Ferill 160. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 160 . mál.


182. Tillaga til þingsályktunar



um tengsl ferðaþjónustu við íslenska sögu og sögustaði.

Flm.: Kristín Ástgeirsdóttir, Kristín Einarsdóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir,


Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, Anna Ólafsdóttir Björnsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd sagnfræðinga, fornleifafræðinga, þjóðháttafræðinga, íslenskufræðinga og fólks úr ferðaþjónustu til að setja fram hugmyndir og tillögur um það hvernig nýta megi sögu þjóðarinnar, sögustaði, þjóðhætti, verkmenningu og bókmenntir til að efla og bæta ferðaþjónustu hér innan lands.

Greinargerð.


    Ferðamannaþjónusta er vaxandi atvinnugrein á Íslandi og er oft á hana bent sem einn helsta vaxtarbrodd atvinnulífsins. Það sem af er þessu ári hafa um 126 þúsund erlendir ferðamenn komið til landsins. Landsmenn sjálfir ferðast auðvitað mikið um landið, jafnt í byggðum sem óbyggðum.
    Undanfarna áratugi hefur náttúra Íslands ráðið ríkjum við kynningu á landinu og áherslan þá einkum verið á óbyggðir landsins. Að dómi flutningsmanna hefur landið og þjóðin margt fleira upp á að bjóða, bæði tengt fortíð og nútíð, en þeir möguleikar eru enn að mestu ónýttir. Þannig mætti skapa nýja ferðamannastaði og jafna strauminn um landið.
    Íslendingar eiga merka sögu. Hér varð til sérstakt samfélag í kjölfar víkingaferða á miðöldum sem fæddi af sér heimsbókmenntir sem ekki eiga sinn líka í veröldinni. Þessar bókmenntir, svo og tungumálið, má nýta í ferðaþjónustu í mun ríkara mæli en gert er, með sumarnámskeiðum, ferðum á söguslóðir o.s.frv. Hér á landi er t.d. ekki til neitt víkingasafn eða safn sem gerir sér verulegan mat úr sögu þjóðarinnar. Flest söfn landsins, þótt merkileg séu, eru afar gamaldags og þarfnast endurskipulagningar og aukinnar kynningarstarfsemi svo að þau geti gefið þá mynd af sögu og verkmenningu þjóðarinnar sem þeim er ætlað.
    Margir helstu sögustaðir þjóðarinnar hafa ekki upp á neitt að bjóða sem tengist sögunni, ekki svo mikið sem reglubundna leiðsögn um staðinn. Má þar t.d. nefna Skálholt og Hóla í Hjaltadal, en þar væri tilvalið að hefja uppgröft bæjarhúsanna og væri það margra ára verk sem eflaust drægi til sín fjölda ferðamanna. Á gömlu biskupsstólunum mætti hafa stöðuga kynningu á biskupasögunum, umræður um trúmál og kirkju o.fl. Staðir, sem koma við sögu í Sturlungu, gefa kost á ferðum og sviðsetningu þeirra miklu atburða, t.d. í leikformi. Í Reykholti ætti að vera stöðug kynning á verkum Snorra Sturlusonar og bókmenntanámskeið í norrænum fornbókmenntum.
    Sjávarútvegur að fornu og nýju, fjörurnar og nýting þeirra, mataræði Íslendinga gegnum aldirnar, gömul verkmenning, heimsókn á sveitabæi, kynning á íslenskum húsdýrum og búskap, minjagripagerð, þjóðsagnaheimur okkar o.fl. Hugmyndirnar eru óþrjótandi og möguleikarnir margir en þeim þarf að safna saman, setja í forgangsröð og gera áætlun um uppbyggingu ferðaþjónustu sem tekur mið af sögu landsins.
    Með þessari tillögu er lagt til að þeir sem gerst þekkja sögu þjóðarinnar, sögustaði, verkmenningu, fornleifar og þjóðhætti verði kallaðir til að setja fram hugmyndir í samráði við fólk úr ferðaþjónustunni. Hugmyndirnar mætti síðan nýta til að auka og bæta þjónustu við ferðamenn.
    Hér er ekki fyrst og fremst um það að ræða að nýta söguna og okkar fornu bókmenntir til að kynna fyrir útlendingum, heldur ekki síður að saga okkar, sögustaðir og menning verði Íslendingum aðgengileg á margvíslegan hátt.