Skattamál

86. fundur
Föstudaginn 18. desember 1992, kl. 23:12:39 (3846)


     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. fjmrh., það er ágætt að bera svona hluti saman. Menn verða bara að spyrja sig, hæstv. ráðherra, einnar spurningar og það er ekki spurning um það hvort þetta yrði fært debet eða kredit í fjmrn. Fólki á Vestfjörðum, Norðurl. v., Austurlandi, Norðurl. e., Suðurlandi, Vesturlandi, í Reykjavík kemur það ekkert við hvort þetta er fært hjá debet eða kredit í fjmrn. Það spyr sig þeirrar spurningar: Er ég að borga hærri tekjuskatt? Er ég að borga meiri lyfjaskatt? Er verið að skerða barnabæturnar? Er verið að hækka á mér skattleysismörkin? Er verið að skerða vaxtabæturnar? Er verið að kippa grundvellinum undan því sem Húsnæðisstofnun ríkisins sagði við mig að ég mætti skulda? Það er þetta sem fólkið spyr sig um. Svo skiptir það ofsalegu litlu máli hvort þetta er fært debet eða kredit í fjmrn. En ég skal vera sanngjarn, hæstv. ráðherra. Það er rétt að útgjöldin, segir hæstv. ráðherra, séu meiri nú en þau voru fyrir tveimur árum síðan í heilbrrn. Það kann vel að vera. Auðvitað þenst heilbrigðiskerfið út, það er ekki nokkur einasti vafi. Það er aukin eftirspurn eftir þjónustunni og eftirspurnin eftir þjónustunni í heilbrigðismálunum er óendanleg en framboðið er nóg og það er það sem skiptir máli. Meðan framboðið er nóg og

menn gera enga tilraun til þess að taka á lyfsölunum, á skipulagi læknamálanna, á sjúkrahúsunum en setja bara skattinn á sjúklingana og segja: Þetta er allt saman opið bara ef við borgið, þá mun þetta auðvitað gerast, hæstv. fjmrh. Til þess að ná tökum á þessum hlutum er aðalatriðið auðvitað það að taka á kerfinu. Í fyrsta skipti sem ég sé tilburði til þess að taka á skipulagi heilbrigðiskerfisins frá því að fyrrv. ráðherra fór þaðan út er það þegar hæstv. heilbrrh. sker niður álagninguna á lyfsalana. En hann var búinn að leggja á 1.500 millj. kr. skatt á sjúklingana áður en hann gerði það.