Tekjustofnar sveitarfélaga

88. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 02:52:01 (4114)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svörin. Hins vegar vil ég lýsa þeirri skoðun að mér finnst frekar óvarlegt af fjmrn. að hafa ekki leitað álits ríkislögmannsembættisins eða annarra lögfræðinga sem hafa sérþekkingu á þessum málum í ljósi þess hvað Vinnuveitendasambandið sækir það af miklu kappi að flytja þetta mál og vinna það fyrir dómstól. Þegar svo mikið er í húfi eins og hálfur milljarður í fjárlagafrv. er mjög mikilvægt að menn reyni að undirbyggja mál sitt nokkuð vel. Mér finnst það nokkurt veikleikamerki að ráðuneytið skuli ekki nú þegar hafa í höndum álit frá öðrum en embættismönnum tekjudeildar ráðuneytisins í þessum efnum þótt þeir séu út af fyrir sig alls góðs maklegir á þessu sviði.
    Það hefur komið fram að slíkt álit liggur ekki fyrir og er í sjálfu sér ekkert við því að gera, en þar með er þessi afgreiðsla nokkuð óviss í fjárlagafrv.