 (3842)

     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá hv. 11. þm. Reykn. að það er einmitt þetta fólk, sem er komið yfir fimmtugt, sem ætti að þekkja til aðstæðna þess unga fólks sem ég var að lýsa áðan. Ég skil ekki hvers vegna þessi hópur þekkir ekki til þessara aðstæðna. Ef hópurinn þekkti til kjara og aðstæðna þessa fólks þá hefði t.d. ekki verið samþykkt það frv. um Lánasjóð ísl. námsmanna sem Alþfl. og Sjálfstfl. knúðu í gegnum Alþingi á sl. vori.
    Varðandi erfiðleikana og heimatilbúninginn, þá má endalaust deila um þá hluti. Ég vil þó aðeins segja þetta, virðulegi þingmaður. Árið 1983 voru menn líka að fást við erfiðleika. Í dag eru 220 þús. tonn sem menn munu veiða af þorski. Árið 1983 máttu menn bara veiða 290 þús. tonn og gátu ekki veitt meira. Í dag veiða menn 40--50 þús. tonn af rækju. árið 1983 veiddu menn bara 3 þús. tonn af rækju. Árið 1983

máttu menn ekki veiða eitt einasta tonn af loðnu. Í dag veiða menn sennilega upp undir milljón tonn af loðnu. Árið 1983 varð verðfall á mörkuðum erlendis. Í dag er verðið þó mun hærra en það var 1983, hefur farið lækkandi en fyrir ári var það hæsta verð sem menn höfðu nokkurn tíma séð á mörkuðum erlendis fyrr. Árið 1983 bjuggust menn við 5.000 manna atvinnuleysi en þá tóku menn á og gripu til aðgerða til að tryggja að það yrði ekki viðvarandi. Í dag búa menn við 7.000 manna atvinnuleysi en gera ekkert. Þetta segir, virðulegi forseti, bara eitt. Þetta er munurinn á því hvort Framsfl. ber ábyrgð á ríkisstjórn eða hvort einhver annar flokkur ber ábyrgð á ríkisstjórn.