Skattamál

89. fundur
Þriðjudaginn 22. desember 1992, kl. 16:03:46 (4177)


     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Ég skal ekki lengja umræðuna mikið. Hún er komin rækilega til skila út í þjóðfélagið og hún hleypur ekkert frá okkur. Hún verður þar til staðar og við munum mæta henni aftur þegar við komum til þings að loknu jólaleyfi. Ég vil leyfa mér að segja, því miður. Því miður munum við mæta umræðunni aftur af enn meiri þunga þegar við komum aftur til starfa á nýju ári. Ég segi því miður því að staðan er þannig núna að við þurfum sjálfsagt að leita langt til baka til að finna þann tíma sem eins margir geta ekki horft fram á gleðileg jól af fjárhagslegum og efnahagslegum ástæðum og gerist nú í vetur.
    Hv. 5. þm. Norðurl. v. sagði áðan að þessar aðgerðir miðuðu allar að því að treysta atvinnuna og stöðu heimilanna. Nú vil ég ekki draga í efa að það hafi verið meining hæstv. ríkisstjórnar og stjórnarmeirihlutans að svo yrði en því miður hefur það mistekist í öllum meginþáttum. Við stöndum frammi fyrir aðgerðum sem líta þannig út að hátekjufólki og fjármagnseigendum hefur verið hlíft við að taka eðlilegan skerf á sig í þessum aðgerðum. Hlutur þeirra lægst launuðu hefur verið aukinn með lækkun persónuafsláttar. Flöt skerðing á ráðstöfunartekjum blasir við yfir allan launaskalann, í raun allt sviðið því að þeir sem eru á atvinnuleysisbótum sleppa ekki einu sinni við afleiðingar gengisfellingarinnar.
    Einnig blasir við að ýmislegt í því sem snýr að atvinnulífinu er svo óhönduglegt að allt bendir til þess að það muni draga úr atvinnu. Verið er að leggja nýja skatta á jaðargreinar varðandi hvað þær þola í skattlagningu sem m.a. Þjóðhagsstofnun hefur sýnt okkur fram á að muni væntanlega þýða samdrátt í atvinnu. Þar nefni ég fyrst og fremst ferðamálin og beini þeim orðum til hæstv. samgrh. sem barðist á síðasta kjörtímabili hatrammri baráttu fyrir því að lækka skatta á ferðamál. Það er síðan hlutverk þess sama manns, nú sem hæstv. ráðherra, að auka skattlagningu á ferðamál með ófyrirséðum afleiðingum.
    Hvað er síðan fram undan? Hvað tekur við þegar við mætum hér aftur eftir áramótin? Það sem blasir við ef ekkert verður að gert eru stórfelld átök á vinnumarkaði og merkilegt nokk, þá beina samtök launþega spjótum sínum ekki að atvinnurekendum, meðal atvinnurekenda og launafólks hefur í raun myndast breið samstaða á síðustu árum, spjót aðila vinnumarkaðarins og þá sérstaklega launþegahreyfingarinnar beinast númer 1, 2 og 3 að ríkisstjórninni. Ég veit að hæstv. ríkisstjórn tekur ekki mark á ASÍ. Það kom fram í máli hæstv. fjmrh. auk þess sem hæstv. ráðherra fór á mjög ósmekklegan hátt með tilvitnanir í skýrslu ASÍ um aðgerðir í atvinnumálum frá því í haust. Ég mun ekki lengja ræðu mína með því að tíunda á hvern hátt það var gert. Ég veit líka að hæstv. ríkisstjórn tekur ekki mark á stjórnarandstöðunni. Það höfum við fundið og heyrt nú á síðustu dögum en ég bið hæstv. ríkisstjórn að hugleiða orð tveggja varaþingmanna Sjálfstfl., Hrafnkels A. Jónssonar á Austurlandi og þess sem hér situr nú sem 1. þm. Vestf., Guðjóns A. Kristjánssonar, formanns Farmanna- og fiskimannasambandsins. Það verður tekið eftir því í atkvæðagreiðslu á eftir hvernig sá forustumaður launþega fylgir eftir þeirri ályktun sem birtist frá samtökum hans í Ríkisútvarpinu í dag.
    Virðulegi forseti. Ég minni á það hér að það var fráfarandi ríkisstjórn, sem með góðri samvinnu við aðila vinnumarkaðarins, kom á þjóðarsáttinni 1990 þar sem verðbólgan var kveðin niður og lagður nýr grunnur til framfara. Það verða að mínu mati eftirmæli hæstv. núv. ríkisstjórnar að vera sú ríkisstjórn sem

glutraði þessu niður aftur. Hún fékk tækifærið upp í hendurnar til að fylgja þessu starfi eftir en dómurinn í dag er sá að henni mistókst.
    Við í stjórnarandstöðunni lýstum því yfir í nefndaráliti okkar við 2. umr. að við værum tilbúnir til samstarfs við ríkisstjórnina og aðila vinnumarkaðarins til að vinna okkur út úr þeim ógöngum sem núv. hæstv. ríkisstjórn er búin að koma okkur í. Það tilboð stendur enn. Það er í raun að mínu mati sú eina færa leið sem nú er fram undan. Ríkisstjórnin hefur ekkert traust úti í þjóðfélaginu, ekki þarf annað en að labba út í banka eða á bensínstöð til að heyra það. Það verður að koma til ný þjóðarsátt og væntanlega þá því miður undir forustu --- ég á kannski ekki að segja því miður --- hún verður að vera undir forustu væntanlega nýrrar ríkisstjórnar.