Skattamál

86. fundur
Laugardaginn 19. desember 1992, kl. 01:07:36 (3866)

     Jóhann Ársælsson (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Það er ástæða til að lýsa yfir áhyggjum yfir því sem er að gerast hér og vitanlega er það stjórnarliðið sem stendur fyrir þessu. Hér hefði verið þörf fyrir löngu síðan að menn hefðu horfst í augu við það sem er að gerast, menn hefðu sætt sig við að þeir yrðu að semja um málið með einhverjum hætti, hvernig það ætti að ganga fram. Það hefur ekki verið gert. Það hefur verið reynt að ná einhvers konar málamyndasamkomulagi sem hefur átt að ná til næstu klukkustunda og búið og þess vegna hefur svona gengið til. Það óformlega samkomulag, sem svo var kallað og var kynnt fyrir okkur þingmönnum

í dag, var kynnt þannig að það væri samkomulag um að hafa kvöldfund og reyna að ljúka því máli sem var á dagskrá og taka síðan tvær ræður um EES-málið. Þetta er núna orðinn næturfundur en ekki kvöldfundur. En nú er búið að kynna það fyrir okkur að það eigi að hætta við EES-umræðuna.
    Mig langar að spyrja hæstv. forseta vegna þess að hann nefndi það um morgundaginn að þá ætti að klára 3. umr. fjárlaga: Er það alveg sama hvað sú umræða á að vera löng? Eða geta þingmenn fengið einhverja vísbendingu um það hve vinnudagurinn verði langur á morgun? ( ÓÞÞ: Ekki á morgun. Ekki ertu að tala um sunnudaginn?) Ég er að tala um morgundaginn. ( ÓÞÞ: Er það ekki laugardagur?) Það var svo fast í mér samkomulagið frá í dag að við værum hér á kvöldfundi að ég tala enn um morgundaginn og er ekki búinn að skipta yfir. En ég óska eftir svari um þetta frá hæstv. forseta. Getum við áttað okkur á því hvenær við losnum úr þinginu á morgun?