Skattamál

89. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 15:04:37 (4161)

     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Kristín Ástgeirsdóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er auðvitað rétt hjá hv. þm. og formanni efh.- og viðskn. að menn eru að skoða ýmsar leiðir og hér voru til umfjöllunar í gær tillögur um m.a. hátekjuskatt og fjármagnstekjuskatt sem voru settar fram í tölum en án nokkurrar útfærslu. En það eru ýmsar aðrar leiðir til tekjuöflunar og ég minni enn á það, sem ég hef rætt við fjmrh. og hann er ekki ýkja hrifinn af, sem ég kalla lúxusskatta því ég tel að í rauninni sé það ein besta leiðin að ná inn tekjum af neyslunni og við verðum þá að horfast í augu við þær aðstæður sem ríkja í okkar samfélagi, að það sé skárra að skattleggja neysluna frekar en ýmislegt annað. Ég get miklu betur fellt mig við hækkun bensíngjalds heldur en t.d. það að lækka persónuafslátt og ná inn peningum af láglaunafólkinu á þann hátt þó að skattar af þessu tagi, hvort sem það eru lúxusskattar eða bensíngjald, valdi auðvitað ákveðinni mismunun. Fólk stendur misjafnlega að vígi. En við þær aðstæður sem nú ríkja verðum við að leita leiða til tekjuöflunar og að fara þær leiðir sem valda minnstri mismunun og mestu réttlæti.