Skattamál

86. fundur
Laugardaginn 19. desember 1992, kl. 00:52:04 (3855)

     Stefán Guðmundsson (um þingsköp) :

    Hæstv. forseti. Þetta hefur verið býsna ströng vinnuvika í þinginu en ekki er ég kominn hingað beint til þess að kvarta. En það hefur verið unnið frá morgni og til kvölds og vel það hvern einasta dag. Lengst höfum við vakað til kl. hálffimm, held ég, eina nóttina. Þannig hefur þetta gengið. Ég satt að segja áleit að um það hefði náðst samstaða í dag að kvöldfundur og næturfundur yrðu ekki haldnir og menn gætu þess vegna gengið til starfa á morgun eins og áformað var og samkomulag var um að halda hér fund á laugardegi.
    Nú er klukkan að verða eitt og margir eru enn á mælendaskrá og því vildi ég spyrja hæstv. forseta hvort hann geti skýrt okkur, sem sitjum enn þá í salnum og hugsum okkur að vera hér áfram eins og við höfum verið, það er yfirleitt sami hópurinn sem situr hér alla tíð, frá því hver ætlan forseta er með framhald þingsins í nótt.