Ferill 9. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 9 . mál.


9. Frumvarp til samkeppnislaga



(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992.)



I. KAFLI


Markmið og gildissvið laganna.


1. gr.


    Lög þessi hafa það markmið að vinna að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins og efla virka samkeppni í viðskiptum með því að:
    vinna gegn óhæfilegum hindrunum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri,
    vinna gegn óréttmætum viðskiptaháttum.

2. gr.


    Lögin taka til hvers konar atvinnustarfsemi, svo sem framleiðslu, verslunar og þjónustu, án tillits til þess hvort hún er rekin af einstaklingum, félögum, opinberum aðilum eða öðrum.
     Lögin taka ekki til launa eða annarra starfskjara launþega samkvæmt kjarasamningum.

3. gr.


    Lög þessi taka til samninga, skilmála og athafna sem hafa eða ætlað er að hafa áhrif hér á landi.
     Lögin taka ekki til samninga, skilmála og athafna sem aðeins er ætlað að hafa áhrif utan Íslands.
     Ráðherra getur ákveðið að ákvæði laga þessara gildi um samninga, skilmála og athafnir sem áhrif hafa utan Íslands, enda sé kveðið á um slíkt í samningi við annað ríki eða alþjóðastofnun sem Ísland er aðili að. Með slíkum samningi er einnig hægt að takmarka áhrif laganna innan lands á tilteknum sviðum. Ráðherra getur einnig ákveðið með reglugerð að úrskurðir, sem gerðir eru um samkeppnismál af þeim stofnunum sem fara með framkvæmd sameiginlegra samkeppnisreglna samkvæmt milliríkjasamningi sem Ísland er aðili að, hafi sama gildi hér á landi og úrskurðir samkvæmt lögum þessum.
     Samkeppnisstofnun skal aðstoða við framkvæmd samkeppnisreglna annarra ríkja og alþjóðastofnana í samræmi við gagnkvæmar skuldbindingar í milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að.

II. KAFLI


Orðskýringar.


4. gr.


    Merking orða í lögum þessum er sem hér segir:
     Atvinnurekstur er hvers konar atvinnustarfsemi, óháð formi eignarhalds og án tillits til þeirrar vöru, þjónustu eða réttinda sem verslað eða sýslað er með gegn endurgjaldi.
     Fyrirtæki er einstaklingur, félag, opinberir aðilar og aðrir sem stunda atvinnurekstur.
     Fyrirtækjasamstæða er samband fyrirtækja með þannig eignauppbyggingu að eitt fyrirtæki á svo stóran hlut í öðru fyrirtæki eða fleiri fyrirtækjum að það fer með meiri hluta atkvæða. Það fyrirtæki skoðast því sem móðurfyrirtæki, en hitt eða hin fyrirtækin sem dótturfyrirtæki. Til fyrirtækjasamstæðu telst einnig fyrirtæki þar sem móðurfyrirtæki og dótturfyrirtæki eða eitt eða fleiri dótturfyrirtæki eiga saman svo mörg hlutabréf eða hluti að þau fara með meiri hluta atkvæða í þeim.
     Markaður er sölusvæði vöru og staðgengdarvöru og/eða sölusvæði þjónustu og staðgengdarþjónustu. Staðgengdarvara og staðgengdarþjónusta er vara eða þjónusta sem að fullu eða verulegu leyti getur komið í stað annarrar.
     Neytandi er einstaklingur sem kaupir vöru eða þjónustu gegn endurgreiðslu, enda séu kaupin ekki gerð í atvinnuskyni.
     Sölustig framleiðslu ber að líta á sem eitt sölustig, heildsölu annað sölustig, smásölu hið þriðja o.s.frv.
     Þjónusta er hvers konar fyrirgreiðsla, vinna eða þjónusta gegn endurgjaldi, nema launuð vinna í þjónustu annarra.
     Vara er samkvæmt lögum þessum fasteignir og lausafé, þar með talin skip, loftför, lofttegundir, rafmagn og aðrir orkugjafar.
     Verð er andvirði vöru og þjónustu, þ.e. hvers konar endurgreiðsla án tillits til þess hvort notað er annað heiti, svo sem endurgjald, laun, þóknun, frakt, flutningsgjald, taxti, leiga eða því um líkt.
     Virk yfirráð eru yfirráð sem gera aðila kleift að hafa úrslitaáhrif á rekstur og stjórnun fyrirtækis hvort sem þau áhrif eru til komin vegna þess að hann getur:
    haft áhrif á skipun stjórnar, atkvæðagreiðslur eða ákvarðanir fyrirtækisins,
    notað eða ráðstafað eignum eða hluta eigna fyrirtækis.
     Rísi ágreiningur um hvað falla skuli undir hugtök þessi sker viðskiptaráðherra úr þeim ágreiningi.

III. KAFLI


Stjórnsýsla.


5. gr.


    Viðskiptaráðherra fer með framkvæmd laga þessara en í umboði hans annast samkeppnisráð, Samkeppnisstofnun og áfrýjunarnefnd samkeppnismála daglega stjórnsýslu á því sviði sem lögin ná til.

6. gr.


    Í samkeppnisráði eru fimm menn. Skipar ráðherra þrjá þeirra, þ.e. formann ráðsins án tilnefningar, einn samkvæmt tilnefningu Alþýðusambands Íslands og einn samkvæmt tilnefningu Vinnuveitendasambands Íslands. Hæstiréttur Íslands skipar tvo menn í ráðið sem skulu hafa þekkingu á samkeppnis- og viðskiptamálum og vera óháðir fyrirtækjum eða samtökum sem lögin taka til.
     Varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Skipunartími samkeppnisráðs er fjögur ár í senn, en við ríkisstjórnarskipti getur ráðherra fellt niður skipun formanns og varamanns hans og skipað nýja menn í þeirra stað til loka skipunartíma samkeppnisráðs er þá situr.

7. gr.


    Samkeppnisráði til ráðgjafar er fastanefnd skipuð þremur mönnum.
     Nefnist hún auglýsinganefnd og skal fjalla um auglýsingar og gæta þess að þær veiti ekki rangar, ófullnægjandi eða villandi upplýsingar og þær brjóti ekki að öðru leyti í bága við ákvæði 21. og 22. gr. laga þessara.
     Nefndin skal skipuð af ráðherra og skal formaður og varamaður hans vera úr hópi aðal- og varamanna í samkeppnisráði samkvæmt ákvörðun ráðsins. Aðra nefndarmenn og varamenn þeirra skipar ráðherra að höfðu samráði við helstu hagsmunaaðila er hlut eiga að máli, þar með talin samtök neytenda. Skipunartími nefndarmanna fellur niður um leið og skipunartíma samkeppnisráðs lýkur.
     Ráðherra setur nánari starfsreglur fyrir nefndina og gerir hún tillögur um afgreiðslu mála til samkeppnisráðs.
     Auk framangreindrar fastanefndar er ráðherra heimilt að beiðni samkeppnisráðs að skipa ráðgjafarnefndir er skipaðar séu sérfróðum mönnum auk formanns úr hópi aðal- og varamanna samkeppnisráðs í því skyni að fjalla um afmörkuð viðfangsefni á sviði samkeppnismála. Slíkar nefndir skulu skipaðar til takmarkaðs tíma og eigi lengur en til eins árs í senn og aldrei lengur en til loka skipunartíma samkeppnisráðs.

8. gr.


    Samkeppnisstofnun undirbýr mál sem lögð eru fyrir samkeppnisráð og ráðgjafarnefndir þess og annast dagleg störf ráðsins. Stofnuninni er jafnframt heimilt að taka ákvarðanir til bráðabirgða um einstök mál. Skulu slíkar ákvarðanir lagðar fyrir samkeppnisráð á næsta fundi ráðsins og skal ráðið taka afstöðu til ákvörðunarinnar innan þriggja mánaða ella fellur hún úr gildi. Samkeppnisráð getur falið Samkeppnisstofnun ákvörðunarvald sitt á afmörkuðum sviðum samkvæmt nánari reglum sem ráðið setur.
     Ráðherra skipar forstjóra Samkeppnisstofnunar og stjórnar hann rekstri hennar. Forstjóri eða staðgengill hans sitja fundi samkeppnisráðs með málfrelsi og tillögurétti.

9. gr.


    Ákvörðunum samkeppnisráðs og Samkeppnisstofnunar má áfrýja til sérstakrar nefndar, áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Áfrýjun frestar ekki gildistöku ákvarðana samkeppnisráðs eða Samkeppnisstofnunar. Í áfrýjunarnefnd sitja þrír menn og jafnmargir til vara, skipaðir af viðskiptaráðherra. Skulu tveir þeirra, formaður og varaformaður, uppfylla hæfisskilyrði hæstaréttardómara og sá þriðji skal hafa staðgóða kunnáttu á sviði viðskipta. Skipunartími áfrýjunarnefndar samkeppnismála er hinn sami og skipunartími samkeppnisráðs.

IV. KAFLI


Bann við samkeppnishömlum.


10. gr.


    Samningar og samþykktir, hvort heldur þær eru bindandi eða leiðbeinandi, og samstilltar aðgerðir milli fyrirtækja á sama sölustigi eru bannaðar þegar þær lúta að eða er ætlað að hafa áhrif á:
    verð, afslætti eða álagningu,
    skiptingu markaða eftir svæðum, eftir viðskiptavinum eða eftir sölu og magni,
    gerð tilboða.
     Samvinna á sama sölustigi um leiðsögn við útreikning á verði, afslætti og álagningu er bönnuð.

11. gr.


    Óheimilt er að ákveða eða semja um eða á annan hátt að hafa áhrif á verð, afslætti eða álagningu er gilda skal við endursölu vöru á næsta sölustigi. Bannið nær einnig til leiðsagnar um útreikning á verði, afslætti og álagningu.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. getur seljandi gefið upp leiðbeinandi endursöluverð, enda láti hann koma skýrt fram í tilkynningum sínum að verðið sé leiðbeinandi. Jafnframt getur seljandi ákveðið hámarksverð sem endurseljandi getur notað við verðlagningu á vörum, enda komi skýrt fram í öllum tilkynningum seljanda að um hámarksverð sé að ræða. Seljanda ber að tilkynna endurseljanda í hverju tilviki að honum sé frjálst að selja vöruna á verði sem sé lægra en hámarksverðið.

12. gr.


    Samtökum fyrirtækja er óheimilt að ákveða samkeppnishömlur eða hvetja til hindrana sem bannaðar eru samkvæmt lögum þessum eða brjóta í bága við ákvarðanir skv. 17.–19. gr.
     Bann þetta nær einnig til stjórnarmanna samtaka, starfsmanna þeirra og manna sem valdir eru til trúnaðarstarfa í þágu samtakanna.

13. gr.


    Þrátt fyrir ákvæði 10., 11. og 12. gr. geta fyrirtæki gert með sér samninga eða haft með sér samvinnu enda þótt það leiði til takmörkunar á samkeppni ef takmörkunin hefur að mati Samkeppnisstofnunar aðeins lítil áhrif á þann markað sem um er að ræða. Ákvæðin eru heldur ekki til fyrirstöðu samvinnu milli lítilla fyrirtækja ef samvinnan styrkir stöðu þeirra gagnvart stærri fyrirtækjum í sömu grein.
     Óski fyrirtæki eða samtök fyrirtækja eftir því að fá skýra afstöðu Samkeppnisstofnunar til þess hvort samningar eða samvinna þeirra falli undir ákvæði 1. mgr. geta þau sent tilkynningu þar að lútandi til stofnunarinnar. Geri stofnunin ekki athugasemd við tilkynninguna innan þriggja mánaða frá móttöku hennar telst samkomulagið falla undir 1. mgr. Gildir það í þrjú ár frá því að þriggja mánaða fresturinn er liðinn.

14. gr.


    Þrátt fyrir ákvæði 10. og 11. gr. geta móðurfyrirtæki og dótturfyrirtæki í sömu grein eða fyrirtæki innan sömu fyrirtækjasamstæðu gert með sér samninga eða haft með sér samvinnu enda þótt af því leiði takmörkun samkeppni.

15. gr.


    Bannákvæði skv. a- og b-liðum 1. mgr. 10. gr., sbr. 2. mgr. sömu greinar, tekur ekki til samninga og samþykkta um samkeppnishömlur sem nytjaleyfishafi og nytjaleyfisnotandi hafa gert sín á milli um rétt til að nota skráð einkaleyfi, vörumerki eða mynstur á sviði iðnaðar.

16. gr.


    Samkeppnisráð getur veitt undanþágu frá bannákvæðunum í 10., 11. og 12. gr. Skilyrði slíkrar undanþágu eru að:
    samkeppni aukist á þeim markaði sem um ræðir,
    vænta megi að jákvæð áhrif samkeppnishamlna vegi þyngra en ókostir þeirra við þær aðstæður sem um er að ræða,
    sérstakar ástæður séu fyrir hendi er varða almannaheill.

V. KAFLI


Eftirlit með samkeppnishömlum.


17. gr.


    Samkeppnisráð getur gripið til aðgerða gegn samningum, skilmálum og athöfnum sem hafa skaðleg áhrif á samkeppni. Hin skaðlegu áhrif geta m.a. falist í:
    að fyrirtæki nái, viðhaldi eða styrki markaðsráðandi stöðu sína á þeim markaði sem um ræðir,
    óhagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta, t. d. vegna þess að valkostum viðskiptavina fækkar, framleiðsla og sala verður dýrari og keppinautar útilokast frá markaðnum.
     Íhlutun getur falið í sér bann, fyrirmæli eða heimild með ákveðnu skilyrði. Íhlutun getur m.a. falið í sér að samkeppnisráð grípi til ákvörðunar um verð og viðskiptakjör einstakra fyrirtækja eða fyrirtækjahópa.

18. gr.


    Samkeppnisstofnun getur skyldað fyrirtæki til að tilkynna um samruna fyrirtækja, yfirtöku á öðru fyrirtæki, kaup á meiri hluta í öðru fyrirtæki eða yfirtöku á starfsemi annars fyrirtækis með öðrum hætti sem gera má ráð fyrir að hafi veruleg áhrif á samkeppnisaðstæður.
     Einnig er hægt að leggja á tilkynningarskyldu um samruna fyrirtækja þegar a.m.k. eitt fyrirtækjanna starfar í vernduðu umhverfi að því er samkeppni varðar sem því hefur verið skapað í skjóli ákvarðana opinberra aðila enda þótt samruninn leiði ekki til markaðsráðandi stöðu.
     Telji samkeppnisráð að samruni fyrirtækja eða yfirtaka fyrirtækis á öðru fyrirtæki dragi verulega úr samkeppni og sé andstæð markmiði laga þessara getur ráðið lagt bann við fyrirhuguðum samruna eða yfirtöku fyrirtækja og mælt fyrir um ógildingu á samruna eða yfirtöku sem þegar hefur átt sér stað. Sama á við ef eigendur með virk yfirráð í einu fyrirtæki ná virkum yfirráðum í öðru fyrirtæki þannig að hamlað geti samkeppni og brotið í bága við markmið laganna. Kröfu um slíka ógildingu skal bera fram eigi síðar en þremur mánuðum eftir að ráðinu varð kunnugt um samrunann eða yfirtökuna.

19. gr.


    Ef samkeppnisráð eða Samkeppnisstofnun telur að ákvæði laga og stjórnvaldsfyrirmæla stríði gegn markmiði laga þessara og torveldi frjálsa samkeppni í viðskiptum skal vekja athygli ráðherra á því áliti.

VI. KAFLI


Eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum.


20. gr.


    Óheimilt er að hafast nokkuð það að sem brýtur í bága við góða viðskiptahætti í atvinnustarfsemi eins og þeir eru tíðkaðir eða eitthvað það sem óhæfilegt er gagnvart hagsmunum neytenda.

21. gr.


    Óheimilt er að veita rangar, ófullnægjandi eða villandi upplýsingar í auglýsingum eða með öðrum hætti eða beita öðrum slíkum viðskiptaaðferðum sem sama marki eru brenndar, enda séu upplýsingar þessar og viðskiptaaðferðir fallnar til að hafa áhrif á eftirspurn eða framboð vara, fasteigna, þjónustu eða annars þess sem haft er á boðstólum í atvinnustarfsemi sem lög þessi taka til.
     Auglýsingar og aðrar viðskiptaaðferðir skulu ekki vera ósanngjarnar gagnvart keppinautum eða neytendum vegna forms þeirra eða sökum þess að skírskotað er til óviðkomandi mála.

22. gr.


    Auglýsingar, sem höfða eiga til íslenskra neytenda, skulu vera á íslenskri tungu.
     Auglýsingar skulu þannig úr garði gerðar að ekki leiki vafi á að um auglýsingar sé að ræða. Skulu þær skýrt aðgreindar frá öðru efni fjölmiðla.
     Auglýsingar skulu miðast við að börn sjái þær og heyri og mega þær á engan hátt misbjóða þeim.
     Í auglýsingum verður að sýna sérstaka varkárni vegna trúgirni barna og unglinga og áhrif á þau.
     Komi börn fram í auglýsingum skal þess gætt að sýna hvorki né lýsa hættulegu atferli eða atvikum er leitt geti til þess að þau eða önnur börn komist í hættu eða geri það sem óheimilt er.

23. gr.


    Nú er vara, þjónusta eða annað það sem í té er látið og lög þessi taka til þannig úr garði gert að leiðbeininga er þörf við mat á eiginleikum þess, t.d. notagildi og endingu, svo og meðferð og hættu sem af vöru eða öðru getur stafað og ber þá að veita fullnægjandi leiðbeiningar þegar tilboð er gefið, samningur gerður eða eftir atvikum við afhendingu. Leiðbeiningarnar skulu miðaðar við tegund og gerð viðkomandi vöru, þjónustu eða annars þess sem í té er látið.

24. gr.


    Yfirlýsingu um ábyrgð má því aðeins gefa að ábyrgðaryfirlýsingin veiti viðtakanda meiri rétt en hann hefur samkvæmt gildandi lögum.

25. gr.


    Óheimilt er að nota í atvinnustarfsemi firmanafn, verslunarmerki eða því líkt sem sá hefur ekki rétt til er notar eða rekur atvinnu undir nafni sem gefur villandi upplýsingar um eignarrétt eða ábyrgð atvinnurekanda. Enn fremur er sérhverjum bannað að nota auðkenni, sem hann á tilkall til, á þann hátt að leitt geti til þess að villst verði á því og öðru einkenni sem annað fyrirtæki notar með fullum rétti.

26. gr.


    Óheimilt er við framboð vöru, þjónustu eða annars þess sem látið er í té og lög þessi taka til að bjóða neytendum kaupbæti eða eitthvað það sem jafna má til kaupbætis nema verðmæti það, sem í kaupbætinum felst, sé óverulegt. Auglýsingar um kaupbæti, sem óheimill er samkvæmt ákvæðum 1. málsl., eru bannaðar.
     Greiðsla, sem að öllu leyti er sömu tegundar og aðalgreiðslan, telst ekki kaupbætir.

27. gr.


    Óheimilt er að bjóða neytendum annað en peninga gegn afhendingu merkis eða annars skilríkis sem afhent er við sölu vöru eða þjónustu.
     Nú veitir merki eða skilríki aðeins rétt til eftirlits, viðgerðar eða því um líks á hinu selda og eiga þá ákvæði 1. mgr. ekki við.

28. gr.


    Í atvinnustarfsemi er óheimilt að hafa áhrif á starfsmann annars aðila eða þann sem kemur fram á hans vegum með gjöfum eða öðrum hlunnindum eða loforðum um slíkt sé það gert án vitundar hins síðastnefnda og í þeim tilgangi að afla gefandanum eða öðrum forréttinda í viðskiptum eða hlunninda fram yfir aðra, enda sé gjöfin eða hlunnindin fallin til þess.
     Nú eru gjafir gefnar eða hlunnindi veitt eftir að brotið hefur verið gegn starfsskyldum á þann hátt sem greinir í 1. mgr. og eiga þá ákvæði 1. mgr. við ef telja verður ávinninginn óhæfilega umbun.

29. gr.


    Óheimilt er í atvinnustarfsemi er lög þessi taka til að afla sér eða reyna að afla sér með ótilhlýðilegum hætti upplýsinga um eða umráða yfir atvinnuleyndarmálum starfseminnar.
     Sá sem fengið hefur vitneskju um eða umráð yfir atvinnuleyndarmálum á réttmætan hátt í starfi sínu fyrir annan eða í félagi við annan, sbr. 1. mgr., má ekki án heimildar veita upplýsingar um eða hagnýta sér slík leyndarmál. Bann þetta gildir í þrjú ár frá því að starfi er lokið eða samningi slitið.
     Þeim sem vegna starfs síns eða stöðu að öðru leyti hefur verið trúað fyrir uppdráttum, lýsingu, uppskriftum, líkönum eða þess háttar er óheimilt að hagnýta sér eða veita öðrum afnot af slíku án sérstakrar heimildar.
     Nú hefur upplýsinga um eða umráða yfir atvinnuleyndarmáli verið aflað á þann hátt að brotið hefur verið gegn ákvæðum 1.–3. mgr. og er þá þeim sem brotlegur er eða þeim sem fengið hafa upplýsingar frá honum óheimilt að færa sér það í nyt.

30. gr.


    Útsölu eða aðra sölu, þar sem selt er á lækkuðu verði, má því aðeins auglýsa eða tilkynna að um raunverulega verðlækkun sé að ræða.
     Þess skal gætt að greinilegt sé með verðmerkingum hvert hið upprunalega verð vörunnar var.

31. gr.


    Óheimilt er að selja eða hafa á boðstólum vörur sem merktar eru sjálfar eða á miða eða umbúðir eða með tilsvarandi heitum, alþjóðamerki hjúkrunar- og mannúðarstarfsemi eða öðrum hliðstæðum auðkennum, svo og að nota slík merki, auðkenni eða nöfn í heimildarleysi á auglýsingaspjöldum, auglýsingum, reikningum, vöruskrám eða öðrum verslunarskjölum.
     Við framboð vöru, þjónustu eða annars þess sem í té er látið og lög þessi taka til er óheimilt að nota í heimildarleysi íslenska ríkisskjaldarmerkið, íslensk byggðamerki, svo og erlend ríkis- eða byggðamerki.
     Óheimilt er að selja eða bjóða til sölu vörur af erlendum uppruna ef á þær eða umbúðir þeirra hefur verið sett mynd af íslenska fánanum, skjaldarmerki íslenska ríkisins eða öðrum hliðstæðum, þjóðlegum auðkennum eða skírskota til þeirra á annan hátt.

32. gr.


    Samkeppnisráð getur sett nánari reglur til þess að koma í veg fyrir að upplýsingar séu villandi eða óhæfilegar gagnvart neytendum svo og almennar reglur um beitingu 20.–23. gr. Samkeppnisstofnun skal eftir því sem kostur er ráðgast við hluteigandi aðila eða samtök þeirra áður en slíkar reglur eru settar.

VII. KAFLI


Eftirlit með gagnsæi markaðarins.


33. gr.


    Fyrirtæki, sem selur vörur eða þjónustu til neytenda, skal merkja vöru sína og þjónustu með söluverði eða sýna það á svo áberandi hátt á sölustaðnum að auðvelt sé fyrir neytendur að sjá það. Samkeppnisstofnun getur sett nánari ákvæði um verðmerkingar með opinberri tilkynningu.

34. gr.


    Samkeppnisstofnun getur gefið fyrirtækjum sérstök fyrirmæli um að gera ráðstafanir til að auðvelda viðskiptavinum að meta verð og gæði. Fyrirmælin geta falist í skyldu til að tilgreina verð, viðskiptakjör, gæði og aðra eiginleika og hvernig vara skal mæld, vegin og flokkuð. Samkeppnisstofnun getur gefið slík fyrirmæli með opinberri tilkynningu.

35. gr.


    Við framkvæmd þessara laga getur Samkeppnisstofnun birt opinberlega upplýsingar um samninga, skilmála og athafnir sem hafa eða er ætlað að hafa þau áhrif að hamla samkeppni.
     Tillit skal þó tekið til réttmætra hagsmuna fyrirtækja til að halda leyndum viðskiptalegum og tæknilegum upplýsingum.

36. gr.


    Í því skyni að stuðla að og efla virka samkeppni skal Samkeppnisstofnun afla upplýsinga um verð, verðmyndun og önnur viðskiptakjör og birta niðurstöður, eftir því sem ástæða þykir til.

VIII. KAFLI


Eftirlit með greiðslukortastarfsemi.


37. gr.


    Samkeppnisstofnun og samkeppnisráð skulu hafa eftirlit með greiðslukortastarfsemi. Skal þess gætt að viðskiptakjör neytenda verði eigi lakari í slíkum viðskiptum hér á landi en almennt gerist í helstu viðskiptaríkjum Íslendinga.

38. gr.


    Útgefendur greiðslukorta skulu tilkynna slíka útgáfu til Samkeppnisstofnunar og heldur hún skrá yfir þá. Sama gildir um umboðsmenn erlendra greiðslukortafyrirtækja sem reka greiðslumiðlun með notkun greiðslukorta hér á landi.

39. gr.


    Kortaútgefendum er skylt að veita Samkeppnisstofnun upplýsingar um viðskiptaskilmála sína gagnvart korthöfum og greiðsluviðtakendum. Skulu kortaútgefendur birta gjaldskrár sínar opinberlega ef Samkeppnisstofnun krefst þess.
     Telji samkeppnisráð að viðskiptaskilmálar kortaútgefenda feli í sér óréttmæt skilyrði sem aðeins taki mið af eigin hagsmunum eða komi illa niður á hagsmunum korthafa eða greiðsluviðtakenda og séu ekki í samræmi við ákvæði 37. gr. getur það lagt bann við slíkum skilmálum og lagt fyrir kortaútgefanda að breyta viðskiptaháttum sínum.

40. gr.


    Ráðherra getur með reglugerð sett nánari reglur um greiðslukortastarfsemi að fengnum tillögum samkeppnisráðs þar að lútandi.

IX. KAFLI


Verðstöðvun.


41. gr.


    Ef neyðarástand skapast af óvæntum eða utanaðkomandi aðstæðum, svo sem vegna náttúruhamfara, styrjaldarástands eða óvenjulegra verðsveiflna á innlendum og erlendum mörkuðum, getur ríkisstjórnin ákveðið verðstöðvun, hámarksverð og hámarksálagningu eða aðrar reglur um verðlagningu og viðskiptakjör. Samkeppnisráð og Samkeppnisstofnun skulu annast eftirlit með framkvæmd slíkra ákvarðana.
     Aðgerðir skv. 1. mgr. geta staðið allt að þrjá mánuði. Ef talið er nauðsynlegt að aðgerðir standi lengur þarf samþykki Alþingis að koma til í formi þingsályktunar.

X. KAFLI


Upplýsingaskylda.


42. gr.


    Samkeppnisstofnun getur krafið einstök fyrirtæki, fyrirtækjahópa og samtök fyrirtækja sem lög þessi taka til um allar upplýsingar sem nauðsynlegar þykja við athugun einstakra mála. Upplýsinga er hægt að krefjast munnlega eða skriflega og skulu þær gefnar innan hæfilegs frests sem stofnunin setur.
     Samkeppnisstofnun getur með sömu skilyrðum og í 1. mgr. krafist þess að fá gögn afhent til athugunar. Skulu þau afhent innan hæfilegs frests sem stofnunin setur.
     Samkeppnisstofnun getur í starfi sínu krafist upplýsinga og gagna frá öðrum stjórnvöldum, þar á meðal frá skattyfirvöldum og tollyfirvöldum, óháð þagnarskyldu þeirra.
     Samkeppnisstofnun getur einnig lagt skyldu á þá aðila, sem um getur í 1. mgr., að upplýsa stofnunina reglulega um atriði sem máli skipta við framkvæmd laga þessara. Samkeppnisstofnun getur gefið slík fyrirmæli með opinberri tilkynningu.

43. gr.


    Samkeppnisstofnun getur við rannsókn máls gert nauðsynlegar athuganir á starfsstað fyrirtækis og lagt hald á gögn þegar ríkar ástæður eru til að ætla að brotið hafi verið gegn lögum þessum eða ákvörðunum sem teknar hafa verið samkvæmt lögum þessum eða ástæða er til að ætla að skilyrði til íhlutunar séu fyrir hendi.

XI. KAFLI


Um framkvæmd samkeppnisreglna o.fl. samkvæmt samningnum


um Evrópska efnahagssvæðið.


44. gr.


    Skylt er þeim sem um er beðinn að veita eftirlitsstofnun EFTA og dómstóli EFTA þær upplýsingar sem þeim er nauðsynlegt að afla sér samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, samningnum milli EFTA-ríkjanna um eftirlitsstofnun og dómstól eða samkvæmt fyrirmælum sem gefin eru með heimild í 51. gr.
     Samkeppnisstofnun getur krafist sömu upplýsinga og um getur í 1. mgr. og getur hún sett skilafrest í því sambandi.

45. gr.


    Eftirlitsstofnun EFTA er heimilt að framkvæma vettvangsskoðun hjá íslenskum aðilum á sama hátt og Samkeppnisstofnun enda sé fylgt þeim starfsreglum sem settar eru í bókun 4 með samningnum um eftirlitsstofnun og dómstól EFTA um störf og valdsvið eftirlitsstofnunar EFTA á sviði samkeppni.
     Fulltrúum eftirlitsstofnunar EFTA og fulltrúum framkvæmdastjórnar EB, sem fjalla um samkeppnismál, er heimilt að vera viðstaddir og taka þátt í vettvangsrannsóknum sem Samkeppnisstofnun framkvæmir innan þeirra marka sem samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið og fylgisamningar hans setja. Sama gildir um rétt fulltrúa Samkeppnisstofnunar og framkvæmdastjórnar EB þegar eftirlitsstofnun EFTA framkvæmir vettvangsrannsóknir hér á landi.
     Ákvörðun eftirlitsstofnunar EFTA og Samkeppnisstofnunar þess efnis að vettvangsrannsókn skuli fara fram má fullnægja með aðfarargerð.

46. gr.


    Lögmælt þagnarskylda íslenskra yfirvalda skal ekki vera því til fyrirstöðu að þau gefi eftirlitsstofnun EFTA eða fulltrúum framkvæmdastjórnar EFTA, sem fjalla um samkeppnismál, allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru við framkvæmd samkeppnisreglna á Evrópska efnahagssvæðinu.

47. gr.


    Eftirlitsstofnun EFTA og EFTA-dómstólnum er heimilt að leggja sektir á fyrirtæki, samtök fyrirtækja eða einstaklinga fyrir brot af ásetningi eða gáleysi á samkeppnisreglum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, á reglum samnings EFTA-ríkjanna um eftirlitsstofnun og dómstól EFTA eða á reglum sem settar eru með heimild í 51. gr. þessara laga.
     Sömu aðilar geta einnig lagt á févíti til að tryggja að farið verði eftir ákvörðunum sem teknar eru á grundvelli samkeppnisreglnanna, sbr. ákvæði 1. mgr.
     Ákvarðanir um sektir og févíti samkvæmt framanskráðu eru aðfararhæfar.

48. gr.


    Ákvæði í 1.–3. gr. í bókun 25 við EES-samninginn um samkeppni varðandi verslun með kol og stál skulu hafa lagagildi hér á landi.

49. gr.


    Hafi ríkisaðstoð, sem 61. gr. EES-samningsins tekur til, verið tilkynnt eftirlitsstofnun EFTA geta íslensk stjórnvöld ekki úrskurðað um það hvort aðstoðin sé í samræmi við leyfilegan opinberan fjárhagsstuðning fyrr en eftirlitsstofnun EFTA hefur tilkynnt um álit sitt á málinu. Sama gildir um fjárhagsaðstoð úr sveitarsjóði sem fallið getur undir 61. gr. samningsins.

50. gr.


    Sveitarfélag, sem hyggst veita fyrirtæki aðstoð af því tagi sem um getur í 61. gr., skal tilkynna Samkeppnisstofnun um hina fyrirhuguðu aðstoð.
     Telji eftirlitsstofnun EFTA að aðstoð, sem sveitarstjórn hefur tekið ákvörðun um að veita, brjóti gegn 61. gr. EES-samningsins skal Samkeppnisstofnun tilkynna það sveitarstjórn. Samkeppnisráð getur fylgt eftir framkvæmd slíks úrskurðar með álagningu févítis, sbr. 2. mgr. 47. gr.
     Verði að afturkalla ákvörðun um ríkisaðstoð eða annan fjárhagsstuðning úr opinberum sjóðum vegna ákvæða samningsins um Evrópska efnahagssvæðið skapar það sveitarfélagi eða ríkissjóði ekki skaðabótaskyldu gagnvart þeim sem ákvörðun beinist að eða telja sig að öðru leyti bíða tjón af afturkölluninni.

51. gr.


    Ráðherra er heimilt að fenginni umsögn samkeppnisráðs að setja reglugerð um nánari framkvæmd samkeppnisreglna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og samningsins um eftirlitsstofnun og dómstól EFTA. Ráðherra er einnig heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd reglna EES-samningsins um ríkisaðstoð til aðila hér á landi.

XII. KAFLI


Almenn ákvæði.


52. gr.


    Samningar, sem brjóta í bága við bannákvæði laga þessara, eru ógildir.

53. gr.


    Þeim sem starfa af hálfu stjórnvalda að framkvæmd laga þessara er óheimilt að skýra frá þeim atriðum sem þeir verða áskynja um í starfi sínu og leynt eiga að fara. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
     Enginn má af hálfu stjórnvalda taka þátt í úrlausn máls er lög þessi ná til ef hann hefur þar persónulegra hagsmuna að gæta. Viðkomandi stjórnvald sker úr um vafaatriði sem upp kunna að koma í því sambandi.

XIII. KAFLI


Viðurlög.


54. gr.


    Samkeppnisráð getur bannað athafnir sem brjóta í bága við ákvæði 20., 21. og 22. gr. laga þessara. Banni má fylgja ákvörðun um dagsektir sem kemur til framkvæmda ef bannið er brotið.
     Áður en til banns kemur skv. 1. mgr. getur Samkeppnisstofnun lokið málinu með sátt. Hafi sátt komist á gildir hún sem bann skv. 1. mgr.

55. gr.


    Samkeppnisráð getur lagt stjórnvaldssektir á fyrirtæki eða samtök fyrirtækja sem brjóta gegn bannákvæðum laga þessara eða ákvörðunum sem teknar hafa verið samkvæmt þeim, sbr. IV. og V. kafla laga þessara, nema brotið teljist óverulegt eða af öðrum ástæðum sé ekki talin þörf á slíkum sektum til að stuðla að og efla virka samkeppni. Við ákvörðun sekta skal hafa hliðsjón af eðli og umfangi samkeppnishamlna og hvað þær hafa staðið lengi. Sektirnar renna til ríkissjóðs.
     Við ákvörðun stjórnvaldssekta skv. 1. mgr. skal tekið tillit til þess skaða sem samkeppnishömlurnar hafa valdið og þess ávinnings sem þær hafa haft í för með sér. Sektir geta hæst numið 10% af veltu sl. almanaksárs hjá hverju því fyrirtæki eða samtökum fyrirtækja sem aðild eiga að samkeppnishömlunum.
     Ákvörðun samkeppnisráðs um sektir má skjóta til áfrýjunarnefndar samkeppnismála.

56. gr.


    Ef ekki er farið að ákvörðun sem tekin hefur verið samkvæmt þessum lögum getur samkeppnisráð ákveðið að sá eða þeir sem ákvörðunin beinist gegn greiði dagsektir þar til farið verður að henni. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynnt bréflega á sannanlegan hátt þeim sem hún beinist að.

57. gr.


    Ákvörðun um dagsektir má skjóta til áfrýjunarnefndar samkeppnismála innan fjórtán daga frá því að hún er kynnt þeim er hún beinist að. Dagsektir reiknast ekki fyrr en frestur er liðinn. Ef áfrýjun er skotið til áfrýjunarnefndar falla dagsektir ekki á fyrr en niðurstaða hennar liggur fyrir.

58. gr.


    Ákvörðun samkeppnisráðs eða Samkeppnisstofnunar verður ekki borin undir dómstóla fyrr en úrskurður áfrýjunarnefndar liggur fyrir.

59. gr.


    Nú vill aðili ekki una úrskurði áfrýjunarnefndar og getur hann þá höfðað mál til ógildingar hans fyrir dómstólum. Mál skal höfðað innan sex mánaða frá því að aðili fékk vitneskju um ákvörðun áfrýjunarnefndar. Málshöfðun frestar ekki gildistöku úrskurðar nefndarinnar né heimild til aðfarar samkvæmt honum.

60. gr.


    Brot gegn lögum þessum, reglum og fyrirmælum settum samkvæmt þeim varða fésektum, varðhaldi eða fangelsi allt að fjórum árum ef sakir eru miklar. Dæma má fésekt jafnframt refsivist ef skilyrði 49. gr. almennra hegningarlaga eru fyrir hendi.
     Sá sem gefur aðilum, sem annast framkvæmd laga þessara, rangar skýrslur skal sæta refsingu skv. XV. kafla almennra hegningarlaga.
     Sektir samkvæmt lögum þessum má gera jafnt lögaðila sem einstaklingi. Lögaðila má ákvarða sekt án tillits til þess hvort sök verður sönnuð á starfsmann lögaðilans. Hafi starfsmaður lögaðilans framið brot á lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim má einnig gera lögaðila þessum sekt og sviptingu starfsréttinda, enda sé brotið drýgt til hagsbóta fyrir lögaðilann eða hann hefur notið hagnaðar af brotinu. Lögaðili ber ábyrgð á greiðslu sektar sem starfsmaður hans er dæmdur til að greiða vegna brota á lögum þessum enda séu brot tengd starfi hans hjá lögaðilanum.
     Dæma má upptöku eigna skv. 69. gr. almennra hegningarlaga í máli er rís vegna brota á lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim.

61. gr.


    Ákvarðanir Samkeppnisstofnunar og samkeppnisráðs um að leggja stjórnvaldssektir eða dagsektir á fyrirtæki eða samtök fyrirtækja, sbr. 42., 43. og 44. gr., eða mæla fyrir um ógildingu á samruna fyrirtækja, sbr. 18. gr., eru aðfararhæfar, svo og sakarkostnaður.
     Málskot til áfrýjunarnefndar samkeppnismála frestar aðför en úrskurðir nefndarinnar eru aðfararhæfir.
     Við aðför samkvæmt ákvörðunum Samkeppnisstofnunar, samkeppnisráðs eða áfrýjunarnefndar skal kveðja gerðarþola fyrir héraðsdóm og um málsmeðferð fara skv. 13. kafla aðfararlaga.

62. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1993. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 56 16. maí 1978, um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti, með áorðnum breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Við gildistöku laga þessara skal gefa starfsmönnum Verðlagsstofnunar kost á sambærilegu starfi hjá Samkeppnisstofnun og skal 14. gr. laga nr. 38 14. apríl 1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, ekki eiga við í því tilviki.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.


    
Ástæður þess að þetta frumvarp til samkeppnislaga er lagt fram er vaxandi þýðing virkrar samkeppni í að vinna að sem hagkvæmastri nýtingu framleiðsluþátta og stuðla almennt að efnahagslegum framförum í þjóðfélaginu. Þótt samkeppni hafi aukist mikið í ýmsum greinum á síðustu árum vantar töluvert á að hún sé fullnægjandi og þess vegna er nauðsynlegt að endurskoða núgildandi samkeppnislöggjöf í því skyni að stuðla að örvun samkeppni. Hér er lagt til að unnið verði að þessu markmiði með því að skerpa þær samkeppnisreglur sem nú eru í gildi, örva upplýsingamiðlun og draga úr opinberum samkeppnishömlum. Síðasttalda atriðinu er þó aðeins með óbeinum hætti hægt að vinna að með endurskoðun samkeppnislöggjafarinnar þar sem opinberar samkeppnishömlur eru bundnar í öðrum lögum eða reglum sem þarf að endurskoða sérstaklega.
     En samhliða mikilvægi þess að endurskoða samkeppnislöggjöfina í því skyni að treysta samkeppni á innlendum vettvangi er einnig nauðsynlegt vegna áformaðrar þátttöku í Evrópsku efnahagssvæði að endurskoða reglurnar og samræma þær, eftir því sem ástæða þykir til, þeim reglum sem gilda annars staðar í Evrópu.
     Frumvarp þetta var lagt fyrir 115. löggjafarþing og er nú lagt fram að nýju með þeirri breytingu að bætt er við kafla um greiðslukortastarfsemi og kafla um framkvæmd samkeppnisreglna o.fl. samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eins og síðar verður vikið að.

II. Samkeppni.


Upphaf samkeppnisreglna.
    
Þótt samkeppnisreglur hafi komið tiltölulega seint til sögunnar mun hafa verið þörf fyrir þær miklu fyrr. Að minnsta kosti skrifaði Adam Smith 1789 „að fjármagnseigendur gætu undir engum kringumstæðum komið saman, jafnvel þó tilefnið væri einungis til ánægju og skemmtunar, án þess að félagsskapurinn endaði í einhvers konar samsæri gegn almannaheill eða leynilegu samkomulagi um verðhækkanir“. En það var ekki fyrr en 100 árum eftir að Adam Smith sagði þetta að fyrstu samkeppnisreglurnar litu dagsins ljós. Þær áttu upptök sín í Bandaríkjunum með setningu svokallaðra Sherman-laga árið 1890 og Clayton-laga árið 1914 og eru þessar reglur enn í fullu gildi.
     Í Evrópu var það hins vegar ekki litið eins alvarlegum augum lengi fram eftir öldinni þótt samráð og einokun væru viðhöfð í viðskiptum og það var ekki fyrr en um 1950 sem fyrstu formlegu samkeppnisreglurnar komu fram í Evrópu.

Bannregla — misbeitingarregla.
    
Samkeppnisreglur eru byggðar á tveimur mismunandi grundvallaraðferðum. Annars vegar á banni en hins vegar á misbeitingu. Þau lög, sem byggja á banni, fela í sér þá meginreglu að nær allar samkeppnishömlur eru bannaðar. Þau lög, sem byggja á misbeitingu, fela hins vegar ekki í sér að samkeppnishömlur séu fyrir fram bannaðar heldur byggja þau á möguleikum á því að grípa inn í samkeppnishömlur í einstökum tilvikum séu þær taldar skaðlegar.
     Bannið er lagt til grundvallar bandarískri löggjöf og einnig samkeppnisreglum Efnahagsbandalagsins. Bannið er einnig lagt til grundvallar í þýskri, franskri, spænskri og ítalskri löggjöf.
    Misbeiting hefur almennt verið lögð til grundvallar löggjöf lítilla ríkja í Vestur Evrópu, t.d. í Hollandi, Belgíu, Sviss, Austurríki og á Norðurlöndum. Þróunin er hins vegar í þá átt í þessum ríkjum að færa sig nær bannreglunni.
     Ekki ber þó að gera allt of mikið úr þeim mismun sem er á bann- og misbeitingaraðferðinni í framkvæmd. Áhrif bannsins eru oft milduð með því að veita undanþágur frá því og stundum er skerpt á misbeitingaraðferðinni með nokkrum bönnum. En yfirleitt er auðveldara að framfylgja bannaðferðinni þar sem ákvæðin fela í sér hvað má og hvað má ekki. Hitt getur reynst erfiðara að sýna fram á skaðsemi tiltekinna samkeppnishamlna.

Tegundir samkeppnishamlna.
    
Í grófum dráttum eru fjórar tegundir samkeppnishamlna algengastar og þess vegna er samkeppnisreglum helst beint gegn þeim.
     Í fyrsta lagi eru það láréttir samningar, þ.e. samningar milli aðila sem eru á sama stigi í framleiðslu eða dreifingu, t.d. innbyrðis milli framleiðenda, innbyrðis milli heildsala eða innbyrðis milli smásala. Samkeppnisreglur eru yfirleitt strangastar um þessa tegund samkeppnishamlna, sérstaklega þar sem bannaðferðin er lögð til grundvallar.
     Önnur aðaltegundin er lóðréttir samningar, þ.e. milli aðila sem eru ekki á sama stigi í framleiðslu eða dreifingu, t.d. samningur milli framleiðanda og heildsala eða milli heildsala og smásala.
     Þriðja tegundin er misnotkun á markaðsyfirráðum. Það er almennt viðurkennt að þessari tegund samkeppnishamlna þurfi að fylgjast sérstaklega vel með. Það eru hins vegar skiptar skoðanir um það á alþjóðavettvangi hvort hentar betur að beita bannaðferðinni eða misbeitingaraðferðinni ef um er að tefla misnotkun á markaðsyfirráðum.
     Fjórða aðaltegundin er eftirlit með samruna fyrirtækja sem er reyndar nátengt eftirliti með markaðsyfirráðum. Þessari tegund samkeppnishamlna var gefinn gaumur mun síðar en hinum fyrri, í Bandaríkjunum um 1950 og í Vestur-Evrópu ekki fyrr en eftir 1970. Og enn eru menn ekki á eitt sáttir um nauðsyn sérstaks eftirlits með samruna fyrirtækja og heldur ekki um það með hvaða hætti slíkt eftirlit eigi að vera.

III. Samkeppnisreglur á Evrópska efnahagssvæðinu.


    
Eins og að framan greinir er möguleg aðild okkar að Evrópsku efnahagssvæði önnur meginástæða þess að frumvarpið kemur fram nú. Það er því eðlilegt að gera grein fyrir þeim samkeppnisreglum sem gilda munu á efnahagssvæðinu áður en fjallað verður um frumvarpið sjálft.
     Samkeppnisreglur á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) eru að meginefni byggðar á samkeppnisreglum Evrópubandalagsins (EB). Þær eru því byggðar á bannaðferðinni. En vakin er sérstök athygli á því að samkeppnisreglur EES gilda aðeins þegar um er að ræða samkeppnishömlur sem hafa eða geta haft áhrif á viðskipti milli tveggja eða fleiri ríkja sem aðild eiga að svæðinu. Samkeppnisreglur hvers lands fyrir sig gilda því áfram um viðskipti sem aðeins hafa áhrif innan landamæra viðkomandi lands. Oft ríkir hins vegar óvissa um hvar draga eigi mörkin og í slíkum tilvikum er líklegt, a.m.k. miðað við reynslu innan EB, að EES-reglur muni oftar en ekki gilda. Samkeppnisreglur EES munu því vafalaust einnig framvegis hafa áhrif í viðskiptum sem aðeins eiga sér stað innan einstakra landa.
     Hér á eftir verður gerð grein fyrir helstu samkeppnisreglum EES.

Bann við samningum um samkeppnishömlur í 53. gr. EES-samningsins.
    
Samkvæmt 53. gr. EES-samningsins eru samningar, samþykktir og samstilltar aðgerðir um verð, framleiðslutakmarkanir, fjárfestingartakmarkanir, markaðsskiptingu o.fl. bannaðar. Þrjár forsendur þurfa þó að vera fyrir hendi til þess að hægt sé að framfylgja bönnunum.
     Í fyrsta lagi þurfa að vera fyrir hendi, formlega eða óformlega, samningar, samþykktir eða samstillar aðgerðir á milli fyrirtækja. „Heiðursmannasamkomulag“ er nóg í þessu sambandi.
     Í öðru lagi þurfa aðgerðirnar að geta haft áhrif á viðskipti milli aðildarlandanna. Þessi forsenda felur í sér tilraun til þess að greina á milli þess hvenær EES-reglur gilda og hvenær gilda reglur einstakra aðildarlanda. Eins og áður segir er þessi forsenda túlkuð mjög vítt af EB og hefur bandalagið m.a. talið það vera nægilega ástæðu til þess að mál falli undir samkeppnisreglur þess að áhrif á viðskipti milli aðildarlanda séu möguleg í framtíðinni.
     Þriðja forsendan er að aðgerðirnar þurfa að hafa að markmiði eða leiða til þess að samkeppni innan hins sameiginlega markaðar skerðist. Til þess að skera úr um það er nauðsynlegt að afmarka sérstaklega þann markað þar sem áhrifa samkeppnishamlnanna gætir í hverju tilviki, þ.e. þann markað sem máli skiptir í einstökum málum. Þar er bæði um að ræða vörumarkaðinn þar sem litið er á innbyrðis staðgengi varanna og hinn landfræðilega markað.
     Þótt 53. gr. feli í sér víðtæk bönn eru ekki allar aðgerðir er varða samkeppnishömlur bannaðar. Nefna má svokallaða minniháttarreglu (rule de minimis eða bagatel-reglu) sem felur í sér að samningar, sem ná til innan við 5% markaðshlutdeildar á þeim markaði sem máli skiptir og þar sem heildarvelta fyrirtækjanna, sem hlut eiga að máli, er innan við 200 millj. ECU, eru undanþegnir þessu bannákvæði. Skilyrði fyrir undanþágum er að báðar forsendurnar séu uppfylltar.
     Fyrir utan minniháttarregluna eru í 53. gr. heimildir til þess að veita aðrar undanþágur frá hinum ströngu bannákvæðum þegar sýnt þykir að jákvæð áhrif samkeppnishamlna séu meiri en hin neikvæðu. Þetta gildir þegar samningar eða samstilltar aðgerðir stuðla að bættri framleiðslu eða vörudreifingu eða efla tæknilega og efnahagslega framþróun en það er algjört skilyrði að neytendur fái sanngjarna hlutdeild í því sem ávinnst. Undanþágurnar eru yfirleitt bundnar einstökum tilvikum en einnig eru undanþágur fyrir ákveðna flokka vöru og þjónustu.
     Vegna þess hve mikilvægt er við framkvæmd samkeppnisreglna EES að afmarka þann markað sem skiptir máli hverju sinni er rétt að fjalla stuttlega um hvernig hann er skilgreindur.

Vörumarkaður sem skiptir máli.
    
Það sem úrslitum ræður um hvort ákveðnar vörur eigi að teljast til sama markaðar er innbyrðis staðgengi varanna.
     EB byggir mat sitt á staðgengi vara, fyrst og fremst á hlutlausum forsendum sem hægt er að tengja beint við sjálfa vöruna, svo sem einkenni hennar, verð og notkun. Í reynd hefur þó einnig verið tekið tillit til annarra aðstæðna á markaðnum. Þannig hafa líkar vörur, sem höfða til mismunandi hópa neytenda, verið taldar tilheyra ólíkum mörkuðum. Almennt má segja að það verður að vera töluvert mikið staðgengi fyrir hendi til þess að vörur teljist tilheyra sama markaði. Í dómi EB-dómstólsins í máli United Brand fyrirtækisins voru t.d. bananar taldir tilheyra sérmarkaði þó að aðrir ávextir hafi að vissu marki verið taldir geta komið í stað banana. Bananar og aðrir ávextir voru sem sé ekki taldir vera í beinni samkeppni. Í svokölluðu Philip Morris máli var litið svo á að sígarettur væru sérstakur markaður aðskilinn frá markaði fyrir vindla, pípur o.s.frv.
     Almennt er því matið á umfangi vörumarkaðarins mjög þröngt hjá EB og það er ótvírætt að samkvæmt löggjöf bandalagsins hefur hann verið túlkaður þrengra en hægt er að færa rekstrarfræðileg rök fyrir. Gera má ráð fyrir að skilgreining EB á hugtakinu „vörumarkaður“ muni hafa áhrif á túlkun EES-reglna.

Landfræðilegi markaðurinn sem máli skiptir.
    
Almennt má segja að það sé auðveldara að afmarka hinn landfræðilega markað sem máli skiptir en vörumarkaðinn. EB gerir ráð fyrir að landfræðilegi markaðurinn nái til verulegs hluta af hinum sameiginlega markaði. Í reynd hefur þó annað komið í ljós. Skilgreining á hugtakinu verulegur hluti hins sameiginlega markaðar hefur verið mjög teygjanleg og virðist í reynd geta átt við smæstu markaði, svo framarlega sem þeir eru álitnir sérstakir afmarkaðir samkeppnismarkaðir. Það verður að telja líklegt að þrátt fyrir smæð íslenska markaðarins verði hann í mörgum tilvikum skilgreindur sem sérstakur landfræðilegur markaður vegna einangrunar hans frá öðrum mörkuðum.

Bann við misbeitingu á markaðsráðandi stöðu í 54. gr. samningsins.
    
Samkvæmt 54. gr. EES-samningsins er markaðsráðandi fyrirtækjum bannað að misnota aðstöðu sína með því t.d. að ákvarða ósanngjarnt verð, takmarka framleiðslu, markaðs- eða tækniþróun til skaða fyrir neytendur, mismuna viðskiptavinum o.fl.
     Það ræður úrslitum um notkun 54. gr. hvernig hugtakið markaðsráðandi staða er túlkuð og hvernig vörumarkaðurinn og landfræðilegi markaðurinn eru skilgreindir.

Markaðsyfirráð.
    
Eins og áður hefur komið fram getur verið töluvert erfitt að skilgreina þá vörumarkaði og landfræðilegu markaði sem máli skipta og ýmis sjónarmið virðast ráða við mat á þeim. En þegar það mat hefur farið fram í einstökum málum hefur grunnurinn að skilgreiningu á markaðsyfirráðum verið lagður.
     Í United Brand málinu (bananamálinu) gaf EB-dómstóllinn út eftirfarandi skilgreiningu á hugtakinu markaðsyfirráð: „Það er sú staða þegar fyrirtæki hefur þann efnahagslega styrkleika að fyrirtækinu er kleift að hindra virka samkeppni á þeim markaði sem máli skiptir og það getur að verulegu leyti starfað án þess að þurfa að taka tillit til samkeppnisaðila, viðskiptavina og neytenda.“
     Þó að stærð markaðshlutdeildar skipti mestu máli þarf hún ekki alltaf að vera mjög mikil til þess að um markaðsyfirráð sé að ræða. T.d. getur hófleg markaðshlutdeild í tengslum við tæknilega sérþekkingu, yfirráð yfir hráefnum og yfirráð yfir fjármagni gefið fyrirtæki möguleika á að ákvarða verð eða stýra framleiðslu eða dreifingu á verulegum hluta þeirra vara sem um ræðir. Ýmis fleiri atriði geta leitt til markaðsyfirráða þó að markaðshlutdeild sé ekki mjög mikil.
     EB telur 80% markaðshlutdeild ótvírætt leiða til markaðsyfirráða. Í reynd hefur 57% markaðshlutdeild og þar yfir verið talin nægileg til þess að um markaðsyfirráð sé að ræða. 40–45% markaðshlutdeild er í sjálfu sér ekki nægileg til þess að hægt sé að fullyrða án frekari upplýsinga að markaðsyfirráð séu fyrir hendi en þó eru ekki gerðar kröfur um miklar viðbótarupplýsingar til þess að sýna fram á að sú markaðshlutdeild sé nægilega mikil.
     En eins og áður segir geta ýmis atriði gert það að verkum að lítil markaðshlutdeild leiði til markaðsyfirráða. Undir 11% eru markaðsyfirráð þó talin útilokuð. 20–40% geta hins vegar skapað markaðsyfirráð ef fyrirtæki eru óháð fjármagni, hráefnum, samkeppnisaðilum o.s.frv.
     Ítreka skal að markaðsyfirráð í sjálfu sér eru ekki bönnuð heldur misbeiting þeirra.

Eftirlit með samruna fyrirtækja skv. 57. gr. samningsins.
    
Það er náið samband milli misbeitingar á markaðsráðandi stöðu og eftirlits með samruna fyrirtækja. En það eru ekki nema rúmlega tvö ár síðan EB setti reglur um eftirlit með samruna fyrirtækja. Þær höfðu þó verið í undirbúningi í um fimmtán ár en samstaða náðist ekki um þær fyrr en 1989. Samkvæmt 57. gr. EES-samningsins eru reglur EB á þessu sviði teknar upp. Framkvæmd reglnanna verður þó nær eingöngu í höndum EB en í náinni samvinnu við eftirlitsstofnun EFTA.
     Samrunareglurnar taka aðeins til samruna fyrirtækja sem hafa árlega veltu yfir ákveðnum mörkum. Þannig þarf velta þeirra fyrirtækja, sem hyggjast renna saman, að vera yfir 5 milljarðar ECU í öllum heiminum og a.m.k. tvö fyrirtækjanna þurfa að selja fyrir 250 milljónir ECU hvort innan Efnahagsbandalagsins til þess að samruninn falli undir reglur þess. Þessi mörk eru mjög há og er því ólíklegt að þessi grein muni hafa áhrif á íslensk fyrirtæki.

Opinber fyrirtæki þurfa að laga sig að samkeppnisreglum.
    
Í 59. gr. er kveðið á um með vissum undantekningum, t.d. um skattheimtu fyrir ríkissjóð, að opinber fyrirtæki eða fyrirtæki með einkaleyfi eða sérleyfi skuli laga sig að samkeppnisreglum EES.

Aðrar samkeppnisreglur EES.
    
Fleiri megingreinar samningsins um EES fjalla um samkeppnismál, þar á meðal um skiptingu mála og samvinnu á milli eftirlitsstofnana EFTA og EB og um framkvæmd eftirlits með samkeppnisreglunum. Þá er aragrúi af reglugerðum, fyrirmælum og tilmælum um samkeppnismál sem gerð verður grein fyrir á öðrum vettvangi.

IV. Samkeppnisreglur á Norðurlöndum.


    
Eins og að framan greinir eru samkeppnisreglur á Norðurlöndum í meginatriðum byggðar á misbeitingaraðferðinni en þó eru nokkur bannákvæði í gildi. Það hefur jafnframt komið fram að aðild að EES felur ekki í sér að einstök lönd þurfi að breyta mikið þeim meginreglum sem þau hafa nú og gilda aðeins um viðskipti sem áhrif hafa innan landanna.
     Engu að síður telja Finnar, Norðmenn og Svíar nauðsynlegt að endurskoða gildandi samkeppnisreglur samhliða aðild að EES og laga þær að þeim reglum sem gilda munu á efnahagssvæðinu án þess þó að taka að öllu leyti upp bannregluna. Þjóðirnar hafa haft samráð við endurskoðun reglnanna og komist að svipaðri niðurstöðu. Þó virðast Svíar ætla að ganga lengst í því að samræma reglur sínar reglum EES.
     Þótt Danir hafi verið aðilar að EB í tuttugu ár eru dönsku samkeppnisreglurnar, þ.e. þær reglur sem gilda í viðskiptum innan Danmerkur, í meginatriðum byggðar á misbeitingaraðferðinni. Danir hafa til þessa ekki talið nauðsynlegt að laga algjörlega reglurnar að þeim samkeppnisreglum sem gilda hjá EB en hins vegar taka þeir ríkt tillit til reglna EB við framkvæmd samkeppnismála í Danmörku og þess vegna hefur bannreglan nú þegar mikil áhrif í viðskiptum innan Danmerkur. Danir hafa þó hafið undirbúning að því að samræma reglurnar formlega samkeppnisreglum EB og er stefnt að því að breytingarnar taki gildi um leið og innri markaður EB.
     Í þeirri endurskoðun á samkeppnisreglum, sem nú fer fram í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð, er, eins og að framan greinir, gert ráð fyrir að laga að þær þeim reglum sem gilda munu á EES. Þó er gert ráð fyrir að banna aðeins þá samninga og samþykktir sem nær undantekningarlaust skerða samkeppni. Þá er m.a. átt við bann við samráði um verð, markaðsskiptingu og við gerð tilboða. Í hugmyndunum er hins vegar gert ráð fyrir að misbeitingaraðferðin verði áfram í gildi þegar um er að ræða skaðlegar samkeppnishömlur sem nauðsynlegt er að meta í einstökum tilvikum. Þá er einkum um að ræða misnotkun á markaðsráðandi stöðu, mismunun á milli viðskiptavina o.fl. sem getur verið matsatriði hvort hafi skaðleg áhrif á samkeppni. Í þessu frumvarpi er, eins og nánar verður komið að síðar, tekið mið af þeim hugmyndum sem eru uppi á Norðurlöndum en jafnframt tekið tillit til aðstæðna hér á landi. Áður en nánar verður komið að því hvaða meginbreytingar frumvarpið felur í sér er rétt að gera stuttlega grein fyrir þróun þessara mála hér á landi undanfarna áratugi.

V. Þróun verðlags- og samkeppnismála hér á landi.


    
Þróun verðlags- og samkeppnismála hér á landi hefur á undanförnum áratugum að nokkru verið með öðrum hætti en í nágrannalöndunum eins og rakið verður hér á eftir.

1939–1990. Rauði þráðurinn afskipti af verðlagningu.
    
Frá því að skipulagt verðlagseftirlit hófst fyrir hálfri öld má segja að starfsemi verðlagsyfirvalda, með stuttum hléum, hafi í meginatriðum verið fólgið í því að framfylgja verð- og álagningarstöðvunum og þess á milli verðlagsaðhaldi í einu eða öðru formi. Rauði þráðurinn hefur því verið bein eða óbein afskipti af verðlagningu en það er ekki fyrr en á síðustu árum sem starfseminni hefur verið beint inn á þá braut að örva samkeppni.

1939–1960. Takmarkað vöruframboð.
    
Ástæður verðlagsafskiptanna hafa verið breytilegar eftir aðstæðum á hverjum tíma. Þannig var tilefnið í heimsstyrjöldinni og fyrstu árin eftir hana takmarkað vöruframboð. Það var enginn ágreiningur um nauðsyn verðlagsákvæða á stríðsárunum síðari þegar mikill vöruskortur var og engin skilyrði til samkeppni fyrir hendi enda voru verðlagsákvæði einnig í gildi í nágrannalöndunum á þeim árum.
     Þegar vöruframboð jókst eftir stríð drógu nágrannalöndin fljótlega úr opinberu verðlagseftirliti og tóku upp samkeppnisreglur. Hér á landi voru hins vegar sett á innflutningshöft sem í gildi voru til ársins 1960. Það var því ekki ágreiningur um það í þjóðfélaginu að opinber afskipti af verðmyndun væru nauðsynleg fram að þeim tíma.

1960–1970. Hagstæðari samkeppnisskilyrði.
    
Á áratugnum milli 1960 og 1970 sköpuðust með frelsi í innflutningi og tiltölulega hóflegri verðbólgu skilyrði til þess að draga úr opinberum afskiptum af verðmyndun. Sú ríkisstjórn, sem þá sat að völdum, hafði á stefnuskrá sinni að hrinda þessu í framkvæmd en það gerðist hins vegar ekki.
     Frumvarp, sem ríkisstjórnin lagði fram í þessu skyni, var fellt á þinginu 1969.
     Ýmsar ástæður voru fyrir því að frumvarpið var fellt, m.a. afstaða launþegasamtakanna. Þau voru tortryggin og töldu að meiri undirbúning þyrfti vegna þess m.a. hve miklu erfiðara það væri að koma á virkri samkeppni hér en í nágrannalöndunum. Fámenni og landfræðileg einangrun gerði það að verkum að samkeppni væri ekki eins mikil og í nágrannalöndunum en einnig kæmi hér til stefna stjórnvalda í tolla- og gjaldeyrismálum o.fl.

1970–1982. Verðstöðvun.
    
Á árinu 1970 var þvert á umræðuna, sem þá fór fram, sett á verðstöðvun og var hún í einu eða öðru formi í gildi í tólf ár. Í reynd var þó ekki um eiginlega verðstöðvun að ræða nema skamman tíma heldur var verðlagsyfirvöldum falið að koma í veg fyrir að kostnaðarhækkanir færu meira út í verðlagið en brýna nauðsyn bæri til. Ýmsar ástæður lágu því til grundvallar af hálfu stjórnvalda að draga að aflétta verðstöðvuninni. Á þessum árum ríkti mikil spenna í efnahagslífinu. Verulegar launa- og olíuverðshækkanir ásamt gengisfellingum ollu óðaverðbólgu og almenningur hafði því engin tök á að fylgjast með og leggja mat á verð og verðbreytingar. Við þessar aðstæður töldu stjórnvöld sig þurfa að hafa hönd í bagga með þróun verðlagsmála.

Samkeppnislöggjöf 1978.
Framkvæmd enn frestað vegna lagabreytinga og verðbólgu.
    
Þrátt fyrir spennuna í efnahagslífinu hættu ekki umræður um breytt fyrirkomulag í verðlagsmálum. Þær héldu áfram og á árinu 1978 voru loks samþykkt þau lög sem nú eru í meginatriðum í gildi. Gildistaka laganna átti að vera 1. nóvember 1978. En ýmislegt gerðist áður en að gildistöku kom sem sýnir hve viðkvæm þessi mál voru á þeim tíma.
     Ný ríkisstjórn tók við haustið 1978 og frestaði gildistöku laganna um eitt ár til 1. nóvember 1979 og breytti jafnframt því ákvæði í lögunum sem erfiðast hafði verið að ná pólitískri samstöðu um. Þetta ákvæði hljóðaði þannig eins og lögin voru upphaflega samþykkt: „ þegar samkeppni er nægileg til að tryggja æskilega verðmyndun og sanngjarnt verðlag, skal verðlagning vera frjáls“.
     Ríkisstjórnin beitti sér fyrir breytingu á þessu ákvæði sem hér segir: „ Þegar samkeppni er nægileg getur verðlagsráð, að fengnu samþykki ríkisstjórnar, vikið frá núgildandi reglum um verðlagningu og m.a. heimilað að fella einstaka flokka vöru og þjónustu undan ákvæðum.
    Með þessari breytingu var í rauninni verið að ganga enn lengra í átt til opinberrar verðákvörðunartöku en þau lög, sem áður voru í gildi, fólu í sér. Við þessi skilyrði hóf verðlagsráð starf sitt í nóvember 1979. Lagaákvæðið var ekki endurskoðað á ný fyrr en á árinu 1982 er því var í meginatriðum breytt í sama horf og í lögunum sem samþykkt voru 1978.

1983. Hafist handa um afnám verðlagsákvæða.
    
Á árinu 1983 var því fyrst að marki hægt að huga að því að fella niður verðlagsákvæði þar sem samkeppni var fyrir hendi. Aðstæður til þess að taka þessi skref höfðu að vísu ekki mikið breyst, verðbólga var enn gríðarlega mikil en hins vegar urðu mönnum annmarkar gildandi fyrirkomulags sífellt betur ljósir og töldu að það fælist því ekki mikil áhætta í því að gera tilraun með afnám verðlagsákvæða. Ýmis atriði voru nefnd í þessu sambandi.
    Í fyrsta lagi væri verðlagskerfið ósveigjanlegt og ekki hvetjandi og veitti fyrirtækjum því ekki nægilegt aðhald. Þvert á móti hvetti það t.d. til óhagkvæmra innkaupa að halda álagningarprósentu verslunarinnar mjög lágri þar sem hlutur verslunarinnar í krónutölu yrði stærri eftir því sem keypt væri dýrara inn.
    Nátengt þessu hafði komið fram í könnunum Verðlagsstofnunar að hin lága álagning, sem leyfð hafði verið í innflutningsversluninni, hefði leitt til óeðlilegrar umboðslaunatöku erlendis sem áhrif hefði haft til hækkunar á vöruverði.
    Þá hefði sá seinagangur, sem verið hefði á afgreiðslu mála hjá verðlagsyfirvöldum, sérstaklega eftir að ríkisstjórnin setti þá starfsreglu að ákvarðanir tækju ekki gildi nema með staðfestingu ríkisstjórnar, valdið fyrirtækjum verulegu tjóni og leitt til enn hærra verðs síðar.
    Þá hefði hið opinbera verðmyndunarkerfi ósjálfrátt þjappað fyrirtækjum og einstaklingum saman í því skyni að geta betur sem heild þrýst á taxtahækkanir. Reynslan sýndi að þegar heilar starfsgreinar tækju sig saman um taxtahækkanir miðuðust kröfur þeirra yfirleitt við þá sem lakast stæðu sig án tillits til þess hvort þörf væri fyrir þá áfram í starfsgreininni. Þess vegna væri veruleg hætta á að í þessum starfsgreinum væri haldið uppi óeðlilega háum verðtöxtum.
    Þá voru færð rök að því að hið opinbera verðmyndunarkerfi hefði villt um fyrir neytendum þar sem þeir hefðu talið sig betur verndaða af kerfinu en þeir í raun hefðu verið. Neytendur hefðu því ekki haldið nægilega vöku sinni og veitt það aðhald sem enginn annar en þeir gætu veitt.
     Þetta leiddi jafnframt til þess að verslunin hefði til hins ýtrasta getað nýtt sér heimilaða hámarksálagningu án tillits til þess hvort hún taldi vera þörf fyrir hana eða ekki.
     Þessir annmarkar og fleiri áttu m.a. þátt í því að hafist var handa um afnám verðlagsákvæða á árinu 1983 þrátt fyrir að skilyrði til þess væru að ýmsu leyti óhagstæð. Á næstu þremur árum voru verðlagsákvæði síðan afnumin í flestum greinum iðnaðar og verslunar.
     Í framhaldi af þessum ákvörðunum um afnám verðlagsákvæða var gert ráð fyrir því að verðlags- og samkeppnisyfirvöld legðu áherslu á að stuðla að eflingu samkeppni á hinum ýmsu mörkuðum. Það hefur verið gert en þó ekki í eins ríkum mæli og stefnt var að vegna þess að strax á árinu 1987 og næstu ár á eftir var verðlagsyfirvöldum á ný falið að framfylgja verðstöðvun, hertu verðlagseftirliti, eftirliti með álagningu vörugjalds, virðisaukaskatti o.fl. Enn á ný voru verðlagsafskipti sett á forgangslista. Það dróst því enn nokkuð að færa starfsemina formlega yfir í að sinna samkeppnismálum. Töluvert samkeppnishvetjandi starf hefur þó verið unnið með verðkönnunum og annarri upplýsingamiðlun og eins hefur verið fjallað um einstök kærumál milli fyrirtækja og hefur þeim fjölgað að undanförnu. Með þessu frumvarpi er lagður grunnur að því að efla þennan þátt í starfsemi verðlags- og samkeppnisyfirvalda enn frekar.

Óréttmætir viðskiptahættir.
    
Eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum var með lögunum frá 1978 fellt undir löggjöfina um verðlag og samkeppnishömlur. Ástæðan fyrir því að þessi málaflokkur var settur inn í sömu lög á sínum tíma var smæð markaðarins og að of kostnaðarsamt þótti að koma á fót sérstakri stofnun til að fylgjast með óréttmætum viðskiptaháttum. Aðstæður hafa ekki breyst að þessu leyti enda hentar að mörgu leyti vel að þessir málaflokkar, sem stefna að sama markmiði, séu áfram undir sömu stofnun. Erlendis er mismunandi fyrirkomulag á þessu en m.a. í Bretlandi og Frakklandi er sama fyrirkomulag og hér á landi.

VI. Helstu breytingar sem felast í frumvarpinu.


    
Með þessu frumvarpi er stefnt að því að efla virka samkeppni. Ekki vegna þess að samkeppni sé eitthvert takmark í sjálfu sér, heldur samkeppni á þeim sviðum þar sem hún tryggir best hag neytenda, atvinnulífsins og þjóðfélagsins í heild.
     Ef litið er á helstu breytingar sem felast í frumvarpinu ber að nefna að andi laganna hefur breyst þar sem í fyrri lögum var meiri áhersla lögð á bein verðlagsafskipti. Í frumvarpinu er hins vegar megináhersla lögð á að efla samkeppni en að sama skapi að draga úr verðlagsafskiptum. Þess vegna er m.a. lagt til að nafni Verðlagsstofnunar verði breytt í Samkeppnisstofnun og nafni verðlagsráðs í samkeppnisráð.
     Í frumvarpinu er ákvæði um að Samkeppnisstofnun eigi að veita aðstoð við framkvæmd samkeppnisreglna annarra ríkja og alþjóðastofnana í samræmi við gagnkvæmar skuldbindingar í milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að. Þarna er m.a. verið að uppfylla kröfur sem gerðar verða til landa sem aðilar verða að Evrópsku efnahagssvæði og í tengslum við fullgildingu EES-samningsins hefur verið bætt við frumvarpið frá fyrri gerð þess, sem lögð var fyrir 115. löggjafarþing, sérstökum kafla um framkvæmd þeirra sameiginlegu samkeppnisreglna sem gilda munu á Evrópska efnahagssvæðinu. Þá hefur einnig verið bætt við frumvarpið sérstökum kafla um greiðslukortastarfsemi.
     Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að fjölga bannákvæðum við þeim samkeppnishömlum sem að fenginni reynslu má telja skaðlegastar en jafnframt verði misbeitingarreglan áfram í gildi gagnvart þeim samkeppnishömlum sem nauðsynlegt er að leggja sérstakt mat á hvort hafi skaðleg áhrif í för með sér.
     Að því er varðar láréttu samkeppnishömlurnar, þ.e. samvinnu milli aðila sem eru í beinni samkeppni, er lagt til að samningar eða aðrar samstilltar aðgerðir um verð, gerð tilboða og markaðsskiptingu verði bannaðar. Bann við markaðsskiptingu er nýmæli í íslenskri löggjöf og einnig bann við leiðbeinandi láréttu samráði, t.d. ýmissa starfsstétta um útgáfu sameiginlegs taxta. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að gildandi reglur um lóðréttar samkeppnishömlur, þ.e. að seljandi megi ekki binda hendur endurseljanda vöru um ákvörðun verðs, verði áfram í gildi. Nýmæli er þó að seljandi vöru getur ákveðið það verð sem endurseljandi má hæst verðleggja vöruna á.
     Frá þessum bannákvæðum eru undanþáguheimildir ef þær geta leitt til aukinnar samkeppni, aukinnar framleiðni eða þegar sérstakar aðstæður, er varða almannaheill, eru fyrir hendi. Enn fremur er leyfð samvinna á milli aðila sem eru svo litlir að áhrif þeirra á markaðinn eru svo lítil að hún skiptir ekki máli eða samvinna þeirra getur leitt til þess að samkeppni á markaðnum eflist. Þá er í frumvarpinu m.a. gert ráð fyrir undanþágu vegna nytjaleyfissamninga.
     Fyrir utan bannákvæði, sem eru lögfest, er í frumvarpinu gert ráð fyrir íhlutun í aðrar skaðlegar samkeppnishömlur. Annars vegar er um að ræða almenna heimild til íhlutunar gegn m.a. markaðsráðandi fyrirtækjum sem misnota aðstöðu sína.
     Hins vegar er um um að ræða nýmæli í íslenskum lögum sem felur í sér heimild til þess að banna samruna fyrirtækja eða yfirtöku fyrirtækis á öðru fyrirtæki ef það dregur verulega úr samkeppni. Einnig felur heimildin í sér möguleika á að ógilda samruna eða yfirtöku sem þegar hefur átt sér stað.
     Sjötti kafli laganna fjallar um óréttmæta viðskiptahætti og er hann í meginatriðum óbreyttur frá samsvarandi kafla í gildandi lögum. Þó er bætt inn nýju ákvæði um auglýsingar, einkum til verndar óheppilegum áhrifum auglýsinga á börn. Á hinn bóginn er tekið út ákvæði sem felur í sér bann við úthlutun vinninga í verðlaunasamkeppni ef markmiðið er örvun sölu eða þjónustu og tilviljun ræður hver vinning hlýtur.
     Í frumvarpinu er lögð áhersla á að efla gagnsæi markaðarins með upplýsingamiðlun enda er það grundvallarforsenda fyrir þróun virkrar samkeppni að seljendur og kaupendur vöru og þjónustu beri gott skynbragð á verð, viðskiptakjör, gæði o.fl.
     Eins og fram er komið gerir frumvarpið ráð fyrir að samkeppnisyfirvöld beiti verðlagsákvæðum aðeins í undantekningartilvikum ef önnur úrræði duga ekki. Í frumvarpinu er hins vegar heimild til handa ríkisstjórn til þess að setja á verðstöðvun eða aðrar verðlagningarreglur ef neyðarástand skapast, t.d. vegna náttúruhamfara eða styrjaldarástands.
     Nýmæli er í lögunum að samkeppnisráði er veitt heimild til þess að leggja á sektir vegna brota á samkeppnisreglum. Þetta er í samræmi við þróun í nágrannalöndunum og byggist á því hve samkeppnismál eru flókin og vandmeðfarin og því er talið rétt að þeir sem hafa sérþekkingu fái slíka heimild. Ákvörðun samkeppnisráðs má áfrýja til sérstakrar áfrýjunarnefndar.

Athugasemdir við einstaka kafla og greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Frumvarpið hefst á almennri stefnuyfirlýsingu um tilgang og markmið laganna. Markmið laganna er að vinna að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta og efnahagslegum framförum í þjóðfélaginu. Samkvæmt frumvarpinu er þessu markmiði náð m.a. með því að efla virka samkeppni í viðskiptum.
     Forðast ber samkeppnishindranir og aðrar takmarkanir á frelsi í atvinnurekstri og er því skerpt á núgildandi samkeppnisreglum og dregið úr mikilvægi beinna verðlagsákvæða. Í b-lið greinarinnar er kveðið á um að unnið skuli gegn óréttmætum viðskiptaháttum og felur frumvarpið ekki í sér veigamiklar breytingar á ákvæðum í núgildandi lögum sem fjalla um þetta efni.

Um 2. gr.


    Frumvarpið tekur til allrar atvinnustarfsemi, hvort sem hún er á vegum einstaklinga, félaga, ríkis og sveitarfélaga eða annarra, sem fer fram gegn endurgjaldi. Með því að láta frumvarpið ná til atvinnurekstrar á vegum ríkis og sveitarfélaga, sem og einkaaðila, er tryggt að samræmd framkvæmd næst á ýmsum sviðum atvinnulífsins óháð því hvort rekstur fyrirtækja er á vegum einkaaðila eða hins opinbera.
     Tekið er sérstaklega fram að frumvarpið nær ekki til launa og starfskjara fyrir vinnu í þágu atvinnurekenda.
     Þjónusta, sem opinberir aðilar veita, svo sem fræðslustarfsemi, heilbrigðisþjónusta og rekstur sjúkrahúsa, félagsmálastarfsemi og þess háttar, telst ekki atvinnustarfsemi og fellur því ekki undir ákvæði frumvarpsins. Lögin ná til samgangna og flutningastarfsemi, hvort heldur er á vegum einkaðila eða opinberra aðila. Frumvarpið tekur ekki til góðgerðarstofnana, þeð með talið happdrætti, nema atvinnustarfsemin sé rekin á viðskiptagrundvelli. Með þjónustu er átt við hvers konar fyrirgreiðslu, vinnu eða þjónustu gegn endurgjaldi, nema launaða vinnu í þjónustu annarra. Hér er t.d. átt við flutningastarfsemi, vöruafgreiðslu, rekstur kvikmyndahúsa, gisti- og sólbaðstofa, tölvu-, dans- og fimleikaskóla, myndbandaleigu o.fl.

Um 3. gr.


    Lögin ná til samninga, skilmála og athafna sem hafa eða ætlað er að hafa áhrif hér á landi. Samkeppnislögin gilda því á Íslandi og er þá stuðst við kenningu um áhrifasvæði eins og samkeppnislög annarra þjóða byggja á, t.d. eins og í ríkjum Evrópubandalagsins og Bandaríkjunum.
     Samkvæmt kenningunni um áhrifasvæði er talið nauðsynlegt að samkeppnisyfirvöld geti beitt sér gegn ráðstöfunum sem hafa áhrif á íslenskum markaði þótt sá sem beiti þeim sé erlent fyrirtæki. Íslenskum lögum sé því hægt að beita innan lands og utan þótt svo íslenskri refsilöggjöf verði einungis við komið hér á landi. Með aukinni fjárfestingu og starfsemi útlendinga hér á landi er þýðingarmikið að hægt sé að hafa áhrif á eða banna skilmála eða athafnir erlendra aðila sem hafa áhrif á Íslandi. Í þessum tilvikum næst ekki til erlendra samningsaðila af íslenskum yfirvöldum en hægt er að ná til umboðsmanna og fulltrúa þeirra á Íslandi varðandi hlutdeild þeirra í ákvörðunum og ábyrgð hér á landi. Þá er hugsanlegt að sakfella viðkomandi útlending vegna þátttöku í broti og framkvæma upptöku eigna hans á Íslandi þótt aðför í heimalandi verði að fara samkvæmt alþjóðlegum reglum varðandi fullnustu dóma og stjórnsýsluákvæða.
     Lögin ná ekki til samninga, skilmála og athafna sem aðeins er ætlað að hafa áhrif utan Íslands og ná því ekki til útflutnings. Útflutningur telst jöfnum höndum vera sala vöru úr landi, flutningur frá landinu og þjónusta við erlenda aðila ef hún er greidd af erlendum aðilum. Fyrirtæki í útflutningi, sem gerir samninga, beitir skilmálum eða viðhefur aðgerðir sem eru samkeppnishamlandi á heimamarkaði og á útflutningsmarkaði, getur samt sem áður ekki borið við útflutningsundanþágu á þeim hluta starfseminnar sem fer fram á Íslandi. Talið er óþarft að íslensk samkeppnislöggjöf taki til útflutnings þar sem eðlilegra þykir að starfsemi útflutningsfyrirtækja sé bundin samkeppnislöggjöf viðkomandi innflutningslands. Það er gert með hliðsjón af því að rétt þykir að allir samkeppnisaðilar á tilteknum markaði séu háðir sömu leikreglum svo ekki komi til árekstra milli samkeppnisyfirvalda viðkomandi ríkja varðandi túlkun mismunandi lagaákvæða.
     Því hefur það lagaákvæði verið sett í frumvarpið að ráðherra geti ákveðið að lögin gildi um samninga, skilmála og athafnir sem hafa áhrif erlendis og hér á landi á tilteknum sviðum enda sé kveðið á um slíkt í samningi við annað ríki eða alþjóðastofnun sem Ísland er aðili að. Ráðherra getur því víkkað út áhrifasvæði laganna erlendis eða þrengt áhrifasvæðið hér innan lands á ákveðnum sviðum ef kveðið er á um slíkt í samningum við önnur ríki eða alþjóðastofnanir um samstarf á alþjóðavettvangi. Ekki er nú unnt að segja til um nauðsyn á slíkri útvíkkun á áhrifasvæði laganna en ekki er útilokað að til hennar komi í framtíðinni.
     Ráðherra er heimilt að gefa út með reglugerð úrskurði um samkeppnismál sem kveðnir eru upp af þeim stofnunum sem fara með framkvæmd sameiginlegra samkeppnisreglna samkvæmt milliríkjasamningi sem Ísland er aðili að.
     Samkeppnisstofnun skal aðstoða við framkvæmd samkeppnisreglna annarra ríkja og alþjóðastofnana í samræmi við gagnkvæmar skuldbindingar sem Ísland er aðili að. Samkvæmt 4. mgr. er búið í haginn fyrir gagnkvæma aðstoð í samkeppnismálum milli Íslands og annarra ríkja og alþjóðastofnana í samkeppnismálum. Þetta ákvæði er sett inn í frumvarpið, m.a. með hliðsjón af áformuðum samningum um Evrópska efnahagssvæðið.

Um 4. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 5. gr.


    Samkvæmt frumvarpinu verður framkvæmd laganna í höndum viðskiptaráðherra og í hans umboði annast samkeppnisráð, Samkeppnisstofnun og áfrýjunarnefnd samkeppnismála daglega stjórnsýslu á sviði því sem lögin ná til.

Um 6. gr.


    Í frumvarpinu er mælt fyrir um skipun og tilnefningu í samkeppnisráð. Lagt er til að viðskiptaráðherra skipi formann samkeppnisráðs án tilnefningar en Alþýðusamband Íslands og Vinnuveitendasamband Íslands tilnefni hvort sinn fulltrúa. Hlutlausa aðild að samkeppnisráði er reynt að tryggja með því að fela Hæstarétti Íslands að skipa tvo menn og með því að krefjast þess að þeir skuli vera óháðir hagsmunum atvinnulífsins. Þeir eiga að hafa alhliða þekkingu á samkeppnis- og viðskiptamálum. Jafnmargir varamenn séu skipaðir á sama hátt og aðalmenn.
     Lagt er til að ráðherra geti skipt um formann og varamann hans við ríkisstjórnarskipti.

Um 7. gr.


    Það er nýmæli í lögum um samkeppnismál að samkeppnisráði til ráðgjafar sé fastanefnd, auglýsinganefnd, skipuð mönnum með ákveðna fagþekkingu á þeim sviðum.
     Auglýsinganefnd á að fjalla sérstaklega um auglýsingar en þær falla undir VI. kafla um óréttmæta viðskiptahætti, sbr. ákvæði 21. og 22. gr. Nefndin gerir t.d. tillögu til samkeppnisráðs um bann við ákveðnum auglýsingum brjóti þær í bága við 21. og 22. gr. Sé banni samkeppnisráðs ekki hlítt er hægt að beita ákvæðum XI. kafla um viðurlög. Þar sem oft er erfitt að aðgreina auglýsingar frá öðrum söluhvetjandi viðskiptaaðferðum skv. VI. kafla er auglýsinganefnd látin leggja tillögur sínar um auglýsingar fyrir samkeppnisráð sem hefur ákvörðunarvaldið.
     Samkeppnisráð velur formann og varaformann nefndarinnar úr hópi aðal- og varamanna samkeppnisráðs. Ráðherra skipar og aðra nefndarmenn og varamenn þeirra að höfðu samráði við hagsmunaaðila. Skipunartíma manna í nefndinni lýkur um leið og skipunartíma samkeppnisráðs lýkur. Ráðherra setur fastanefnd nánari starfsreglur.
     Að beiðni samkeppnisráðs er viðskiptaráðherra heimilt að skipa ráðgjafarnefndir úr hópi aðalmanna og varamanna til að fjalla um afmarkað viðfangsefni samkeppnismála. Formaður undirnefnda skal valinn á sama hátt og formaður fastanefndar. Skipunartími undirnefndar er takmarkaður með það fyrir augum að flýta störfum, en hægt er að framlengja hann árlega ef verkefni nefndar verður varanlegt á sama hátt og verkefni auglýsinganefndar.

Um 8. gr.


    Greinin fjallar um starfslið Samkeppnisstofnunar og hlutverk. Stofnuninni er heimilt undir stjórn forstjóra að taka ákvörðun til bráðabirgða um einstök mál enda taki samkeppnisráð afstöðu til ákvörðunarinnar innan þriggja mánaða annars fellur hún sjálfkrafa úr gildi.
     Samkeppnisráði er jafnframt gefin heimild til að framselja vald sitt til Samkeppnisstofnunar eftir reglum sem ráðið setur.

Um 9. gr.


    Greinin fjallar um áfrýjunarnefnd samkeppnismála sem er nýmæli í samkeppnislöggjöf hér á landi. Samkeppnisráð er skipað einstaklingum sem eiga að hafa þekkingu á samkeppnismálum, viðskiptum og lögum og á það að vera ákveðin trygging fyrir faglegri meðhöndlun mála og úrskurðum. Þar sem Samkeppnisstofnun tekur við og annast umfjöllun mála samhliða því að hún getur haft stefnumarkandi áhrif er nauðsynlegt til að tryggja sem réttlátasta meðferð mála að hægt sé að áfrýja úrskurðum Samkeppnisstofnunar og samkeppnisráðs til sérstakrar áfrýjunarnefndar. Til manna í áfrýjunarnefnd samkeppnismála eru gerðar kröfur um ítarlega þekkingu á sviði samkeppnismála og skal formaður og varaformaður uppfylla sömu skilyrði og dómarar í Hæstarétti Íslands, sbr. 5. gr. laga nr. 75/1973, um Hæstarétt Íslands. Heimilt er að höfða mál til ógildingar úrskurði áfrýjunarnefndar fyrir dómstólum þegar úrskurður nefndarinnar liggur fyrir. Áfrýjun eða málshöfðun frestar þó ekki gildistöku ákvarðana samkeppnisráðs, Samkeppnisstofnunar né áfrýjunarnefndar. Viðskiptaráðherra skipar áfrýjunarnefnd samkeppnismála án tilnefningar.

Um 10. gr.


    Greinin tekur til láréttra samkeppnishamlna, þ.e. samkeppnishamlna sem fyrirtæki á sama sölustigi standa að. Hver grundvöllurinn er, þ.e. hvort tilteknar samkeppnishömlur byggja á samningi, samþykkt eða þegjandi samkomulagi sem lýsir sér í samstilltum aðgerðum, skiptir ekki máli. Liggi fyrir að samkeppni sé takmörkuð með einhverjum þeim hætti sem lýst er í greininni og sú takmörkun sé afleiðing af samanteknum ráðum er um að ræða brot á þessari grein. Annað mál er að erfitt kann að vera í einstökum tilvikum að greina annars vegar á milli samræmdra eða samstilltra aðgerða fyrirtækja sem þau meðvitað taka þátt í til þess að takmarka samkeppni og hins vegar þegar fyrirtæki haga sér eins eða líkt á markaði vegna samkeppninnar. Sem dæmi um hið síðarnefnda má nefna fákeppnismarkað (oligopoli) þar sem fyrirtæki á slíkum markaði verða sífellt að hafa í huga hver viðbrögð samkeppnisaðilanna á markaðnum yrðu við tiltekinni ákvörðun, t.d. ákvörðun um verðlækkun. Yfirleitt á þó athugun á markaðnum og markaðsaðstæðum að geta leitt í ljós hvort um samstilltar aðgerðir er að ræða. Á grundvelli slíkra athugana taka samkeppnisyfirvöld ákvörðun um viðeigandi ráðstafanir. Þannig munu samkeppnisyfirvöld geta lagt á stjórnvaldssekt skv. 43. gr. frumvarpsins telji þau að undangenginni slíkri athugun að yfirgnæfandi líkur séu á að um samstilltar aðgerðir sé að ræða enda þótt engin skjalfest sönnun liggi fyrir.
     Í þremur stafliðum 1. mgr. 10. gr. eru talin upp þau atriði sem fyrirtæki á sama sölustigi mega ekki koma sér saman um:
    Samsvarandi ákvæði er að finna í gildandi lögum. Ljóst er að vart er að finna alvarlegri samkeppnistakmarkanir en þegar fyrirtæki koma sér saman um verð, álagningu eða hvaða afslætti skuli veita.
    Þessi stafliður felur hins vegar í sér nýmæli. Samkvæmt gildandi lögum getur verðlagsráð að vísu bannað samninga um markaðsskiptingu teljist þeir skaðlegir en hér er lagt til að hvers konar samningar um markaðsskiptingu séu með öllu ólöglegir. Það þýðir að ekki þarf að athuga í hverju tilviki samkeppnislega skaðsemi þeirra. Ástæða bannsins er einfaldlega sú að skipting markaða eftir landsvæðum, viðskiptavinum eða eftir sölu og magni er talin bjóða heim óeðlilegum verðhækkunum og óeðlilega háu verðstigi sem aftur hefur í för með sér óhagkvæma nýtingu á framleiðsluþáttum þjóðfélagsins.
                  Rétt er að taka fram að samningar um sérhæfingu eða verkaskiptingu í framleiðslu mundu ekki vera ólöglegir samkvæmt þessu ákvæði svo framarlega sem ekki fylgdu með ákvæði sem miðuðu að því að skipta sölunni á hinu framleidda eftir svæðum, viðskiptavinum o.s.frv. Ákvæði þetta stendur ekki í vegi fyrir þessari verkaskiptingu sem að er stefnt með búvörusamningi ríkisvalds og bænda að því er varðar skipulag, framleiðslu og sölu á búvörum enda um þau efni fjallað í sérstökum lögum.
                  Ákvæðið tekur ekki til samvinnu um innkaup.
    Samsvarandi ákvæði er í gildandi lögum. Samkvæmt þessu ákvæði er aðilum, sem gera formlegt tilboð í verk eða þjónustu samkvæmt útboði eins og það er t.d. skilgreint í ÍST 30, íslenskum staðli um verksamninga, bannað að hafa samráð um tilboð sín. Ef aðili leitar eftir tilboðum með óformlegum hætti, þ.e. hætti sem fellur utan skilgreiningar í ÍST 30, og þeir sem tilboðið gera koma sér saman um hvað hver og einn skuli bjóða, mundi það hins vegar vera brot á a- eða jafnvel b-liðum 1. mgr. Að sama skapi mundi það vera brot á b-lið ef tiltekinn aðili, sem hefði getað gert tilboð, gerir það ekki þar sem sá sem leitar tilboðsins telst vera utan hans markaðssvæðis.
     Þegar ákvarða skal hvort samningur, samþykkt eða samstilltar aðgerðir brjóti gegn þessari grein skiptir ekki máli hvort tilgangur samnings, samþykktar eða samstilltra aðgerða hafi verið sá að takmarka samkeppni ef ljóst er að samningurinn hefur þau áhrif að samkeppni minnkar. Þetta á út af fyrir sig einnig við um 11. gr.
     Samkvæmt 2. mgr. er einnig hvers konar samráð bannað um hvernig reikna eigi eða megi út verð, afslætti og álagningu. Samsvarandi ákvæði er ekki í gildandi lögum en með þessu ákvæði er tekinn af allur vafi um að bann við samráði um verð, álagningu og afslætti tekur einnig til leiðsagnar um hvernig reikna beri þessar stærðir.

Um 11. gr.


    Grein þessi tekur til ákveðinna tegunda lóðréttra samkeppnishamlna. Samkvæmt 1. mgr. verður bannað að ákveða, semja um eða með öðrum hætti gefa til kynna verð, álagningu eða afslætti sem gilda skulu við endursölu á næsta sölustigi. Skiptir ekki máli í því sambandi hvort verðákvörðun stendur ein sér eða er hluti samnings sem tekur til fleiri þátta, svo sem vöruúrvals, þjónustu, innréttinga sölustaðar o.s.frv.
     Það er alkunna að þeirrar tilhneigingar gætir töluvert hjá seljendum að gefa endurseljendum upp á hvaða verði þeir skuli selja vöruna og þarf ekki að fjölyrða um hversu mjög slík háttsemi dregur úr samkeppni milli verslana. Líkt og gildir um ákvæði 10. gr. er lagt til að bannið taki einnig til leiðsagnar um útreikning á verði, álagningu og afslætti.
     Samkvæmt 2. mgr. verður þó seljanda, t. d. framleiðanda eða heildsala, heimilt að gefa upp leiðbeinandi endursöluverð með því skilyrði að endurseljendum sé gert ljóst að einungis sé um leiðbeinandi verð að ræða. Undanþága þessi tekur þó aðeins til leiðbeinandi verðs en ekki leiðbeininga um álagningu eða afslætti. Þá er jafnframt að finna nýmæli í 2. mgr. sem heimilar seljanda að ákveða hámarksverð á vörum sínum enda komi skýrt fram í öllum tilkynningum hans að um hámarksverð sé að ræða. Þetta þýðir að endurseljanda er óheimilt að selja vöruna á hærra verði en seljandi gefur upp en hins vegar er endurseljanda að sjálfsögðu frjálst að selja hana á lægra verði. Ákvæði þetta mun einkum hafa þýðingu í þeim tilvikum þegar seljandi, sem t.d. er nýr á markaðnum, vill hasla sér völl með því að vera með ódýrar vörur og þarf því að geta tryggt sig gegn því að endurseljendur geri honum þetta ókleift.

Um 12. gr.


    Hér er hnykkt á því að jafnt samtökum fyrirtækja sem fyrirtækjunum sjálfum er óheimilt að standa að eða hvetja til hindrana sem brjóta í bága við bannákvæði þessara laga eða við ákvarðanir sem samkeppnisyfirvöld hafa tekið með heimild í 17.–19. gr.
     Til þess að koma í veg fyrir allan vafa um túlkun er tekið fram í 2. mgr. að bannið taki einnig til stjórnarmanna samtaka, starfsmanna samtaka og manna sem gegna trúnaðarstörfum hjá eða á vegum samtaka fyrirtækja.

Um 13. gr.


    Grein þessi er nýmæli. Í flestum ríkjum, þar sem bann er lagt við ákveðnum tegundum samkeppnishamlna, eru jafnframt í gildi ákvæði sem undanþiggja samninga sem ella samkvæmt orðanna hljóðan eru óheimilir enda sé talið að tiltekinn samningur hafi lítil eða „minni háttar“ áhrif á þann markað sem um er að ræða (e. relevant market). Ljóst er að það skiptir töluverðu máli um áhrif samkeppnistakmarkandi samnings hvort fyrirtækin, sem að honum standa, hafa 70%, 20% eða þaðan af minni markaðshlutdeild. Þannig getur samningur fyrirtækja með litla markaðshlutdeild annað tveggja haft svo lítil áhrif á samkeppni að ástæðulaust er að banna hann eða samningurinn beinlínis eykur samkeppni á markaðnum vegna þess að tvö eða fleiri lítil fyrirtæki styrkjast gagnvart hinum ráðandi á markaðnum.
     Í mörgum ríkjum hefur sú leið verið farin að tilgreina ákveðin viðmiðunarmörk til að notast við þegar ákveða á hvort samningur telst löglegur eða ólöglegur. Í öllum tilvikum eru þetta þó aðeins mörk til viðmiðunar, t.d. í Noregi 20% og samkvæmt samkeppnisreglum EB 5%. Hér hefur sú leið verið farin að nefna enga hlutfallslega viðmiðun. Það skapar að vísu ákveðna óvissu fyrir fyrirtæki. Á hinn bóginn skapar það e.t.v. falska öryggiskennd hjá fyrirtækjum ef ákveðin viðmiðun er nefnd í lögum, sérstaklega þegar haft er í huga hve erfitt getur verið að leggja mat á og skilgreina hver viðkomandi markaður er.
     Ástæða er til að leggja áherslu á að það eru samkeppnisyfirvöld sem meta það hvort skilyrði eru fyrir hendi til að beita minniháttarreglunni. Jafnframt er ljóst að oft getur það verið vandkvæðum bundið að meta hver markaðurinn sé í hverju tilviki. Það er þó óhætt að fullyrða að minniháttarreglunni verður ekki beitt á samning eða ákvörðun um bindandi verð á næsta sölustigi.
    Með ákvæði 2. mgr. er fyrirtækjum eða samtökum gert kleift að draga úr þeirri réttaróvissu sem þau kunna að búa við að því er varðar minniháttarregluna með því að bera samning þann sem um ræðir undir Samkeppnisstofnun. Stofnunin hefur þá þrjá mánuði til að gera athugasemd við samninginn. Geri hún það ekki telst samningurinn undanþeginn skv. 1. mgr. Undanþágan gildir hins vegar aðeins í þrjú ár enda geta markaðsaðstæður breyst mikið á þeim tíma.

Um 14. gr.


    Tilgangur samkeppnisreglna er einkum að hamla gegn því að þeir aðilar, sem eru eða ættu að geta verið keppninautar á markaði, dragi úr samkeppni sín á milli með tilheyrandi skaða fyrir þjóðfélagið. Fyrirtæki undir sömu eignaraðild geta vart talist keppinautar í ofangreindum skilningi og því er eðlilegt að undanþiggja þau banni samkvæmt ákvæðum 10. og 11. gr. en hins vegar er hægt að brjóta upp tengsl eignaraðildar í sumum tilvikum, sbr. 18. gr.

Um 15. gr.


    Það er talið samræmast þjóðhagslegum hagsmunum að veita eigendum uppfinninga réttarvernd í formi skráðra einkaleyfa þegar um er að ræða höfundarétt. Með vísan til sömu raka og enn fremur með vísan til nauðsynjar á samkvæmni í löggjöf er talið eðlilegt að sá sem einkaleyfis nýtur (nytjaleyfishafi) sé undanþeginn bannákvæðum a- og b-liða 1. mgr. 10. gr. þegar hann gerir samninga um nýtingu einkaleyfis síns (nytjaleyfissamning). Enn fremur er talið eðlilegt að hið sama gildi um notkun eða nýtingu mynsturs á sviði iðnaðar enda njóti sá er telur sig eiga viðkomandi mynstur verndar á grundvelli óhlutbundins eignarréttar.
     Að öðru leyti en í greininni segir verða þeir sem gera samning á sviði óhlutbundinna eignarréttinda að sækja um undanþágu skv. 16. gr. ef ákvæði í samningnum stangast á við bannákvæði 10. gr. enda sé samningurinn ekki þegar undanþeginn skv. 13. gr.
     Undanþága samkvæmt greininni tekur ekki til samninga eða ákvæða í samningum um notkun skráðra vörumerkja enda væri þá hætt við að farið yrði í kringum bannákvæðin með því að tengja ákvæði, sem brjóta gegn 10. gr., samningi um notkun vörumerkis.

Um 16. gr.


    Greinin er hliðstæð 24. gr. gildandi laga. Þó eru skilyrðin, sem sett eru fyrir því að undanþágu megi veita, skýrari en gildandi lög. Á það einkum við um stafliði a og b.
     Að meginstefnu verður undanþága því aðeins veitt með stoð í þessari grein að það geti betur stuðlað að tilgangi og markmiði frumvarpsins. Eða eins og í a-lið segir — „samkeppni aukist á þeim markaði sem um ræðir“ — og í b-lið — „vænta megi að jákvæð áhrif samkeppnishamlna vegi þyngra en ókostir þeirra . . .
     Um heimildina til að veita undanþágu á grundvelli c-liðar er það að segja að þetta er almenn heimild sem er sama efnis og c-liður 24. gr. gildandi laga. Ákvæðið er almennt orðað og er ógerlegt að segja við hvers konar aðstæður því kunni helst að verða beitt. Hitt er ljóst að eftir því sem bönn við samkeppnishömlum verða víðtækari þeim mun þrengri verða skilyrðin til að beita undanþáguákvæðum á borð við þau sem er að finna í þessari grein frumvarpsins.

Um 17. gr.


    Í IV. kafla er að finna ákvæði sem banna tilteknar tegundir samkeppnishamlna sem að öllu jöfnu eru skaðlegar. Í 17. gr. þessa kafla er hins vegar mælt fyrir um þær heimildir sem samkeppnisyfirvöld hafa til að grípa inn í aðrar samkeppnishömlur en notaðar eru í IV. kafla þegar þær teljast vera með þeim hætti að hafi skaðleg áhrif á samkeppni.
     Til leiðbeiningar er talið upp í a- og b-liðum 1. mgr. í hverju hin skaðlegu áhrif geta falist. Þetta er að sjálfsögðu ekki tæmandi upptalning. Hins vegar eru engin dæmi nefnd um hvers konar samningar, skilmálar eða athafnir geti leitt af sér hin skaðlegu áhrif enda eru hugarflugi manna í þeim efnum lítil takmörk sett. Það eru þó ákveðnar tegundir samkeppnishamlna sem reynslan hefur sýnt að jafnan er mikil freisting að grípa til og birtast þessar tegundir með ýmsum blæbrigðum.
     Samkvæmt 2. mgr. getur samkeppnisráð skorist í leikinn með ýmsum hætti. Ráðið getur bannað fyrirtæki að nota ákveðna skilmála eða samningsákvæði, t.d. ákvæði um að samningsaðili skuli ekki hafa vörur frá keppninautum á boðstólum. Íhlutun getur falist í fyrirmælum til fyrirtækis um að selja ákveðnum aðila sem vill kaupa framleiðslu þess. Þá getur samkeppnisráð mælt fyrir um á hvaða verði fyrirtæki eða fyrirtækjahópar skuli selja vörur sínar eða þjónustu. Þessi heimild kemur einkum til greina þegar samkeppni er ófullnægjandi. Hin ófullnægjandi eða takmarkaða samkeppni getur átt sér ýmsar orsakir. Fyrirtækin, sem í hlut eiga, kunna að hafa komið málum svo fyrir með því að viðhafa ýmiss konar samkeppnishindranir. Fyrirtæki kann að vera markaðsráðandi sökum eðlis þess sviðs sem það starfar á, svo sem veitufyrirtæki og ýmis önnur þjónustufyrirtæki fyrir almenning. Loks getur fyrirtæki verið einrátt á markaði sökum þess að hið opinbera eða löggjafinn hefur séð svo til.
     Markaðsyfirráð samkvæmt þessari grein eru ekki ólögmæt í sjálfu sér en hins vegar misbeiting þeirra. Einnig hefur markaðsráðandi staða þær afleiðingar að samkeppnisyfirvöld munu fylgjast sérstaklega með því eða þeim fyrirtækjum sem í hlut eiga og geta í vissum tilvikum gripið inn í, sbr. t.d. ákvæði 18. gr.

Um 18. gr.


    Greinin er nýmæli.
     Á síðustu árum hefur þeim ríkjum á Vesturlöndum fjölgað sem hafa tekið upp reglur um eftirlit með samruna og yfirtöku fyrirtækja. Hér á landi hefur samruni og yfirtaka fyrirtækja orðið algengari á síðustu árum. Yfirtaka eins fyrirtækis á öðru eða samruni fyrirtækja getur leitt til þess að samkeppni, sem hefur verið til staðar, minnkar eða hverfur jafnvel alveg. Þannig getur við samruna eða yfirtöku orðið til fyrirtæki sem hafa markaðsráðandi stöðu eða jafnvel einokun á markaðnum. Samkvæmt gildandi lögum er gert ráð fyrir því að samkeppnisyfirvöld bregðist við slíkri stöðu með því að hafa sérstakt eftirlit með þeim fyrirtækjum sem njóta markaðsyfirráða og geti gripið inn í starfsemi þeirra sé talið að þau misnoti aðstöðu sína. Hér er hins vegar lagt til að yfirvöldum verði gert kleift að koma í veg fyrir að þær aðstæður skapist á markaðnum að fyrirtæki nái með yfirtöku eða samruna einokun eða markaðsráðandi stöðu með því að banna yfirtöku eða samruna. Þannig má líkja þessari heimild við forvarnastarf sem einkum yrði beitt þegar ljóst væri að afleiðingar samruna eða yfirtöku yrðu verulega minni samkeppni á viðkomandi markaði, t.d. vegna þess hversu erfitt yrði fyrir ný fyrirtæki að komast inn á markaðinn.
     Ljóst er að þegar einokunar- eða markaðsráðandi stöðu hefur verið náð duga úrræði á grundvelli 17. gr. ekki alltaf til að gera samkeppni á viðkomandi markaði nægilega virka til að tryggja hagkvæma nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins. Því er einnig gert ráð fyrir því í greininni að samkeppnisyfirvöldum verði heimilað að mæla fyrir um ógildingu á samruna eða yfirtöku sem þegar hefur átt sér stað.
     Bann við yfirtöku og samruna er afdrifarík aðgerð og oft eru miklir hagsmunir í húfi. Því er eðlilegt að yfirvöldum séu sett tímamörk til að taka ákvörðun um bann við yfirtöku eða samruna. Það leiðir af sjálfu sér að engin slík tímamörk geta gilt um heimild samkeppnisyfirvalda til að ógilda yfirtöku sem þegar hefur átt sér stað. Jafnafdrifaríkum heimildum og samkeppnisyfirvöldum eru fengnar með þessari grein verður ekki beitt nema ríkar ástæður séu til og þau telji að virkri samkeppni sé veruleg hætta búin ef fyrirhuguð yfirtaka fer fram eða samruni sem þegar hefur farið fram fær að standa.
     Í 2. málsl. 3. mgr. er sérstaklega tekið fram að ákvæði málsgreinarinnar eigi einnig við þegar fyrirtæki nær virkum yfirráðum í öðru fyrirtæki. Um hugtakið virk yfirráð vísast til orðskýringa. Hér skal því þó bætt við að við skilgreiningu á því hvort fyrirtæki hafi náð virkum yfirráðum er það hin raunverulega aðstaða sem það hefur til að stjórna eða fara með eignir annars fyrirtækis sem skiptir máli. Hvaða eða hvers konar aðstæður það eru sem gera fyrirtæki þetta kleift skiptir hins vegar ekki máli.
     Forsenda þess að yfirvöld geti gripið inn í yfirtöku fyrirtækja, samruna eða aðra yfirráðatöku er að samkeppnisyfirvöld fái upplýsingar um yfirtökuna eða samrunann. Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. er Samkeppnisstofnun opnuð leið til þess að afla þessara upplýsinga með því að leggja tilkynningarskyldu á fyrirtæki sem standa að eða taka þátt í yfirtöku eða samruna hvort sem hann er fyrirhugaður eða hefur þegar átt sér stað.
     Samkvæmt greininni verður hægt að leggja á viðvarandi tilkynningarskyldu þannig að fyrirtæki verður í eitt skipti fyrir öll skyldað til að tilkynna stofnuninni um hvers konar yfirtöku eða samruna sem það síðar kann að verða aðili að. Stofnunin getur ákveðið gildistíma tilkynningarskyldunnar. Að öðru leyti gilda ákvæði IX. kafla um tilkynningarskyldu eftir því sem við á.

Um 19. gr.


    Tilgangur með þessari grein er að vinna að því að frjáls samkeppni ríki á öllum sviðum atvinnustarfsemi landsmanna þar sem meginstefna laganna á við. Í ýmsum lagafyrirmælum kunna hömlur að vera settar gegn þessu.

Um 20. gr.


    Greinin svarar til 26. gr. núgildandi laga og er einungis um orðalagsbreytingu að ræða. Hér er um meginreglu að ræða sem er ætlað að ná til ýmissa tilvika sem aðrar greinar kaflans, sem fjalla um sérstök tilfelli eða aðrar sérstakar viðskiptaaðgerðir, taka ekki til. Viðskiptaaðferðir eru margvíslegar og breytilegar þannig að hætta er á að sérákvæðin nái ekki til allra tilvika sem brjóta í bága við góða viðskiptahætti. Það hefur einnig sýnt sig við framkvæmd laganna að oft hefur þurft að beita þessari meginreglu. Hefur reynt á hana næstoftast þegar horft er t.d. á málafjölda síðasta árs hjá Verðlagsstofnun. Það er nauðsynlegt að hafa almenn varúðarákvæði sem þessi til þess að hægt sé að fylgja eftir breytingum í viðskiptaháttum og beina þeim á grundvelli löggjafar í þann farveg sem telja verður heppilegastan á hverjum tíma. Ekki er nægilegt í þessu tilliti að hafa einungis meginreglu en ekki sérákvæði þar sem réttarframkvæmd mundi ákveða hvað teldist brjóta í bága við góða viðskiptahætti og væri óhæfilegt gagnvart neytendum. Sérákvæðin gegna því mikilvægu hlutverki sem viðmiðun og til leiðbeiningar við mat á því hvaða kröfur eigi lögum samkvæmt að gera til viðskiptahátta. Enn fremur er rétt að hafa ákvæði þar sem verknaðarlýsing er sem nákvæmust.
     Ákvæði af þessu tagi er í löggjöf hvarvetna á Norðurlöndum. Greinin er orðuð á mismunandi hátt en efnislega er hún svipuð. Nokkuð er mismunandi hversu víðtæk beiting þessa ákvæðis hefur orðið sem er eðlilegt þar sem þetta svið er í örri þróun og einnig breytilegt eftir löndum. Orðalag þessa ákvæðis er sniðið eftir dönsku og norsku lögunum.
     Verknaður, sem greininni er ætlað að ná til, verður að vera unninn í atvinnustarfsemi. Er um rúma skilgreiningu á því hugtaki að ræða hvers konar atvinnustarfsemi fellur hér undir.
     Mat á því hvað telja beri góða viðskiptahætti ræðst af atvikum á þeim stað og tíma sem verknaður er unninn á. Ekki er nægilegt að kanna hvað teljist góðir viðskiptahættir að áliti góðra og grandvarra manna í þeirri grein atvinnulífsins sem um er að tefla hverju sinni. Það er einmitt eitt mikilvægasta hlutverk samkeppnisráðs, jafnt og dómstóla, að leggja á það sjálfstætt mat hvaða viðskiptahætti skuli viðurkenna og hverja ekki. Erlendis starfa ýmsar nefndir og stofnanir sem ætlað er það hlutverk að fylgjast með viðskiptaháttum og stuðla að góðum siðum í þeim efnum.
     Samkvæmt lagagreininni er einnig óheimilt að hafast nokkuð það að sem er óhæfilegt gagnvart hagsmunum neytenda. Þarna er verið að leggja sérstaka áherslu á að taka beri fullt tillit til neytendasjónarmiða í ákvörðunum samkvæmt ákvæðum frumvarpsins.
     Greinin beinist að starfsemi fyrirtækja út á við, en hrein innri starfsemi fellur utan við ákvæðið. Greininni er ekki ætlað að veita heimild til að banna vörur sökum þess að þær séu almennt lélegar, standist ekki öryggiskröfur eða séu yfirleitt óæskilegar. Þessari grein er ætlað það hlutverk að leiðrétta óréttmæta samningsskilmála hvort sem um er að ræða einstök tilfelli eða almennt óhæfileg samningsform. T.d. getur komið til kasta greinarinnar þegar um er að ræða ranga eða villandi framsetningu samningsskilmála sem í boði eru. Einnig væri t.d. hægt að banna samningsform sem eru þannig úr garði gerð að viðskiptavinir fá ranga eða ófullkomna hugmynd um efni þeirra.
     Lagagrein þessi getur snert svið laga um vörumerki, firmu, gæðamerki og löggjafar um verndun hugverka. Þessi grein getur skipt máli til fyllingar ákvæðum slíkra laga, t.d. þegar einkaréttur er tímabundinn. Ekki er unnt að nota greinina til að veita einkaréttarlega vernd þegar skilyrði sérlaga eru ekki uppfyllt eða verndartími útrunninn. Greinin gæti hins vegar náð til ótilhlýðilegrar hagnýtingar þess að eftirlíkingu svipar mjög til upprunalegrar vöru. Af málum af þessu tagi yrðu það aðallega ýmiss konar óhæfilegar framleiðslueftirlíkingar sem kæmu til kasta þessarar greinar enda fjallar 30. gr. þessa frumvarps og núgildandi laga um tiltekna vernd firmanafns, verslunarmerkis og þess háttar. Á þá grein mundi reyna í dómaframkvæmd samhliða sérlögum, svo sem firmalaga.
     Aðalaðgerðir gegn brotum á þessari grein munu felast í ákvörðunum samkeppnisráðs um bann við athöfnum. Um beitingu banns og málsmeðferð fyrir samkeppnisráði, að því er það snertir, er fjallað í XI. kafla frumvarpsins. Þess ber að geta og athuga sérstaklega að athöfn, sem brýtur í bága við siðareglur á borð við þær sem fjallað er um í grein þessari, á ekki út af fyrir sig að geta leitt til viðurlaga, hvorki einkaréttarlega né refsiréttarlega, heldur aðeins til þess að bann verði lagt við því að henni sé haldið áfram eða hún endurtekin. Bannið tekur til framtíðarinnar. Sé hins vegar brotið gegn fyrirmælum samkeppnisráðs um bann er grundvöllur fyrir beitingu viðurlaga, þ.e. refsiákvæða, skv. XI. kafla. Samningar eða samningsákvæði, sem eru óréttmæt og bönnuð, eru ógild, sbr. 40. gr. frumvarpsins.

Um 21. gr.


    Greinin samsvarar 27. gr. núgildandi laga og er einungis um smáa orðalagsbreytingu að ræða. Í þessari grein er fjallað um eina mikilvægustu meginregluna sem felst í löggjöf um ólögmæta viðskiptahætti, þ.e. að upplýsingar og skírskotun til annars, er atvinnurekendur beita til framdráttar starfsemi sinni, mega ekki vera villandi enda hefur langmest reynt á þessa lagagrein varðandi framkvæmd laganna.
     Sú breyting er gerð hér að nota orðið keppinautur í staðinn fyrir atvinnurekandi sem er þó nokkuð víðtækara.
     Samkvæmt ákvæðinu er óheimilt að veita rangar, ófullnægjandi eða villandi upplýsingar. Ástæða þess að bannaðar eru ófullnægjandi upplýsingar er að það sem ekki er látið uppi getur verið vel fallið til að hafa áhrif á eftirspurn eða framboð vara. Þetta ákvæði þarf oft og tíðum að skoða með hliðsjón af 23. gr. um leiðbeiningarskyldu. Ekki skiptir hér máli í hvaða formi „upplýsingar“ eru. Þær geta verið skriflegar eða munnlegar, upplýsingar í auglýsingum, myndum, kvikmyndum, útvarpi eða sjónvarpi. Hugtakið upplýsingar er þannig notað í víðtækri merkingu í þessu ákvæði og á að taka til margvíslegs tjáningarháttar. Hér er þó sérstaklega getið um auglýsingar sem er langalgengasta formið og því rétt að leggja áherslu á það.
     Með því að orða „aðrar viðskiptaaðferðir“ er tilgangurinn að ná til ýmiss konar yfirlýsinga og fullyrðinga sem ekki geta fallið undir upplýsingagjöf.
     Upplýsingarnar og aðrar viðskiptaaðferðir verða samkvæmt ákvæðinu að vera fallnar til þess að hafa áhrif á eftirspurn eða framboð vara, þjónustu o.s.frv. en þær þurfa ekki að hafa haft nein áhrif.
     Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar gildir 1. mgr. þegar upplýsingar eða aðrar viðskiptaaðferðir eru óhæfilegar gagnvart keppinautum eða neytendum vegna forms þeirra eða sökum þess að skírskotað er til óviðkomandi mála. Gagnstætt 1. mgr. geta upplýsingar og aðrar viðskiptaaðferðir brotið í bága við reglur þessarar málsgreinar enda þótt þær séu efnislega réttar og sannar.
    Ótilhlýðilegt form getur t.d. komið fram í samanburði við vörur frá öðrum. Skírskotun til óviðkomandi mála getur birst í ýmsum myndum, t.d. þannig að stjórnmála- eða trúarskoðanir keppinauta séu dregnar inn í málið eða skírskotað til góðgerðastarfsemi og safnana í þágu almennings sem telja verður að sé óviðkomandi mál.
     Með greininni eru ákvæði 3. mgr. núgildandi laga felld niður. Ekki er talin þörf á því að taka það fram sérstaklega að ábyrgð skv. 1. og 2. mgr. hvíli á félögum eða samtökum.

Um 22. gr.


    Grein þessi er nýmæli.
     Efni þessarar greinar er að nokkru tekið úr frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 56/1978, um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti, sem legið hefur fyrir Alþingi og fyrst var lagt fram á 112. löggjafarþingi 1989–90, svokallað auglýsingafrumvarp.
     Í 1. mgr. er gert ráð fyrir þeirri meginreglu að allar auglýsingar skuli vera á íslenskri tungu sem er í samræmi við ákvæði í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar um auglýsingar í útvarpi nema að því leyti að í reglugerðinni er tekið fram að erlendir söngtextar megi vera hluti auglýsingar. Mundi þetta ákvæði gilda framar reglugerðarákvæðinu. Auglýsingar, sem höfða til íslenskra neytenda, eiga því að vera á íslensku. Í 2. mgr. 2. gr. reglugerðar um auglýsingar í útvarpi er fjallað um það þegar dreift er viðstöðulaust um gervihnött og móttökustöð fréttum eða dagskrárefni er sýnir atburði sem gerast í sömu andrá. Skulu auglýsingar, sem eru hluti af slíku dagskrárefni, undanþegnar íslenskuskilyrði reglugerðarinnar. Eðli málsins samkvæmt yrði væntanlega að túlka 1. mgr. 22. gr. með sama fyrirvara en þó ekki um auglýsingar sem sérstaklega er beint að Íslandi.
     2. mgr. er þess efnis að auglýsingar skuli þannig úr garði gerðar að ekki leiki vafi á að um auglýsingar sé að ræða og þær verða að vera skýrt aðgreindar frá öðru efni fjölmiðla. Er þetta efnislega samhljóða 1. mgr. 1. gr. reglugerðar um auglýsingar í útvarpi en víðtækara að því leyti að þetta ákvæði nær ekki einungis til auglýsingar í hljóðvarpi og sjónvarpi heldur allra auglýsingar, sbr. 11. gr. siðareglna Alþjóðaverslunarráðsins. Meðal þeirra tilvika, sem gætu fallið undir 2. mgr. 22. gr., má nefna ef orðið fréttir eða því um líkt væri notað til að auðkenna auglýsingar t.d. í fyrirsögn þeirra.
     Í 1. mgr. 1. gr. reglugerðar um auglýsingar í útvarpi er talað um að auglýsingar skuli fluttar í sérstökum almennum auglýsingatímum. Þessi regla er ekki sett inn í frumvarpið. Auglýsingar geta því að einhverju leyti tengst dagskrá.
     Þess ber að geta að í 11. gr. tilskipunar ráðs Evrópubandalagsins um sjónvarpsstarfsemi er aðalreglan sú að auglýsingar skuli birta á milli dagskrárliða. Ef viss skilyrði eru uppfyllt má skjóta auglýsingum inn í dagskrárliði þannig að þær spilli ekki heildaráhrifum og gildi dagskrárliða enda sé tekið tillit til eðlilegra hléa í dagskrárliðum, lengdar og eðlis þeirra og réttinda rétthafa. Í 11. gr. er m.a. mælt fyrir um það að auglýsingar skuli aðeins vera í hléum í íþróttaþáttum og eru þröngar skorður settar við rofi á kvikmyndum, fréttaþáttum og barnatímum en rýmri skorður settar við rofi á t.d. léttum skemmtiþáttum. Vegna aukins samstarfs Evrópuríkja er þess að vænta að reglur og framkvæmd hér á landi verði með svipuðu sniði er fram líða stundir. Tekið skal fram í þessu tilliti að umboðsmenn neytenda á Norðurlöndum og Verðlagsstofnun hafa nýlega samþykkt sameiginlegar stefnumarkandi reglur um sjónvarpsauglýsingar og er það m.a. liður í því að samræma reglur á þessu sviði. Hafa þær reglur verið kynntar fyrir öðrum þjóðum EB og EFTA-ríkja. Þessar reglur eru enn sem komið er til leiðbeiningar og hafa ekki verið lögfestar á Norðurlöndum. Þær hafa verið kynntar rækilega, m.a. hér á landi. Þær eru byggðar á meginreglu löggjafarinnar um bannið við auglýsingum og öðrum söluaðferðum sem eru óhæfilegar gagnvart neytendum. Verða þessar reglur því hafðar til hliðsjónar við túlkun laganna hvað varðar sjónvarpsauglýsingar.
     Í 3.–5. mgr. 22. gr. er sérstaklega fjallað um börn og auglýsingar. Þetta á sér fyrirmynd í 8. tölul. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar um auglýsingar í útvarpi og í ofangreindum, sameiginlegum, norrænum stefnumarkandi reglum um sjónvarpsauglýsingar. Þetta er víðtækara en ákvæði í reglunum og í reglugerð þar sem þetta ákvæði nær til allra auglýsinga almennt eftir því sem við getur átt. Útfæra mætti þessa grein nánar ef þurfa þykir í reglum sem gert er ráð fyrir að samkeppnisráð geti sett, sbr. 32. gr. frumvarpsins. Við setningu reglna á þessu sviði mætti taka mið af fyrrnefndum norrænum reglum um sjónvarpsauglýsingar en þar er í sérkafla sérstaklega fjallað um börn og auglýsingar í fjórum liðum og efnislega fjalla þær reglur að miklum hluta um börn. Einnig má benda á 13. gr. siðareglna Alþjóðaverslunarráðsins um auglýsingastarfsemi og leiðbeiningar ráðsins við siðareglurnar.
     Sem dæmi um það sem fallið getur undir 5. mgr. 22. gr. er auglýsing er sýnir barn við stýri ökutækis eða að leik aftan við það.

Um 23. gr.


    Greinin samsvarar 28. gr. gildandi laga og er óbreytt.
     Hér hefur verið lögfest almenn leiðbeiningar- og upplýsingaskylda við framboð vöru, þjónustu og annars þess sem lögin taka til. Ekki er gert ráð fyrir breytingu á þessari grein. Við túlkun hennar verður að hafa í huga að á ýmsum sviðum hafa myndast fastar venjur um það hversu ítarlegar upplýsingar og leiðbeiningar neytendum eru gefnar.
     Í ákvæðinu er tekið fram að leiðbeiningarskyldan sé háð því að leiðbeininga sé þörf við mat á eiginleikum vörunnar eða þess sem í té er látið. Dæmi eru nefnd um eiginleika sem taldir eru skipta máli, svo sem notagildi, endingu, hættueiginleika og upplýsingar um meðferð. Þetta er einungis nefnt sem dæmi, aðrir eiginleikar geta einnig skipt miklu máli.
     Skyldur þær, sem hér er kveðið á um, er unnt að uppfylla með ýmsum hætti. Eðlilegast er að nota vörumerkingar og notkunarleiðbeiningar með fjöldaframleiddum vörum. Í öðrum tilfellum er heppilegast að veita leiðbeiningar munnlega, t.d. svör við spurningum kaupenda. Er ekki ætlast til þess að meta þurfi einstaklingsbundnar þarfir kaupandans nema sérstakt tilefni væri til þess, svo sem upplýsingar hans sjálfs.
     Grein þessi mælir ekki fyrir um almenna skyldu til vörumerkinga en í mörgum tilfellum er upplýsinga- og leiðbeiningarskyldu fullnægt samkvæmt þessari grein ef vörumerkingarskylda er uppfyllt. Ef kveðið er á um upplýsingaskyldu í sérlögum, t.d. löggjöf um merkingu lyfja og eiturefna, mun mat á þeim kröfum sem ákvæði þessarar greinar gera til upplýsingaskyldu ráðast af því hvernig ofannefnd fyrirmæli hinna ýmsu sérlaga í þessum efnum eru uppfyllt.
     Þessi lagagrein á við á öllum sölustigum. Við mat upplýsinga- og leiðbeiningarskyldu hvers sölustigs samkvæmt greininni verður að taka tillit til þeirra möguleika sem fyrir hendi eru á viðkomandi sölustigi til að veita nauðsynlegar leiðbeiningar.

Um 24. gr.


    Greinin samsvarar 29. gr. gildandi laga og er óbreytt.
     Þessi lagagrein tekur bæði til ábyrgðaryfirlýsinga sem eru þáttur í stöðluðum samningsskilmálum og sjálfstæðra ábyrgðaryfirlýsinga sem talsvert eru notaðar, einkum við sölu heimilistækja og skyldra vara og fer það vaxandi.
     Oft eru yfirlýsingar um ábyrgðir fremur yfirlýsingar um ábyrgðarleysi þar sem í þeim hefur oft falist lakari réttur en ákvæði laga kveða á um.
     Samkvæmt þessu ákvæði má ekki takmarka ábyrgð frá því sem gildir samkvæmt almennum lögum um lausafjárkaup og samningalögum. Hefur hæstaréttardómur fallið sem skýrir ákvæðið þannig. Á það bæði við um ábyrgðartímann og einnig efnislega um ábyrgð almennt. Hún má ekki vera minni en eitt ár samkvæmt kaupalögum, 54. gr., og má ekki takmarkast efnislega frá því sem kveðið er á um í kaupalögum.
     Mjög eðlilegt er að tryggja í lögum lágmarksrétt sem svarar til hinna frávíkjanlegu reglna í kaupalögum og hefur þessi grein uppfyllt það hlutverk hvað þetta varðar.
     Við mat á því hvort ábyrgðaryfirlýsing veiti móttakanda hennar meiri rétt en ákvæði gildandi laga verður að líta á yfirlýsinguna í heild sinni. Ákvæði í ábyrgðarsamningum, sem takmarka ábyrgðina, eru þá væntanlega ógild, sbr. 40. gr. frumvarpsins.

Um 25. gr.


    Þessi grein svarar til 30. gr. gildandi laga og er óbreytt.
     Notkun sérstakra auðkenna skipta mjög miklu máli í viðskiptum. Auðkenni greina starfsemi og vörur eða þjónustu fyrirtækja frá öðrum.
     Slíkt ákvæði var fyrst sett í lög nr. 84/1933 en fyrir þann tíma fór um vernd slíkra auðkenna eingöngu eftir ákvæðum í firma- og vörumerkjalögum. Vernd auðkenna, sem veitt er með firma- og vörumerkjalögum, er háð ýmsum skilyrðum og nær því ekki alltaf nógu langt. Þrátt fyrir aukna sérlöggjöf á þessu sviði er enn þörf á því að hafa almenna samkeppnisreglu um vernd auðkenna.
     Ákvæðið hefur að geyma almennt bann við því að nota auðkenni sem annar á (firmanafn, verslunarmerki eða því um líkt). Réttur til þessara auðkenna getur hvílt á sérlöggjöf, t.d. lögum um vörumerki, nr. 47/1968, lögum um verzlanaskrár, firmu og prókúruumboð, nr. 42/1903, lögum um almenn gæðamerki, nr. 89/1935, breyting með lögum nr. 47/1968, VIII. kafli. En ákvæði þessarar greinar skipta máli um viðbótarvernd þá sem ofangreind sérlög veita auðkennum.
     Rétturinn til að nota eigin auðkenni er með ákvæðum 2. málsl. greinarinnar takmarkaður á þann veg að óheimilt er að nota auðkenni þannig að leitt geti til þess að villst verði á því og öðru auðkenni sem annað fyrirtæki notar með fullum rétti. Tekur þetta ákvæði til sömu auðkenna og almenna reglan í 1. málsl.
     Rétt þykir að hafa þetta ákvæði áfram í íslenskri löggjöf en það kemur enn að gagni til fyllingar á vörumerkjavernd.

Um 26. gr.


    Grein þessi svarar til 31. gr. gildandi laga og er óbreytt. Samkvæmt greininni er bannað að bjóða neytendum svokallaðan kaupbæti með vörum, þjónustu eða öðru því sem haft er á boðstólum.
     Greininni er ekki ætlað að útiloka almennan verðafslátt og heldur ekki dagatöl eða aðrar smágjafir sem teljast lítils eða einskis virði og eru hluti af kynningarstarfi eða auglýsingu.
     Það má velta því fyrir sér hvort ástæða sé til að hafa sérstaka reglu um bann við kaupbæti þar sem hér er einungis verið að tala um eina tegund ólöglegra viðskiptaaðferða sem gæti fallið undir önnur ákvæði í kaflanum, 21. gr. eða jafnvel 20. gr., þar sem meginreglurnar eru. Rétt þykir þó að hafa áfram í lögum sérákvæði varðandi þetta atriði enda hefur slíkt ákvæði verið lengi í lögum og hefur reynslan sýnt að fyrirtæki freistast oft og einatt til að beita þessari aðferð við framboð vara sinna.
     Rök fyrir banni við notkun kaupbætis í viðskiptalífinu eru tvenns konar. Í fyrsta lagi er hætta á því að með kaupbæti sé villt um fyrir neytendum og í öðru lagi eru viðbótargreiðslur þær, sem felast í kaupbæti, óviðkomandi þeim viðskiptum sem um er að ræða og því almennt fallnar til að hafa truflandi áhrif á markaðnum.
     Hugtakið kaupbætir er ekki skilgreint í ákvæðinu. Svo hefur verið litið á varðandi þetta ákvæði að helstu einkenni hugtaksins liggi fyrir og jafnframt svigrúm til að móta það frekar.
    Rétt er þó að benda á helstu einkenni hugtaksins. Segja má að kaupbætir sé sérhver sú viðbótargreiðsla (vara, þjónusta eða annað) sem bundin er við framboð aðalgreiðslunnar án þess að eðlileg tengsl séu þar á milli. Hér er því um að ræða að við sölu vara, þjónustu o.s.frv. sé neytendum látin í té án sérstaks endurgjalds önnur vara eða greiðsla.
    Í greininni er sú takmörkun gerð að einungis er um löglegan kaupbæti að ræða við sölu til neytenda.
     Kaupbætir getur verið fólginn í vörum, þjónustu, vinnuframlagi o.fl. Ekki skiptir máli við mat á því hvort viðbótargreiðslur falla undir ákvæði greinarinnar um kaupbæti þótt notuð hafi verið merki eða önnur skilríki er veita viðtakanda (handhafa) rétt til viðbótargreiðslu. Það er viðbótargreiðslan sjálf og tengsl hennar við aðalgreiðsluna sem máli skipta. Ekki er unnt að líta öðruvísi á réttinn til viðbótargreiðslunnar en greiðsluna sjálfa.

Um 27. gr.


    Grein þessi samsvarar 32. gr. gildandi laga og er óbreytt.
     Fjallar þessi grein um kaupbæti í formi merkis og því um líks. Samkvæmt aðalreglunni er óheimilt að bjóða neytendum gegn afhendingu merkis eða annars vottorðs sem afhent er við sölu vöru eða þjónustu eitthvað annað en peninga.
     Samkvæmt þessari grein er það boðið sjálft sem er óheimilt. Það getur verið sá sem selur viðkomandi vöru er veitir boðið, t.d. smásali sem afhendir viðskiptavinum sínum vottorð í einhverri mynd sem hann skuldbindur sig til að innleysa í vörum. Boðið getur einnig verið veitt af framleiðanda. Slíkt boð getur komið fram á umbúðum vörunnar eða t.d. í auglýsingum.
     Þessi skilríki og vottorð, sem ákvæðið á við, geta verið af mörgum og ólíkum gerðum. Þetta geta t.d. verið merkimiðar sem eru festir við vöruna eða hlutar af umbúðum hennar.
     Athuga verður að ókeypis afhending til heimila á merkimiðum, sem gefa rétt á afslætti við kaup ákveðinnar vöru, er ekki refsiverð. Sama gildir um merkimiða sem klipptir eru út úr auglýsingum í blöðum.
     Skuli boð teljast óheimilt er gert ráð fyrir að vottorðið sé innleyst með öðru en peningum. Reglan á bæði við vottorð sem beint má skipta á og vörum og vottorð sem veita rétt til afsláttar við innkaup. Greinin tekur einnig til vottorða sem innleysa má annaðhvort með peningum eða vörum.
     Í 2. mgr. er undantekning frá aðalreglunni. Undantekningin varðar skilríki eða merki sem aðeins veita rétt til eftirlits, viðgerðar eða því um líks á hinu selda.

Um 28. gr.


    Grein þessi svarar til 34. gr. gildandi laga og er óbreytt.
     Eðlilegt er að hafa áfram ákvæði til að fyrirbyggja mútugjafir í lögum um samkeppnis- og viðskiptahætti enda hefur slíkt ákvæði verið lengi í íslenskri löggjöf.
     Miðað er hér við að gjafir séu boðnar af hálfu einhverra í atvinnustarfsemi sem frumvarpið tekur til, sbr. 2. gr., og sá sem við tekur þarf ekki að vera starfsmaður atvinnurekanda er rekur slíka starfsemi. Gjafþegar geta því verið starfsmenn ýmissa annarra aðila en þeirra sem falla undir 2. gr. þessa frumvarps.
     Hugrænu kröfurnar eru þannig að ákveðins tilgangs er krafist sem er að afla gefandanum eða öðrum forréttinda í viðskiptum eða hlunninda fram yfir aðra.
     Gjafirnar eða hlunnindin, sem greinin tekur til, verða að vera fallin til þess að hafa áhrif á viðtakanda. Þessi takmörkun leiðir til þess að venjulegar tækifærisgjafir falla utan ákvæðisins.
     Varðandi afstöðu þess aðila, sem starfsmaður starfar fyrir, er sú regla sett að sé gjöfin eða hlunnindin veitt með vitund hans fellur atferlið utan ákvæðisins. Í þessu tilliti er það sjónarmið látið ráða að múturnar séu einkum trúnaðarbrot gagnvart þeim aðila er viðtakandi starfar fyrir. Sé hins vegar litið á mútur fyrst og fremst sem ótilhlýðilega samkeppnisaðferð ætti vitneskja og jafnvel samþykki ekki að leysa undan ábyrgð.
     Í 2. mgr. er tekið á því þegar gjafir eru gefnar eða hlunnindi eru veitt eftir að brotið hefur verið gegn starfsskyldum. Nauðsynlegt er að hafa slíkt ákvæði í lögum, m.a. af lagatæknilegum ástæðum, þar sem málum mun oft vera þannig háttað að gjöfum eða hlunnindum er lofað áður en verknaður er unninn en látið líta svo út sem um eftirfarandi umbun sé að ræða. Til þess að ávinningur falli undir þetta verður hann að geta talist óhæfilegur.

Um 29. gr.


    Þessi grein er samsvarandi 35. gr. gildandi laga og er hún óbreytt.
     Í þessari grein eru ítarlegar reglur um vernd rekstrarleyndarmála. Eru þessar reglur reistar á því að fyrirtækið eigi rétt á lögvernd þeirra hagsmuna sem felast í því að ákveðnum þáttum varðandi starfsemi þeirra er snerta sérstaklega samkeppnisstöðu sé haldið leyndum, þ.e. að upplýsingum um þessa þætti sé haldið innan fyrirtækjanna.
     Hagsmunir þeir, sem greinin verndar, eru atvinnuleyndarmál. Það hugtak er ekki skýrt í greininni né heldur rekstrar- og viðskiptaleyndarmál. Ekki eru skörp skil á milli þessara hugtaka og í einstöku leyndarmáli geta verið þættir úr þeim báðum. Rekstrarleyndarmál varða fremur tæknileg atriði. Þó að skilyrði fyrir einkaleyfi séu ekki uppfyllt getur verið um verndað rekstrarleyndarmál að ræða.
     Verslunar- eða viðskiptaleyndarmál geta t.d. verið fólgin í sérstöku sölu- eða innkaupaskipulagi, skrám yfir viðskiptavini, sérstakri þekkingu á viðskiptavinum, ýmsum tölfræðilegum upplýsingum o.fl. Athuga verður að viðskiptaleyndarmál geta aldrei öðlast vernd samkvæmt einkaleyfisrétti svo sem orðið getur um rekstrarleyndarmál þannig að þetta ákvæði er eina vernd þessa atriðis.
     Almenn þekking og reynsla starfsmanns getur ekki fallið undir það að vera atvinnuleyndarmál. Til þess að svo sé þarf að liggja fyrir þekking sem er sérstaklega bundin við viðkomandi rekstur og skiptir máli fyrir starfsemina.
     Það verður að gera þær kröfur til þess að atvinnuleyndarmál njóti verndar samkvæmt greininni að krafa um leynd hafi verið látin í ljós af hálfu fyrirtækis eða það liggi í hlutarins eðli.
     Um atvinnuleyndarmál getur verið að ræða enda þótt fleiri en eigandi eða stjórnandi viti um það. En því fleiri sem þekkja atvinnuleyndarmál og ekki eru háðir þagnarskyldu leikur meiri vafi á um hvort hagsmunirnir eru þess eðlis að þeir eigi að njóta verndar sem atvinnuleyndarmál.
     Varðandi mat á því hvað telja beri atvinnuleyndarmál kemur við sögu hugtak sem kallast á erlendu máli „know-how“. Mörk þess hugtaks eru ekki skýr en segja má að það sé eins konar millistig milli atvinnuleyndarmála og almennrar tækniþekkingar. „Know-how“ hefur skipt mestu máli á iðnaðarsviðinu. Ef „know-how“ felur í sér atvinnuleyndarmál nýtur það verndar samkvæmt ákvæðinu, annars ekki.
     Í 1. mgr. greinarinnar er svo kveðið á að óheimilt sé að afla sér eða reyna að afla sér með ótilhlýðilegum hætti upplýsinga um eða umráða yfir atvinnuleyndarmálum. Þessi málsgrein beinist að þeim sem aflar sér eða reynir að afla sér upplýsinga um atvinnuleyndarmál annars. Iðnaðarnjósnir falla hér undir. Ákvæðið tekur bæði til utanaðkomandi aðila og starfsmanna í viðkomandi fyrirtæki.
     Aðferðin, sem notuð er til þess að afla sér upplýsinga um atvinnuleyndarmál, verður að teljast ótilhlýðleg til þess að málsgreinin taki til háttseminnar.
     Í 2. mgr. er lögð þagnarskylda á þá sem eru í tengslum við viðkomandi starfsemi sem starfsmenn eða í félagsskap við aðra. Þagnarskyldan á að haldast í þrjú ár eftir að störfum lýkur.
     Í 3. mgr. er lögð þagnarskylda á þá sem vegna starfs síns eða stöðu að öðru leyti hefur verið trúað fyrir uppdráttum, lýsingu, uppskriftum, líkönum og þess háttar. Samkvæmt ákvæðinu er ekki nauðsynlegt að uppdrættir þeir eða annað það sem ætkunin er að vernda séu atvinnuleyndarmál. Undir málsgreinina getur fallið „know-how“ sem ekki er atvinnuleyndarmál. Hér er ekki miðað við leyndina sjálfa heldur eru talin í málsgreininni öll þau andlög sem njóta verndar.
     Samkvæmt ákvæði í 4. mgr. verður sá — í hugrænu tilliti — sem notfærir sér atvinnuleyndarmál að vita að um er að ræða atvinnuleyndarmál eða þau atriði sem um ræðir í 3. mgr. og að upplýsinga um þau eða umráða yfir þeim hafi verið aflað með því að brotið hafi verið gegn ákvæðum 1.–3. mgr.

Um 30. gr.


    Þetta ákvæði svarar til 36. gr. gildandi laga og er það óbreytt.
     Vegna þess að sérstök ákvæði um útsölur hafa lengi verið hér í löggjöf og útsölur eru algeng verslunaraðferð hér þykir rétt að hafa áfram sérstakt ákvæði um þetta efni. Annars staðar á Norðurlöndum eru hins vegar engin sérákvæði í lögum um útsölur heldur eru ákvæði um bann við villandi upplýsingum látin nægja.
     Aðaláhersla þessa ákvæðis er að tryggja rétt kaupenda.
     Tilgangur með lagagreininni er sá að koma í veg fyrir að neytendur séu blekktir í auglýsingum eða upplýsingum um útsölur. Þannig njóta keppinautar einnig verndar.
     Samkvæmt 1. mgr. má því aðeins auglýsa eða tilkynna útsölu eða aðra sölu þar sem selt er á lækkuðu verði að um raunverulega verðlækkun sé að ræða og einnig skal þess getið með verðmerkingum hvert hið upprunalega verð vörunnar var. Verðlækkun verður að felast í því að seljandi bjóði vöru á lægra verði en hann selur sams konar vöru venjulega á. Hafi verð verið hækkað í þeim tilgangi að geta síðan auglýst verðlækkun mundi slík auglýsing teljast villandi og fellur því undir 21. gr. Ekki er þess krafist að nein ástæða sé tilgreind fyrir verðlækkuninni.
     Samkvæmt greininni má halda útsölur hvenær sem er og engar ástæður þarf að tilgreina fyrir þeim.
     Þetta ákvæði á umfram allt að tryggja það að um raunverulega verðlækkun sé að ræða og að kaupendur geti áttað sig á verðmuninum.
     Í 2. mgr. er sá réttur kaupenda tryggður enn frekar.

Um 31. gr.


    Þessi grein svarar til 37. gr. gildandi laga og er hún óbreytt.
     Samkvæmt 1. mgr. er bannað að nota alþjóðamerki hjúkrunar- og mannúðarstarfsemi og önnur hliðstæð auðkenni til þess að merkja vörur hvort sem þær eru þannig merktar sjálfar eða umbúðir þeirra eða miðar með þeim. Slík merki er einnig bannað að nota í heimildarleysi á auglýsingaspjöldum, auglýsingum, reikningum, vöruskrám eða öðrum verslunarskjölum.
    Ákvæði í 3. mgr. eiga tvímælalaust heima í lögum um óréttmæta viðskiptahætti þar sem tilgangur reglnanna er að koma í veg fyrir að villst verði á íslenskum og erlendum vörum vegna ýmiss konar íslenskra auðkenna sem sett hafa verið á erlendu vörurnar. Rétt er að hafa þetta ákvæði áfram, sérstaklega vegna þess að ekki er víst að tilvik, sem falla undir þessa málgrein, falli undir 21. gr. um villandi upplýsingar.

Um 32. gr.


    Grein þessi er nýmæli.
     Í greininni er gert ráð fyrir því að samkeppnisráð geti sett nánari reglur til fyllingar 20.–23. gr. frumvarpsins. Er þetta eðlilegt þar sem þau ákvæði eru víðtæk og því eðlilegt að settar séu nánari reglur um þau á ýmsum sviðum atvinnulífsins. Með heimild í þessari lagagrein ætti einnig að verða auðveldara fyrir stjórnvaldið samkvæmt lögunum að uppfylla það hlutverk sitt að vera til leiðbeiningar um það hvað séu góðir viðskiptahættir skv. 20. gr. frumvarpsins og móta þá stefnu.
     Hér er gert ráð fyrir því að Samkeppnisstofnun ráðgist við hlutaðeigandi aðila áður en slíkar reglur eru settar. Eðlilegt er að leyfa atvinnurekendum sjálfum að koma með sínar tillögur við samningu slíkra reglna eftir því sem kostur er. Oft og tíðum vita atvinnurekendur sjálfir best hvernig viðskiptavenjur eru og hafa mótast í viðkomandi atvinnugrein. En oft geta viðskiptavenjur hafa mótast þannig að ástæða er að breyta þeim. Samkeppnisstofnun og samkeppnisráð bera endanlega ábyrgð á slíkum reglum og ber að framfylgja þeim. Ef ekki er farið eftir slíkum settum reglum brýtur það í bága við góða viðskiptahætti, sbr. 20. gr., eða þá lagagrein sem við á hverju sinni, 20.–23. gr.
     Er ætlunin með þessari grein að móta betur hvað telja beri góða viðskiptahætti, sbr. 20. gr., og gefa út leiðbeinandi reglur svo að komið sé í veg fyrir t.d. að upplýsingar í auglýsingum séu villandi, sbr. 21. gr. og leiðbeiningar um eiginleika vöru.

Um 33. gr.


    Í 45. gr. í gildandi lögum eru heimildarákvæði til handa Verðlagsstofnun að setja reglur um verðmerkingar og verðskrár. Heimildir stofnunarinnar eru víðtækar og hafa samkvæmt þeim verið settar reglur um verðmerkingar. Eru reglurnar almenns eðlis auk þess sem settar hafa verið reglur um verðmerkingar hjá nokkrum greinum verslunar og þjónustu.
     Samkvæmt 33. gr. eru fyrirtæki skylduð að lögum til að verðmerkja vörur eða þjónustu sem seld er til neytenda þannig að auðvelt sé fyrir þá að sjá verðmerkinguna. Jafnframt getur Samkeppnisstofnun sett nánari fyrirmæli um verðmerkingar með opinberri tilkynningu. Með greininni er vísað til verðupplýsinga til neytenda enda er litið svo á að atvinnurekendur hafi aðrar og betri forsendur til að afla þeirra verðupplýsinga sem þeir þarfnast.

Um 34. gr.


    Það er eitt af grundvallarskilyrðunum fyrir virkri samkeppni að kaupendur geti sjálfir áttað sig og haft nægilega yfirsýn yfir markaðinn. Það er ekki nóg að tryggja nægilegt framboð á markaðnum með því t.d. að uppræta samkeppnishömlur þegar viðskiptavinir vegna skorts á yfirsýn hafa ekki forsendur til að meta eða taka afstöðu til hinna ólíku tilboða á markaðnum.
     Fyrirmælunum í 34. gr., sem Samkeppnisstofnun getur gefið fyrirtækjum, er ætlað að auðvelda bæði neytendum og fyrirtækjum að efla yfirsýn yfir markaðinn. Fyrirmælin geta falist í skyldu til að tilgreina verð, viðskiptakjör, gæði og aðra eiginleika vöru og þjónustu og hvernig vara skuli mæld, vegin og flokkuð. Samkeppnisstofnun getur gefið slík fyrirmæli með opinberri tilkynningu.
     Þær reglur, sem hér er fjallað um, ná ekki aðeins til upplýsinga til neytenda heldur til allra aðila á markaðnum.

Um 35. gr.


    Í 14. gr. gildandi laga er fjallað um tilkynningarskyldu markaðsráðandi fyrirtækja og ákvarðanir sem þau hafa tekið um samkeppnishömlur. Í 16. gr. laganna er tekið fram að Verðlagsstofnun skuli halda skrá yfir tilkynningar sem berast samkvæmt ákvæðum 14. gr. og skuli hún vera aðgengileg öllum þeim sem óska eftir að kynna sér tilkynningarnar í skránni.
     Ákvæðum þessara greina hefur í litlum mæli verið framfylgt. Er það margra mat að tilkynningar um samkeppnishömlur, sem þannig berast samkeppnisyfirvöldum, séu síst þær sem greina frá mikilvægum samningum um samkeppnishömlur. Er víða reynsla fyrir því að slíkri skrá, sem vísað er til í 16. gr., fylgi mikil skriffinnska en skili í raun takmörkuðum upplýsingum um markaðinn til aðila markaðarins.
     Í lagafrumvarpinu er ekki gert ráð fyrir tilkynningarskyldu fyrirtækja um samkeppnishömlur, sjá þó 2. mgr. 13. gr., 18. gr. og 4. mgr. 38. gr. Hins vegar er gert ráð fyrir að við framkvæmd laganna geti Samkeppnisstofnun skv. 35. gr. birt opinberlega upplýsingar um samninga, skilmála og athafnir sem hafa eða er ætlað að hafa þau áhrif að hamla samkeppni.
     Opinber upplýsingamiðlun er mikilvægur þáttur í nútíma samkeppnisstefnu. Þess vegna er nauðsynlegt að Samkeppnisstofnun hafi rúmar heimildir til að birta opinberlega upplýsingar um samkeppnishömlur samkvæmt því sem að framan segir. Það verður háð mati samkeppnisyfirvalda hvaða upplýsingar þau telja nauðsynlegt að birta til að sinna markmiðum samkeppnislaga. Þó er hafður sá fyrirvari að tekið skuli tillit til réttmætra hagsmuna fyrirtækja til að halda leyndum viðskiptalegum og tæknilegum upplýsingum, þ.e. að ekki skuli birta slíkar upplýsingar opinberlega.

Um 36. gr.


    Í 13. gr. gildandi laga eru ákvæði svipaðs efnis og í þessari grein. Tilgangurinn með henni er, eins og segir í greininni og vísar í raun til alls VII. kafla frumvarpsins, að stuðla að og efla virka samkeppni. Skal það gert með öflun upplýsinga um verð, verðmyndun og önnur viðskiptakjör og skal birta niðurstöður eftir því sem ástæða þykir til. Að baki þessu liggur að auka gagnsæi á markaðnum. Því gagnsærri sem markaðurinn er þeim mun betri forsendur eru fyrir virkri samkeppni.
     Þessari grein er ekki síst ætlað að auka upplýsingamiðlun til neytenda þannig að þeir geti veitt fyrirtækjum nauðsynlegt aðhald.

Um VIII. kafla.


     Á undanförnum löggjafarþingum hefur verið lagt fram stjórnarfrumvarp um greiðslukortastarfsemi, en það hefur ekki orðið útrætt. Vorið 1992 samþykkti efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis að óska eftir því að meginefni frumvarpsins yrði fellt inn í frumvarp þetta og verði samkeppnisráði m.a. veitt heimild til að setja reglur um greiðslukortastarfsemi sem tryggi að hagur neytenda hér á landi verði eigi lakari í slíkum viðskiptum en almennt gerist í öðrum ríkjum hins fyrirhugaða Evrópska efnahagssvæðis.
     Í 78. gr. EES-samningsins skuldbinda samningsaðilar sig til þess að efla og auka samvinnu sín á milli á nánar tilteknum sviðum, þar á meðal á sviði neytendaverndar og í eftirfarandi greinum er samvinnan nánar útfærð, sbr. og bókun 31 með samningnum. Þar á meðal er gert ráð fyrir að farið verði eftir hliðstæðri löggjöf, eftir því sem við á, með sömu eða svipuðum reglum.
     Í gerðum EB er ekki að finna tilskipun um greiðslukortastarfsemi, en hins vegar gaf framkvæmdastjórnin árin 1987 og 1988 út tilmæli varðandi greiðslumiðlun með rafeindatækni og er þar m.a. fjallað um þörf neytenda á upplýsingum, vernd í tengslum við slíka greiðslumiðlun, um samninga milli útgefenda greiðslukorta og korthafa, um upplýsingavernd, ábyrgð korthafa og um ábyrgð kortaútgefenda þegar gallar koma upp í greiðslumiðluninni (87/598/EB og 88/598/EB). Frekari reglur um greiðslumiðlun eru enn til umfjöllunar innan bandalagsins að kröfu neytendasamtaka í ríkjum bandalagsins og væntanlega munu neytendasamtök EFTA-ríkjanna bera fram sömu kröfur í samstarfinu milli EES-ríkjanna. Í sumum aðildarríkja EB hefur verið sett sérstök löggjöf um greiðslukortastarfsemi og var stjórnarfrumvarp það sem fyrr er getið að verulegu leyti byggt á dönsku löggjöfinni.

Um 37. gr.


    Hér er lagt til að Samkeppnisstofnun og samkeppnisráði sé falið eftirlit með greiðslukortastarfsemi. Skal þess gætt að viðskiptakjör neytenda verði eigi lakari í slíkum viðskiptum en almennt gerist í helstu viðskiptaríkjum Íslendinga, en sem dæmi um frávik frá þessu sem tíðkast hér á landi má nefna almenna kröfu kortaútgefenda um tryggingar frá þriðja aðila á skilvísri greiðslu korthafa.

Um 38. gr.


    Hér er lagt til að Samkeppnisstofnun haldi skrá um greiðslukortaútgefendur sem starfa hér á landi og mælt fyrir um tilkynningarskyldu þeirra.

Um 39. gr.


    Hér er fjallað um upplýsingaskyldu kortaútgefenda og samkeppnisráði m.a. veitt vald til að leggja bann við tilteknum viðskiptaháttum.

Um 40. gr.


    Hér er m.a. lagt til að ráðherra hafi heimild til þess að setja með reglugerð nánari reglur um greiðslukortastarfsemi að fengnum tillögum samkeppnisráðs þar að lútandi. Er þá haft í huga að tæknibreyting er ör á sviði þeirrar greiðslumiðlunar er hér um ræðir og eins að stöðugt er unnið að samræmdum alþjóðareglum um þessa starfsemi sem stöðugt verður alþjóðlegri.

Um 41. gr.


    Almenn ákvæði um verðstöðvun, hámarksverð, hámarksálagningu og aðrar reglur um verðlagningu og viðskiptakjör eru í meginatriðum í mótsögn við markmið og tilgang samkeppnislaga. Þó geta mál þróast með þeim hætti að nauðsynlegt kunni að vera að geta gripið til slíkra aðgerða. Það á einkum við ef skyndilegar og óvæntar breytingar á ytri aðstæðum ógna jafnvæginu í efnahagsmálum þjóðarinnar og leiða til óeðlilegra breytinga á verðlagi. Til að grípa til aðgerða þegar slík hætta steðjar að getur Alþingi sett sérstök lög til að beita við fyrrgreindar aðstæður. Það hefur hins vegar verið horfið að því ráði að setja sérstaka grein í samkeppnislögin sem heimilar ríkisstjórninni að ákveða tímabundna verðstöðvun, hámarksverð og hámarksálagningu eða aðrar reglur um verðlagningu og viðskiptakjör ef neyðarástand skapast af óvæntum eða utanaðkomandi aðstæðum, svo sem vegna nátturuhamfara, styrjaldarástands eða vegna óvenjulegra verðsveiflna á innlendum og erlendum mörkuðum.
     Setning sérstakra laga, ef áðurgreindar hættur steðja að, getur verið of seinvirk þar eð þurft getur að grípa til aðgerða með mjög skjótum hætti. Er því nauðsynlegt að þetta heimildarákvæði sé í lögum.
     Á það er lögð áhersla að einungis verði unnt að grípa til ákvæða skv. 41. gr. til að koma í veg fyrir óeðlilegar breytingar á verðlagi vegna mikils ójafnvægis við skyndilegar breytingar í efnahagsmálum umheimsins eða skyndibreytingar á stöðu innlends þjóðarbúskapar.
     Hér skal vísað til þess sem oft hefur áður komið fram í umræðu um verðlagsákvæði að ávinningur af þeim minnkar eftir því sem þau eru látin gilda lengur. Hins vegar eykst skaðsemin af verðlagsákvæðum á virka samkeppni eftir því sem þau eru látin gilda lengur. Þess vegna er ekki gert ráð fyrir að aðgerðir ríkisstjórnar skv. 41. gr. geti staðið lengur en í þrjá mánuði án þess að Alþingi samþykki þingsályktun þar að lútandi.

Um 42. gr.


    Við athugun einstakra mála getur Samkeppnisstofnun krafið þá sem lögin taka til um allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar þykja.
     Í 6. gr. gildandi laga er ákvæði svipaðs efnis. Þetta ákvæði í 1. mgr. 42. gr. frumvarpsins er nauðsynlegt við upplýsingaöflun fyrir Samkeppnisstofnun þegar hún er að rannsaka mál sem grunur leikur á að tengist óréttmætum eða ólögmætum samkeppnishömlum. Upplýsingar er unnt að veita munnlega eða skriflega og skal veita innan hæfilegs frests sem Samkeppnisstofnun setur.
     Á sama hátt og í 1. mgr. 42. gr. getur Samkeppnisstofnun skv. 2. mgr. krafist þess að fá gögn afhent til athugunar. Það kann að reynast nauðsynlegt að yfirvöld fái í hendur frumgögn eða ljósrit af þeim. Getur verið um að ræða tölvugögn, bréfaskriftir og annað.
     Í 3. mgr. segir að Samkeppnisstofnun geti í starfi sínu krafist upplýsinga og gagna frá öðrum stjórnvöldum, þar á meðal frá skattyfirvöldum og tollyfirvöldum, óháð þagnarskyldu þeirra. Ákvæði sama efnis er í 2. mgr. 6. gr. gildandi laga. Samkvæmt þessu ákvæði á þagnarskylda annarra stjórnvalda ekki að hindra Samkeppnisstofnun í athugunum sínum og á hún m.a. rétt á að skoða og athuga skjöl og önnur gögn sem eru í vörslu viðkomandi stjórnvalda. Þetta á Samkeppnisstofnun rétt á að gera hvort sem það þjónar hagsmunum eða starfsmarkmiðum þeirra stjórnvalda sem hafa skjölin eða gögnin í vörslu sinni eða ekki.
     Samkvæmt 4. mgr. 42. gr. getur Samkeppnisstofnun skyldað þá aðila sem um getur í 1. mgr. til að upplýsa stofnunina reglulega um atriði sem máli skipta við framkvæmd laganna. Getur stofnunin gefið slík fyrirmæli með opinberri tilkynningu. Þetta ákvæði nýtist samkeppnisyfirvöldum við almennt eftirlit með samkeppnisháttum, annaðhvort einstakra markaðsráðandi fyrirtækja eða í greinum þar sem sérstök ástæða er til eftirlits. Þetta er gert án þess að um ástæður til gruns um óréttmætar eða ólögmætar samkeppnishömlur sé að ræða. Upplýsingaskyldan getur náð til einstaks fyrirtækis eða hóps af fyrirtækjum og er nauðsynleg til að upplýsa samkeppnisyfirvöld, almennt eða um einstök atriði.

Um 43. gr.


    Þessi grein er nýjung í samkeppnislögum. Er litið svo á að við rannsókn máls og þegar ríkar ástæður eru til að ætla að brotið hafi verið gegn lögum þessum eða ákvörðunum, sem teknar hafa verið samkvæmt þeim, sé nauðsynlegt að Samkeppnisstofnun geti komið óvænt á starfsstað fyrirtækis og lagt hald á gögn. Gögn, sem sýna samráð, samvinnu og athafnir sem eru brot á bannákvæðum laganna, geta verið í formi bréfaskrifta, minnispunkta eða með öðrum óformlegum hætti. Til að koma í veg fyrir að slíkum gögnum sé skotið undan eða þau eyðilögð er nauðsynlegt að geta komið í skyndiheimsókn á starfsstað fyrirtækis til að leggja hald á gögnin til rannsóknar.

Um XI. kafla.


     Samkeppnisreglur, sem gilda eiga í viðskiptum yfir landamæri milli EES-ríkjanna, eru að talsverðum hluta þess eðlis að þær snúa beint að lögaðilum, þ.e. þeim er ætlað að hafa bein réttaráhrif. Til þess að Íslendingar fullnægi skuldbindingum sínum samkvæmt samningnum þarf því að lögfesta reglurnar hér á landi. Í frumvarpi til laga um staðfestingu samnings um Evrópska efnahagssvæðið er lagt til að meginmál EES-samningsins skuli hafa lagagildi hér á landi. Að því er varðar samkeppnisreglur fyrirtækja er þar um að ræða ákvæði 53.–60. gr. samningsins. Aðrar samkeppnisreglur EES-samningsins eru í bókunum 21–25 með samningnum og í viðauka XIV við hann. Þá eru reglur er lúta að samkeppni fyrirtækja í samningnum milli EFTA-ríkjanna um eftirlitsstofnun og dómstól (ESE-samningnum), sbr. bókun 4 við þann samning.
     Samkeppnisreglur EES og samkeppnisreglur frumvarpsins eru í meginatriðum byggðar á sama grunni. Gert er ráð fyrir að Samkeppnisstofnun muni, jafnframt því sem hún framfylgi samkeppnisreglum í innanlandsviðskiptum, aðstoða við framkvæmd samkeppnisreglna EES. Því þykir hagkvæmt að fella inn í samkeppnislagafrumvarpið þær EES- og ESE-reglur sem nauðsynlegt er að lögfesta hér á landi í tengslum við EES-samninginn.
     Nátengt samkeppnissviðinu eru reglur EES um ríkisaðstoð og því er hér lagt til að þau ákvæði samningsins, sem þann þátt snerta og þarf að lögfesta sérstaklega, verði felld inn í samkeppnislagafrumvarpið.
     Hluta af samkeppnisreglum EES, ESE-reglna og reglnanna um ríkisaðstoð má setja með stjórnvaldsfyrirmælum og er því lagt til að ráðherra hafi sérstaka heimild til að setja slík fyrirmæli með reglugerð eftir því sem nauðsynlegt reynist.

Um 44. og 45. gr.


    Lögfesting þeirra atriða, sem greinarnar fjalla um, er forsenda þess að fram geti farið hér á landi nauðsynleg upplýsingaöflun og rannsóknir á ætluðum brotum á samkeppnisreglum EES-samningsins með þeim hætti sem EES-samningurinn gerir ráð fyrir. Framkvæmd þessara ákvæða mun í meginatriðum byggja á þeim reglum sem gerð er grein fyrir í bókun 4 við samninginn milli EFTA-ríkjanna um eftirlitsstofnun og dómstól EFTA. Þær reglur verða efnislega settar fram í reglugerð er sett yrði með heimild í 51. gr.

Um 46. gr.


    Ákvæðið tekur til þagnarskyldu sem hvílir á opinberum aðilum samkvæmt beinum ákvæðum laga eða samkvæmt almennum stjórnarfarsreglum. Ákvæðið nær einungis til upplýsinga sem nauðsynlegar eru við framkvæmd samkeppnisreglna EES-svæðisins og þær má aðeins nota við umfjöllun eftirlitsstofnana um samkeppnismál. Stofnanirnar, sem við upplýsingum taka, eru að sínu leyti bundnar þagnarskyldu um þær upplýsingar sem aflað er með þessum hætti.

Um 47. gr.


    Samkvæmt EES-samningnum verður unnt að leggja á fyrirtæki sektir fyrir brot á þeim samkeppnisreglum sem þar greinir. Enn fremur má leggja á dagsektir eða févíti fyrir að sinna ekki ákveðinni skyldu sem á aðila er lögð, þar á meðal um upplýsingagjöf. Til þess að dómum og ákvörðunum þessa efnis verði fullnægt og hafi gildi hér á landi verður að lögfesta ákvæðið með þeim hætti sem hér er lagt til.
     Fari fyrirtæki hins vegar ekki eftir dómi eða ákvörðun um greiðslu sektar eða févítis verður dóminum eða ákvörðuninni fullnægt með aðför, sbr. lög um aðför, nr. 90/1989, og 110. gr. EES-samningsins. Sektir, sem framkvæmdaaðilum samkeppnisreglna EES-samningsins er heimilt að leggja á, eru ekki taldar refsingar í hefðbundnum skilningi heldur er um að ræða stjórnarfarsúrræði eða svokallaðar stjórnvaldssektir.

Um 48. gr.


    Í bókun 25 við EES-samninginn eru settar fram meginreglur sem gilda eiga um samkeppni í kola- og stáliðnaði. Reglurnar eru ekki í meginmáli EES-samningsins og því ekki lögfestar með honum. Hins vegar þykir rétt að lögfesta þær í þessum lögum þrátt fyrir að þær muni væntanlega ekki hafa mikil áhrif hér á landi.

Um 49. gr.


    Reglur um ríkisaðstoð í 61.–64. gr. EES-samningsins eru náskyldar samkeppnisreglum en án þeirra væri unnt að raska samkeppnisaðstöðu fyrirtækja á hinum sameiginlega markaði á margvíslegan hátt með því að veita einstökum fyrirtækjum fjárhagsstuðning frá hinu opinbera. Slíkur stuðningur er þó heimill í sérstökum tilvikum. Tekið skal fram að skilgreining á ríkisaðstoð er víðtæk og geta t.d. skattahlunnindi í tilteknum atvinnugreinum talist til fjárstuðnings hins opinbera. Tilkynning til eftirlitsstofnunar EFTA jafngildir kæru og þykir því rétt að taka fram að ekki sé unnt að úrskurða um lögmæti tiltekinna opinberra styrktaraðgerða fyrr en eftirlitsstofnun hefur kynnt álit sitt.
     Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga er með ýmsum hætti í ríkjum hins fyrirhugaða Evrópska efnahagssvæðis. Til þess að ríkin standi jafnfætis gagnvart reglum EES-samningsins um ríkisaðstoð er því nauðsynlegt að taka fram að aðgerðir sveitarfélags geti einnig fallið undir ákvæði 61. gr. Um þetta yrði nánar fjallað í reglugerð sem sett yrði með heimild í 51. gr. og sett yrði í samræmi við sameiginlegar skilgreiningar EES-ríkjanna.

Um 50. gr.


    Því er lagt til að þær reglur, sem lýst er í greininni, séu lögfestar um sambærilegan fjárstuðning sveitarfélaga til einstakra aðila og 61. gr. nær til.
     Í 2. mgr. er lagt til að lögfest verði að afturköllun ákvörðunar um ríkisaðstoð, þar með talin aðstoð sveitarfélags, þar sem talið sé að hún brjóti í bága við ákvæði samnings um Evrópska efnahagssvæðið, baki ekki ríkissjóði eða sveitarfélagi skaðabótaskyldu gagnvart þeim sem ákvörðun beindist að eða telja sig að öðru leyti bíða tjón af afturkölluninni. Ef skaðabótaskylda væri fyrir hendi væri afturköllunin í raun marklaus.

Um 51. gr.


    Hér er lagt til að ráðherra verði veitt heimild, að fenginni umsögn samkeppnisráðs, að setja með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd samkeppnisreglna í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Með fullgildingu samningsins fær meginmál hans lagagildi en 53.–60. gr. hans fjalla um samkeppnisreglur. Til viðbótar því og þeim atriðum, sem felast í frumvarpi þessu, er nauðsynlegt að lögfesta reglugerðarheimild til handa ráðherra um nánari framkvæmd samkeppnisreglna. Þar er fyrst og fremst um að ræða reglur um undanþágur frá bannákvæðum 53. gr. samningsins og um nánari framkvæmd eftirlits með samruna fyrirtækja og um samkeppni á sviði flutninga. Reglurnar eru nefndar í XIV. viðauka samningsins. Þá er eins og áður er nefnt nauðsynlegt að fella ákvæði bókunar 4 með samningnum milli EFTA-ríkjanna um eftirlitsstofnun og EFTA-dómstól í reglugerð, en þar er að finna afmörkun á störfum og valdsviði eftirlitsstofnunar EFTA á sviði samkeppni og verklagsreglur sem fylgja skal.
     Lagt er til að ráðherra fái einnig heimild til þess að útfæra nánar framkvæmd reglna EES-samningsins um ríkisaðstoð í reglugerð og yrði reglugerðin byggð á samræmdri túlkun reglnanna í EFTA-ríkjunum, t.d. varðandi mörkin milli aðstoðar ríkis og sveitarfélaga, undanþágur vegna byggðastuðnings o.s.frv.

Um 52. gr.


    Hér er kveðið á um að samningar, sem brjóta í bága við bannákvæði laganna, séu ógildir. Er hér átt við bannákvæðin í IV. og VI. kafla frumvarpsins.

Um 53. gr.


    Hér er mælt fyrir um þagnarskyldu þeirra sem framfylgja eiga lögunum um þau atriði sem leynt eiga að fara. Jafnframt mega þeir sem af hálfu stjórnvalda eiga að taka þátt í úrlausn mála, sem lögin taka til, ekki eiga persónulegra hagsmuna að gæta. Viðkomandi stjórnvald sker úr um hvort um slíka hagsmuni er að ræða.

Um 54. gr.


    Hér er kveðið á um að samkeppnisráð geti bannað athafnir sem brjóta í bága við 20., 21. og 22. gr. laganna, en þær eru í VI. kafla frumvarpsins um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum. Í 20. gr. er bannað að hafast nokkuð það að sem brýtur í bága við góða viðskiptahætti. Í 21. gr. segir að óheimilt sé að veita rangar, ófullnægjandi eða villandi upplýsingar í auglýsingum eða með öðrum hætti eða beita öðrum slíkum viðskiptaaðferðum sem sama marki eru brenndar enda séu upplýsingar þessar og viðskiptaaðferðir fallnar til að hafa áhrif á eftirspurn eða framboð vara, fasteigna, þjónustu eða annars þess sem haft er á boðstólum í atvinnustarfsemi sem frumvarpið tekur til. Auglýsingar og aðrar viðskiptaaðferðir skulu ekki vera ósanngjarnar gagnvart keppinautum eða neytendum vegna forms þeirra eða sökum þess að skírskotað er til óviðkomandi mála. Í 22. gr. er fjallað um auglýsingar og vernd barna gagnvart auglýsingum. Ef banni er ekki hlítt getur samkeppnisráð lagt á dagsektir.
     Áður en bann er lagt á skal Samkeppnisstofnun reyna að ná sáttum.

Um 55. gr.


    Grein þessi fjallar um úrræði samkeppnisráðs gagnvart fyrirtækjum eða samtökum fyrirtækja sem brjóta gegn bannákvæðum laganna eða brotum gegn ákvörðunum sem byggðar eru á þeim. Getur ráðið beitt stjórnvaldssektum nema brot sé óverulegt eða ef ekki er talin þörf á slíku. Með stjórnvaldssekt er átt við fésekt sem ákvörðuð er af samkeppnisráði og rennur hún í ríkissjóð.
     Við ákvörðun stjórnvaldssektar skal taka mið af þeim skaða sem samkeppnishömlur hafa valdið og þeim ávinningi sem þær hafa haft í för með sér. Þó má sekt ekki nema hærri upphæð en nemur 10% af veltu sl. almanaksárs hjá hverju einstöku brotlegu fyrirtæki eða samtökum fyrirtækja.
     Ákvörðun samkeppnisráðs má skjóta til áfrýjunarnefndar, sbr. 9. gr.
     Hér er um nýmæli að ræða í íslenskri löggjöf, en ákvæðið er sniðið eftir þeirri löggjöf sem væntanlega mun gilda innan EES og gildir nú í ríkjum EB.

Um 56. gr.


    Hér er kveðið á um dagsektir sem samkeppnisráð getur ákveðið ef ekki er farið að ákvörðun samkvæmt frumvarpinu. Með dagsektum er átt við févíti sem er sekt til að knýja fram efndir. Greiða skal tiltekna fjárhæð fyrir hvern dag sem líður án þess að tiltekinni skuldbindingu sé fullnægt. Dagsektir eru ekki refsing heldur óbein þvingunaraðferð.
     Ákvörðun um dagsektir ber að tilkynna á sannanlegan hátt, t.d. með ábyrgðarbréfi eða staðfestu símskeyti.

Um 57. gr.


    Hér er kveðið á um fjórtán daga frest til áfrýjunar ákvörðunar um dagsektir til áfrýjunarnefndar. Dagsektir reiknast ekki fyrr en að áfrýjunarfresti liðnum. Ef áfrýjað er til áfrýjunarnefndar reiknast dagsektir ekki fyrr en niðurstaða nefndarinnar liggur fyrir.

Um 58. gr.


    Hér er kveðið á um að úrskurður áfrýjunarnefndar verði að liggja fyrir áður en unnt er að höfða mál vegna ákvörðunar samkeppnisráðs eða Samkeppnisstofnunar.

Um 59. gr.


    Hér er fjallað um að unnt er að höfða mál fyrir dómstólum til ógildingar á úrskurði áfrýjunarnefndar. Um meðferð dómstóla á ákvörðunum áfrýjunarnefndar er það að segja að þeir geta að sjálfsögðu úrskurðað um öll atriði er lúta að lögmæti ákvarðana. Að því er varðar réttmæti ákvarðana áfrýjunarnefndar eða meðferð lögleyfðs valds verða dómstólar að skera úr um hversu langt þeir telja úrskurðarvald sitt ná í þeim efnum en það kann að reynast mismunandi eftir tegund og eðli ákvörðunar.

Um 60. gr.


    Hér er mælt fyrir um viðurlög við brotum gegn ákvæðum frumvarpsins og reglum og fyrirmælum settum samkvæmt þeim. Refsiákvæðum þessum svipar til gildandi ákvæða um þessi efni í lögum nr. 56/1978, um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti.
     Samkvæmt greininni er það aðalreglan að mælt er fyrir um að brot varði fjársektum. Við miklar sakir eða ítrekað brot er þó heimilt að beita refsivist, þ.e. fangelsi eða varðhaldi. Þar sem brot gegn ákvæðum frumvarps þessa munu oftast vera þess eðlis að brotamaður hefur aflað sér fjár með brotinu er hér vísað til 49. gr. almennra hegningarlaga sem mælir fyrir um að í slíkum tilvikum megi, þegar sérstaklega stendur á, dæma fjársekt jafnframt refsivist sem við brotinu kann að liggja.
     Við framkvæmd ákvæða frumvarpsins reynir mjög á skýrslugjöf til þeirra aðila sem framkvæmdina munu hafa með höndum, sbr. t.d. 42. gr. Röng skýrslugjöf er refsiverð skv. XV. kafla almennra hegningarlaga er fjallar um rangan framburð og rangar sakargiftir.
     Önnur viðurlög samkvæmt greininni geta verið réttindasvipting um tiltekinn tíma eða ævilangt, sbr. 68. gr. almennra hegningarlaga, og upptaka eigna skv. 69. gr. almennra hegningarlaga.
     Sektum má beita hvort heldur er gagnvart einstaklingi eða lögaðila. Ber lögaðili ábyrgð á greiðslu sektar sem starfsmaður hans er dæmdur til þess að greiða.

Um 61. gr.


    Hér er kveðið á um að viðurlög skv. 54., 55. og 56. gr., sbr. 18. gr., og sakarkostnaður sé aðfararhæft. Með aðför er átt við fógetagerð sem framkvæmd er til þess að knýja fram efndir.
     Áfrýjun ákvörðunar Samkeppnisstofnunar eða samkeppnisráðs til áfrýjunarnefndar frestar aðför þar til úrskurður áfrýjunarnefndar liggur fyrir.
     Framkvæmd aðfarar samkvæmt úrskurði Samkeppnisstofnunar, samkeppnisráðs eða áfrýjunarnefndar skal vera skv. 13. kafla aðfararlaga og skal kveðja gerðarþola fyrir héraðsdóm.

Um 62. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Til að taka af öll tvímæli er hér kveðið á um að starfsfólk Verðlagsstofnunar flytjist til Samkeppnisstofnunar ef það kýs að halda áfram störfum. Ákvæði laga um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna varðandi biðlaun, þegar staða eða stofnun er lögð niður, eiga því ekki við.


Fylgiskjal.



Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til samkeppnislaga.


    Með frumvarpinu er sett ný löggjöf um samkeppni á markaði í stað núgildandi laga
um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti. Markmið þess er að efla virka samkeppni á markaði.
     Fjármálaráðuneytið telur að frumvarpið hafi í för með sér óverulegan kostnaðarauka fyrir ríkissjóð. Samkvæmt frumvarpinu fækkar fulltrúum í verðlagsráði, sem framvegis skal heita samkeppnisráð, úr níu í fimm. Á móti kemur skipun sérstakrar þriggja manna áfrýjunarnefndar. Þá munu tvær þriggja manna ráðgjafarnefndir starfa með samkeppnisráði, en greiðsla til nefndarmanna fer eftir fjölda funda og er ekki reiknað með miklum fundahöldum á vegum þeirra. Þá er ekki gert ráð fyrir auknum kostnaði við rekstur Verðlagsstofnunar sem mun framvegis heita Samkeppnisstofnun.
     Sú stefna að leggja aukna áherslu á virkt samkeppniseftirlit í stað beins verðlagseftirlits er líkleg til að breyta starfsemi Verðlagsstofnunar (Samkeppnisstofnunar) verulega á komandi árum. Aukið samkeppniseftirlit krefst sérmenntaðra lögfræðinga og viðskiptafræðinga en á móti mun fækka verulega í hinu fjölmenna starfsliði stofnunarinnar sem sinnir beinu verðlagseftirliti.