Skattamál

86. fundur
Laugardaginn 19. desember 1992, kl. 00:49:03 (3854)

     Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Ég á að vísu ekkert orð yfir störf forsætisnefndarinnar hvernig hún stendur að málum. Ég mótmælti kvöldfundi. Það virðist hafa verið samið um næturfund og satt best að segja finnst mér stjórn þingsins orðin það ömurleg að ég nenni ekki að skamma þessa forsætisnefnd. Það var betra að hafa þá menn eina hér við stjórn á sínum tíma sem þorðu að skikka ráðherra til.
    En það er tvennt sem ég vildi koma á framfæri af því að ég er á mælendaskrá og annað er það að leita upplýsinga um hvort það sé ekki réttur skilningur hjá mér að það sé aðeins einn dagur á ári sem hv. formaður efh.- og viðskn. eigi afmæli þannig að af því að nýr dagur er runninn, þá hafi hann vinnuskyldu eins og aðrir og mæti hér. Hér hafa komið fram upplýsingar um vinnubrögð í efh.- og viðskn. sem eru á þann veg að maður hlýtur að spyrja sig: Er aðalatriðið þar að menn brosi hver framan í annan og séu elskulegir eða fara þeir af þeirri samviskusemi yfir þessi mál að það sé hægt að treysta því að um eðlileg vinnubrögð sé að ræða? Ég hrökk við þegar sagt var að VIII. kafli frv. sé sniðinn að þörfum eins manns. Ég hef ekki vitað svoleiðis lagasetningu áður.
    En ég vil einnig vekja athygli á því ræðumaður óskar eftir því að forsrh. mæti í salinn. Forsrh. sést í hliðarherbergi en hann mætir ekki í salinn. Hins vegar verð ég að segja að þó að hæstv. viðskrh. sé fjarverandi þessa stundina, og tek það fram að ég er ekki vanur að hæla hæstv. viðskrh., en hann hefur, og það verður hver að eiga það sem hann á, setið hér og hlustað í kvöld og hæstv. félmrh. hefur setið hér og hlustað og fjmrh. hefur vissulega setið hér. Hvort hann hlustar þori ég ekki að fullyrða um. Það er annað mál. En ég óska eftir því að forsrh. verði við hér í nótt og að formaður efh.- og viðskn. geri sér grein fyrir því að nýr dagur er runninn --- afmælið er liðið, við óskuðum honum allir til hamingju með það en það er kominn nýr vinnudagur --- og hann mæti hér og geri grein fyrir vinnubrögðum í nefndinni.